Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég skil það svo að gert hafi verið nýtt samkomulag milli þingflokka í sambandi við umræðuna þannig að hér haldi fundi áfram í kvöld. En ég ætla hins vegar ekki að breyta frá þeirri ætlan minni að taka ekki meira en sem svarar hálftíma eða svo til að ræða þetta mikla mál sem hér er til umræðu þó að ástæða væri til þess að fara býsna vítt yfir sviðið nú þegar enn einn áfangi liggur fyrir í þessu máli eftir síðasta . . . ( ÓÞÞ: Ef það er ástæða til að fara breitt yfir sviðið, hvers vegna er það ekki hægt?) Við getum rætt það síðar og kannski utan ræðustóls, hv. 2. þm. Vestf. Ég tel mjög nauðsynlegt nú þegar fram er kominn þessi áfangi sem hæstv. utanrrh. hefur gefið skýrslu um að menn velti því fyrir sér í þessari umræðu á hvaða vegferð við erum í raun og veru í sambandi við þessa samninga. Er það alveg víst að stefnan sem tekin var í mars 1989 í þessum málum sé sú eina rétta og eina farsæla fyrir Ísland um langa framtíð? Ég hef, eins og hv. þm. sem sátu á fyrra þingi og fyrri þingum, oft lýst efasemdum mínum varðandi einstaka þætti þessa máls og ég hlýt að hvetja til þess nú sem oftar að það verði ekki aðeins farið ofan í saumana á þeim samningsdrögum sem nú liggja fyrir og þeim áfanga sem hér hefur verið kynntur, heldur að menn skoði það í fullri alvöru, hvort ekki séu aðrar leiðir skynsamlegar fyrir Ísland en að keppa að þessari samningsniðurstöðu sem menn hafa verið að ræða. Ég tel að allt of lítil vinna hafi verið lögð af hálfu Alþingis í það að kanna þá hlið málsins og ég hvet mjög eindregið til þess og tek undir orð formanns Alþb. hér áðan, að það verði tekinn tími á þessu þingi og við hikum ekki við að lengja þetta þing ef ástæða er til, og mér sýnist hún vera til, til þess að fara yfir þetta mál í raun frá grunni og með nýjum hætti til þess jafnhliða að við setjum okkur sem best inn í stöðu málsins eins og það lítur út frá EES - samningaviðræðum, en tökum þá einnig til heildarmats nú eftir þessa meira en tveggja ára vegferð, hvort það sé í raun þess virði eða á það hættandi, mætti líka orða það, af hálfu Íslendinga að bindast þessum samningi ef kostur væri.
    Ég fagna því mjög varðandi þessa umræðu að hún tekur þráðinn upp með dálítið öðrum hætti en gert hefur verið, alveg sérstaklega í fjölmiðlum nú um nokkuð langan tíma og af hálfu hæstv. utanrrh., þ.e. að umræðan snúist fyrst og fremst um sjávarútvegsmálin og möguleika á að ná niður tollalækkunum eða tollfrelsi á útflutningi sjávarafurða til Evrópubandalagssvæðisins eða EES - svæðisins alls. Þess í stað eru menn hér í þessari umræðu farnir að ræða og staldra við grundvallaratriði sjálfs meginmálsins, þ.e. aðildar að reglum og rétti Evrópubandalagsins um hinn innri markað sem er aðalatriði þessa máls, en tollfrelsi á sjávarafurðum í rauninni tiltölulega smátt atriði og smátt mál með tilliti til alls hins sem menn væru að bindast inni í þessum samningi, reglunum 1400 eða 1500, lögum og samþykktum Evrópubandalagsins og þeim stofnunum Evrópubandalagsins sem menn verða

óhjákvæmilega verulega háðir fyrir utan þær stofnanir sem hugmyndin er að byggja upp í sambandi við EES - svæðið sérstaklega.
    Ég hef fjallað nokkuð um það í ræðu og riti hvaða aðrar leiðir það eru sem við Íslendingar ættum að vera að skoða nú jafnhliða en ég mun ekki taka langan tíma í þessari umræðu til þess að lýsa þeim hugmyndum enda geta menn kynnt sér þær m.a. í séráliti sem ég skilaði og birt er í 7. riti Evrópustefnunefndar.
    Hér hafa menn staldrað við hvað sé nýtt í sambandi við það sem fyrir liggur í yfirlýsingu ráðherrafundarins frá 13. maí. Jú, það er sitthvað. Þetta mál hefur auðvitað verið að taka breytingum. Hv. 8. þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson fór hér skilmerkilega yfir einstaka þætti málsins sem birtast hér í breyttum og nýjum búningi vegna þess að það hefur verið haldið áfram vinnu frá því sem áður var, en vissulega þó byggt á því sem gert hafði verið á fyrri stigum.
    Ég get engan veginn tekið undir þau orð hæstv. utanrrh. í ræðu hans að ekkert í þessari yfirlýsingu og þeim gjörningum sem að baki liggja vísi til þess að menn séu að bindast yfirþjóðlegu valdi og afsala sér valdi á löggjafarsviði og sviði dómsvalds. Ég tel þvert á móti að þessi yfirlýsing vísi með mun skýrari hætti en áður hefur legið fyrir til þess að það er einmitt það sem hér er verið að gera. Menn eru að bindast sérstökum dómstól sem á að fjalla um þátt EFTA innan Evrópska efnahagssvæðisins --- takið eftir því: dómstólnum er sérstaklega ætlað að fjalla um þátt sem snýr að EFTA-ríkjunum innan þessa svæðis en ekki varðandi Evrópubandalagið sjálft því alveg á sama hátt og Evrópubandalagið ekki gefur eftir þumlung varðandi sjálfræði og sjálfstæði í ákvarðanatöku á sínu svæði í sambandi við þennan gjörning, í sambandi við fyrirhugaðan samning, þá gera þeir það ekki heldur á dómsviðinu og þeir ætla ekki að láta litla fingur af því valdi sem Evrópudómstóllinn hefur samkvæmt samþykktum Evrópubandalagsins til þess að kveða upp úrskurði, m.a. forúrskurði og bindandi úrskurði sem hafa lagagildi fyrir Evrópubandalagið og þróun þess. Dómstólnum, sem er eitt af því nýja sem hæstv. utanrrh. nefndi, er ætlað samkvæmt þessum texta að vera sjálfstæður og kveða upp úrskurði varðandi lausn deilumála, þar með talið þegar við á túlkun EES - reglna samkvæmt beiðni sameiginlegu nefndarinnar eða samningsaðilanna. Hér geta samningsaðilarnir, hvort sem væri EFTA eða Evrópubandalagið ef trúa má þessum orðum, óskað eftir því að þessi dómstóll kveði upp úrskurð um ágreiningsefni. Hvað er þetta ef ekki að framselja vald? Og hvað um eftirlitsstofnunina sem hér er verið að taka ákvarðanir um í þessum áfanga og ráðherrarnir hafa sett nafn sitt undir? Þar er alveg ljóslega samkvæmt þessum texta verið að setja upp stofnun eða ,,structure``, eins og hv. 1. þm. Austurl. benti á, sem á að skera úr, hafa eftirlit með samningi og kveða upp úr um hvernig túlka beri reglur samningsins og framfylgja. Er þetta ekki yfirþjóðlegt vald? Er þarna ekki verið að afsala sér valdi sem Íslendingar hafa haft í eigin stofnunum með þessum hætti? Ég er ekki læs ef sá skilningur er ekki réttur. Í raun er Alþingi Íslendinga með þessum gjörningi að afsala sér áhrifum á mótun löggjafar á þýðingarmestu sviðum efnahags- og fjármála um langa framtíð ef menn með einni handauppréttingu hér á Alþingi koma til með að gjalda jáyrði við þessum samningi. Eftir að það hefur gerst breyta menn ekki löggjöf á einstökum sviðum efnahagsmála eftir því sem mönnum býður við að horfa hér á Íslandi og löggjafarsamkomunni, heldur verða að sjálfsögðu að taka tillit til þess hvað er að gerast innan Evrópska efnahagssvæðisins, ná samstöðu um það í 19 ríkja hópi eða fleiri ef þar fjölgar í hópnum, og menn eru að sjálfsögðu ekki lengur bærir um það að þróa íslenska löggjöf út frá sjónarmiðum Alþingis Íslendinga heldur eru bundnir af þessu og EFTA, sem enn þá er þarna að nafni og verður kannski ekki mjög langlíft, á að tala einum rómi gagnvart Evrópubandalaginu þegar það er að reyna að hafa áhrif á þróun Evrópubandalagsins sjálfs og ákvarðanir sem þar eru teknar.
    Ég vænti þess að menn átti sig á því að hér er um samþætt virki að ræða, hér er um samþætt ferli að ræða. Það má líkja þessu við stóra vél með tannhjólum þar sem menn stöðva ekki þessa vél. Einn lítill hlekkur í þessu gangverki stöðvar ekki þróun löggjafar í Evrópubandalaginu, hann er nauðbeygður til að fylgja henni eftir ef menn eru orðnir þarna aðilar og orðnir eitt lítið tannhjól inni í þessu gangverki. Og menn verða að horfast í augu við þetta áður en þeir gangast inn á þennan grundvöll. Það er þetta sem við þurfum auðvitað að ræða og það er þetta sem nefndir þingsins eiga að fjalla um og kafa ofan í og veita upplýsingar um og þingflokkar og
þingið að ræða og taka sér tíma til þess.
    En auðvitað er áhyggja manna misjöfn í þessum efnum. Það eru ekki allir jafnáhyggjufullir að þessu leyti. T.d. þeir flokkar sem hafa lýst því yfir fyrir síðustu kosningar og reyndar fyrr að þeir geti alveg hugsað sér aðild að Evrópubandalaginu. Og það vill svo til að það eru flokkarnir sem nú mynda ríkisstjórn Íslands sem hafa gefið um það flokkslegar yfirlýsingar og samþykktir að þeir geti alveg hugsað sér að taka aðild að Evrópubandalaginu á dagskrá. Og mér finnst hv. 1. þm. Austurl. ekki þurfa að vera neitt hissa á því þó núv. hæstv. forsrh. greini frá þessu því að fyrir einum tveimur árum síðan bar hann einmitt þær hugmyndir fram á landsfundi Sjálfstfl. sem formaður aldamótanefndar flokksins að honum fyndist fyllilega koma til greina að láta reyna á samninga við Evrópubandalagið. Og formaðurinn, sem hæstv. núv. forsrh. ýtti úr sæti, gaf um það yfirlýsingu í ræðu suður í Leiru sl. haust, sem vitnað er til í Morgunblaðinu, að hann telji óhjákvæmilegt að hefja umræðu um hvort sækja eigi um aðild að Evrópubandalaginu. Auðvitað hafa þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar ásamt utanrrh. og þeim alþýðuflokksmönnum ekki sömu áhyggjur og flokkarnir sem telja að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina. En ég vil að þetta mál sé skoðað einmitt í þessu samhengi. Geta menn hugsað sér það að fara alla leið? Þá verða menn auðvitað að gera sér það ljóst að samningur um Evrópskt efnahagssvæði færir menn í reynd langt á leið þótt það sé engan veginn það sama og að gerast aðili að Evrópubandalaginu. En eftirleikurinn verður sannarlega auðveldari fyrir þá, fyrir þau pólitísku öfl sem geta hugsað sér að þetta gerist. Þess vegna einnig vara ég mjög við þessari vegferð og hvet til þess að menn leiti annarra úrræða.
    Það var athyglisvert, svo sem bent hefur verið á, að hæstv. utanrrh. vék ekki að því snjallræði sem hann hafði þó nefnt í ríkisfjölmiðlum nú fyrir fáum dögum og í viðtölum við dagblöð, að taka upp nýja skiptimynt í sambandi við lausn hnútsins varðandi sjávarútvegsmálin og tollamálin í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði, þegar hann víkur að því að varnarmál Evrópubandalagsins, eins og það er kallað, geti haft áhrif á samninga Íslendinga við Evrópubandalagið. Og hæstv. utanrrh. segir í sjónvarpsviðtali 15. maí, fyrir fáum dögum, í viðræðum við fréttamann: ,,Ég held í þá skoðun eða það mat mitt alveg fram á seinustu stundu að að lokum muni leiðtogar Evrópubandalagsins telja það nokkru skipta að Ísland verði með, að það verði ekki útilokað frá Evrópu, ekki út af fiskveiðimálum heldur út af framtíðarhugsun þeirra um öryggis- og varnarmál.`` Heldur út af framtíðarhugsun þeirra um öryggis- og varnarmál. Þetta eru orð hæstv. utanrrh. og ég heyrði ekki betur en hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason væri í raun að gæla við sömu hugsun í máli sínu hér áðan, þar sem hann tók undir að það ætti að fara að gaumgæfa það og athuga það sérstaklega hvort Íslendingar ættu ekki að tengjast Vestur-Evrópubandalaginu, sex ríkja samstarfinu eða níu ríkja, eins og það er nú líklega núna, í öryggis- og varnarmálum. Sá kjarni sem Evrópubandalagið í formi sambandsríkis ætlar að byggja á sína öryggis- og varnarstefnu og er farið að þróa. Auðvitað er þarna uppi hugsun manna sem geta hugsað sér beina aðild að Evrópubandalaginu og líta þannig á að það sé allt í lagi að taka upp umræðuna um öryggis- og varnarmál, taka þau á dagskrá í þessu samhengi og leita þar að skiptimynt.
    Það þóttu nú nokkur tíðindi hér fyrir fáeinum árum þegar hæstv. utanrrh. hélt ræðu sem vakti þó nokkra athygli á fundi sósíaldemókrata á Norðurlöndum, leiðtoga jafnaðarmanna á Norðurlöndum, eins og það var kallað. Einmitt í þessari ræðu kom hæstv. utanrrh. með þessa hugmynd. Og ég gæti vitnað hér í langt mál, mjög fróðlegt, þar sem þessi hugsun um skiptimyntina er útfærð, hernaðarhagsmunir, öryggishagsmunir Evrópubandalagsins, sem þáttur í samningum við Evrópubandalagið.
    En þessar hugmyndir hæstv. þáv. fjmrh. ( Gripið fram í: Hvenær var þetta?) Þessi ræða er birt í heild 20. febr. í Morgunblaðinu. ( Gripið fram í: Hvaða ár?) ( Gripið fram í: 1988.) 1988, vel að merkja. Það ættu nú sósíaldemókratar kannski að muna, en ég þakka fyrir ábendinguna. En þessar hugmyndir féllu nú ekki allar í mjög frjóa jörð og þetta varð umræðuefni hér í umræðum um utanríkismál sem fór fram skömmu síðar. Hæstv. þáv. forsrh. setti með kurteislegum hætti ofan í við þáv. fjmrh. fyrir að vera að flagga með þessi mál þó hann tæki fram að honum væri það heimilt sem formanni Alþfl. en ekki sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Og það komu fram mörg varnaðarorð frá þingmönnum allra flokka vil ég segja varðandi þessi efni, því að dýpst tók í árinni sá sem hæstv. núv. fjmrh. velti úr sessi sem formanni Alþfl., Kjartan Jóhannsson, sem fjallar um þetta í grein í Morgunblaðinu, ég held 27. febr. 1988, og ég má til með að vitna til. Það skal ekki verða langt, virðulegur forseti, með þínu leyfi. Þar segir Morgunblaðið: ,,Kjartan Jóhannsson gagnrýndi Jón Baldvin Hannibalsson, fjmrh. og formann Alþfl., harðlega fyrir ræðu hans í utanríkismálaumræðunni í gær. Sagði hann Jón Baldvin bæði gefa sér rangar forsendur og reikna vitlaust þegar hann talaði um framtíðarsamskipti Íslands og Evrópubandalagsins.`` Svo kemur orðrétt, Kjartan Jóhannsson: ,,Ég tel bæði rétt og nauðsynlegt að fram komi að ég er gersamlega ósammála þeim sjónarmiðum sem hæstv. fjmrh. setti fram í ræðu sinni hér áðan varðandi EB, þar á meðal um kaupskap í öryggis- og varnarmálum út á tollfríðindi``, sagði Kjartan Jóhannsson á Alþingi í gær. ,,Í fyrsta lagi tel ég að ekki eigi að blanda þessum tveimur málaflokkum saman og í öðu lagi tel ég að hugmyndin um kaupskapinn gangi ekki upp. Það er að sjálfsögðu ekki nema von að niðurstaðan af hugleiðingum ráðherrans sé röng því bæði er að hann gefur sér rangar forsendur og að hinu leytinu reiknar hann vitlaust. Ráðherrann gefur sér að staða okkar sé vonlaus ef Noregur gangi í EB og jafnframt gefur hann sér með sama hætti að staða okkar sé líka vonlaus meðan við veitum ekki EB aðgang að fiskveiðilögsögunni. Út frá þessu tvöfalda vonleysi hefur hann svo leit að einhverju öðru til að bjóða upp á í staðinn og sú leit endar með hugmyndinni um kaupskapinn í varnarmálum. En þessi örvæntingarfulla leit er óþörf enda á misskilningi byggð því að forsendan um þetta tvöfalda vonleysi er á misskilningi byggð,`` ( Gripið fram í: Sagði Kjartan þetta?) segir Kjartan Jóhannsson. Og hann sagði fleira athyglisvert sem ég held að núv. hæstv. utanrrh. ætti að íhuga. En það var mikið skrifað um þetta mál og deilt um þetta mál á síðum blaða, þar á meðal í Alþýðublaðinu litla á þessum dögum og vikum eftir þetta. ( Utanrrh.: . . . Kjartan Jóhannsson sendiherra.) Nú hefur hæstv. utanrrh. sent Kjartan Jóhannsson í útlegð eins og gert var með Molotov á sínum tíma þegar hann var sendur til Úlan-Bator og menn fara nú kannski að skilja ástæðurnar fyrir því. Og það var reyndar gert með fleiri því að einn af þeim sem gagnrýndu harðlega þessi efni á sínum tíma, samanber Morgunblaðið 23. febr. nefnt ár, 1988, Albert Guðmundsson, sem einnig var sendur í útlegð, hann segir um þetta: ,,Hann hefur því farið út fyrir valdsvið sitt og ég held að Jón hafi ekki verið með sjálfum sér þegar hann sagði þessi orð.``
    Þetta tel ég ástæðu, virðulegur forseti, til að draga hér fram því auðvitað er hæstv. utanrrh. við sama heygarðshornið. Hann er að taka þetta mál upp nú, ekki sem fjmrh. og formaður Alþfl., heldur sem forsrh., heldur sem utanrrh. og nú verður --- já það varð nú ekki af því. En nú vænti ég þess að hæstv. forsrh. greini okkur frá hvernig honum lítist á þessar hugmyndir og fari þá einnig yfir það sem forveri hans í stóli formanns Sjálfstfl. hafði um þessi mál að segja á sínum tíma.
    Virðulegur forseti. Þau efni sem við ræðum hér eru stærsta mál sem hefur borið að Alþingi Íslendinga síðan lýðveldið var stofnað að mínu mati. Ég tel því að þingið eigi hvorki að spara tíma né fyrirhöfn né heldur eigi menn að draga við sig að lýsa inn í samhengi þessa máls með öllum tiltækum ráðum og kröftum sem Íslendingar búa yfir því svo mikið er í húfi. Þar eigum við ekki að sjá í aura eða krónur. Hér er spurningin um framtíð Íslands. Það er líka spurningin um það: ætla menn í raun að leggja út á þá braut sem núv. stjórnarflokkar hafa ekki útilokað, þ.e. að tengjast því evrópska stórríki sem nú er í mótun?
    Ég held að það reki engin nauður okkur Íslendinga til þess. Ég er mjög sannfærður um það að binding Íslands inn í þetta stórríki verði til þess að hér verði fátækara land í framtíðinni, ekki bara í efnahagslegu tilliti heldur ekki síður í menningarlegum efnum. Hvoru tveggja sé í raun ógnað og þar með tilvist íslensku þjóðarinnar til langs tíma litið. Ég held að við ættum að gaumgæfa það hvaða möguleika við höfum í Norður-Atlantshafi, þar sem við erum staðsett á eyjunni okkar, til þess að halda hér uppi óháðu þjóðríki til lengri tíma litið og nýta þá miklu kosti, náttúruauðlindir og mannafla sem hér er til þess að búa Íslendingum gott líf. Við höfum átt samskipti víðar en við Evrópu. Við höfum átt samskipti í viðskiptalegum efnum og fleiri efnum við Bandaríki Norður-Ameríku. Og þó ég hafi ekki verið sammála öllu hvernig þar hefur verið á haldið, t.d. í öryggismálum, þá held ég að við eigum ekki að horfa fram hjá þeim möguleikum sem í því felast að við erum einnig nágrannar Norður-Ameríku. Og við erum einnig nágrannar Austur-Asíu, þess stóra og vaxandi markaðssvæðis, þangað sem við höfum verið að sækja á fyrir íslenskar útflutningsafurðir og höfum alla möguleika á að bæta samskiptin og þróa þau í viðskiptalegum efnum. Það gerum við hins vegar ekki ef við lokum okkur af innan múra evrópsks stórríkis. Því að það eru þessir risar, Norður-Ameríka, Evrópa, Vestur-Evrópa og Austur-Asía, sem eru á fullri ferð að búa sig í harða samkeppni viðskiptalega séð og um áhrif á heimsvísu. Við eigum ekki að dragast inn í það meira en óhjákvæmilegt er og við eigum að nýta okkur staðarkostina og möguleika okkar á þessu ágæta landi til þess að eiga góð samskipti og ábatasöm við þessa aðila alla. Í því er fólgið fjöregg Íslands, það fjöregg sem ég vil sjá að Alþingi Íslendinga verndi og leggi a.m.k. góða vinnu í að skoða skilyrðin áður en menn fara að binda sig samningum eins og þeim sem hér eru til umræðu.