Þingsköp Alþingis
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska eftir viðveru hæstv. landbrh. Það fer ekki á milli mála að fáir hafa verið leiknari í að láta reyna á þingsköp í gegnum tíðina og ég óska mjög eindregið eftir hans viðveru nema einhver sérstök ástæða banni það, að hann sé í þeim önnum að ekki sé hægt að fá hann hér á fund og ég vona að forseti geti orðið við því að senda eftir honum.
    Það efnisatriði sem ég ætla fyrst að taka hér fyrir er á bls. 13 í 66. gr. Sú hefð hefur verið hér lengi að allt sem þingmenn segja er prentað og geymt og gildir þá einu hvort þeim sjálfum finnst það sér til sæmdar eða eigi og þessir bunkar hlaðast upp. Hins vegar sýnist mér að ef rafeindabúnaður er upp tekinn þar sem það kemur í ljós hver verður afstaða hvers þingmanns í hverju máli, þá hljóti það að vera aðalatriði málsins fyrir íslenska þjóð að hún eigi rétt á að vita hvernig menn greiddu atkvæði og hún eigi rétt á að vita hvernig menn greiddu atkvæði jafnvel þó að enginn þingmaður hafi sérstaklega haft áhuga á að auglýsa það í hverju tilfelli. Mér þykir eiginlega ekki rökrétt að gera ráð fyrir því að hér standi einhver þingmaður og hrópi stöðugt að hann óski eftir því að þetta verði skráð í samræmi við atkvæðagreiðsluna. Það gæti orðið hvimleitt og sérstaklega ef menn væru kvefaðir, þá væri þetta mjög þreytandi. Ég tel þess vegna sjálfgefið að sú nefnd sem fær þetta til meðferðar íhugi það hvort ekki sé eðlilegt að atkvæðagreiðsla um lagatexta og lagafrumvörp verði skilyrðislaust skráð þó að ekki sé skráð hvernig menn greiða atkvæði t.d. við afbrigði eða einhverja slíka hluti eða þá að vísa máli til næstu umræðu. Það er allt annað mál, en að þegar greidd eru atkvæði um lagatexta, þá verði það skráð. Þessu kem ég nú hér á framfæri og vænti þess að þó að ekki sé búið að kjósa í þá nefnd sem fær þetta til meðferðar, þá muni hún skoða 66. gr. í ljósi þessara hluta.
    En ástæða þess að ég óskaði eftir viðveru hæstv. landbrh. er m.a. sú að nú er mjög þrengt að varðandi þingskapaumræðu og auðvitað er ekki óeðlilegt að þeir sem hafa mesta reynsluna í að glíma við forseta, þegar þeir sýna óbilgirni, fái nú að meta það hvort þeim sýnist að taflstaðan sé sanngjörn með þeim nýju hugmyndum sem hér eru fram settar. En ekki bólar á Blöndal enn og ekki heyrist orð frá forseta um hvort hann sé væntanlegur.
    En hér hafa menn látið ýmis orð falla um það að allt verði þetta til mikilla bóta sem hér er verið að leggja til, að taka upp starf í einni málstofu. Jafnframt hafa þeir hinir sömu ræðumenn vakið athygli á því að það hefur margsinnis komið fyrir að svo hroðvirknislega hefur verið unnið að seinni deild hefur orðið að leiðrétta augljósar vitleysur sem menn hafa sent frá sér. Því miður get ég ekki tekið undir þessa bjartsýni. Mér er ljóst að afköstin verða meiri, það verður meiri hraði á frumvörpum í gegnum þingið, það verður auðveldara að gera vitlaus frumvörp að lögum eftir þetta, en að gæðin batni hef ég litla trú á.

Það byggist á mannlegri hugsun og það mun byggjast m.a. á því hversu grannt menn skoða það sem til umfjöllunar er. En þeim mun oftar sem menn skoða það, þeim mun meiri líkur eru á að þeim yfirsjáist ekki.