Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Það eru fáein atriði sem mig langaði til að nefna hér í framhaldi af þeim umræðum sem fram hafa farið og finnst æskilegt að koma á framfæri áður en málið fer til nefndar. Ég ætla þá fyrst að víkja að því síðasta sem hv. 2. þm. Reykn. drap á varðandi kaup á Hótel Borg og þau ummæli hv. 1. þm. Austurl. að ráðherrar gætu hjálpað þar til og kannski haft úrslitaáhrif. Þannig vill til að einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem ég veit að ég þarf ekki að nefna fyrir hv. þm., er einn af eigendum Hótels Borgar þannig að það gæti verið gott að eiga þar innhlaup í samningaviðræðum, t.d. ef forsrh. ákvæði að ræða málin við borgarstjórann í Reykjavík, þó sá síðarnefndi sé í fríi eins og kunnugt er út júnímánuð, þá gæti það komið sér vel að þar eru góð og glögg tengsl á milli eins og kunnugt er. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá yfirlýsingu sem fram kom frá honum um það að hann teldi vel koma til athugunar að ræða frekar um kaup á húsinu Hótel Borg.
    En aðeins varðandi þingsköpin er tvennt sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi þetta mál í sambandi við forsetana sem vefst dálítið fyrir okkur. Í rauninni eru þar þrjár leiðir til. Fyrsta leiðin er sú að kjósa alla af lista og við höfum lýst því yfir mörg hér að það sé gallað að ýmsu leyti að fara þá leið, en það er hægt að gera það. Önnur leið er sú að kjósa eftir tilnefningu fjögurra stærstu flokkanna annarra en þeirra sem fengið hafa aðalforseta. Þetta er þannig í danska þinginu að þessir flokkar tilnefna og síðan er tilnefningin borin undir atkvæði þannig að tilnefningin gildir ekki endanlega heldur er hún borin undir atkvæði samkvæmt þeim reglum sem þar eru í gildi og það held ég að hafi gefist alveg sæmilega. Í þriðja lagi er auðvitað sá möguleiki, ef mönnum tekst ekki að koma þessu sæmilega í orð, að það verði gert samkomulag á milli þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi um stefnu í þessu efni, eins og hæstv. menntmrh. drap á. Það samkomulag gæti auðvitað líka gilt um formenn í nefndum. Ég vil því orða þann möguleika áður en þessi mál fara til nefnda og verða þar formlega afgreidd í lagatexta, hvort það er ekki hugsanlegur hlutur að flokkarnir reyni að koma sér saman um samkomulag, almenna prinsippyfirlýsingu um þessi mál sem lúta að samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Þessu vildi ég koma á framfæri, herra forseti, áður en málin fara svo til nefnda, en vil að öðru leyti þakka fyrir þessa umræðu sem mér finnst hafa skýrt þessi mál mjög mikið. Skiptir mjög miklu máli að hafa heyrt þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá hæstv. menntmrh. sem hefur sýnt mikinn skilning á þeim athugasemdum sem birst hafa frá einstökum þingmönnum stjórnarandstöðunnar.