Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um þá vinnu sem fer fram á sviði Evrópska efnahagssvæðisins. Ég held að það sé ekki æskilegt að takmarka slíka umræðu frekar en áður hefur verið gert um þetta mál. Það hlýtur að vera núv. ríkisstjórn mikilvægt að fá fram skoðanir alþingismanna á þessu máli og það hlýtur jafnframt að vera núv. ríkisstjórn mikilvægt að svara þeim atriðum sem óvissa ríkir um þannig að það sé skýrt hvaða staða ríki í þessum samningum.
    Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að það sé okkur til hagsbóta að standa heils hugar að þeim samningum sem fara fram milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Efnahagsbandalagsríkjanna hins vegar og kallaðir hafa verið samningar um Evrópskt efnahagssvæði. Ég er sannfærður um það að ef þessir samningar nást þá sé verið að treysta efnahagslega samvinnu innan þessa svæðis til hagsbóta fyrir alla sem þar búa ef rétt er á málum haldið. Ég vænti þess að nú sé rétt á málum haldið, en til þess að geta treyst því þá verð ég og aðrir alþingismenn að sjálfsögðu að fá góðar upplýsingar um það hvað þarna er um að vera.
    Hér var vitnað áðan í skýrslu utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar frá mars sl., en þar kemur fram eftirfarandi þegar fjallað er um yfirþjóðlegt eða samþjóðlegt vald, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Markmiðið með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er að koma á einum innri markaði allra EFTA-ríkjanna og EB sem byggir á sömu eða samræmdum reglum um allt svæðið. Innan EB eru ákvarðanir um nýjar reglur í mörgum tilvikum teknar með meirihlutaákvörðunum sem hafa bein réttaráhrif í aðildarríkjunum. Ákvarðanir innan EFTA eru teknar með samhljóða samþykki allra aðildarríkja þess. Innan EES verða ákvarðanir einnig teknar samhljóða. Reglurnar fá ekki bein réttaráhrif, þ.e. þær gilda ekki gagnvart einstaklingum nema þjóðþingin hafi lögfest þær eða veitt stjórnvöldum heimild til að setja reglurnar t.d. með reglugerðum.`` Hér er hreyft grundvallaratriðum sem skipta afar miklu máli. Og ég skildi ræðu hæstv. utanrrh. með þeim hætti að hér hefið engin breyting orðið á.
    Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé afar mikilvægt atriði. En ég veit það jafnframt að framkvæmdastjórnin í Brussel hefur að hluta til yfirþjóðlegt vald, allt annars konar vald en EFTA-stofnanir hafa eða hugsanlega ættu að fá og þess vegna segi ég það alveg eins og er að það kom mér nokkuð á óvart þegar ég las þessa yfirlýsingu í Morgunblaðinu, ég held í gær, en ég hafði ekki fengið hana, ég sé hún liggur á borðum þingmanna hér nú. En þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þeir tóku fram að dregið hefði saman með samningsaðilum við að skilgreina í meginatriðum verkaskiptingu og samstarf milli framkvæmdastjórnar EB annars vegar og sjálfstæðrar EFTA-stofnunar sem hefði samsvarandi umboð og svipað hlutverk og framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins hins vegar.``

    Það er afar mikilvægt að þetta sé alveg skýrt, hvað er verið að tala um. Ef það eru einhver önnur skjöl á bak við þetta orðalag, eins og mér skilst að sé mjög algengt í núv. hæstv. ríkisstjórn um alla þætti samstarfs innan hennar, að það séu önnur skjöl í kistlum sem aðallega munu vera geymd í Viðey, þá er afar mikilvægt fyrir okkur að vita nákvæmlega um hvaða skjöl liggja þarna að baki. Því að þarna er ekki um að ræða skjöl innan viðkomandi ríkisstjórnar heldur skilning sem hlýtur að finnast hjá þeim samningaaðilum sem þarna eiga hlut að máli.
    Þetta vildi ég biðja hæstv. utanrrh. að upplýsa. En ég sá að hæstv. utanrrh. hafði einnig dreift á borð alþingismanna texta þessa fundar á ensku og þar sá ég mér til nokkurrar undrunar að ekki er talað um EFTA-stofnanir heldur EFTA-structure. Ég er kannski ekki nægilega góður í enskri tungu og ætla ekki að halda því fram að ég sé mjög vel að mér í því, enda er hér um opinbera þýðingu --- ja, ég skil það svo að þetta sé opinber þýðing utanrrn. en ekki Morgunblaðsins. En ég spyr: Á að skilja þetta orð sem þarna sé um stofnun að ræða? E.t.v. skiptir það nú ekki mjög miklu máli en ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að það eigi að koma á einhverri stofnun og einhverjum þeim verkreglum sem séu nægilegar í þessu sambandi. Síðan kemur nú í ljós í þessum enska texta að það sem fylgir á eftir er innan sviga. En það er ekki í hinni opinberu þýðingu.
    Þetta tel ég afar mikilvægt að hér sé upplýst. Því ef það er svo að þessi stofnun, sem þarna er verið að tala um, eigi að hafa alveg nákvæmlega sama hlutverk, nákvæmlega sama vald og framkvæmdastjórnin í Brussel, þá er farið að tala um aðra hluti en var talað um á sínum tíma og m.a. í þessari skýrslu. En hæstv. utanrrh. sagði hér áðan að svo væri alls ekki og það bæri að skilja þessa opinberu þýðingu sem hann hefur væntanlega látið birta í Morgunblaðinu, það ætti að skilja hana öðruvísi en hún hljómar þegar maður les hana. Þetta er mjög alvarlegur misskilningur sem þarna er uppi ef ég ber saman annars vegar ræðu hæstv. utanrrh. og það sem hérna stendur.
    Ég hef ekki hugsað mér að hafa hér mjög langt mál um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég endurtek að ég styð þessar samningaumleitanir enda fari þær fram á þeim forsendum sem hafa legið fyrir að undanförnu, m.a. koma fram í þessari skýrslu. En ég styð þær ekki ef þar eru komnar einhverjar nýjar forsendur sem ekki hefur verið gerð grein fyrir.
    Mér er það fullkomlega ljóst að málefni sjávarútvegsins í þessum samningaumleitunum eru afar viðkvæm og erfið. Og það er ekki að sjá að í þessari yfirlýsingu sé mjög mikið nýtt um þetta atriði. En það er þó vitnað í 15. lið til 4. liðar þessarar yfirlýsingar um það atriði. En í 4. lið segir m.a.: ,,Einnig þyrfti að tryggja heildarjafnvægi ábata, réttinda og skyldna.`` Þetta er vissulega mikilvægt, að það komi fram með skýrum hætti að þarna eigi að ríkja heildarjafnvægi. Það er það sem ávallt hefur komið fram af Íslands hálfu. Og ef túlka má það svo að það sé komið um það samkomulag að þetta jafnvægi beri að skilja Íslendingum í hag þá er það vissulega áfangi. En þá er mikilvægt að allir aðilar túlki það með sambærilegum hætti. Ég hef ekki heyrt nákvæmlega hvernig hæstv. utanrrh. vill túlka það. En ég skildi ræðu hans svo að það bæri að túlka þetta Íslandi í hag, jafnvel þótt aðrir hafi haldið því fram að svo væri ekki.
    Það er orðið alllangt síðan að gengið var frá bókun 6. Það var gert í júní 1976 og nú eru að verða u.þ.b. 15 ár liðin síðan þá. Þá strax var alveg ljóst að Íslendingar þyrftu að gera samning á sviði sjávarútvegsmala við Evrópubandalagið því að í bréfi Evrópubandalagsins stóð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Bandalagið vill nota þetta tækifæri til að láta í ljós þá von að samningaviðræður geti hafist í náinni framtíð og jafnframt að varanlegir samningar takist sem báðir aðilar geti sætt sig við.``
    Öll þessi 15 ár hafa átt sér stað samtöl við Evrópubandalagið um þessi mál og aldrei fengist þar niðurstaða.
    Mér er nú heldur illa við að ræða þetta mál að utanrrh. fjarstöddum. ( Gripið fram í: Utanrrh. var ka llaður í símann.) Já, það eru nú ýmsir kallaðir í síma hér á Alþingi. Ég get gert hlé á máli mínu. (Gripið fram í.) Já, 1. þm. Austurl. stendur hér í ræðustól og ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að taka tillit til þess. En ég skal ekki tefja hann mjög lengi frá þessu stutta símtali.
    Þessi mál hafa verið mjög viðkvæm og hæstv. utanrrh. hefur haldið því fram að sá sem hér stendur sé eini stjórnmálamaðurinn á Íslandi svo kunnugt sé sem í formlegum viðræðum við sjávarútvegskommissara EB hefur sagt að ræða mætti gagnkvæmni í veiðiheimildum og að hugsanleg skipti á veiðiréttindum á milli Íslands og Evrópubandalagsríkjanna kæmu til greina. Hann hafði meira að segja svo mikið fyrir þessu að hann setti um þetta alveg sérstaka auglýsingu í Pressuna. Þetta er að vísu alrangt. Ég vil ekki ætla hæstv. utanrrh. að hann hafi látið þetta vísvitandi koma fram með þessum hætti.
Það hefur verið samdóma álit allra sem að þessu máli hafa komið að hrinda þeirri ósanngjörnu kröfu þegar Evrópubandalagið krefst veiðiheimilda í stað aðgangs að markaði. Hins vegar hafa átt sér stað viðræður við þetta sama Evrópubandalag undir forustu ýmissa stjórnmálamanna allar götur frá 1976. Og ein af þeim skuldbindingum sem ég tók að mér, eins og alltaf verður í nýjum ríkisstjórnum, var að halda þessum samtölum áfram þó aðallega væri með óformlegum hætti.
    Ég vænti þess að þetta hafi ekki verið gert vísvitandi af hæstv. utanrrh. og hann túlki þær umræður sem eiga sér stað nú með þeim hætti að við getum algjörlega treyst orðum hans. En ég vildi hins vegar spyrja hæstv. utanrrh. um það hvað sé hæft í því sem lekur frá Evrópubandalaginu. Það er alveg rétt hjá honum að allt sem þar gerist, eins og víða, lekur út. En hér er komin frétt frá fréttaritara íslenskum hjá Evrópubandalaginu þar sem hann er kominn fram með hugmynd að ákveðinni málamiðlun. Hún er þessi, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Málamiðlunin gerir ráð fyrir að fyrirtæki innan EB geti samið við íslensk fyrirtæki um samstarf í veiðum eða vinnslu. Bandalagið væri tilbúið til að gera rammasamkomulag um samningana sem m.a. gerði ráð fyrir að samstarfsverkefnin yrðu bundin ákveðnum hámarkskvótum, t.d. þorskígildum. Talað hefur verið um 15.000 -- 30.000 tonn samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Samstarfsverkefnin mundu ekki einskorðast við veiðar hefðbundinna stofna heldur væru og möguleikar á tilraunaveiðum og nýtingu vannýttra stofna.``
    Ég veit ekki til þess að það þurfi að fara fram neinar sérstakar tilraunaveiðar, en ég spyr hæstv. utanrrh.: Hvaðan er þessi málamiðlun komin? Hafa einhver skilaboð komið um hana? Hæstv. utanrrh. kom hér fram með ákveðnar upplýsingar um skilaboð sem hann hefði fengið.
    Um það hefur verið alveg full samstaða hér á Alþingi að hrinda öllum slíkum kröfum af hálfu Efnahagsbandalagsins. Ég trúi því og treysti að svo sé enn og hef enga ástæðu til að ætla annað, enda mundum við ekki hafa hag af samningum um hið Evrópska efnahagssvæði ef við þyrftum að gefa það eftir að láta veiðiheimildir í stað aðgangs að markaði. Það er hins vegar nauðsynlegt að við fáum upplýsingar um það hvað liggur hér að baki því af fyrri reynslu veit ég að ýmislegt af því sem lekur út innan Evrópubandalagsins á við nokkur rök að styðjast, hvaðan svo sem það kann nú að vera komið.
    Ég vænti þess að það geti náðst allgóð samstaða um samninga um hið Evrópska efnahagssvæði hér á Alþingi, ef þeir þá nást, enda ekkert öruggt um það. En það er náttúrlega allt annað mál en þegar verið er að tala um hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu. Ég hrökk dálítið við þegar ég hlustaði á hæstv. forsrh. fyrir eins og tveimur dögum þegar hann ávarpaði aðalfund Vinnuveitendasambands Íslands þar sem hann sagði í sinni ræðu: ,,Aðild að Efnahagsbandalaginu er ekki á dagskrá`` --- en bætti við: ,,að svo stöddu.`` Hvað þýðir þetta ,,að svo stöddu``? Ég hef skilið yfirlýsingar forsrh. þannig núna upp á síðkastið að aðild að Evrópubandalaginu væri ekkert á dagskrá, en hvers vegna er hæstv. forsrh. að bæta þessu við ,,að svo stöddu``? Á minni íslensku þýðir ,,að svo stöddu`` svona ekki alveg á næstunni. En það má vel vera að hæstv. forsrh. noti þessi orð með allt öðrum hætti en ég er vanur. Þess vegna finnst mér mikilvægt að fá það upplýst hvort einhverjar slíkar hugleiðingar eru uppi á borðinu að ef þetta gengur ekki eftir með þeim hætti sem til er stofnað þá séu menn þegar farnir að huga að næsta skrefi og hvort skilja beri orðin ,,að svo stöddu`` með þeim hætti. Ég tel mjög mikilvægt í þessum umræðum að fá þessi ummæli hæstv. forsrh. skýrð hér, því það kom mér nokkuð á óvart að þau skyldu ekki hafa hlotið meiri athygli og má vel vera að ég sé einn af fáum sem skilja þessi orð ,,að svo stöddu`` með þeim hætti að þar sé átt við svona ekki alveg á næstunni.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð að svo stöddu en áskil mér rétt til þess síðar, jafnvel í kvöld, eins og ég skil orðin ,,að

svo stöddu`` að taka hér til máls á nýjan leik.