Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Suðurl. sem mælti fyrir málinu hér í gær þá óskaði hún beinlínis eftir því að bæði málin yrðu rædd af því að ætlunin er að kjósa sérstakar nefndir samkvæmt þingsköpum til að fjalla um málin. Þess vegna var í raun og veru óhjákvæmilegt fyrir þá þingmenn sem höfðu athugasemdir við þingskapafrv. að gera að koma því á framfæri núna þannig að hægt væri að taka það til meðferðar í hinni sérstöku nefnd. Það er auðvitað leitt til þess að vita ef einstakir þingmenn sitja síðan inni með breytingarhugmyndir sem þeir hafa ekki komið á framfæri við 1. umr. Þá verður náttúrlega að gera ráðstafanir til þess að þeir hafi allan aðgang að þeirri nefnd sem verður kosin til þess að koma sínum athugasemdum á framfæri þó óvenjulegt sé. Ég leit þannig á satt að segja að í rauninni hafi deildin, með óbeinum hætti að vísu, fallist á að málin yrðu tekin fyrir með þessum hætti. Þess vegna kom mér athugasemd hv. þm. Stefáns Guðmundssonar á óvart þótt hún sé í sjálfu sér réttmæt miðað við að hann hafi fengið aðrar upplýsingar í sínum þingflokki. Í mínum þingflokki gaf okkar formaður þær upplýsingar að málin yrðu tekin fyrir með þeim hætti sem ég hef hér rakið.