Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það voru aðeins örfá atriði sem ég taldi mig þurfa að nefna í framhaldi af því sem sagt var hér á fundi í gær.
    Í fyrsta lagi var spurt hér hvernig lagatexti gæti orðið sem tryggði þá hefð sem hefur verið hér í þinginu um 20 ára skeið varðandi aðild stjórnarandstöðu að stjórn þingsins. Mér sýnist að sá texti sem hér er settur í raun og veru tryggi hefðina, þ.e. það er orðið þá lögfest að stjórnarandstaðan á hlutdeild í forsætisnefndinni, en ef menn eru að tala um það að 1. varaforseti komi frá stjórnarandstöðu, þá eru aðeins tvær leiðir til þess að tryggja það. Það er annaðhvort að setja það í lagatexta eða að menn bindist fastmælum um að semja svo að 1. varaforseti komi frá stjórnarandstöðu. Ég sé satt að segja ekki aðra leið ef við ætlum að hafa listakosningu heldur en það verði að treysta á samkomulag um slíkt. Annað getur ekki tryggt það. Það að þingflokkar tilnefni eftir einhverri lágmarksstærð og ef við gefum okkur þá fjölda þeirra sem í forsætisnefnd skulu sitja þá veitir það auðvitað alls enga tryggingu fyrir minnstu þingflokkana að þeir fái aðild að stjórn þingsins. Samningur getur hins vegar gert það þannig að ég sé ekki annað en sú leið sem þarna hefur verið valin sé sú eðlilegasta og það verði eins og ég segi að treysta á það að samningar verði með mönnum um það hvernig forsætisnefndin verði skipuð.
    Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi þá hugmynd sem komið hefur fram bæði hjá honum og öðrum, og ég hef nefnt hana þar á meðal, að formenn fastanefnda þingsins komi líka úr hópi stjórnarandstæðinga og ég hef ekkert breytt um skoðun að því leyti. Ég tel að það yrði til bóta við stjórn þingsins yfirleitt að það færi eftir styrkleika flokka hvort þeir fengju aðild að formennsku í nefndum eða ekki.
    Ég hef hins vegar skilið það svo án þess að á það hafi reynt í atkvæðagreiðslu að það sé tæpast meiri hluti fyrir slíkri skipan núna, en ég er alveg tilbúinn að láta reyna á það. Eins og ég segi hef ég ekki breytt um skoðun að þessu leyti. Ég held að það mundu verða ábyrgari vinnubrögð í þinginu ef svona væri gert. Þetta þekkjum við hér víða í nágrannaþingum og við eigum að hætta að reikna með því að menn verði með einhvern stráksskap í störfum þingsins ef þeir eru í stjórnarandstöðu og svo vill til að þeir fá formennsku í einhverri þingnefnd. Við þurfum að láta af slíku.
    Það var talað hér lítillega um það sem ég hafði nefnt varðandi 49. gr., að afnumin yrði heimildin til þess að óska skriflegra svara. Aðeins til að fyrirbyggja misskilning þá byggist mín afstaða ekki á því að mér finnist skrifleg svör við fyrirspurnum ekki koma til greina. Það er alls ekki þannig. Mér finnst bara reynslan vera sú að þingið geti varla unað við það að þurfa að sæta duttlungum einstaks þingmanns eða einstakra þingmanna við að svara fyrirspurnum sem svona koma fram, misjafnlega gáfulegum, og ég tel þess vegna miklu heppilegra að binda þetta við

skýrslur þar sem þarf fleiri þingmenn til til þess að fá skriflega skýrslu eða skriflegt svar við fyrirspurn. Ég er ekki að binda mig við það sem nú er í þingsköpum að krafist sé níu þingmanna til þess að fá svar við slíku. Það má vel hugsa sér að það þurfi færri til, fimm eða sjö svo að ég nefni bara einhverja tölu.
    Aðeins eitt til viðbótar sem kom hér frekar fram. Það var varðandi hvenær á að kjósa og var svona í framhaldi af umræðunum sem urðu hér á síðasta þingi og jafnvel var spurt um skoðun ríkisstjórnarinnar. Ég tek það fram að ég svara ekki fyrir ríkisstjórnina vegna þess að þetta hefur ekkert verið rætt þar og ég skil satt að segja ekki hvers vegna er verið að spyrja um skoðun ríkisstjórnarinnar á þessu máli. Hér er það Alþingi sem er að setja sínar reglur og ríkisstjórnin er þar ekkert rétthærri sem hópur manna heldur en hver annar hópur hér í þinginu. Menn tala þar sem þingmenn og ég get lýst minni skoðun. Hún er alveg ljós. Ég tel að það eigi að breyta ákvæðunum í núgildandi kosningalögum sem segja að það eigi að kjósa annan laugardag í maí, það eigi hreinlega að nema þau ákvæði brott. Þau hafa ekkert að gera, þau hafa enga þýðingu. Meðan við höfum þingrofsréttinn og getum stytt kjörtímabilið þegar þinginu svo sýnist, þá er þetta ákvæði, sýnist mér, alveg tilgangslaust og má falla brott.
    15. gr. stjórnarskrárfrv. sem við erum hér að ræða tekur hins vegar af öll tvímæli um það hvenær á að kjósa. Ég skal lesa greinina, með leyfi forseta:
    ,,Reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils.`` --- og kjörtímabilið er fjögur ár. Og síðan kemur í síðari málslið: ,,Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum.``
    Þetta þýðir með öðrum orðum það að kjörtímabilið þarf ekkert endilega að vera alltaf að stytta eins og var verið að gera núna síðast með ákvörðun um kjördag 20. apríl. Ef farið hefði verið eftir þeirri, ja, við skulum segja reglu sem komið var á 1987 þegar kosið var í sömu vikunni en tveimur dögum eftir að fjögurra ára kjörtímabilið rann út, þá hefðum við átt að kjósa 27. En ef við ætlum að fara eftir þessu sem ákveðið var síðast, að kjósa 20., þá væri hætta á því að það væri alltaf verið að stytta kjörtímabilið. Þessi ákvæði í 15. gr. taka af öll tvímæli um það að það er heimilt að kjósa sem sagt í sömu vikunni, á sama vikudag í mánuði talið frá mánaðamótum. Þetta sýnist mér að dugi til þess að koma í veg fyrir hliðstæðar deilur og hafa komið upp hér áður, bæði 1987 og að nokkru leyti nú á síðasta þingi. Svona einfalt sýnist mér þetta vera.
    Og ég segi enn og aftur að ákvæðið í kosningalögum um kjördag annan laugardag í maí er alveg tilgangslaust meðan við höfum heimildina til þess að rjúfa þing. Við getum komið okkur inn á þennan dag öðru hverju en við getum ekki sett neina tryggingu fyrir því að svo verði um alla framtíð. Þetta er meginmálið varðandi þetta atriði og ég held að það sé ekki fleira sem ég tel ástæðu til að nefna hér.