Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Umræða hefur verið nokkuð sérkennileg í gær og í dag. Ég hélt bæði í gær og í dag að hér væri aðeins eitt mál á dagskrá sem er frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég hef haldið það, a.m.k. er á þeirri dagskrá sem ég hef fengið í hendur það eitt mál á dagskrá. Hins vegar hefur mestur tími þeirra sem hér hafa verið í ræðustól farið í það að ræða um annað mál sem er þingsköp Alþingis. Ég verð að segja það að ég næ ekki alveg upp í þessi mál þegar menn eru síðan núna farnir meira að segja að tala um það að vísa þessum málum til nefndar. Ég er með ákveðna tillögu sem ég ætla að flytja við frv. um þingsköp Alþingis. Ég tel mig ekki geta komið henni hér að í þeirri umræðu sem hér á sér stað um mál sem alls ekki er á dagskrá þessarar deildar. Ég held því að hér hafi einhver mistök orðið á. Það á að vera einhver undarlegur hraði hér á afgreiðslu mála, virðulegi forseti.