Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þetta svar sem hann hefur gefið okkur að því er varðar kosningar sem næst verða. Það liggur alveg ljóst fyrir að kjörtímabilið er fjögur ár. Honum þótti það undarlegt að við skyldum vera að spyrja hv. ríkisstjórn um þetta mál. Það er nú ekkert undarlegt vegna þess að þingrofsrétturinn er í höndum forsætisráðherra landsins og þar af leiðandi verðum við hv. þm. að ganga út frá því að kjörtímabilið verði fjögur ár nema annað verði ákveðið. Og þá liggur það alveg ljóst fyrir að næstu kosningar verða í apríl. Ég hef ekki nákvæmlega mánaðardaginn, ég gæti trúað að það væri 15. apríl 1995 sem mér sýnist að muni vera þriðji laugardagur í apríl, en 1. apríl mun þá hugsanlega vera laugardagur. Þetta er nú ekki flóknara en það. Það er mikilvægt að gera það upp við sig: Er það hugmynd manna að stefna að því að hér verði almennt vetrarkosningar? Ef á að komast fram hjá því þá verður að rjúfa þing áður. Mér finnst ekki vera hægt að ganga út frá því að það sé almenn regla að þing verði rofið þannig að kjörtímabilið sé styttra. Það hlýtur að vera hin almenna afstaða að hér sé stöðugt stjórnarfar og kjörtímabil séu sem heilust og ég vænti þess að hæstv. núv. ríkisstjórn hafi þá skoðun. Það væri a.m.k. fróðlegt að vita hvort einhver önnur skoðun er þar uppi á borðinu.
    Þetta var það sem við sáum margir fyrir sl. vetur og þess vegna vorum við þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að vilja kosningalaganna sem sett voru fyrir kosningarnar 1987 væri framfylgt, en þá voru sett lög hér í þinginu, og um það full samstaða, að kosningadagur væri annar laugardagur í maí. Þá var enginn ágreiningur um það. Og það var skoðun okkar margra að það væri rétt að kosningar færu fram 11. maí eða annan laugardag í maí á árinu 1991. Á það var ekki fallist af Sjálfstfl. og við vildum skapa samstöðu um þetta mál.
    Hæstv. menntmrh. hélt því fram að þá hefði verið um að ræða frjálslega umgengni við stjórnarskrána. Hæstv. samgrh. og landbrh. hélt því beinlínis fram að hér væri um brot á stjórnarskránni að ræða. Hins vegar studdum við skoðanir okkar við ummæli sem hafa fallið hér á Alþingi, m.a. hjá Ólafi heitnum Jóhannessyni og jafnframt umræðum sem hér urðu 1969 eða 1971 í dómsmálaráðherratíð Auðar Auðuns þannig að það var ekki um neina frjálslega umgengni við stjórnarskrána að ræða ef kosningar hefðu átt sér stað 11. maí.
    En ég skil hæstv. menntmrh. þannig að að öllu óbreyttu þyki honum eðlilegt að kosningar verði næst í aprílmánuði þegar færð er víða slæm og allra veðra er von. Ég er ekki með þessum orðum að segja það að ekki geti komið til þess að hér verði vetrarkosningar. Við verðum í sjálfu sér ávallt að vera tilbúin til þess að ganga til kosninga á hvaða tíma sem er, en það er mikilvægt að það sé uppi einhver almennur vilji um það hvenær reglubundnar kosningar eigi að fara fram. En ég skildi hæstv. menntmrh. þannig að

hann teldi það algjörlega óþarft og þar með er hann að lýsa yfir annarri skoðun en kom fram hér í þeirri samstöðu sem skapaðist í þinginu 1987.
    Hér hefur nokkuð verið talað um húsnæðismál þingsins. Það var ekki mín ætlan að fara að gera það að miklu umræðuefni hér en það verður ekki hjá því komist að ræða þau mál hér á Alþingi og er mikilvægt að það skapist sem best samstaða um þau mál. Það hlýtur að vera almennur vilji okkar sem hér störfum að leysa þau mál með sem minnstum kostnaði og þótt þingmenn hafi orðið varir við það að bærilega sé búið að þingmönnum, sem ég get út af fyrir sig tekið undir, þá er þingið að hluta til með leiguhúsnæði hér í ýmsum húsum í kring og sum húsin eru svo léleg að það er nú vart annað hægt en að gera ráð fyrir því að þau verði rifin. Hins vegar má alveg eins búast við því að einhverjum detti í huga að friða þau og þingið verði skikkað til að halda þeim við. Annað eins hefur nú gerst. Það eru ekki margir möguleikar í þessari stöðu. Það var uppi sá möguleiki að byggja hér stórt og glæsilegt hús sem kostaði mikið fjármagn en ég tel vera úr sögunni, ekki aðeins vegna þess hversu mikið það kostar, heldur líka hversu þröngt er um það. Hins vegar var það vilji hér á Alþingi og metnaður þingsins að ráðast í þá byggingu á sínum tíma og við studdum margir þáverandi forseta þingsins til þeirrar ráðagerðar. Ég gerði það m.a.
en ég hef algjörlega breytt um skoðun í þeim efnum eftir að ég hef séð þessa stórbyggingu hér við endann á Tjörninni, þannig að ég styð ekki lengur slíka ráðagerð. Þá er það fyrst og fremst spurningin hvort hægt er að nýta einhver af þeim húsum sem hér eru í grenndinni, hvort sem það er Hótel Borg eða hús Pósts og síma, eða einhver önnur hús með snyrtilegum tengingum, og í þetta þarf að fást niðurstaða. Það var komin sú niðurstaða hjá forsetum Alþingis á sínum tíma að það væri heppilegt að kaupa Hótel Borg enda var það hús til sölu.
    Ég tel það algjörlega óeðlilegt að um það leyti sem á að fara að ganga frá slíkum kaupum skuli Reykjavíkurborg koma í öllu sínu veldi og kaupa húsið fyrir framan nefið á forsetum Alþingis og segja með því: Við viljum ekki hafa neitt Alþingi inni í þessu húsi, það kemur ekki til mála, við viljum hafa ,,restaurant`` --- veitingahús og við ætlum að sjá til þess með okkar miklu peningum að þarna verði veitingahús.
    Þarna er náttúrlega verið að hafa áhrif á markaðinn og ráðast inn á hann og hafa þar óeðlileg afskipti. Auðvitað er það móðgun við Alþingi Íslendinga að koma fram með þessum hætti að segja því beinlínis: Þið hafið ekkert þangað að gera vegna þess að við viljum hafa þarna ,,restaurant``.
    Ég þakka hins vegar hæstv. menntmrh. fyrir það að lýsa yfir vilja til að taka upp þetta mál á nýjan leik og hann þekkir það betur en margur annar. Ég er ekki að segja að það sé eina lausnin í þessu máli, en það er mikilvægt að fá fram niðurstöðu í því þannig að menn viti að hverju er stefnt. Það þarf að marka stefnu í þessu máli og forsetum þingsins hefur ekki lánast að gera það. Ég er ekki þar með að segja að

það eigi að leysa það allt í einu vetfangi. En ég vænti þess að um þetta geti verið sem best samstaða og það sé hægt að koma á eðlilegu samstarfi og eðlilegum samskiptum við yfirstjórn höfuðborgarinnar um þetta mikla mál.
    Ég vil jafnframt þakka þær undirtektir sem sú hugmynd hefur fengið að það verði athugað hvort ekki sé rétt að kjósa Ríkisendurskoðun sérstaka yfirstjórn. Ég lít svo á að fyrir því sé allmikill vilji og það muni verða tekið til athugunar í þeirri nefnd sem fær þessi mál til umfjöllunar.
    Ég vildi aðeins koma inn á kosningu forsetanna. Ég skil það svo að fyrir því sé fullur vilji og samstaða hér á Alþingi að það sé eðlilegt að bæði stjórn og stjórnarandstaða á hverjum tíma komi að yfirstjórn þingsins. Það er jafnframt samstaða um það að það sé eðlilegt að forseti þingsins komi úr röðum stjórnarliða á hverjum tíma og það sé þeirra að útnefna hann. Um þetta eru engar deilur. En það þarf að finna form fyrir því með hvaða hætti þessi skipting sé eðlileg, alveg án tillits til þess hvernig staða er á Alþingi nú. Það er út af fyrir sig kostur að margir þeir sem nú fylgja ríkisstjórn voru áður í stjórnarandstöðu, þeir sem áður fylgdu ríkisstjórn eru nú í stjórnarandstöðu og því ætti á þessum tímamótum á margan hátt að vera betra að finna skipan sem mætti teljast eðlileg í þessu efni til langrar framtíðar.
    Ég tel það mjög mikilvægt að stjórnarandstaðan á hverjum tíma hafi fulla aðild að stjórn þingsins og það sé gert með þeim hætti að a.m.k. sem flestir þingflokkar geti komið þar að. Ef á að kjósa forsetana hlutfallskosningu og finna rétta skiptingu milli stjórnarliða annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar þá verður ekki hjá því komist að taka tillit til kosningar aðalforseta. Og ef ekki er hægt að finna neina aðra leið í þessu sé ég ekki að annað sé hægt en að aðalforseti sé þá fyrsti maður á þeim lista sem flest fær atkvæði, þótt ég geti tekið undir það að ég vildi gjarnan fremur að aðalforseti þingsins væri kosinn sérstakri kosningu. En ég tel þetta ekki fullnægjandi með þeim hætti sem nú er í frv. og tel nauðsynlegt að það verði rætt frekar og reynt að finna þar farsæla leið því ég lít svo á að um þetta sé í sjálfu sér enginn ágreiningur.
    Hér hefur verið komið inn á það hvort ekki sé rétt að formenn fastanefnda komi að einhverju leyti frá stjórnarandstöðu. Ég tel mjög athugandi að svo sé gert. Ég er alveg viss um að það hvetur til ábyrgari starfa á Alþingi en setur vissulega skyldur á herðar stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Það eru sjálfsagt margir þeirrar skoðunar að það sé mjög eftirsóknarvert. Ég teldi það mjög til bóta að koma einhverri slíkri skipan á þannig að stjórnarandstaðan á hverjum tíma færi með formennsku í einhverjum nefndum, ég er ekki endilega að tala um utanrmn., sem er nú virðulegasta nefnd þingsins, en það kæmi vissulega til greina, sérstaklega um þessar mundir.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að gera hér að umræðuefni mörg atriði. Ég vildi þó aðeins koma hér að 23. gr. vegna þess að hér hefur verið talað almennt

um þingskapalögin, sem ég hafði ekki ætlað mér, en þar segir um 1. umr. að það sé hægt að vísa máli til nefndar á hverju stigi þess og sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað. Ég er alveg sammála þessu en ég tel að það sé nauðsynlegt að kveða á um það hvenær og með hvaða hætti hægt sé að vísa máli til nefndar áður en 1. umr. er lokið. Hver getur farið fram á það? Getur hver einstakur þingmaður farið fram á það? Getur ráðherra gert það eða getur ákveðinn hluti þingsins lagt fram slíka beiðni í mikilvægum málum? Mér finnst þetta ekki alveg nógu ljóst og það gæti skapað deilur.
    Síðan stendur hér, sem ég tel vera mjög til bóta, í 25. gr.: ,,Til efnahags- og viðskiptanefndar vísar fjárlaganefnd þeim köflum frv. til lánsfjárlaga er fjalla um skatta- og efnahagsmál og tekjuhlið fjárlagafrv.`` Ég tel að þetta muni skapa betri vinnubrögð í þinginu en hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það eigi að vísa lánsfjárlagafrv. til þessarar nefndar, þeim köflum sem fjalla um skatta- og efnahagsmál. Ég hefði haldið að a.m.k. allir kaflarnir fjalli að einhverju leyti um efnahagsmál, sem er mjög víðtækt hugtak, og tel eðlilegt að frv. í heild sé vísað til þeirrar nefndar, því í sannleika sagt, og það vita allir sem hér eru, að fjvn. hefur ekki nægilegan tíma og nægjanlegt svigrúm til þess að fjalla með viðeigandi hætti um lánsfjárlög og um tekjuhlið fjárlaganna. Fjvn. hefur ekki gert það með þeim hætti sem hefði átt að gerast hér en ég tel að með þessu sé verið að tryggja að fjallað sé um tekjuhlið fjárlaganna með viðeigandi hætti hér í þinginu, sem hefur ekki verið gert nægilega vel, a.m.k. þann tíma sem ég hef verið hér.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að gera þetta mál að frekara umræðuefni hér, ég vænti þess að við getum átt um það gott samstarf í nefnd og skapað góða samstöðu um það. Það er mjög mikilvægt og væri slæmt að um það væru einhverjar deilur í framtíðinni, því það erum ekki aðeins við sem hér erum sem þurfum að starfa við þessa löggjöf, heldur væntanlega þeir sem hingað eiga leið á Alþingi og munu sitja hér í framtíðinni.