Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við því, ef samkomulag hefur verið gert af þessu tagi, að greiða fyrir því að málið komist til nefndar en ég hélt nú reyndar að það væri ekki fyrr en í nýju þingsköpunum sem á að fara að takmarka ræðutíma en ekki nú þegar. Það eru nokkur atriði sem ég ætla þá að reyna að nefna og taka þá eins og þriðjung af þessum tíma sem okkur er skammtaður hér, þessum þremur þingmönnum.
    Ég vil segja það í fyrsta lagi að mér líst í heildina tekið vel á þessar breytingar og tel að þær séu tímabærar. Þær færi skipulag Alþingis til nútímalegra horfs og ættu að greiða fyrir þingstörfunum. Nokkur atriði vil ég nefna sem snúa að frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér er formlega á dagskrá þó að bæði frumvörpin séu reyndar undir í umræðunni. Ég tek undir það sem hv. 1. þm. Austurl. og reyndar 9. þm. Reykv. hafa nefnt hér um kjördag og læt nægja að vitna til þess. Það þarf í fyrsta lagi að liggja ljóst fyrir hvernig menn hyggjast þá standa að þeim hlutum á grundvelli þessara ákvæða, hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn vill haga þeim hlutum varðandi næstu kosningar verði þær á reglulegum tíma. Einnig þurfa auðvitað lagaleg atriði þess máls að vera skýr. Það er ómögulegt að vera að ganga hér frá texta til frambúðar skulum við ætla nema hann sé það skýr að ekki leiki vafi á því hvernig með þá hluti skuli að jafnaði farið.
    Varðandi það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um það að hann fengi ekki skilið að menn skyldu láta sér detta það í hug á sl. vetri að unnt væri að kjósa svo seint sem 11. maí án þess að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar leyfi ég mér að benda hv. þm. á það að árið 1987 var kosið tveimur dögum eftir að fjögurra ára kjörtímabil var útrunnið, þ.e. þá teygðu menn í raun á kjörtímabilinu um tvo daga. Lögskýringin byggði m.a. á því að það væri ekki eðlismunur á því í sjálfu sér hvort væri kosið á reglulegum kjördegi á fjögurra ára fresti, hvort það væri fjögur ár og tveir dagar sem stundum liðu þá á milli eða fjögur ár og tíu dagar eða tólf eða fimmtán, væri í sjálfu sér ekki eðlismunur. En ég læt öðrum eftir að æfa sig í lögskýringum að þessu leyti.
    Eitt atriði vil ég nefna jafnframt og það lýtur að því að samkomudagur þings að hausti hefur nú verið færður fram um tíu daga og gert ráð fyrir því skv. 9. gr. frv., sem verður þá 35. gr. stjórnarskrárinnar, að reglulegt Alþingi skuli koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar. Ég vil segja fyrir mitt leyti að úr því að þessari dagsetningu var breytt á annað borð, þá tel ég koma til greina að færa þetta enn framar. Það er alkunna að það skapast iðulega miklar annir við fjárlagagerð og fleira á haustþingi og ég hefði talið fyllilega koma til greina að þarna kæmi t.d. 15. eða 20. dagur septembermánaðar úr því að þessu er breytt á annað borð. Það væri nú fróðlegt að þetta atriði yrði rætt í hv. nefnd sem kosin verður til að fara yfir þetta.

    Um starfsaðstöðu þingsins, sem hér hefur réttilega verið nefnd af nokkrum hv. ræðumönnum og fullkomlega eðlilega að mínu mati, minni ég á það að þegar þingsköpum var breytt 1985 á hv. Alþingi fór einmitt fram mjög yfirgripsmikil umræða um starfsaðstæður þingsins. Þá var húsakostur Alþingis m.a. til umfjöllunar í þeirri umræðu allri og ég leyfi mér að fullyrða að margt af því sem fram kom í umræðunni veturinn 1984 -- 1985 og laut að starfsaðstæðum hér á þinginu hefur síðan haft áhrif. Þá voru ræddir hlutir eins og að þingnefndir fengju starfsmenn og fleira og fleira sem síðan hefur komið til framkvæmda. Það er því vissulega á réttum stað að ræða starfsaðstæður og starfsskilyrði hv. þm. og þingsins þegar lögum um þingsköp er breytt. Ég vil leyfa mér að blanda mér lítillega í þessa umræðu um húsakostinn. Hann er ekki nógu góður. Hv. 3. þm. Reykv. taldi þetta nú bara bærilegan aðbúnað víða að mönnum. Ég spyr hv. þm.: Vildi hann koma hér til þingstarfa sem fatlaður maður og eiga að klöngrast upp á hanabjálkaloft með skrifstofu t.d. á 3. hæð í Vonarstræti 12? Væntanlega yrði nú reynt að haga því öðruvísi ef og þegar þannig ber undir að t.d. fatlaðir menn kæmu hér til löggjafarstarfa. En það gefur auga leið að allur þorri alþingismanna er þannig settur að hvort sem þeir sjálfir væru fatlaðir eða fatlaðir menn ættu við þá erindi, þá yrði slíku ekki við komið við núverandi aðstæður á húsakosti þingsins. Er það sæmandi? Er það nógu gott? Ég svara alveg hiklaust nei.
    Þetta og margt, margt fleira mætti nefna fyrir utan það óhagræði, þann kostnað, sem fylgir því að ekki skuli verða t.d. ein myndarleg skrifstofubygging fyrir hendi. Staðreyndin er sú að Hótel Borg í núverandi mynd eða lítillega endurbætt, ég tala nú ekki um ef byggt hefði verið við það hús, hefði að mörgu leyti leyst þennan vanda prýðilega. Ég er þess vegna ósammála hv. 3. þm. Reykv. að ekki sé ástæða til að ræða um þá staðreynd vegna þess að ég tel að þjóðin eigi að búa þessari virðulegustu og valdamestu stofnun sinni sem best starfskjör og aðrir hlutir verði að mæta afgangi í þeim efnum. Og ég leyfi mér að spyrja: Hvaða viðmót og viðhorf hefur í raun og veru birst Alþingi af hálfu Reykjavíkurborgar nú hin síðari árin þegar í fyrsta lagi á sama tíma og Alþingi er að hugleiða stórbyggingu hér á lóðinni rýkur Reykjavíkurborg til og hefur byggingu á ráðhúsi hér á þessum viðkvæma stað í Kvosinni, treður því hér niður --- reyndar í óþökk fjölda íbúa í borginni en það er önnur saga --- og gerir þar með að mínu mati í raun og veru úti um aðra stórbyggingu á sömu lóð. Og í öðru lagi þegar hugmyndir koma upp um að leysa húsnæðisvanda Alþingis þá með því að hverfa frá nýbyggingu en kaupa í staðinn hús sem er hér á svæðinu, þá rýkur borgin til og stingur undan Alþingi og kaupir húsið. Maður leyfir sér auðvitað að velta því fyrir sér hvort í þessu birtist ekki í raun sú afstaða að Alþingi sé alls ekki velkomið hér í miðborg Reykjavíkur af hálfu borgaryfirvalda og ber þá ekki að draga lærdóm af því?
    Ég held að það hljóti að þurfa að skoða það hvort

þannig aðstæður hafi skapast, m.a. af þessum sökum, að nauðsynlegt sé að hugleiða það að flytja Alþingi og reisa því myndarlega byggingu á nýjum stað þar sem það er þá líka velkomið. Annaðhvort hér innan borgarmarkanna ef sæmileg sátt tekst um það að hafa það áfram hér í þessu sveitarfélagi, Reykjavík. Ef ekki verður viðunandi andrúmsloft ríkjandi gagnvart þinginu af hálfu borgaryfirvalda í þessu sveitarfélagi, þá hljóta að vera önnur nágrannasveitarfélög eða fjær sem eru tilbúin til að taka við þessari stofnun og bjóða hana velkomna. En þetta er ekki í nógu góðu horfi eins og það er og þó svo að æskilegt væri að unnt væri að halda áfram starfsemi hér í þessu virðulega og sögufræga húsi, þá er það ekki endilega forsenda ef ekki er hægt að búa þannig um hlutina í nágrenninu að viðunandi sé.
    Ég vil nefna nokkur þau atriði í viðbót, herra forseti, sem ég teldi æskilegt að hv. nefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, skoðaði en skal að öðru leyti geyma það að lýsa minni afstöðu nánar þangað til við 2. umr. ef þá gefst tími til. Það væri mjög æskilegt að það yrði upplýst hvort ekki verður þá örugglega skammtaður nægur tími til að ræða málin. Það varðar þá breytingu sem ég styð og tel að sé jákvæð mjög og lýtur að verkaskiptum fjárlaganefndar, eins og nú skal heita, og efnahags - og viðskiptanefndar. Ég hefði talið æskilegt að fjvn. yrði t.d. skipuð 11 eða jafnvel 13 fulltrúum. Ég tel rök fyrir því að hún sé fjölmennari en aðrar þingnefndir, m.a. vegna þess að þá ætti að vera auðveldara að tryggja öllum flokkum, sem stundum hafa orðið það margir að nauðsynlegt hefur reynst að fjölga í nefndinni til að koma þeim öllum fyrir, og jafnvel kjördæmum fulltrúa í nefndinni. Slíkt er að sjálfsögðu æskilegt, að í þessari einna mikilvægustu nefnd þingsins ef ekki mikilvægustu sé sem breiðust þátttaka flokka og kjördæma. Ég tel að orðalag í 19. gr., sem lýtur að því að nefndir geti haft fundi sína opna, sé í raun og veru of neikvætt gagnvart þeim möguleika og þeirri breytingu að fundir þingnefnda geti orðið opnir. Ég held að einmitt breytt hlutverk fagnefnda sem fá nú til umfjöllunar samkvæmt þessum þingskapalögum, ef verða, fjárveitingamál sinna málaflokka geti einmitt kallað á það að vinnubrögð nefndarinnar verði opnari, t.d. opnir fundir með hagsmunasamtökum eða fagsamtökum sem hlut eiga að máli eða hagsmuna eiga að gæta í sambandi við fjárveitingar.
    Ég vil minna á að Alþingi er ekki aðeins vettvangur til að setja lög. Það er líka vettvangur stjórnmálaumræðu. Það er líka vettvangur þjóðmálaumræðunnar og þess vegna er ég mjög andvígur öllum tilraunum til þess að takmarka ræðutímann eða þrengja að möguleikum manna til að nýta Alþingi sem þennan vettvang lifandi stjórnmálaumræðu á hverjum tíma eins og það á að vera. Þess vegna eru mér það viss vonbrigði að sjá hvernig þrengt er að möguleikum til meiri háttar utandagskrárumræðu um hin stærstu mál eins og raunar er gert í 50. gr. Þar er að vísu farið vægt í sakirnar en ég hefði gjarnan kosið að sjá áfram þann möguleika að utandagskrárumræður um hin allra

mikilvægustu mál gætu farið fram án tímatakmarkana með öllu og vildi nú óska eftir því að hv. nefnd skoðaði hvort ekki væri hugsanlega hægt að hafa enn einn möguleika til utandagskrárumræðna, sem yrðu þá kannski ekki nema tiltölulega mjög sjaldan og þegar menn yrðu sammála um að mjög mikið væri í húfi, og þá án tímatakmarkana. Það er nú einu sinni þannig að lýðræðið byggir ekki síst á því að tryggja rétt minni hlutans til að hafa skoðun og koma henni á framfæri. Meiri hlutinn sér yfirleitt um sig sjálfur.
    Það eru fjölmörg önnur atriði, herra forseti, sem ég hefði gjarnan viljað nefna, en ég læt duga að enda með þessu sem ég nú hef rakið. Sem sannur þingræðissinni vil ég sérstaklega lesa þetta frv. með þeim augum og því hugarfari að það beri að styrkja þingið sjálft sem stofnun og efla það þingræðisins vegna og gefa því aukið sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu.