Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hér á dagskrá er frv. til stjórnarskipunarlaga, en eins og fram kom hjá frsm. er það svo nátengt frv. til laga um þingsköp Alþingis sem er til meðferðar í Nd. að það er eðlilegt að það frv. sé einnig rætt nú. Ekki eru lengur tök á að breyta 1. máli en við viljum afgreiða það á þessu þingi þannig að það taki gildi, en hins vegar er mikil vinna eftir við að móta frv. um þingsköp Alþingis. Það flýtir að sjálfsögðu fyrir þeirri vinnu ef Ed. getur, með samstarfi þeirra nefnda sem um þessi mál bæði fjalla, komið þegar sínum athugasemdum og ábendingum á framfæri meðan frv. er til meðferðar í Nd. og þá fengið því þar breytt.
    Hér hefur verið bent á ýmis atriði sem betur mættu fara og ég get tekið undir margar af þeim ábendingum. En ég vil aðeins vegna forsetakjörsins og ákvæðanna um það taka undir það að mér finnst að þau ákvæði þurfi að vera betri. Mér finnst, eins og ákvæðin eru núna, að ekkert tillit sé tekið til þess að flokkur fær aðalforsetann. Ég er sammála síðasta ræðumanni, hv. 9. þm. Reykv., að aðalforsetann verði að kjósa sérstaklega. Það er það virðulegt embætti að ekki er hægt að hafa hann sem efsta mann á lista. En samt sem áður þurfi að taka tillit til þess að þegar flokkur er búinn að fá aðalforsetann, þá er hann náttúrlega búinn að fá til sín langstærsta eða veigamesta þáttinn í stjórn þingsins. Og því finnst mér, og það var til umræðu einhvern tíma við undirbúning málsins í vetur, góð regla danska þingsins þar sem fyrst er kosinn aðalforseti en síðan koma varaforsetarnir frá öðrum flokkum miðað við stærð þeirra eins og talan endist. Þar eru fjórir varaforsetar þannig að þar eru fimm forsetar í allt með aðalforseta. Það er auðvitað fjarstætt að fara að fjölga í þessu embætti bara til þess að koma inn fulltrúum frá fleiri flokkum. Í Danmörku eru flokkarnir að ég held jafnan tíu en það fer sem sagt eftir stærð þeirra hver fær embætti varaforseta. Mér finnst þetta einföld regla og að sá flokkur sem hefur fengið aðalforseta sé búinn að fá svo margfaldan hlut í stjórn þingsins miðað við þann flokk sem fær fjórða varaforseta að hann sé nú allvel settur miðað við margfeldi stærðar sem stærsti flokkur hefur verið miðað við þann fimmta.
    Það hefur þýðingu að við stjórn þingsins séu fulltrúar sem flestra þingmanna. Ég vil einnig taka undir það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði um formennsku í nefndum að þar komi stjórnarandstaðan líka að því ég held að það styrki stöðu Alþingis til þess að vera raunveruleg lagastofnun og löggjafarvald en ekki það sem gjarnan hefur verið bent á og ekki er að neita að hefur stundum borið of mikinn svip af afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn og meiri hluta. En ég vænti þess að þessar breytingar geti haft það í för með sér að hér verði meiri festa í vinnubrögðum og meiri þungi lagður á löggjafarstarf, m.a. vegna þess að nefndirnar sitja allt árið og hafa þá möguleika til þess að leggja meiri vinnu í sín störf. Þetta mundi styrkja það ef stjórn þingsins endurspeglaði nokkuð alla þá

sem á Alþingi sitja, þ.e. fulltrúar allra flokka.
    En svo er annað atriði sem mig langar til að benda á í sambandi við starfsnefndir þingsins. Ég sakna þess að ekki er sérstök nefnd sem fjallar um byggðamál. Við afgreiddum á síðasta þingi breytingar við lög um Byggðastofnun sem kveða á um að forsrh. skuli leggja fram byggðaáætlun fyrir hvert þing sem Alþingi taki til umræðu og afgreiðslu. Ég tel að þarna sé um svo veigamikið málefni að ræða, byggðamálin, að full ástæða sé til þess að hafa sérstaka nefnd sem fjallar um þau málefni, ekki aðeins þessa byggðaáætlun, heldur líka til að fylgjast með afgreiðslu fjölmargra mála sem geta haft áhrif á jafnvægi í okkar landi og því sé það mikilvægt að hafa slíka nefnd sem sé óháð öðrum nefndum í þinginu. Ef ekki fæst sett sérstök byggðanefnd sem mér finnst vera næg rök fyrir, þá sé það a.m.k. alveg merkt hvaða nefnd skuli fjalla um byggðaáætlun og önnur slík verkefni. Að einhverju leyti mótast þetta viðhorf mitt af því að á síðasta ári var ég formaður í nefnd sem forsrh. skipaði um byggðamál. Í henni sátu fulltrúar allra flokka, m.a. margir þingmenn. Þá fann ég það sama og kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv. í sambandi við stjórnarskrárnefndir að það hefði verið önnur staða ef þessi nefnd hefði verið beinlínis á vegum þingsins, verið þingnefnd, og getað fylgt sínum málum eftir með því að hafa bein áhrif á afgreiðslu þingmála. Ég tel því að þetta sé svo mikilvægt mál að það þurfi að sjást í afgreiðslu okkar á þingsköpum.
    Þá minntist, held ég, hæstv. menntmrh. á skrifleg svör við fyrirspurnum. Ég get tekið undir það viðhorf hans að skrifleg svör við fyrirspurnum hafa verið mjög misnotuð þannig að
það hafa verið bornar fram spurningar sem hafa krafist ekki stuttra og afmarkaðra svara heldur mikilla skýrslugerða. Það er að sjálfsögðu misnotkun og ég vil taka algerlega undir að fyrir slíkt þarf að loka. En ég er ekki alveg viss um það að við eigum samt að ganga svo langt að það sé útilokað að fá skriflegt svar ef það er innan skynsamlegra marka, stutt og hnitmiðað. Mér finnst því að þarna væri hægt að koma til móts við bæði sjónarmiðin með því að hafa ákvæði um þetta. En til þess að geta fengið hin löngu svör yrðu menn að bera fram beiðni um skýrslu.
    Þá vil ég að lokum aðeins minnast á eitt atriði sem hér hefur verið rætt en ekki er beinlínis um þingsköpin, þ.e. byggingar Alþingis. Þær eru samt sem áður ákaflega mikilvægar því að auðvitað skiptir starfsaðstaða þingmanna til þess að rækja sín störf miklu máli. Ég býst við að hin breytta nefndaskipan og breyttir vinnuhættir muni kalla á nýjar þarfir en núverandi aðstæður setja kannski þeim æskilegu vinnubrögðum eitthvað þröngan stakk. Því vil ég taka undir það og var áhugamaður um það að reynt yrði að leysa vanda Alþingis með kaupum á Hótel Borg, en það fór nú eins og það fór. Ég held engu að síður að forsætisnefnd hins nýja þings verði að vera með þetta á dagskrá og huga að því að finna þarna lausn sem gæti verið sæmilega ásættanleg fyrir Alþingi, bæði hvað varðar úrlausn þarfar og einnig hvað kostnað snertir. Eitt kemur inn í þetta mál enn og það er að eignarhald Alþingis á sumum þessum húsum kallar á mjög mikinn kostnað á allra næstu árum ef ekki verður eitthvað gert frekar í þessum málum og það algerlega óháð þörfum Alþingis. Það er illt ef við þurfum að verja fjármunum þannig án þess að það gagnist okkur til þess að bæta aðstöðuna.
    Það er að sjálfsögðu margt fleira í þessu frv. til laga um þingsköp sem ástæða væri til að fjalla um og auðvitað hverja grein sem hlýtur að þurfa að skoða vel af þeim nefndum sem um þetta munu fjalla en ég skal láta hér staðar numið.