Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil svara því strax að ég skil mjög vel áhyggjur Verkamannasambandsins og ég skil út af fyrir sig vel líka fyrirspurn hv. 9. þm. Reykv. Hvort tveggja má þó segja að sé dálítið seint fram komið vegna þess að það vandamál sem við stöndum frammi fyrir gagnvart vöxtum er vandamál sem hefur legið fyrir nú um nokkurra vikna og mánaða skeið.
    Þegar ríkisstjórnin tekur við er dæmið þannig að halli á ríkissjóði er ekki 4 milljarðar eins og hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði sagt, ekki 6,4 eins og hann sagði daginn sem hann hætti, ekki 8 milljarðar eins og fjmrn. sagði, heldur nær því að vera 10 -- 11 milljarðar. Þegar ríkisstjórnin tekur við, þá er lánsfjárþörf hins opinbera ekki 24 milljarðar af 36 -- 38 milljarða nýsparnaði, heldur 31 -- 32 milljarðar af 24 milljarða nýsparnaði. Það er þetta ástand sem veldur því að vextir hækka. Þegar ríkisstjórnin tekur við, þá eru útistandandi ríkisvíxlar ekki rúmir 12 milljarðar eins og var á haustdögum í fyrra, ekki 8 milljarðar eins og var um áramótin, heldur 4 milljarðar. Þessar tölur segja okkur það að þeim vanda að vextir höfðu í raun hækkað var ýtt á undan sér af hæstv. fyrrv. ríkisstjórn og í raun faldir með því að ganga inn í Seðlabankann og fá þar prentaða peninga upp á 9 milljarða kr. eða fast að því. Það kemur hins vegar í hlut okkar í núv. ríkisstjórn að færa þessa vexti til bókar. Þess vegna skiljum við mjög vel áhyggjur Verkamannasambandsins og fyrirspurn hv. þm. en hvort tveggja kemur of seint. Þetta voru ástæður sem þessi hæstv. ríkisstjórn sem farin er frá hafði búið til. Við hins vegar komum að vandanum.
    Við erum líka sammála Verkamannasambandinu um það að vextir af þessu tagi, jafnháir og þeir eru, eru ekki æskilegir, þvert á móti mjög óæskilegir. Þess vegna viljum við vinda ofan af þessari miklu fjárþörf ríkisins í sparifé landsmanna til þess að lækka megi vexti á nýjan leik.