Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá skýrslu sem hér hefur verið flutt og þær umræður sem hafa verið í dag um samningana um Evrópskt efnahagssvæði. Þær hafa verið málefnalegar og gagnlegar.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu verulega, vil koma að tveimur til þremur atriðum sem ég hef höggvið sérstaklega eftir við að hlusta á ræður manna. Það er rétt að fyrrv. ríkisstjórn stóð að samningum um Evrópskt efnahagssvæði með ákveðnum fyrirvörum sem ég ætla ekki að orðlengja um. Ég er einn af þeim sem hafa stutt þá samningagerð svo framarlega sem þeir fyrirvarar, sérstaklega í sjávarútvegi og um önnur mál, nást fram.
    Það hefur verið lögð á það áhersla, sérstaklega af þeim þingmönnum Sjálfstfl. sem hafa talað við þessa umræðu, að ekkert hafi breyst og það eigi ekkert að koma á óvart í sambandi við þá yfirlýsingu sem út hefur verið gefin eftir ráðherrafund Evrópubandalagsins þann 13. maí. Ég held að þessi umræða hafi m.a. leitt það í ljós að það eru nokkur atriði sem koma verulega á óvart og ég ætla að koma enn einu sinni að einu atriði sem mér finnst mjög alvarlegt, en það er í sambandi við landbúnaðarmálin. Það er í sambandi við reglugerðir um heilbrigði dýra.
    Hinn 19. júní 1990 gaf Evrópuráðið út svokallaða ráðsákvörðun í íslenskri þýðingu sem fjallar um samningsfyrirmæli við stofnun Evrópsks efnahagssvæðis. Í 5. lið þessara samningsfyrirmæla segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af mikilvægi landbúnaðar fyrir almennt jafnvægi samningsins mun EB stefna að því að fá eins greiðan aðgang og unnt er fyrir útflutningsvörur sínar á mörkuðum EFTA - landa og sérstaklega`` og takið þið nú eftir, ,,sérstaklega ryðja úr vegi verulegum viðskiptahindrunum sem enn eru við lýði milli EB og EFTA, þar með talið þeim sem byggjast á reglugerðum um heilbrigði dýra og jurta.``
    Þetta er takmark í þessari samningagerð sem Evrópubandalagið setur sínum samningamönnum við upphaf samninganna. Síðan koma menn hér upp og segja að ekkert hafi breyst og þetta eigi ekki að koma á óvart, sú yfirlýsing sem hér hefur verið gefin og hér er til umræðu í dag.
    Í skýrslu utanrrh. frá mars 1991 sem hér liggur fyrir, er á bls. 11 fjallað um þessi mál, í setningu sem að vísu er ekki löng, og í II. kafla sem fjallar um landbúnað. Þar segir:
    ,,Heilbrigðisreglurnar mætti hins vegar ræða innan heildarramma viðræðnanna, enda`` og takið eftir, ,,enda yrði fullt tillit tekið til sérstakra aðstæðna í einstökum löndum innan EFTA.``
    Síðan er í þeirri yfirlýsingu sem hér er til umræðu frá 13. maí enn þá fjallað um þessi mál. Þar segir svo:
    ,,Sérstaklega verður unnið að því marki að afnema viðskiptahindranir af völdum reglugerða um heilbrigði dýra og jurta. Að því er hið síðastnefnda varðar munu EFTA - löndin taka yfir að svo miklu leyti sem unnt er

samþykktir Evrópubandalagsins.``
    Síðan koma menn hér upp í þessari umræðu og segja að ekkert hafi breyst, ekkert hafi verið gefið eftir í þessari samningagerð. Ég kann ekki að lesa úr þessum textum ef það er svo að þeir fjalli allir um það sama og ekkert hafi breyst, enda heyri ég það á ræðu hæstv. landbrh. að honum kemur þetta mjög á óvart og segir að kröfur af hálfu landbrn. séu nákvæmlega þær sömu og þær hafa verið. Þetta virðist koma honum algerlega í opna skjöldu. Það heyrðum við á ræðu hans hér áðan. Og ég er ekkert hissa á því. Þarna hefur greinilega verið gefið eftir í mjög alvarlegu atriði.
    Ég ætla ekki að tefja tímann með því að fara í fleiri atriði. Það hefur verið gert hér á undan og ég hef í rauninni ekki miklu við það að bæta. Hins vegar vil ég ítreka það sem hefur komið fram, spurningarnar um öryggisákvæði, hvernig framkvæmdin verður varðandi það öryggisákvæði. Mér finnst það orðalag í yfirlýsingunni vera allloðið, svo að ekki sé meira sagt. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 7:
    ,,Samningsaðilar gætu með einhliða yfirlýsingum sem milliríkjaráðstefna bókaði komið á framfæri því sem þau vildu um mögulega beitingu þessa almenna öryggisákvæðis.``
    Þetta finnst mér nú ansi loðið svo ekki sé meira sagt. Og ég vildi að þegar hæstv. utanrrh. talar hér á eftir þá gerði hann nánari grein fyrir þessu eins og hann hefur reyndar verið krafinn um.
    En mergurinn málsins varðandi alla þessa umræðu er að það getur komið sá tími innan fárra vikna að við stöndum frammi fyrir því hvort við viljum halda áfram þessari samningagerð eða ekki, hve langt við viljum ganga, hvort við náum fram þeim fyrirvörum sem við höfum gert og sem voru forsenda fyrir því að við hófum þessa samningagerð. Það getur farið svo, og ég skil það þannig á þeim hv. ræðumönnum sem hér hafa talað á undan, að við viljum ekki gefa eftir í sambandi við sjávarútveginn. Ef við viljum ekki gefa eftir, þá getur komið sá tími að það gangi ekki saman. Hvað gerum við þá? Eru menn þá tilbúnir að taka upp viðræður um aðild að Evrópubandalaginu? Þetta er brennandi spurning. Þetta er spurning sem við getum staðið frammi fyrir að þurfa að svara á næstu vikum.
    Eru einstakir stjórnmálamenn reiðubúnir til þess, ef samningar nást ekki fram, að taka þá upp viðræður um fulla aðild að Evrópubandalaginu eins og vafalaust aðrar EFTA - þjóðir mundu gera? Við skulum gera okkur grein fyrir því að aðrar EFTA - þjóðir eru tilbúnar og í startholunum til að sækja um fulla aðild. Þetta eru örlagaríkar ákvarðanir sem ekki er hægt að komast hjá að svara hér úr þessum ræðustól.