Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Vegna orða hv. 8. þm. Reykn. vill forseti taka það fram að það hafði verið meiningin að sjá hvernig málin þróuðust eitthvað fram eftir fundartímanum, hvort ástæða væri til að hafa kvöldfund. Forseti vill taka það skýrt fram að það var ekki hennar sérstök ósk eða vilji að það yrði ekki kvöldfundur. Það er forseta vissulega að meinalausu að hér verði fundur fram eftir öllu kvöldi ef hv. þm. hafa áhuga á því. En það sem vakti fyrir mér þegar ég boðaði þingflokksformenn á þennan fund í morgun var að heyra hvað þeir vildu gera, hvernig þeir vildu að staðið yrði að þessari umræðu þar sem hér var um að ræða munnlega skýrslu og þá var hægt að semja um ræðutímann en auðvitað er samkvæmt þingsköpum gert ráð fyrir að umræður um skýrslur séu ekki tímasettar, það er ótakmarkaður ræðutími þegar umræður um skýrslur fara fram nema samið sé um annað og það er vel hægt að gera það og það er það sem var gert í morgun vegna þess að formenn þingflokka, stjórnarandstöðunnar sérstaklega, töldu að þessi ræðutími mundi duga til að tala um þetta mál í dag þar sem væntanlega yrði einnig hægt að ræða um málið þegar almennar umræður fara fram, t.d. á miðvikudaginn í framhaldi af umræðum um stefnuræðu forsrh. sem fram fer á þriðjudagskvöldið, eins og hv. þm. vita um.
    En forseti telur að það sé kannski ástæða til þess nú að endurskoða þetta og ef formenn þingflokkanna verða sammála um það að hér þurfi að lengja ræðutíma og hafa kvöldfund þá verður það að sjálfsögðu gert. Þess vegna mun forseti nú óska eftir því að fá smáspjallfund við formenn þingflokka, en væntir þess að nú sé þessari þingskapaumræðu lokið og gefur þá hæstv. forsrh. orðið.