Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að beina sjónum að öðrum hliðum kjaramála. Eftir rúmlega þrjá mánuði falla úr gildi hin umdeildu lög sem sett voru á BHMR sl. sumar jafnframt því sem kjarasamningar annarra opinberra starfsmanna verða þá lausir. Þjóðarsáttartímum, skeiði hins breiða samráðs er að ljúka. Það er afar ólíklegt að aftur takist samningar sem byggjast á því að semja fyrir meiri hlutann og lemja síðan aðra hópa launafólks til hlýðni með hótunum, samningsrofi og lagasetningum, hvernig sem aðstæður eru. Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir mótun kjarastefnu og getur ef vilji er fyrir hendi átt frumkvæði að nýjum kjarasamningum sem bæta hag hinna lægstlaunuðu og sætta sáróánægða ríkisstarfsmenn við sinn hlut. Hin stóra spurning er hvort ríkisstjórnin vill fara nýjar leiðir eða hvort hún lætur aðila vinnumarkaðarins segja sér fyrir verkum og halda hluta hagkerfisins í heljargreipum án raunverulegs samningsréttar og frelsis fyrirtækja og launafólks til að semja um kaup og kjör.
    Frá formanni Vinnuveitendasambandsins og fundum Verkamannasambands Íslands heyrast háværar kröfur um áframhaldandi stöðugleika og ákall um að ríkið gegni lykilhlutverki í komandi samningum. Ekki lasta ég stöðugleikann, en á máli þjóðarsáttar þýðir þetta að aðilar vinnumarkaðarins hyggjast semja aftur um ákveðinn kaupmátt. Vinnuveitendur ætla sem fyrr að greiða hluta kostnaðarins en senda svo reikninginn fyrir því sem á vantar til ríkisins.
    Vissulega á ríkið að beita þeim tækjum sem það hefur til tekjujöfnunar en það er fyllilega óeðlilegt að menn samþykki á þennan hátt að íslensk fyrirtæki geti ekki greitt starfsfólki sínu mannsæmandi laun á meðan ársreikningar fjölda fyrirtækja sýna verulegan gróða. Ég dreg ekki í efa að vandi ríkissjóðs er mikill þótt erfitt sé að fá um það áreiðanlegar tölur og síst á hann bætandi að taka á sig launagreiðslur fyrir atvinnurekendur.
    Nú er það spurning mín til hæstv. forsrh. hver stefna ríkisstjórnarinnar verður í komandi kjarasamningum við ríkisstarfsmenn. Verða samningar teknir upp strax eins og hæstv. utanrrh. lagði svo ríka áherslu á í kosningabaráttunni? Hugsar stjórnin sér að eiga frumkvæði að mótun kjarastefnu? Er hún reiðubúin til að leggja út í bráðnauðsynlega uppstokkun á launakerfi ríkisins?
    Við kvennalistakonur erum að sjálfsögðu reiðubúnar að styðja ríkisstjórnina til góðra verka, sérstaklega ef þau verða til þess að leiðrétta það langvarandi og óþolandi launamisrétti sem konur hafa mátt þola og hefur vaxið á þjóðarsáttartímanum.