Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í ræðu sinni áðan minnti hæstv. utanrrh. á sjónvarpsþátt sem var á dagskrá í Ríkissjónvarpinu í janúarmánuði sl. Í þeim þætti voru formenn allra flokkanna. Þar fóru fram ítarlegar umræður um Evrópubandalagið, Ísland og Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég minnist þessa þáttar líkt og hæstv. utanrrh. Ég lagði það á mig í gærkvöldi að hlusta á hann á nýjan leik til þess að hafa það í fersku minni hvað sagt var í þeim þætti. Og það var fróðlegt og athyglisvert. Þar kom m.a. fram hjá hæstv. utanrrh. að ekki kæmi til greina að gera samning um Evrópskt efnahagssvæði sem fæli í sér yfirþjóðlegt vald. Það voru satt að segja lokaorð hæstv. utanrrh. í þeim þætti að það yrði ekki gerður samningur af hálfu Íslands ef í honum fælist fullveldisafsal í hendur yfirþjóðlegra stofnana.
    Í þessum þætti greindi ég frá þeirri afstöðu sem við ráðherrar Alþb. höfðum innan síðustu ríkisstjórnar, að afstaðan til Evrópsks efnahagssvæðis færi eftir því hvað í samningunum yrði endanlega. Og í þættinum var á það minnt að Evrópskt efnahagssvæði væri ekki veruleiki eins og Danmörk, Svíþjóð eða Noregur heldur væri Evrópskt efnahagssvæði hugtak, það væri samningaverkefni sem verið væri að vinna að. Það væri á engan hátt fullmótað og hin endanlega afstaða færi eftir því hver yrði niðurstaðan í samningunum. Það hefur verið gallinn við umræðuna hér á landi að ýmsir hafa haft tilhneigingu til þess að ræða um Evrópskt efnahagssvæði eins og því væri nú þegar eða hefði jafnvel í langan tíma verið gefin stærð.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsrh., gerði hér á mjög greinargóðan hátt grein fyrir því hvers konar fyrirvarar og efasemdir voru innan síðustu ríkisstjórnar um margvíslega þætti samninganna. Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara yfir það mál hér heldur vil eingöngu ítreka stuðning minn og samþykki við það sem hv. alþm., fráfarandi forsrh., Steingrímur Hermannsson lýsti hér mjög rækilega og ítarlega í sinni ræðu.
    Það var ýmislegt fleira sem setti svip sinn á vinnu síðustu ríkisstjórnar að þessum samningamálum. Fyrirvarar og efasemdir með skörpum hætti varðandi rétt útlendinga til þess að eignast land og landsins gæði á Íslandi, fyrirvarar um það að við mundum ekki selja í hendur erlendra stofnana eða alþjóðlegra stofnana fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar og annað það sem snertir þá grundvallarafstöðu fráfarandi ríkisstjórnar sem hæstv. utanrrh. lýsti þá, og reyndar lýsti aftur hér í dag eins og ég mun koma að síðar, að ekki væri verið að láta af hendi neinn fullveldisrétt, það hefur verið sú afstaða sem hæstv. utanrrh. hafði innan síðustu ríkisstjórnar og lýsti enn á ný hér í dag.
    Vandi málsins er hins vegar sá að þegar lesin er yfirlýsing utanríkisráðherrafundar Evrópubandalagsins og EFTA - ríkjanna þá stangast sú yfirlýsing að því er virðist, og ég legg áherslu á orðin að því er virðist, á við þá fullyrðingu hæstv. utanrrh. að ekki sé verið að

leggja drög að neinu fullveldisafsali. Sú yfirlýsing hæstv. utanrrh. stangast líka á við yfirlýsingar forsætisráðherra Noregs síðustu daga og yfirlýsingar forustumanna í Sviss, en bæði í Noregi og í Sviss telja menn að í þeim samningsgrundvelli sem nú liggur fyrir sé um að ræða slíkt fullveldisafsal að til þurfi að koma í Noregi aukinn meiri hluti þingmanna til þess að samþykkja slíkt og í Sviss eru miklar efasemdir um það hvort slíkt samrýmist sjálfstæði þjóðarinnar. Vandi okkar er þess vegna sá að vega það og meta á næstu vikum hvor hefur rétt fyrir sér, forsætisráðherra Noregs og forustumenn ríkisstjórnarinnar í Sviss, sem fullyrða að um fullveldisafsal sé að ræða, eða utanrrh. Íslands. Vandi okkar er sá að við þurfum að vega og meta, hafa þeir íslensku stjórnlagaprófessorar sem kenna stjórnskipunarrétt og alþjóðalög við Háskóla Íslands, prófessorarnir Stefán Már og Gunnar G. Schram, sem báðir hafa fullyrt að í þeim samningsdrögum sem nú er verið að ræða sé um að ræða fullveldisafsal og ákvæði sem brjóta gegn íslensku stjórnarskránni, rétt fyrir sér í þeim fullyrðingum eða hefur hæstv. utanrrh. rétt fyrir sér þegar hann segir að svo sé ekki? Er það þannig, hæstv. utanrrh., að það hafi allir rangt fyrir sér í málinu nema hæstv. utanrrh.? Þar er vandi Alþingis að vega það og meta á næstu vikum. Og af því að nú gekk í salinn hæstv. forsrh., sem kvað upp þann úrskurð í síðustu viku að utanrrh. hefði oftúlkað eða með öðrum orðum rangtúlkað það samkomulag sem þeir höfðu gert, þá stöndum við á Alþingi frammi fyrir þeim vanda að vega það og meta: Eiga orð hæstv. forsrh. einnig við í þessum efnum, að hæstv. utanrrh. sé að oftúlka eða rangtúlka það sem í samningunum felst?
Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu hér og nú vegna þess að hún er satt að segja svo alvarleg að það er ekki hægt að svara henni nema að undangenginni mjög ítarlegri athugun á þessu stærsta máli sem Alþingi Íslendinga kemur til með að fást við á næstu mánuðum. Og vegna þess misræmis sem þegar er komið í ljós í yfirlýsingum forsætisráðherra Noregs og forustumanna í Sviss annars vegar og utanrrh. Íslands hins vegar og vegna þess misræmis sem komið er í ljós milli skoðana fremstu íslenskra sérfræðinga á þessu sviði og túlkunar hæstv. utanrrh. hins vegar vil ég setja fram þá formlegu ósk hér strax í upphafi minnar ræðu að utanrmn., sem kjörin var hér í dag, hefji þegar í næstu viku ítarlega vinnu að þessu máli þar sem hún kalli formlega á vettvang utanrmn. þá innlenda sérfræðinga, prófessora í alþjóðarétti og stjórnskipunarrétti, sem fullfærir eru til þess að dæma um fullveldisafsal og sjálfstæði og stöðu íslensku þjóðarinnar. Ég tel einnig koma til greina að hæstv. utanrmn. kalli til sín erlenda sérfræðinga frá EFTA - ríkjunum og Evrópubandalagsríkjunum til þess að ræða þetta mál ítarlega því að að því er stefnt að ljúka samningunum í næsta mánuði. Þess vegna getur utanrmn. ekki beðið margar vikur eða mánuði eftir því að taka málið til ítarlegrar og formlegrar umfjöllunar. Ég vænti þess að nýkjörinn formaður utanrmn. verði við þessari formlegu ósk að nefndin hefji

þegar í næstu viku formlega og ítarlega umfjöllun og könnun á þeirri yfirlýsingu sem utanríkisráðherrarnir staðfestu sl. mánudag og þeim drögum að samkomulagi sem liggja nú fyrir.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. forsrh. hvort skilja beri þá samþykkt, sem ríkisstjórn Íslands gerði 5. maí og hæstv. utanrrh. kynnti hér í upphafi sinnar ræðu, á þann veg að þar með hafi innan ríkisstjórnar Íslands verið fallið frá öllum þeim fyrirvörum og efasemdum og viðvörunum um annað en það sem snertir fiskinn og fjallað var ítarlega um innan síðustu ríkisstjórnar og hv. alþm. Steingrímur Hermannsson, fráfarandi forsrh., rakti að hluta til mjög ítarlega hér í sinni ræðu. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ekki vikið að neinu öðru en fiski, eins og það sé það eina sem Ísland þurfi að athuga í þessu máli. En þessir samningar um Evrópskt efnahagssvæði snúast ekki bara um fisk, þeir snúast líka um fullveldi. Og af því að hv. alþm. Björn Bjarnason minntist þess í Morgunblaðinu á sínum fyrsta degi hér á Alþingi að sér hefði orðið hugsað í salnum til föður síns og afa sem sátu hér einnig í salnum, þá vil ég minna á það að baráttan fyrir íslensku fullveldi og íslensku sjálfstæði var meginhlutverk afa hv. þm., sem reyndar einnig er afi hæstv. landbrh., og ég vona að þessir tveir ágætu þingmenn, annar landbrh. og hinn nýkjörinn þingmaður Sjálfstfl. og nýkjörinn í utanrmn., hugleiði þá arfleifð rækilega í meðferð þingsins um þessi mál á næstu vikum. Því til lítils hefðu afkomendur Benedikts Sveinssonar komið í þennan þingsal ef það ætti að verða fyrsta verk hæstv. landbrh. sem ráðherra og fyrsta verk hv. þm. Björns Bjarnasonar sem þingmanns að láta af hendi til Brussel hluta af því fullveldi sem Benedikt Sveinsson og aðrar kynslóðir íslenskra forustumanna gerðu að meginverkefni lífs síns að ná í hendur þessarar þjóðar.
    Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. forsrh. svari því alveg skýrt hér í þessum umræðum hvort skilja beri samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 5. maí á þann veg að horfið hafi verið frá öllum þeim fyrirvörum og athugasemdum og viðvörunum sem giltu innan síðustu ríkisstjórnar vegna þess m.a. að hæstv. utanrrh. sagði í viðtölum við fjölmiðla eftir þennan fund ríkisstjórnarinnar að það væri megináfangi þessarar samþykktar að þá væru ekki lengur í gildi þeir fyrirvarar sem hefðu verið innan síðustu ríkisstjórnar.
    Virðulegi forseti. Í samþykkt og yfirlýsingu utanríkisráðherrafundar Evrópubandalagsins og EFTA kemur alveg skýrt fram að ætlunin er að lög Evrópsks efnahagssvæðis verði æðri íslenskum lögum. Það kemur í öðru lagi skýrt fram að dómstóllinn sem á að taka til starfa á að hafa víðtækara vald gagnvart dómstólum EFTA - ríkjanna, þar með Hæstarétti á Íslandi, yfirvald, sterkari stöðu en Hæstiréttur Íslands, heldur en rætt hefur verið um í aðdraganda málsins fram til þessa. Í þriðja lagi kemur fram að hin nýja EFTA - stofnun eigi að hafa samsvarandi vald og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.
    Það kemur fram í fjórða lagi, eins og hæstv. utanrrh. lýsti hér áðan, að erlendir menn eiga að hafa

sama rétt til kaupa á landi og jörðum og gæðum hér á Íslandi og íslenskir ríkisborgarar og mun ég koma nánar að því síðar. Í fimmta lagi kemur fram að ætlunin er að hafa mun rýmri skipan á innflutningi á landbúnaðarvörum en rætt hafði verið um fram til þessa.
    Það kemur í sjötta lagi fram að félagsréttindi og félagsmál og umhverfismál eiga að taka mið af skipan þeirra mála innan Evrópubandalagsríkjanna en ekki innan EFTA - ríkjanna, sem tvímælalaust er afturför frá því réttarríki og þeim umhverfisreglum sem við viljum festa í sessi hér á Íslandi, og þætti mér fróðlegt að vita hvort hæstv. félmrh. og hv. þm. Karl Steinar Guðnason eru sammála því að vinnumálalöggjöf Evrópubandalagsins, lög og reglur um vinnumarkað og réttindi verkalýðsfélaganna, sem gilda innan Evrópubandalagsins, séu einnig fest í sessi hér á Íslandi. Ég hafði reyndar óskað eftir því að hæstv. félmrh. yrði hér í dag en því miður er hún ekki viðstödd.
    Í sjöunda lagi greindi hæstv. utanrrh. frá því að engir fyrirvarar væru lengur í gildi af hálfu Íslands nema þeir sem snerta fisk. Þeir væru allir úr sögunni. Allir fyrirvarar Íslands nema þeir sem snerta fisk væru úr sögunni. Það sem eftir væri væri öryggisákvæði sem hins vegar er orðað þannig í þessari yfirlýsingu að mjög erfitt er að skilja nákvæmlega hvað í því felst eða hvernig eigi að beita því og er mér nær að halda að það sé hlutur sem eigi eftir að útfæra nema fyrir liggi einhvers staðar í samningunum bakskjöl þar sem því er lýst. Ég tel það satt að segja mjög merkilegt ef ný ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt það á nánast fyrstu dögum sínum að falla frá öllum hugmyndum um fyrirvara af Íslands hálfu á öðrum sviðum þessara samninga nema þeim sem snúa að fiski og taka í staðinn öryggisákvæði sem orðað er á þann hátt að ég efast um að nokkur þingmaður stjórnarliðsins gæti í dag útskýrt hvað í þessu öryggisákvæði felst.    
    Í áttunda lagi er ljóst að í þessari yfirlýsingu samþykkir EFTA mun veikari stöðu í ákvörðunarferli Evrópska efnahagssvæðisins en talað hafði verið um fram að þessu.
    Þegar þetta er allt lagt saman er niðurstaða fundarins greinilega sú að EFTA - ríkin hafi í öllum meginatriðum fallist á kröfur og hugmyndir Evrópubandalagsins. Þegar við, sem höfum fylgst með þessum samningum í 1 1 / 2 ár innan síðustu ríkisstjórnar, lítum til baka og horfum á þann texta sem utanríkisráðherrarnir samþykktu sl. mánudag, þá er alveg ljóst að Evrópubandalagið hefur haft nær fullan sigur í öllum þessum þáttum málsins sem það hefur keppt að.
    Þá er eftir sá þáttur sem snýr að sjávarútvegi. Einnig um það mál hefur hæstv. utanrrh. látið frá sér fara yfirlýsingar síðustu daga sem eru vægast sagt sérkennilegar. Í útvarpi morguninn eftir utanríkisráðherrafundinn var hæstv. utanrrh. glaðbeittur og hress og lýsti því yfir að veigamikill áfangi í málefnum Íslands hefði fengist í þessari yfirlýsingu. Þarna hefði náðst viðurkenning á sérstöðu Íslands á sviði sjávarútvegsmála. Þetta voru orðin, ég held að ég muni þau nokkurn veginn orðrétt. Þegar textinn er hins vegar

skoðaður kemur í ljós að það er ekkert slíkt í honum að finna. Þegar skoðaðar eru yfirlýsingar forsvarsmanna Evrópubandalagsins, m.a. utanríkisráðherra Lúxemborgar, þá benda þeir á að í þessu orðalagi sé ekki síður að finna viðurkenningu á rétti Spánverja og Portúgala til þess að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu en viðurkenningu á rétti Íslendinga. Eða með öðrum orðum er þessi texti á þann veg að utanrrh. Íslands segir: Hann viðurkennir okkar rétt. Forsvarsmaður Evrópubandalagsins segir: Hann viðurkennir rétt Spánverja og Portúgala. Með öðrum orðum gerðist ekkert markvert á fundinum hvað snertir sjávarhagsmuni Íslands, því miður. Að þessu leyti var þessi fundur jafntíðindalaus og allir aðrir fundir sl. 1 1 / 2 ár.
    Við sem höfum starfað með hæstv. utanrrh. í síðustu ríkisstjórn munum fjölmarga fundi þar sem boðað var í ríkisstjórninni að á næsta fundi kæmi viðurkenning Evrópubandalagsins á hagsmunum Íslands á vettvangi sjávarútvegs. Það gerðist ekki. Það gerðist ekki á næsta fundi. Það gerðist ekki á þar næsta fundi. Það hefur enn ekki gerst. Utanrrh. Íslands greip til þess ráðs eftir að hann var sestur í nýja ríkisstjórn að láta samningamann Íslands ganga út af samningafundum Evrópubandalagsins og EFTA. Og það var tilkynnt hér heima að þessi útganga væri til þess að reka á eftir Evrópubandalaginu að setja fram tilboð til móts við Íslendinga. Það er alveg ljóst af niðurstöðu utanríkisráðherrafundarins að þessi útganga aðalsamningamanns Íslands hefur algerlega verið hundsuð. Hún hefur engin áhrif haft. Við erum búin að hlusta á skálaræður Cossiga nú síðast í Þingholti nokkrum sólarhringum eftir að ný ríkisstjórn var mynduð. Við hlustuðum á ræður Mitterand. Við höfum heyrt frásagnir af ræðum Kohl. Við höfum fengið skýrslu um viðræður hæstv. utanrrh. og fyrrv. forsrh. við fjölmarga forustumenn þessara ríkja og ávallt hefur verið sagt að í þessum ræðum kæmi fram mikill skilningur, mikill velvilji. En það virðist bara vera í orði. Það er ekki á neinu samningaborði sem sá skilningur og sú velvild kemur fram. Og svo örvæntingarfullur er hæstv. utanrrh. orðinn að í sjónvarpinu í gærkvöldi og í viðtali við Dagblaðið/Vísi í dag dregur hann varnarsamninginn upp á borðið og segir: Fyrst ekkert hefur gengið fram að þessu, hvorki skálaræðurnar, útganga aðalsamningamannsins eða neitt annað, þá er hér varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna, þáttur Íslands í varnarsamningi nýrrar Evrópu, og vísar í Dagblaðinu/Vísi í dag í viðræður sínar við utanríkisráðherra Ítala þar sem þeir virðast hafa verið að ræða um þátttöku Íslands í Vestur - Evrópuhernaðarbandalaginu.
    Ég hef nú hingað til viljað taka hæstv. utanrrh. alvarlega. Ég hef ekki tamið mér þann stíl núv. forsrh. að segja hann oftúlka frásagnir af heiðursmannasamkomulagi forustumanna stjórnmálaflokkanna. Í síðustu ríkisstjórn gat hæstv. utanrrh. treyst því að orð fyrrv. forsrh. og fyrrv. fjmrh. stæðu. Við komum aldrei fram í sjónvarpi tveimur dögum seinna og sögðum: Þetta var nú oftúlkun hjá utanrrh. Ég hef tekið hann alvarlega og geri enn. En það er auðvitað slíkt skref af

hálfu utanrrh. lýðveldisins Íslands að draga varnarsamkomulag Íslands við Evrópuríkin og Bandaríkin inn í þessa umræðu að ég skil ekki hvers vegna hæstv. utanrrh. minntist ekki á það í ræðu sinni hér áðan þegar hann gerði Alþingi grein fyrir stöðu málsins. Eða er þetta tal um samhengi Evrópska efnahagssvæðisins við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna eða við nýjan varnarsamning Íslands og Vestur - Evrópu bara ætlað fjölmiðlunum? Ég vil þess vegna líka óska eftir því að hæstv. utanrrh. geri grein fyrir því hér í þinginu hvað fólst í viðræðum hans við utanríkisráðherra Ítala um þátttöku Íslands í varnarsamstarfi Vestur - Evrópuríkjanna. Eða hyggst hæstv. utanrrh. segja varnarsamningnum við Bandaríkin upp til þess að fá einhverja taflstöðu í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði? Vegna þess að orð af þessu tagi eru auðvitað dauð og ómerk nema þeim sé fylgt eftir með því að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Satt að segja finnst mér þetta tal, bæði í sjónvarpinu í gær og við Vísi í dag, vera gáleysislegt tal. Ef á að taka mark á því, þá krefst það sérstakra útskýringa af hálfu hæstv. utanrrh. hér.
    Því miður er það þannig að í sjávarútvegsmálum hefur ekki enn tekist, þrátt fyrir samfellt starf í 1 1 / 2 ár, að tryggja með neinum hætti að Evrópubandalagið gangi til móts við Íslendinga.
    Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í þessum umræðum, þá hafa komið fram mismunandi fullyrðingar um það hvort í þessum samningum felist fullveldisafsal. Alþingi Íslendinga er fyrst og fremst kosið til þess að tryggja fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Það er æðsta verkefnið sem okkur er sett. Þess vegna er það nauðsynlegt að áður en verður gengið frá samningum í næsta mánuði, þá verði utanrmn. búin að skila Alþingi niðurstöðu í því máli. Satt að segja tel ég óverjandi að Alþingi fari heim núna áður en komin er full niðurstaða í það hvort í þeim samningum sem utanrrh. hyggst undirrita í næsta mánuði fyrir hönd Íslands er um að ræða fullveldisafsal. Það er fullkomlega óverjandi fyrir þjóðþing sem vill taka sig alvarlega að fara heim 2 -- 3 vikum áður en slíkur samningur yrði undirritaður, án þess að taka til ítarlegrar meðferðar og komast að niðurstöðu um það hvort í slíkum samningi sé verið að afsala fullveldi og sjálfstæðisrétti þjóðarinnar.
    Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. forsrh. að hann íhugi í alvöru að þingið sitji hér fram eftir júní fyrst sú nýja staða er komin upp frá því að Alþingi var kallað saman að utanríkisráðherrafundur Evrópubandalagsins og EFTA - ríkjanna skilaði þeirri niðurstöðu sem við erum hér að fjalla um.
Það er algerlega ný staða í málinu og krefst þess að þjóðþing sjálfstæðrar þjóðar gefi því máli allan forgang. Ég vil segja við hv. Alþingi: Það að sameina Alþingi í eina deild er smámál hjá því að taka afstöðu til fullveldis - og sjálfstæðisatriðanna í þeim samningi sem utanrrh. hefur boðað að hann muni undirrita ef Evrópubandalagið fellst á kröfurnar í sjávarútvegi.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka til hæstv. landbrh. að hann láti í té svör við þeirri spurningu

sem ég sendi honum bréflega fyrir rúmri viku. Væri æskilegt að fá svar við því hér í þessari umræðu frá hæstv. landbrh. hvort ráðherrann er reiðubúinn að samþykkja að erlendir menn hafi sama rétt til þess að kaupa jarðir og landsins gæði á Íslandi og Íslendingar samkvæmt þessum samningi.
    Hæstv. utanrrh. vék að því máli hér áðan. Það er athyglisvert að í þeirri lýsingu sem hæstv. utanrrh. gaf hér staðfesti hann það að í þessum samningi, sem verið er að vinna að, er ætlunin að íbúar Barcelona, íbúar Berlínar, íbúar Brussel, íbúar Birmingham hafi sama rétt til að kaupa jarðir og landsins gæði og íbúarnir í Breiðholtinu. Það var það sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan ef umbúðirnar eru teknar utan af því sem hann sagði. Hann sagði að það ætti að breyta íslenskri löggjöf á þann veg að menn hefðu sama rétt. Með öðrum orðum, þéttbýlisbúar á Íslandi ættu ekki að hafa meiri rétt til að kaupa sér jarðir og landsins gæði á Íslandi en þéttbýlisbúar í Evrópubandalagsríkjunum. Það væri hugsanlega hægt að breyta jarðalögunum á þann veg að menn yrðu að búa á jörðunum, en ef um væri að ræða rétt þeirra sem ekki búa á jörðunum, þá ætti það sama að ganga yfir útlenda menn og Íslendinga.
    Með öðrum orðum, svo að ég taki dæmi: Ingimundur Sigfússon í Heklu á eina af bestu jörðum þessa lands. Ingimundur Sigfússon í Heklu býr ekki á þessari jörð. En samkvæmt því sem utanrrh. er að lýsa hér væri Ingimundi Sigfússyni í Heklu bannað að eiga þessa jörð samkvæmt þessum nýju reglum, eða a.m.k. ef Ingimundur Sigfússon í Heklu ætti að hafa rétt til að eiga hana, þá ættu forstjórar bílainnflutningsfyrirtækjanna í Barcelona, Birmingham og Brussel að hafa sama rétt.
    Ég skal taka annað dæmi, hæstv. utanrrh. Ég skal taka dæmi af Kletti í Borgarfirði. Samkvæmt þeirri skipan sem hér er í dag á ágætur vinur okkar beggja, sem býr í Garðabænum, rétt til þess að eiga Klett í Borgarfirði. En samkvæmt þeirri nýskipan sem hæstv. utanrrh. var að boða hér ætti Andreotti, þegar hann lætur af embætti á Ítalíu, að eiga sama rétt til að eiga Klett í Borgarfirði og hv. alþm., fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson.
    Þetta var sú skipan sem hæstv. utanrrh. var að lýsa hér með orðalagi utanrrn. þannig að það skildist ekki á mæltu máli. Og ég spyr hæstv. landbrh.: Er hann reiðubúinn að samþykkja slíkar breytingar á íslenskum lögum sem veita Andreotti sama rétt og Steingrími Hermannssyni og eigendum Volkswagen sama rétt og umboðsmanni þeirra á Íslandi til að eignast fegurstu jarðir Íslands? Á það að vera erindi hæstv. landbrh. Halldórs Blöndals og hv. alþm. Björns Bjarnasonar að veita Ítölum, Spánverjum og Þjóðverjum rétt til þess að eignast allar jarðirnar í Þingeyjarsýslu þar sem afi þeirra var kjörinn fulltrúi bænda til þess að tryggja sjálfstæði og fullveldi íslenskrar þjóðar? Verði það niðurstaðan hefur hv. þm. Birni Bjarnasyni til lítils orðið hugsað til afa síns á fyrsta degi sínum hér í salnum.