Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég var ein af þeim sem voru í vafa á sínum tíma um hvort það væri til góðs fyrir Alþingi að breyta því í eina málstofu og ástæðan var kannski fyrst og fremst sú reynsla sem ég hef fengið af því að starfa í þessari litlu fámennu deild sem hver einasti þingmaður, sem fær tækifæri til að koma í þessa deild, lýsir ánægju sinni með. Því við vitum það sem höfum setið í efri deild Alþingis að það er mjög gott að starfa í svo fámennum hópi og hér ríkir góður andi sem ég geri ráð fyrir að nýir þingmenn hafi nú þegar fundið. Hæstv. menntmrh. hefur nú fengið tækifæri eftir 20 ára setu á Alþingi að komast svo hátt að enda hér í efri deild síðustu daga hennar tilveru.
    Þetta rifjaði upp fyrir mér þær umræður sem urðu hér á sl. vori þegar þessi mál voru þá til umræðu, það frv. sem hér liggur fyrir. Þá fór fram mikil og gagnleg umræða og skemmtileg. Meðal annars og kannski sérstaklega má nefna mjög merka ræðu sem fyrrv. þingmaður og fyrrv. forseti Alþingis, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, flutti hér, gagnmerka ræðu um sögulegt yfirlit yfir skiptingu Alþingis og störf þess og þróun og aðrar skemmtilegar umræður sem urðu hér um kjördag og annað slíkt sem aðeins hefur verið drepið á og ég ætla nú ekki að fara að rifja upp. En ég vil taka undir með hv. 9. þm. Reykv. sem kom aðeins inn á það og ég held að hann hafi jafnvel sagt það að við mundum á vissan hátt sakna þessarar skemmtilegu deildar sem við nú höfum tækifæri til að sitja í a.m.k. í nokkra daga.
    Hér er að sjálfsögðu mikilvægt mál á ferðinni eins og komið hefur fram. Það ber að fagna því að málið er komið á dagskrá svo fljótt eftir kosningar og við fáum tækifæri til og berum gæfu til að afgreiða þetta farsællega í gegnum þingið. Þá á ég ekki síst við það sem hér hefur verið aðallega umræðuefnið, þ.e. frv. um þingsköp Alþingis, sem er auðvitað meginmálið að vel takist til með. Því eins og hér hefur komið réttilega fram þá eru þar mikilvæg atriði sem þurfa að fá góða afgreiðslu. Það var minnst á, af flestum ef ekki öllum ræðumönnum sem hafa talað á undan mér, rétt stjórnarandstöðunnar, að það þurfi að tryggja hann, gæta vel lýðræðis í þeim efnum. Ég vil taka undir það sem snýr að forsetum þingsins, þ.e. varaforsetum, að ég tel það eðlilegt og raunar sjálfsagt að það sé tryggt með því að þeir komi þar beint að stjórnun þingsins sem eiga aðild að stjórnarandstöðunni.
    Hv. 15. þm. Reykv. minntist á að fjölga hugsanlega varaforsetum, að allir flokkar ættu aðild að forsætisnefndinni. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hafa komið fram um það að það væri nú kannski hæpið ef hér verða margir flokkar á þingi í framtíðinni, sem við getum aldrei séð fyrir um eins og reynsla var á síðasta kjörtímabili, þá gæti það reynst erfitt. En ég vil jafnframt taka undir það að auðvitað þarf að tryggja þarna rétt stjórnarandstöðunnar. Auðvitað verður þetta með allt öðrum hætti. Forsætisnefndin, sem varaforsetarnir koma til með að skipa

ásamt forseta þingsins, því að þeir koma á annan hátt að stjórn þingsins því að varaforsetar, eins og þeir hafa starfað áður, hafa yfirleitt afar lítið að segja um stjórnun þingsins annað en að hlaupa í skarðið fyrir forseta í forsetastóli á þingfundum.
Þetta verður auðvitað með allt öðrum hætti núna og ég held að það verði af hinu góða að þannig komi stjórnarandstaðan líka beint að stjórnun þingsins.
    Ég vil taka undir þá athugasemd sem kom hér fram varðandi Ríkisendurskoðun. Mér finnst það mjög athugandi að það sé sérstök stjórn yfir Ríkisendurskoðun. Þetta hlýtur nefndin að skoða sérstaklega. Það var minnst hér á nokkrar greinar og ég get tekið undir ýmsar ábendingar sem þar hafa komið fram og þarf að skoða sérstaklega. Það var nú smávægilegt í 25. gr. varðandi það að fjárlaganefnd skuli að jafnaði vísa til fastanefndar. Mér finnst þetta í raun og veru vera atriði sem sé sjálfsagt að sé gert, það megi sleppa þessum orðum ,,að jafnaði``. En að öðru leyti tel ég það vera framför að breyta nafni fjvn. og starfsháttum hennar með því móti sem gert er ráð fyrir í 25. gr.
    Það sem hv. 9. þm. Reykv. minntist á í 36. gr. varðandi það að frumvarp væri ekki tekið til umræðu fyrr en liðnar væru a.m.k. tvær nætur frá því að því hefur verið útbýtt held ég að sé líka mjög mikilvægt atriði. Við höfum reynsluna af því, kannski sérstaklega vegna þess að frumvörp hafa þurft að fá þessa meðferð í báðum deildum, að oft átti að taka hér mikilvæg mál til umræðu --- við höfum dæmi um það frá lokum síðasta þings --- jafnvel einum sólarhring eftir að þeim hafði verið útbýtt þannig að þingmenn höfðu ekki haft nokkurn möguleika á að kynna sér málið. Ég held því að þetta atriði sé af hinu góða.
    Hæstv. menntmrh. nefndi að það yrði athugað hvort ekki væri heppilegra að láta skriflegar fyrirspurnir koma fram í skýrsluformi. Ég geri ráð fyrir að hann sé þá með það í huga að það sé endalaust hægt að biðja um skriflegar fyrirspurnir sem kosti mikla vinnu þannig að svörin geta næstum því orðið heilar bækur í prentun ef viðkomandi ráðherra á að gefa svör við slíkum fyrirspurnum. Það yrði þá að því leyti visst aðhald að fleiri en einn þingmaður þyrftu að biðja um svör við sínum spurningum í skýrsluformi. Mér finnst þetta vera mjög athugandi og eigi að taka til nánari skoðunar.
    Það var hérna smávægilegt og meira kannski til gamans. Það er varðandi 54. gr. að kenna þingmann við kjördæmi hans eða nefna hann fullu nafni. Nú vitum við að þetta hefur náttúrlega verið svo í framkvæmd. Ég er nú það íhaldssöm samt, þó að ég sé búin að skipta um skoðun um að það sé rétt að hætta að hafa þingið deildaskipt, að mér finnst alltaf skemmtilegt og viss virðing að kenna þingmenn við kjördæmi sitt og ég vona að það verði ekki látið falla niður þó að gert sé ráð fyrir öðru í þessari grein. Það er líka þetta sem nýir þingmenn læra nú fljótt að ávarpa ekki þingmenn beint í þingsal. Það er líka mikilvægt atriði finnst mér til þess að halda aðeins í í umræðum og ég tel sjálfsagt að sé við haldið áfram.
    Það að forseti getur leyft þingmönnum að veita

stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar tel ég líka að verði af hinu góða og geri umræðurnar betri og skemmtilegri á allan hátt. En ég sé að tími okkar er nú að verða liðinn og ég ætla því að stytta mál mitt, en ég ætla þó aðeins að koma inn á það sem hv. 1. þm. Austurl. fjallaði hér þó nokkuð um. Ég ætla ekki að fara út í öll atriði sem hann tengdi ýmsum málum eins og borgarstjóranum í Reykjavík og öðru slíku. En hann nefndi húsakostinn og vinnuaðstöðu þingsins, að það þurfi að tryggja sem besta starfsaðstöðu fyrir þingmenn og ég vil svo sannarlega taka undir það. Auðvitað er það mikilvægt atriði og stórt og þýðingarmikið í þessu öllu saman þegar þingið er komið í eina málstofu að húsakostur sé með þeim hætti að öll starfsaðstaða bæði fyrir þingmenn og starfsmenn þingsins verði sem best úr garði gerð. Við vitum það að húsakosturinn hefur verið hér á dagskrá meira og minna undanfarin ár allar götur frá kannski kjörtímabilinu 1983 -- 1987 þegar gengist var fyrir samkeppni um nýbyggingu fyrir Alþingi. Ég var þá forseti þessarar hv. deildar og átti því aðild að því verki. Síðar var fallið frá þeirri byggingu eins og hér hefur réttilega verið minnst á. Hún var kostnaðarsöm og dýr og menn töldu hana ekki henta sínu hlutverki og vel má vera að svo sé. En það er alveg ljóst að húsakostur Alþingis í heild hlýtur að verða á dagskrá á næstu árum. Eins og hv. 3. þm. Reykv. minntist hér á, þá kom það honum á óvart að húsakostur væri ekki verri en raun ber vitni. Það er náttúrlega fyrst og fremst vegna þess að það hefur verið unnið að því á undanförnum árum að bæta húsakostinn eins og mögulegt hefur verið eins og sést í öllum þeim húsum sem hafa verið tekin í notkun nú allra síðustu ár þannig að nú eiga allir þingmenn að búa við allsæmileg skilyrði hvað skrifstofur varðar.
    Ég sé að ég fæ hér nótu frá hæstv. forseta um að stytta mál mitt og ég skal þá gera það. Mér þykir það miður því að ég hefði viljað fjalla aðeins ítarlega um þessi mál. Ég ætla þá að láta máli mínu lokið en vil ítreka það að við erum að fjalla um þýðingarmikil mál og ekki síður kannski frv. sem hefur orðið fyrst og fremst til umræðu hjá þeim sem tekið hafa til máls, þ.e. um þingsköpin, sem er ekki óeðlilegt þar sem það tengist þessu frv. sem hér er á dagskrá.