Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ábending hv. 4. þm. Norðurl. v. er auðvitað hárrétt. Hér flytja menn að sjálfsögðu ekki brtt. við frv. til þingskapalaga. Það er líka rétt sem hann segir að hér hafa menn að hluta til verið að ræða annað mál en formlega er á dagskrá.
    Hins er að geta að í samráðshópi fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu var um það rætt hvort ætti að láta frumvörpin tvö, til þingskapalaga og til breytinga á stjórnarskrá, fara í sömu málstofu samtímis. Niðurstaðan varð sú að þau færu hvort í sína deild en þar sem málin er svo efnislega tengd sem öllum er ljóst og raun ber vitni þá væri það óhjákvæmilegt að menn mundu efnislega ræða bæði málin í senn. Slíkt er ekki ótítt á þingi en rétt er það að heldur mun það vera óvenjulegt. En ég hélt að samkomulag hefði verið um þessa vinnuaðferð og held enn að svo sé. En það breytir ekki því að þær athugasemdir sem hv. 4. þm. Norðurl. v. gerði eru auðvitað efnislega réttar.