Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir þær upplýsingar sem fram hafa komið í þeirra máli sem voru nú satt að segja fátæklegar. Það sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. var hins vegar bersýnilega það að hann telur að aðilar vinnumarkaðarins eigi í launanefndunum að fylgjast að, eins og hann orðaði það. Með þessu var hann auðvitað að segja að Vinnuveitendasamband Íslands ætti að ráða því hvort viðskiptakjarabatinn kæmi út til launamanna eða ekki. Það er út af fyrir sig yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. að það skuli vera komið skýrt fram með þessum hætti að ríkisstjórnin vilji ekki að viðskiptakjarabatinn komi til launafólks, en stríðir m.a. gegn yfirlýsingum hv. 17. þm. Reykv., sem er formaður þingflokks Alþfl., sem birtust í sjónvarpinu núna fyrir nokkrum dögum. Það er býsna athyglisvert að fá þær yfirlýsingar fram núna og það er líka bersýnilegt að ekki einasta hefur Vinnuveitendasambandið valdið yfir ríkisstjórninni heldur hefur Sjálfstfl. valdið yfir Alþfl. í þessari ríkisstjórn sem þarf út af fyrir sig kannski engum að koma á óvart þrátt fyrir fimm stóla.
    Hæstv. forsrh. lýsir því yfir að hann hafi miklar áhyggjur af þessum málum. Hann hafi áhyggjur af þessu eins og Verkamannasambandið og tekur undir þau sjónarmið sem fram komu hjá mér. En um leið og hann lýsir því yfir að hann hafi áhyggjur af þessum málum þá tekur hann ákvarðanir sem setja vaxtaskrúfuna af stað. Ekki með breytingum á ríkisvíxlavöxtunum út af fyrir sig heldur fyrst og fremst með þeirri yfirlýsingu hans og hæstv. fjmrh. að vextir af spariskírteinum ríkissjóðs hljóti að hækka. Þar hafa þeir sjálfir talað um í kringum 8% og menn vita að vextir af spariskírteinum ríkissjóðs mynda gólf í vaxtakerfinu í landinu og bankarnir munu þarna koma á eftir með enn þá hærri vexti. Þess vegna er ekki samræmi á milli áhyggja hæstv. forsrh. annars vegar og þess sem hann gerir hins vegar. Það er langt á milli orða og athafna hjá honum í þessum efnum eins og reyndar ýmsum öðrum núna í seinni tíð, hvað sem öllum drengskaparsamkomulögum og oftúlkunum líður og ætla ég ekki að blanda því í þessa umræðu, virðulegi forseti.
    Aðalatriðið er það að allt bendir til þess að hér sé vaxtaspilverkið að fara af stað eins og það gerði 1984 þegar Þorsteinn Pálsson, sem þá fór með fjmrn., ef ég man rétt í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, knúði það fram að vextir voru hækkaðir og gefnir frjálsir. Afleiðingin var: Gjaldþrot heimila og atvinnufyrirtækja og yfirvofandi atvinnuleysi í landinu í stórum stíl. Það er þessi spenna sem verið er að fara hér af stað með. Og það alvarlega er að þetta gerist vísvitandi. Menn vita hvað þeir eru að gera þegar þeir hleypa þessu vélgengislögmáli af stað eins og Ögmundur Jónasson kallar það. Það má kannski bæta því við að ég dreg þá ályktun af svörum ráðherranna að með verkum sínum hafi þeir tekið ákvörðun um það að segja þjóðarsáttarsamningunum upp.