Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. spurði um beitingu öryggisákvæðisins sem er hugsað m.a. til þess að koma í stað varanlegra fyrirvara. Og sérstaklega er þó ástæða til þess að vekja athygli á eftirfarandi:
    Það er algjörlega á valdi hverrar ríkisstjórnar sem á aðild að þessum samningi að beita slíku öryggisákvæði. Frumkvæðið er einhliða ef um er að ræða fyrirvaralausar eða fyrirvaralitlar breytingar sem varða þjóðfélagsástand, umhverfisástand, efnahagsástand hvort heldur varðar atvinnugrein, svæði eða þá landið í heild. Og það sem er nýtt í þessu ákvæði og hann spurði sérstaklega um er að þetta geti samningsaðilar gert með einhliða yfirlýsingu sem er kynnt á hinni svokölluðu undirskriftarráðstefnu og sú lögskýring fylgir af hálfu lögfræðinga Evrópubandalagsins að einhliða yfirlýsing gefin á þeirri ráðstefnu hafi samkvæmt reglum Evrópubandalagsins lagagildi. Vænti ég að það svari þeirri spurningu hans.
    Í annan stað spurði hann: Hvað gerist ef þeir samningar sem nú eru á lokastigi um myndun Evrópsks efnahagssvæðis takast ekki? Munu menn þá taka það til ráða að leita eftir inngöngu í Evrópubandalagið? Ég get svarað þeirri spurningu fyrir mitt leyti skýrt og skilmerkilega. Svarið við því er nei. Ef þessir samningar takast ekki, þá er hinn kosturinn ekki sá að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið vegna þess að þessir samningar geta strandað á einu. Þeir geta strandað á því að við synjum um aðgang að fiskimiðum Íslendinga af ýmsum grundvallarástæðum sem ég þarf ekki að tíunda hér. Brotni samningarnir á því, þá er svarið ekki það að leita eftir inngöngu í Evrópubandalagið og gerast þannig að fullu og öllu aðili að hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu bandalagsins sem við hefðum þar með hafnað.
    Menn gætu velt því fyrir sér hvort sú stund gæti komið upp í framhaldi af því að þessir samningar hefðu náðst. Þá væri a.m.k. hægt að færa rök fyrir því út frá vissum sjónarmiðum að næsta skref gæti verið að stíga skrefið til fulls að því er varðar að nálgast Evrópubandalagið með því að óska eftir aðild.
    Gagnályktunin er hins vegar sú að ef við náum þessum samningum, þá værum við búnir að ganga svo tryggilega frá hagsmunum Íslands svo langt fram í tímann sem séð verður að þess gerist ekki þörf. Ég vík að þessu hér vegna þess að spurning hv. þm. er auðvitað mikilvæg og ég legg á það áherslu, ef svo illa fer mót vonum mínum og áreiðanlega mót vonum þeirra samstarfsmanna minna í fyrrv. ríkisstjórn sem höfðu við mig nánast samstarf um þetta mál, þ.e. framsóknarmanna, ef svo illa fer mót vonum mínum og væntanlega okkar að þessir samningar náist ekki, þá er ekki næsta skref að leita inngöngu í Evrópubandalagið.
    Ég sagði: Væntanlega mót vonum fyrrv. samstarfsmanna minna í fyrrv. ríkisstjórn. Ég tók eftir því að hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh., lýsti þeirri skoðun sinni og staðfesti þá skoðun sína að hann styður aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði á þeim

forsendum sem lagðar voru í fyrrv. ríkisstjórn og ef þær standast. Hann hefur með öðrum orðum ekkert skipt um skoðun. Nú er svarið það sem leitt hefur verið í ljós við þessar umræður að forsendurnar eins og þær liggja fyrir nú eru hinar sömu og við erum að leita eftir samningum á þessum sömu forsendum. Ég geng þess vegna út frá því sem gefnu að varaformaður Framsfl. tali í nafni flokksins og að Framsfl. muni standa við þá stefnu sem hann átti mikinn þátt í að móta í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, þrátt fyrir skemmtilega ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, sem allt í einu komst að þeirri niðurstöðu að það væri verið að selja landið en ekki fiskinn og var nú svona kannski meira til skemmtunar hér í síðdeginu heldur en til þess að taka alvarlega, því að um það snýst málið að sjálfsögðu ekki. (Gripið fram í.) Um það snýst málið að sjálfsögðu ekki, hv. þm., eins og hv. þm. veit.
    Út af fyrir sig er það dálítið þversagnakennt sem fram hefur komið í þessum umræðum af hálfu fyrrum samstarfsmanna okkar alþýðuflokksmanna í þessu máli.
    Því hefur verið haldið fram að utanrrh. í fyrrv. ríkisstjórn hafi ekki haft umboð til þess að standa að samningum. Það er auðvitað ekki rétt, hann hafði umboð. Það umboð hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Utanrrh. hefur gert ríkisstjórn og Alþingi grein fyrir sameiginlegum könnunarviðræðum EFTA - ríkjanna við Evrópubandalagið um víðtækara samstarf ríkjanna 18 sem aðilar eru að EFTA og EB. Utanrrh. mun áfram taka þátt í undirbúnings - og samningaviðræðum þessara aðila sem byggðar verða á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með talið þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram.``
    Þeim fyrirvörum hefur öllum verið til skila haldið og þessi stefna er þess vegna óbreytt. Þáv. samstarfsaðilar mínir voru sammála því að halda áfram þessum samningaviðræðum á þessum forsendum og ég hlýt að gera ráð fyrir því að þeir séu sömu skoðunar enn. Þetta eru sömu mennirnir. Það eina sem hefur gerst er að það hafa farið fram kosningar.
    Eina frávikið frá þessu umboði var það að þingflokkur Alþb. gerði þingflokkssamþykkt, svona fyrir sig. Út af fyrir sig mátti náttúrlega láta uppi efasemdir um það að þingflokkur Alþb. stæði að baki þessu umboði. Á það reyndi ekki af þeirri einföldu ástæðu að málið kom ekki til ákvörðunar. Hitt er annað mál að það var vitað að aðaltalsmaður Alþb. í utanríkismálum og fulltrúi þess í utanrmn. var eindreginn andstæðingur stefnu þáv. ríkisstjórnar í málinu og ástæða var til að ætla að einstakir aðrir þingmenn í röðum þáv. stjórnarliða væru annaðhvort ekki heils hugar aðilar að málinu, hefðu um það mjög alvarlegar efasemdir eða væru því andvígir, sem er m.a. ástæðan fyrir því að eftir síðustu kosningar var mynduð ný ríkisstjórn.
    Virðulegi forseti. Þetta hafa verið um margt fróðlegar umræður. Ég vildi gjarnan svara öllum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint eftir bestu getu en tel þó eðlilegt að spyrja fyrst til þess að draga fram aðalatriðin: Hver eru nú aðalatriði þessa máls

sem uppi kynnu að vera skiptar skoðanir um?
    Við höfum fjallað svo rækilega um sjávarútvegsmálið hér á hinu háa Alþingi að það er kannski litlu við það að bæta, en hvað um stjórnunarþáttinn? Hvað um fullveldi íslenska lýðveldisins? Er verið að selja Ísland? Er hér verið að framselja vald frá löggjafarsamkomunni? Er verið að framselja land frá ríkisstjórninni? Er verið að framselja vald frá dómstólum? Er þetta upphafið að endalokum Íslands? Er eitthvað hæft í því sem t.d. hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson, fyrrv. menntmrh., mun hafa sagt í kosningabaráttunni að seinustu kosningar væru sennilega þær seinustu sem fram færu í sjálfstæðu lýðveldi áður en valdið færðist til Brussel svo að ég haldi nú til haga svona skemmtilegum málflutningi úr kosningabaráttunni?
    Staðreyndirnar í þessu máli eru þessar: Það er ekki verið að framselja vald frá Alþingi Íslendinga. Löggjafarvald Alþingis Íslendinga er óskert þótt þessir samningar taki gildi. Í annan stað: Það er ekki verið að framselja vald frá ríkisstjórn Íslands í hendur neinu yfirþjóðlegu valdi. Og í þriðja lagi: Dómstóllinn sem nú hefur náðst samkomulag um verður mun fyrirferðarminni og valdaminni heldur en upphaflega var ráð fyrir gert af hálfu EFTA - landanna og við reyndar óskuðum eftir og hann er ekki hæstiréttur Íslands og kemur ekki í stað Hæstaréttar.
    Til þess að taka nú af öll tvímæli um þetta vil ég leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa rækilega þann kafla skýrslu utanrrh. fyrrv. ríkisstjórnar, sem lögð var hér fyrir Alþingi og fékkst ekki rædd hér vegna málþófs, um þennan kjarna málsins. Þetta hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Markmiðið með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er að koma á einum innri markaði allra EFTA - ríkjanna og EB sem byggir á sömu eða samræmdum reglum um allt svæðið. Innan Evrópubandalagsins eru ákvarðanir um nýjar reglur í mörgum tilvikum teknar með meirihlutaákvörðunum sem hafa bein réttaráhrif í aðildarríkjunum. Ákvarðanir innan EFTA eru teknar með samhljóða samþykki allra aðildarríkja þess. Innan Evrópska efnahagssvæðisins verða ákvarðanir einnig teknar samhljóða. Reglurnar fá því ekki bein réttaráhrif, þ.e. þær gilda ekki gagnvart einstaklingum nema þjóðþingin hafi lögfest þær eða veitt stjórnvöldum heimild til að setja reglurnar, t.d. með reglugerðum.
    Samræmd framkvæmd og túlkun á EES - reglunum í öllum aðildarríkjunum er forsenda þess að markmiðum samningsins verði náð. Ljóst er að samningsaðili sem samið hefur um að beita sameiginlegum reglum í samskiptum við aðra samningsaðila getur ekki einn ráðið ferðinni við túlkun reglnanna. Sameiginlegar stofnanir samningsaðila eru óhjákvæmilegar til eftirlits. Ef samið verður um sameiginlegar samkeppnisreglur sem gilda í viðskiptum á milli einstaklinga og fyrirtækja yfir landamæri ríkja beinist eftirlitið að viðskiptaaðilunum sjálfum. Í samningaviðræðum um sjálfstætt eftirlit með sameiginlegum samkeppnisreglum hafa EFTA - ríkin gengið út frá því að ákvörðunum eftirlitsstofnunar, sem beinist að einstaklingi eða fyrirtæki sem gerst hefur brotlegt, verði ekki hægt að fullnægja nema fyrir atbeina þar til bærra stjórnvalda í aðildarríkjunum.``
    Þetta svarar spurningum manna t.d. sem spurðu um eftirlitsstofnunina. Er hún eitthvert framsal á valdi? Af því að það er komist þannig að orði að eftirlitsstofnunin eigi að hafa sambærilegt vald á þessu sviði, þ.e. til eftirlits með samningnum, eins og framkvæmdastjórnin hjá EB. Við erum hér að tala um tveggja stoða lausn. EFTA - ríkin setja upp sérstaka eftirlitsstofnun til þess að hafa eftirlit með framkvæmd á milliríkjasamningi sem við gerum en ekkert sem sú eftirlitsstofnun gerir getur orðið gilt gagnvart þolendum nema með ákvörðunum innlendra stjórnvalda. Hver er að tala um framsal á valdi? Hér er ekkert framsal á valdi. Þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulagið og við gerðum tillögu um af hálfu EFTA - ríkjanna í tíð fyrrv. ríkisstjórnar á Íslandi og nú hefur tekist samkomulag um og ég hélt að menn mundu bara fagna því sem höfðu sett þessar óskir fram.
    Um dómstól. ,,Ekki hefur enn verið samið um hlutverk EES-dómstóls. EFTA - ríkin hafa sóst eftir að komið verði á forúrskurðarkerfi sem gerir ráð fyrir að dómstólar í aðildarríkjunum fái úrskurð EES - dómstólsins um álitamál um túlkun á EES - reglunum. Innan EB er dómstólum í aðildarríkjunum skylt að fara eftir slíkum úrskurðum en landsdómstólarnir ákveða sjálfir hvort reglunum verði beitt um málsatvik í málinu.``
    Nú er því við að bæta að það náðist ekki samkomulag um forúrskurði þannig að verksvið dómstólsins verður takmarkaðra og minna. Og það þýðir að áhrif innlendra dómstóla verða sem því svarar meiri.
    Síðan segir hér, virðulegi forseti, með leyfi:
    ,,Forúrskurðirnir fjalla um túlkun á þjóðarréttarskuldbindingum innan EES en samkvæmt íslenskum rétti ber að túlka íslensk lög í samræmi við þjóðarréttarskuldbindingar. EES - dómstóllinn yrði ekki æðri dómstólum í aðildarríkjunum. Forúrskurðarkerfið byggir hins vegar á samstarfi EES - dómstólsins og landsdómstóla. Fari landsdómstóll ekki eftir túlkun EES - dómstólsins í málinu, þá gildir niðurstaða landsdómstólsins gagnvart aðilum málsins.`` Þannig er það jafnvel þótt forúrskurðarkerfið væri í gildi, hvað þá heldur þegar það er ekki.
    Það eru mörg fordæmi fyrir því að við höfum gert alþjóðasamninga sem skuldbinda okkur til þess að hlíta einhvers konar gerðardómi eða alþjóðlegum dómstóli. Frægust dæmi um það eru að sjálfsögðu mannréttindadómstóllinn í Evrópu og annar slíkur dómstóll er á vegum Vinnumálastofnunarinnar í Genf. Hverjir eru það sem hafa helst mátt þola það að vera kærðir til dómstóla út fyrir landsteinana? Það er t.d. fyrrv. hæstv. fjmrh. og fyrrv. hæstv. forsrh. og sá sem hér stendur, sem aðili að ríkisstjórn, sem launþegasamtökin á Íslandi hafa kært tvívegis til alþjóðlegra dómstóla og notið þar með þess réttar síns að geta gert það samkvæmt alþjóðasamþykktum sem við höfum

gert og samkvæmt þeirri reglu í íslenskum rétti að það beri að túlka íslensk lög í samræmi við alþjóðaskuldbindingar. Hér er verið að tala um mannréttindi, alþjóðasamninga og gerðardómsákvæði um erlenda dómstóla. Höfum við verið að afsala okkur fullveldi okkar með þessu? Menn geta lengi sett á tölur um einhverjar skerðingar á fullveldi. En staðreyndin er nú sú að það eru einkum þeir sem hafa verið í forsvari fyrir verkalýðshreyfinguna á Íslandi sem hafa neytt þessara ákvæða í samskiptum sínum við ríkisvaldið á Íslandi. Eru menn eitthvað að kvarta undan þessu? Ekki kvarta ég undan því. Samningar sem við höfum gert í þessu eru fleiri, m.a. innan Norðurlandasamstarfsins.
    Þetta er kjarni málsins. Það er ekkert valdaframsal, ekki frá Alþingi, ekki frá ríkisstjórn og ekki að því er varðar dómsmálin, umfram það sem við höfum gert í mörgum tilvikum áður og enginn hefur lýst því yfir þá að það væri upphafið að endalokum íslensks sjálfstæðis.
Menn eiga að hætta þessu tali. Það er búið að fara svo rækilega yfir þetta. Hver er munurinn annars vegar á Evrópubandalaginu, valdaframsalinu sem þar er staðreynd og yfirþjóðlegum stofnunum þess og --- svo ég vitni aftur í frægan sjónvarpsþátt --- það komst ekki hnífurinn á milli mín og hv. þm., fyrrv. forsrh., Steingríms Hermannssonar og hv. þm., fyrrv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar þegar við vorum að túlka þetta fyrir bæði stjórnanda þáttarins og reyndar nafngreindum lögfræðingi uppi í Háskóla Íslands sem ég hafði um ákveðin orð en ætla ekki að endurtaka hér og nú. Við vorum alveg sammála um þetta. Það hefur ekkert breyst. (Gripið fram í.) Og hvað hefur hann sagt? Það var rangt með það farið að hann hefði lýst þessari yfirlýsingu á þann veg að hún fæli í sér fullveldisafsal eða valdaafsal. Hann notaði að vísu orðið yfirþjóðlegt eins og hann gerði í sjónvarpsþætti sem hæstv. fyrrv. fjmrh., hæstv. fyrrv. forsrh. og sá sem hér stendur, leiðréttu í þessum þætti. Sá túlkunarágreiningur er enn sá hinn sami. Ég spyr: Er hæstv. fjmrh. nú orðinn sammála fyrrum kollega sínum uppi í Háskóla og ósammála sjálfum sér? Um það er spurningin. ( ÓRG: Er utanrrh. ósammála Gro Harlem Brundtland?) Það hefur gerst að sá sem hér stendur væri stundum ósammála norrænum toppkrötum, já þegar þeir hafa haft rangt fyrir sér þá er ég ósammála þeim.
    Þetta eru aðalatriði málsins að því er varðar allt tal um valdaframsal og endalok fullveldis og það allt saman. Menn eiga ekki að gera sér leik að því að vera með slíkt tal þegar það stenst ekki og menn eiga ekki að hlaupa frá skoðunum sínum og sannfæringu eins og hún var þegar þeir áttu aðild að ríkisstjórn, þótt sú breyting hafi orðið á. Þetta er miklu mikilvægara mál en svo að menn eigi að gera sér það að pólitískum leik eða gera það að bitbeini eða reyna að sá fræjum tortryggni og úlfúðar að óþörfu. Um þetta mál eigum við að reyna að ná samstöðu vegna þess að þetta á að vera hafið yfir flokkadrætti.
    Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Reykn. Steingrímur Hermannsson byrjaði ræðu sína á því að rekja þá fyrirvara sem við upphaflega settum varðandi aðildina að samningaviðræðunum með EFTA - ríkjunum um myndun þessa Evrópska efnahagssvæðis. Ég vil af því tilefni árétta það að þeim fyrirvörum hefur öllum verið til skila haldið. Það á við um sjávarútveginn, rétt útlendinga til fjárfestinga í sjávarútvegi, það er óheimilt. Það á við um það að synja um aðgengi að auðlindinni fyrir aðgengi að markaði. Það á við um orkulindirnar. Það á við um búsetu- og atvinnurétt og það getur líka vissulega átt við með almenna öryggisákvæðinu um rétt útlendinga til fasteignakaupa, þar á meðal lóða og lendna, ef við sinnum skyldum okkar hér heima fyrir.
    Þá vil ég taka tvö mál sem þeir sem vilja gera þetta mál tortryggilegt hafa einkum staldrað við. Það varðar annars vegar jarðakaup og hins vegar eignarhald á orkulindunum. Ég vil minna á það, virðulegi forseti, að því er varðar þetta mál að til umfjöllunar var á seinasta þingi þmfrv. sem m.a. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson átti mikinn hlut að. Við umfjöllun þess í Alþingi í hv. iðnn., en þar var hann formaður, sendi hæstv. þáv. iðnrh. formanni nefndarinnar bréf um þessi mál sem segir allt sem segja þarf um þau. Þetta bréf vil ég gjarnan fá að lesa, með leyfi forseta. Það hljóðar svo:
    ,,Í samningum um myndun Evrópsks efnahagssvæðis hefur, eins og kunnugt er, mikið verið rætt um frjálsan aðgang allra íbúa væntanlegs svæðis að náttúruauðlindum, þar með talið orkulindum, og til fjárfestinga í fasteignum. Allar EFTA - þjóðirnar gerðu ýmsa fyrirvara um að samningar næðu til þessa sviðs, en eins og samningaviðræðurnar standa nú er gert ráð fyrir ákveðnum varnaglaákvæðum er koma í stað varanlegra fyrirvara.
    Íslendingar gerðu í upphafi fyrirvara um að þeir vildu ekki samþykkja beinar fjárfestingar erlendra aðila í fiskveiðum eða fiskvinnslu, á sviði orkumála og í fasteignum almennt. Eins og mál standa nú er fjárfestingu í fiskveiðum og vinnslu haldið utan við samningaviðræðurnar meðan ekki fæst niðurstaða í sjávarútvegsmálin.`` Það er enn óbreytt. ,,Fulltrúar EB hafa lýst því yfir að fyrirvarar varðandi orkuvinnslu og orkudreifingu séu óþarfir meðan sú grein þjóðarbúskaparins sé í höndum opinberra einokunarfyrirtækja, enda sé borgurum væntanlegs EES - svæðis ekki mismunað að því leyti sem hvorki íslenskir né erlendir borgarar séu frjálsir að því að setja upp orkuvinnslu - eða orkudreifingarfyrirtæki á Íslandi. Þá er ljóst að ef samið verður um aukið frelsi til atvinnu og búferlaflutninga fólks innan EES verða Íslendingar að slaka á þeim takmörkunum sem í dag gilda um kaup erlendra aðila á fasteignum til búsetu og atvinnurekstrar hér á landi, a.m.k. að því er varðar EES - borgara. Unnið er að samningu varnaglaákvæðis sem komið geti í stað fyrirvara en svo virðist sem sumar EFTA - þjóðir muni einnig setja ákvæði í lög fyrir gildistöku samningsins er tryggi betur yfirráð íbúa viðkomandi ríkis yfir náttúruauðlindum landsins án þess að ákvæðin milli innlendra og erlendra aðila mismuni í sjálfu sér. Þetta hyggjast menn gera með því t.d. að

setja nokkurra ára búsetu sem skilyrði fyrir kaupum á bújörðum og e.t.v. fleiri skilyrði um notkun þeirra sem gilda eiga almennt án tillits til ríkisfangs eiganda. Slíkt skilyrði í írskri jarðalöggjöf hefur verið dæmt löglegt samkvæmt dómi dómstóls Evrópubandalagsins í Lúxemborg.``
    Virðulegi forseti. Ég vil hér staldra sérstaklega við það að hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon játaði það upp á sig hér úr þessum ræðustól að hann hefði að engu haft tilmæli frá aðalsamningamanni og utanrrh. í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar um að fara að dæmi Íra og að fara að okkar beiðni um það að koma fram með lagafrv. í tæka tíð sem herti á þessum ákvæðum til þess að tryggja það markmið sem þeir töluðu svo fagurlega um að þeir vildu tryggja í kosningabaráttunni. Þetta kalla ég bara vanrækslu, hv. þm.
    Með leyfi forseta, ,,Þá hyggjast menn ganga tryggilega frá eignarhaldi hins opinbera á náttúruauðlindum þar sem um það er að ræða. Það er með hliðsjón af þessu að samningamenn Íslendinga hafa lagt til að í fyrsta lagi verði sett í jarðalögin ákvæði er takmarki möguleika erlendra borgara með búsetuhöfnun til þess að kaupa jarðir hér á landi með þeim hlunnindum sem þeim geta fylgt, svo sem orkulindum, veiði og vatnsuppsprettum.
    Í öðru lagi leggja þeir til að tryggilega verði gengið frá löggjöf er afmarki eignarráð yfir orkulindum milli einstakra einkaaðila annars vegar og hins opinbera hins vegar.
    Í þriðja lagi leggja þeir til að þetta verði gert áður en til hugsanlegrar þátttöku Íslendinga í EES komi en setning löggjafar síðar á þessum sviðum getur kallað á tímafrekar skýringar gagnvart öðrum EES - þjóðum og vangaveltur þeirra um það hvort verið sé með nýrri löggjöf að mismuna borgurum þeirra annars vegar og íslenskum borgurum hins vegar. Það var m.a. með hliðsjón af þessu að iðnrn. gerði tillögur um breytingar á þmfrv. um orkulindir á þann hátt er líklegast virðist að ná mundi fram að ganga, þ.e. að lághiti fylgi einkaeignarrétti á landi en háhiti sé eign ríkisins. Um leið var talið rétt að setja ótvíræð ákvæði um eignarrétt á öðrum orkuauðlindum, svo sem vatnsföllum á almenningum á afréttum og á olíu og jarðgasi sem kynni að finnast djúpt í jörðu. Sá kostur var valinn að leggja til breytingar á þmfrv. í stað þess að láta semja nýtt stjfrv. svipaðs efnis, bæði vegna þess að þar var þegar stofn að málinu og þess að með því móti virtist líklegra að málið næði fram að ganga. Ljóst er að ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um eignarrétt á landi og landgæðum og myndun slíks eignarréttar hér á landi, en það er athyglisvert að sökum skorts á skýrum lagaákvæðum er enn verið að móta eignarréttinn með venjurétti hér á landi andstætt því sem er í nágrannalöndum þar sem skýr ákvæði hafa lengi verið í lögum. Löggjafinn þarf að taka af skarið í þessu efni.``
    Þetta er orðsending frá iðnrh. til m.a. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, formanns iðnn., og sams konar erindi að sjálfsögðu til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem þá gegndi embætti landbrh.
    Þessir menn tala mikið um það að verið sé að selja Ísland. Þessir menn fara með sögur um það að nú eigi að selja hlunnindajarðir, gersemar og náttúruperlur. Ég vefengi ekki og hef enga ástæðu til þess að vefengja góðan hug hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í þessu máli. Ég veit ekki betur en hann sé sammála okkur í þessu. En það voru aðrir, ef ég er rétt upplýstur, sem komu í veg fyrir það að þetta væri gert. En hverjar eru skýringar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar kemur að því að hafa öruggar varnir um Aðaldalinn og aðrar þingeyskar perlur? Hann gerði ekki neitt. Hann gerði ekki neitt, vanrækti málið. Tilmælin komu til hans fyrir áramót og það eru bara útúrsnúningar og umsnúning á öllu málinu að skorast undan þessari skyldu sinni. Ég tek ekki mark á þeim sem tala hátt í nafni þjóðrækni og föðurlandsástar og bregða öðrum mönnum um að sitja á svikráðum í sjálfstæðismálum Íslendinga en sinna svo ekki skyldum sínum.
    Þetta svarar því, virðulegi forseti, sem varðar bæði spurninguna um fullveldi, sjálfstæðismálin og þetta sem reynt hefur verið að gera hvað mest tortryggilegt í samskiptum við erlenda aðila í þessum samningum.
    Að því er varðar ávinning af þessum samningi, þá kom það fram í máli hv. þm. Steingríms Hermannssonar að hann hefði efasemdir um að hann væri eins mikill og menn hafa viljað vera láta. Ég tek fullt mark á því að menn geta haft mismunandi mat á því hvað tollaniðurfellingin skilar sér að lokum. Það fer eftir markaðsaðstæðum. Það er ósköp einfaldlega svo. En ég er ekki sammála hv. þm. þegar hann telur ofmetið hvað þessi tollaniðurfelling, þ.e. tollfrjáls aðgangur fyrir fullunnar fiskafurðir, þar á meðal flök eða aðrar neysluvörur tilbúnar til neyslu fyrir neytendur, muni þýða fyrir íslenska fiskvinnslu. Ég er alveg sannfærður um það eftir viðræður við sérfróða menn og starfandi menn í þeim atvinnurekstri að það gæti skipt sköpum um verðmætaaukningu, framleiðni, samkeppnishæfni og reyndar þar með virðisauka þeirrar greinar og þar með lífskjör þjóðarinnar.
    Það vill svo til, virðulegi forseti, að margar stofnanir hafa verið kvaddar til til þess að meta hagsmuni okkar Íslendinga í þessu máli, leggja á hagsmunamat, meta hver ávinningurinn er. Ég hef áður gert rækilega grein fyrir því á hinu háa Alþingi og skal ekki endurtaka það. Það hefur gert Þjóðhagsstofnun, það hefur gert Seðlabanki, það hefur gert Byggðastofnun og fleiri stofnanir fyrir utan samtök atvinnuveganna. Öllum ber þeim saman um að vinningsvonin sé veruleg og fórnarkostnaðurinn mikill ef við yrðum viðskila við Evrópu í þeim skilningi, ef við næðum ekki ávinningnum sem í því er fólginn að fá fyrir íslenskt atvinnulíf tollfrjálsan aðgang að innri markaðnum. Fáir aðilar eru jafnbjartsýnir í mati sínu á hinum jákvæða árangri og fjmrn. En fjmrn. gaf út skýrslu, Evrópa 1992 og ríkisfjármálin, rit nr. 3/1991, apríl 1991. Sennilega kom það ekki út fyrir kosningar, ég veit það ekki, en í þessari skýrslu er helstu niðurstöðum lýst þannig:
    ,,Heildaráhrifin eru jákvæð. Aðlögunin er óhjákvæmileg. Aðlögun skattkerfisins er hafin`` --- og þar er því lýst með miklum bjartsýnistón hvernig við ætlum að vinna að þessari aðlögun og hvernig næstu skref verða stigin. --- ,,Ríkisútgjöldin lækka. Agaðri hagstjórn gerir auknar kröfur til ríkisfjármála. Nauðsyn jafnvægis í þjóðarbúskapnum er mottóið.`` En það þyrfti ekki að lesa nema aðeins inngangskaflana. Ég hef hvergi nokkurs staðar séð jafnbjartsýnt en jafnrökstutt mat og hjá hæstv. fyrrv. fjmrh. og hann hefur greinilega lagt sig fram um það að koma þessu í verk fyrir kosningar. Hér segir t.d., með leyfi forseta:
    ,,Margt bendir til þess að aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópska markaðnum muni hafa jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Áhrifin koma fram í auknum tekjum vegna meiri umsvifa í efnahagslífinu og sparnaði í ríkisútgjöldum. Þessi áhrif gætu mælst á bilinu 4 -- 6 milljarðar kr.`` Það munar nú um það. ( Fjmrh.: Það eru líka peningar.) Það eru líka peningar þegar upp er staðið eða sem svarar 1 -- 1 1 / 2 % af landsframleiðslu.
    Að því er varðar hvernig ríkisútgjöldin lækka, þá segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þegar á heildina er litið gæti aðlögun að evrópska markaðnum dregið úr útgjöldum ríkissjóðs enda þótt kostnaður aukist á ýmsum sviðum. Heildaráhrifin gætu legið á bilinu 1 -- 2 1 / 2 milljarðar kr. Þessi áhrif eru þó afar óviss. Sparnaðurinn kemur einkum fram í auknu aðhaldi að ríkisstyrkjum til atvinnuvega, einkum ívilnunum á sviði skattamála og lánafyrirgreiðslu. Aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur`` takið þið nú eftir, hæstv. fyrrv. landbrh., ,,aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur og meiri hagkvæmni í búrekstri gæti einnig skilað sér í lægra búvöruverði og þannig dregið úr þörf fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Þá er líklegt að vextir lækki þegar fram í sækir vegna áhrifa innri markaðarins. Opnun íslenska fjármagnsmarkaðarins mun hafa sömu áhrif.`` Amen.
    Hæstv. fyrrv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, er útgefandi og ábyrgðarmaður að þessu gagnmerka riti. Ég geri ráð fyrir því að því hafi verið dreift á þingflokksfundi í Alþb. ( ÓRG: Nei.) Nei. Þá legg ég til að það verði eindregið auglýst eftir því.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði réttilega að það væri okkur mjög mikilvægt mál ef hægt væri að hafa vit fyrir Evrópubandalaginu eða koma þeim til þess með góðu eða illu að draga úr styrkjakerfi sínu í sjávarútvegi. Um það erum við sammála eins og flest annað í þessum málum. Af þessu tilefni vil ég sérstaklega vekja athygli hans og þingheims á skýrslu frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins til ráðherraráðsins og til Evrópuþingsins, sem er dags. 6. des. árið 1990. Þar segir svo í lykilkaflanum um sjávarútvegsmálin og um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu bandalagsins en á henni byggjast þessir ríkisstyrkir, með leyfi forseta:
    ,,Enda þótt Efnahagsbandalagið hafi með árangri brugðist við þeirri pólitísku og efnahagslegu ögrun sem falin var í útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur frá grunnlínum, en nú er svo komið að 95% af

fiskstofnum veraldar eru innan 200 mílna lögsögu strandríkja, þá er svo komið nú að réttmætar óskir strandríkja um að efla fiskveiðar úr eigin fiskstofnum á eigin fiskveiðiflotum mun knýja bandalagið til þess að endurskoða ríkjandi stefnu sem krefst aðgangs að auðlindum slíkra landa.``
    Þetta er það sem sérfræðinganefnd framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins leggur fram og mælir með við það ráðherraráð Evrópubandalagsins sem innan nokkurra vikna á að taka ákvörðun um það hvort Evrópubandalagið ætlar að halda til streitu þessari úreltu og misheppnuðu stefnu. Ég vil gleðja hv. þm. Steingrím Hermannsson með því að ég hafði þessa skýrslu auðvitað í farteskinu og las hana kvölds og morgna yfir fulltrúum Evrópubandalagsins í þessu samningamakki sem stóð þarna í 14 eða 15 klukkutíma, sérstaklega yfir Spánverjum og sérstaklega yfir fulltrúum í framkvæmdastjórninni. ( Gripið fram í: Var það á íslensku sem hún var lesin?) Nei, nei, hún var lesin á því máli sem þeir skilja og því máli sem hún var skrifuð á. Í þessari skýrslu eru birtir listar yfir alla samstarfssamninga sem Evrópubandalagið hefur um fiskveiðimálefni við allar þjóðir í heiminum og þar kemur á daginn og er staðfest að eftir að Kanadamenn sögðu upp samningi sínum við Evrópubandalagið árið 1987, en sá samningur byggðist á að Evrópubandalagið veitti tollaívilnanir fyrir aðgang að kanadísku fiskveiðilögsögunni, af því varð mjög slæm reynsla og þeir sögðu honum upp, hefur Evrópubandalagið ekki náð einum einasta samningi við eitt einasta ríki á þessum grundvelli. Og þegar farið er yfir listann yfir alla þessa samninga, þá kemur á daginn að það er enginn slíkur samningur í gildi. Í öllum tilvikum í samningum þeirra við strandríki þriðja heimsins er um að ræða kaup á veiðiheimildum sem þeir greiða fullu markaðsverði. Það eru örfá dæmi um samninga sem eru nokkru eldri þar sem þeir semja um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Með öðrum orðum, það liggur ljóst fyrir, sérfræðinganefnd segir: Þessi stefna er strand. Sérfræðinganefnd segir: Á grundvelli þessarar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins hefur enginn samningsárangur náðst og þeir mæla með því að frá þessari stefnu verði gengið.
Það eru ekki bara við sem mælum með því, þeir mæla með því sjálfir. Ég er reyndar alveg sannfærður um það að það er spurning um hvenær en ekki hvort þeir muni falla frá þessari stefnu. ( Gripið fram í: Hvað taka þeir upp? Hvaða stefnu?) Því get ég ekki svarað á þessari stundu, eðlilega ekki. En kannski þeir gætu gengið nokkuð í smiðju til okkar um það. (Gripið fram í.) Þetta eru mjög veigamikil rök í okkar máli og efla mjög sannfæringu mína fyrir því að það komi aldrei til greina að veita Evrópubandalaginu aðgang að okkar fiskveiðum og hvort sem það tekst í þetta skiptið eða ekki, að ná samningum þrátt fyrir þá stefnu, þá er ég sannfærður um það að á grundvelli þeirrar stefnu munum við ná góðum samningsárangri um það er lýkur.
    Virðulegi forseti. Að öðru leyti var spurt um margt

í þessari sameiginlegu yfirlýsingu sem ég get farið fljótt yfir sögu. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson spurði: Er hér um að ræða að við eigum að sætta okkur við að því er varðar staðla og kröfur, heilbrigðiskröfur, umhverfi o.s.frv., eigum við að beygja okkur undir lægri kröfur Evrópubandalagsins? Svarið er nei. Við eigum ekki að gera það. Þarna eru tímabundin ákvæðin. Báðir aðilar hafa á sumum sviðum hærri kröfur, strangari kröfur, á öðrum sviðum lægri kröfur. Í rauninni er þetta að færast saman þannig að við höfum ekkert skuldbundið okkur að taka upp þeirra lægri kröfur og að sumu leyti er það ljóst að EB er að taka upp strangari kröfur EFTA - ríkjanna, sérstaklega varðandi umhverfismál og heilbrigðismál.
    Hvað um vinnuverndarmál? Eigum við þar að sætta okkur við lægri kröfur þeirra? Sannleikurinn mun vera sá, t.d. að mati Alþýðusambands Íslands, að kröfur þeirra eru talsvert strangari en okkar, sérstaklega á sviði vinnuverndar, sérstaklega að því er varðar vinnuumhverfi, vinnustaði, öryggi á vinnustöðum. Eigum við t.d. að sætta okkur við félagsmálastefnu þeirra? Það er dálítið merkilegt að félagsmálastefnan er út af fyrir sig ekki á samningssviðinu, hún varðar ekki fjórfrelsið. Við erum hins vegar að leita eftir því á sviði IV um samstarfsverkefni að fá fulla aðild að þessari félagsmálastefnu, ,,cohesion policy``. Við höfðum hins vegar sett á þetta almennan fyrirvara svona út af samningatæknilegum ástæðum, sem við nú höfum tekið til baka, að eindreginni kröfu Alþýðusambands Íslands og BSRB sem telja að við höfum gert okkur seka um þá vanrækslu í könnunar - og undirbúningsviðræðunum að gera ekki fyrr kröfur um aðgang að félagsmálastefnu Evrópubandalagsins vegna þess að hún sé mun lengra á veg komin út frá sjónarmiðum launþegasamtakanna heldur en okkar eigin.
    Hvað er að segja um tryggingar á fjármagnssviðinu? Þar er að því er varðar þrjá þætti máls um að ræða tímabundna aðlögun sem viðkomandi aðilar hér telja fullnægjandi, þ.e. þessa dularfullu útvarpstilskipan. Hún mun vera um siðareglur útvarpsstöðva, svona til þess að hvert ríki fyrir sig geti ekki stöðvað útsendingu á einhverju útvarpsefni ef viðkomandi aðilum þykir umrætt efni ekki siðlegt. (Gripið fram í.) Já, hún er um siðfræði.
    Hvað er að segja um þennan lista um landbúnaðarvörurnar 1972? Hæstv. landbrh. hefur þegar gert grein fyrir því.
    Hvað um hugsanlega tilslökun að því er varðar innflutning á dýrum og jurtum, þ.e. tilslökun á heilbrigðisreglugerðum á því sviði? Þar höfum við gert alveg rækilega grein fyrir því af sérstökum ástæðum, vegna einangrunar, að slíkt komi ekki til greina af Íslands hálfu.
    Síðan var spurt um meðferð eiturefna, kadmíums. Eins og fram kemur er þar um að ræða tímabundið ákvæði auk þess sem upplýsingar liggja fyrir um það, sérstaklega í Evrópubandalaginu, að það er stefnt að því að stöðva notkun þessa efnis, draga stórlega úr því og jafnvel afnema það með öllu nema í sérstökum undantekningartilvikum. Og síðan er spurningin:

Getur það hugsast samkvæmt þessari yfirlýsingu að Evrópubandalagið fái rétt til þess að setja eigin reglur sem við fáum síðan ekkert um að segja? Svarið við því er augljóslega nei. Samkvæmt öllum vinnubrögðum og stofnanareglum er slíkt ekki á dagskrá.
    Mér þykir leitt að þurfa að segja það að því er varðar þær upplýsingar sem fram komu í ræðu hv. 15. þm. Reykv. Kristínar Einarsdóttur að ég veit ekki hvaðan þær upplýsingar eru komnar. Ef ég skildi hv. þm. rétt, þá fullyrti hún að þessi sameiginlega yfirlýsing fæli í sér bæði framsal á löggjafarvaldi og dómsvaldi. Það er bara ekki rétt. Því var haldið fram að við værum í þessum samningum komnir hálfa leið inn í Evrópubandalagið en án þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku þess. Ég hef ekki heyrt rökin fyrir því að við séum komnir hálfa leið inn í Evrópubandalagið. Þetta kemur Evrópubandalaginu ekkert við. Við erum að gera samning við Evrópubandalagið, við erum fullvalda ríki og það er í okkar valdi að ákveða hvort við ætlum að sækja þar um aðild, sem enginn stjórnmálaflokkur hefur á sinni stefnuskrá, eða hvort við látum það ógert.
    Því var haldið fram af hv. þm. að þessir samningar fælu það í sér að við værum með þeim að einangra okkur frá öðrum þjóðum og öðrum heimshlutum. Þetta væri rétt ef við værum að ganga inn í eitthvert tollabandalag með tollmúrum, en við erum ekkert að því. Þetta er ekkert tollabandalag. Þetta eru fríverslunarsamtök og gera milliríkjasamning. Við erum alveg sjálfráð um okkar ytri tolla og samskipti við öll önnur ríki í heiminum að því er varðar viðskipti, þannig að þetta er einfaldlega einhver misskilningur.
    Hv. þm. hélt því fram að ég sem utanrrh. hefði ekkert gert með þá fyrirvara sem fram komu í upphafsræðu hæstv. fyrrv. forsrh. Steingríms Hermannssonar. Það er alrangt. Ég hef lagt mig allan fram um það í þessu starfi allan tímann að halda þessum fyrirvörum mjög rækilega til skila og tel mig hafa gert það með góðum árangri.
    Hv. þm. talaði um að þetta væri visst yfirþjóðlegt vald. Hvaða yfirþjóðlega vald með leyfi? Mætti ég fá að heyra rökin fyrir því? (Gripið fram í.) Lið 7 í samkomulaginu, já. (Gripið fram í.) Bls. 7 í samkomulaginu, í hvaða grein með leyfi? ( Gripið fram í: Það er bls. 3, grein 7.) Hér er verið að vitna í 7. gr. sem er á vörusviðinu og fjallar um reglur og staðla þar sem aðilar eru sammála um það að halda uppi háum kröfum að því er varðar t.d. heilbrigðismál, öryggismál og umhverfismál. Því næst er verið að rekja hér að menn ætli að halda sig við hæstu staðla í heimi að því er varðar vélknúin ökutæki, bíla, og eru skuldbundnir að því árið 1995 að standa þá við þá staðla sem EB hefur sett sem eru þeir ströngustu í heimi að því er varðar kröfur gegn mengunarvörnum. Er þetta yfirþjóðlegt vald?
    Hv. 8. þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson vék fyrst að fyrirvörunum og sagði að þar hefði hv. þm. Steingrímur Hermannsson út af fyrir sig talað máli þeirra alþýðubandalagsmanna þannig að ég hef þegar svarað því hvernig þeim fyrirvörum er til skila haldið og þar með talið fyrirvörum að því er varðar landareignir. Þar þurfum við einfaldlega að gera það sem við óskuðum eftir að landbrn. gerði þegar á síðasta ári og það er að styrkja varnaglaákvæðið með breytingum á innlendri löggjöf og kröfum.
    Að því er varðar meint fullveldisafsal þá gekk hv. þm. ekki lengra en svo að hann vitnaði í aðra menn og sagði að að því er virtist héldu þeir þessu fram. En þeir héldu ekki fram neinu um fullveldisafsal og ekki um valdaframsal og ekki um stjórnarskrárbrot. Hins vegar mun einn þeirra, hv. prófessor Gunnar G. Schram, hafa talað um að sér sýndist að reglan um eftirlitsstofnunina væri þannig að hún hefði styrkt eftirlitsstofnunina og gæti þar af leiðandi falið í sér yfirþjóðlegt vald sem að vísu er misskilningur.
    Ég hef ekkert að athuga við það að hv. utanrmn., sem ég hef haft alla tíð í þessu máli mjög gott samstarf við og hefur að sjálfsögðu allar upplýsingar um þetta mál, mér er sagt að umræður hafi aldrei verið jafnmiklar og ítarlegar um nokkurt mál eins og í utanrmn. um þetta mál, ég hef engar athugasemdir að gera við það að hún leiti til allra sérfræðinga, innlendra og erlendra, til þess að fara ofan í saumana á þessum málum.
    Hitt kom mér kannski dálítið á óvart, sú þversögn að annars vegar hélt hv. þm. því fram að hér hefðu orðið hin skuggalegustu tíðindi, það hefði verið horfið að einhverju leyti frá stefnu fyrrv. ríkisstjórnar og nú væri greinilega komin einhver allt önnur stefna og mun hættulegri, sem er misskilningur, en jafnframt hefði ekkert gerst á þessum fundi, þetta hefði verið alveg tíðindalaus fundur, ekkert gerst, skipti engu máli. Og þrátt fyrir allar skálaræðurnar og öll ferðalög fyrrv. utanrrh. hefði bara ekkert gerst. ( Gripið fram í: Um fiskinn?) Já, um fiskinn. En það var að vísu ekki bara um fiskinn. Þetta átti bara að hafa verið tíðindalaus fundur. En um fiskinn er það að segja, 15. gr., það er alveg rétt, það var ekki hægt að gera mikið við fiskinn, hv. þm., vegna þess að ég hef enn ekki fengið neitt tilboð, ekki fengið neitt samningstilboð. Það stendur ekki á mér, ég hef verið að reyna að knýja það fram að fá samningstilboð frá Evrópubandalaginu, en það er bara ókomið enn vegna innri ágreinings Evrópubandalagsins. ( GHelg: Trúir ráðherrann að tilboð komi?) Já, ég trúi því.
    En að því er það varðar hvernig menn vilja túlka 15. gr. þá er auðvitað ekkert við það að athuga að forseti ráðherraráðs Evrópubandalagsins hugsanlega túlki það á einhvern annan veg heldur en ég geri. Málið er hins vegar það að þessi texti er kominn frá EFTA - löndunum og þessi texti er sú formúla sem Íslendingar hafa verið að berjast við að fá viðurkennda sem formúlu fyrir lausn á þessu sjávarútvegsmáli núna í hálft annað ár. Og það er staðreynd að sjónarmið Evrópubandalagsins, sem voru þau að hafna þessu og segja í staðinn: Við eigum bara að leysa þetta grein fyrir grein, landbúnaðinn innbyrðis og sjávarútveginn innbyrðis, þau sjónarmið urðu að víkja og um það varð samkomulag. Ég hef ekkert hreykt mér sérstaklega af því. Ég hef bara sagt: Þetta styrkir stöðu okkar.
    Að því er það varðar sem sá sem hér stendur hefur sagt og stendur við að einstaka þjóðarleiðtogar Evrópubandalagsins meti þetta mál allt saman í víðara samhengi og í ljósi mats þeirra á framtíðaröryggishagsmunum Evrópu, þá er margt um það að segja, en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók bara af mér ómakið. Hann minnti á að sá sem hér stendur hefur nú haldið þessu fram í mörg, mörg ár og það er ekkert nýtt fyrir mér. Og því til viðbótar, ég lét þessi sjónarmið koma mjög vel fram í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og ég man ekki eftir því að hafa fengið nokkra athugasemd frá vinum mínum og samstarfsaðilum í Alþb. af því tilefni. ( HG: Þú skrifaðir ekkert um það.) Í tíð fyrrv. ríkisstjórnar? Ég held að það sé ekki rétt. Ég held að ég hafi gert það. En við skulum sjá hvort ekki finnst um það eitthvað í skjalasafni hv. þm. en það verður það heimildasafn sem ég fer aðallega eftir í framtíðinni. Alla vega minnist ég þess að ég hreyfði slíkum sjónarmiðum víða í máli, m.a. á fundum í hópi norrænna jafnaðarmanna. En um það er ekkert að segja annað en það að þessum sjónarmiðum hafa auðvitað einstakir forustumenn Evrópubandalagsins lýst og þarf engum að koma á óvart, allra síst mönnum sem fylgjast jafn vel með á sviði alþjóðamála eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Hjörleifur Guttormsson.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson spurðist sérstaklega fyrir um túlkun 6. gr. um hlutverk eftirlitsstofnunarinnar. Ég held að ég hafi svarað því þegar að það er engin breyting á því að því er varðar þessa sameiginlegu stefnuyfirlýsingu frá því sem EFTA - ríkin höfðu verið að sækjast eftir. Þetta er tveggja stoða lausnin, þetta er sjálfstæð eftirlitsstofnun. Aðalsamningamaður Íslands tekur gjarnan þá líkingu að ef menn ætla að spila knattspyrnuleik, þá munu almennt gilda í því efni alþjóðlegar reglur um leikinn. Það verða að gilda sömu reglurnar og það þarf að hafa dómara til þess að fylgjast með því að reglurnar séu ekki brotnar. Er þetta ekki rétt skilið? ( Gripið fram í: Hárrétt.) Eftirlitsstofnun hefur þetta hlutverk sem pólitísk nefnd Evrópska efnahagssvæðisins og að því er varðar túlkun á samningnum sjálfum, þá kemur það í hlutverk dómstólsins.
    Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með drengilega stuðningsyfirlýsingu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar sem sagði að afstaða hans væri óbreytt. Hann styddi það að við gengjum til þessara samninga ef forsendurnar sem við vorum sammála um í tíð fyrrv. ríkisstjórnar héldu. Þetta finnst mér virðingarvert og fyrir það er ég þakklátur vegna þess að málið er af því tagi að menn eiga ekki að taka breytilega afstöðu til þess eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu a.m.k.
    Að því er varðar sjávarútvegsmálið, þá vil ég segja í tilefni af orðum hans þetta: Það er alveg rétt sem hann sagði að frá því að bókun 6 varð virk 1976 eru liðin 15 ár og það hefur allan tímann verið á dagskrá að reyna að ná samstarfssamningi við Evrópubandalagið um sjávarútvegs - og fiskveiðimálefni eins og allar aðrar sjávarútvegsþjóðir í Evrópu hafa gert aðrar en við.
    Hv. þm. minnti á það sem gerðist í kosningabaráttunni. Ég hefði nú í hans sporum ekkert verið að minna á það. Það sem gerðist var einfaldlega það að því var allt í einu lýst yfir af hálfu Framsfl., 11 dögum fyrir kosningar ef ég man rétt, að kosningarnar ættu að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu í Evrópubandalagið. Því næst var þetta gert að uppistöðu í kosningaáróðri og málflutningi Framsfl., þannig að menn sem hlustuðu mikið á fjölmiðla sögðust hafa heyrt 50 sinnum á dag: ,,X - B, ekki EB`` og út á það að þessar kosningar snerust um þetta. Nú vill svo vel til að þetta mistókst, þessi óheiðarlega kosningabarátta. Ef það hefði ekki gerst, má ég þá spyrja: Ætla menn virkilega að túlka niðurstöður þessara kosninga sem urðu á þann veg að þeir flokkar sem voru bornir röngum sökum, þ.e. minn flokkur og Sjálfstfl., af því að þeir hafa nú meiri hluta hér á Alþingi Íslendinga, ætla menn þá að túlka það svo að þjóðin hafi verið að kjósa með aðild Íslands að Evrópubandalaginu? Það er ekki mín niðurstaða, það er ekki minn skilningur því að þessir flokkar voru ekki að boða aðild að Evrópubandalaginu, hvorugur þeirra. En það er rétt að þegar mér þótti þetta keyra úr hófi fram og þegar ég varð var við það að þetta var farið að spilla mjög samstöðu með þjóðinni og valda mjög mikilli tortryggni ómaklega og að ástæðulausu, þá minnti ég á það sem ég vissi þá sannast og réttast, ég vissi ekki betur, að hv. þm. og fyrrv. hæstv. sjútvrh. hefði fyrstur manna orðið til þess á formlegum fundi, viðræðufundi við sjávarútvegsdeild Evrópubandalagsins að taka þar upp viðræðu um gagnkvæmni. Ég gagnrýndi ekki hæstv. sjútvrh. af því tilefni og ég er ekki ósammála . . . ( HÁ: Þú veist að þetta er rangt.) Hvað er rangt? Hvort einhverjir aðrir gerðu það á undan? Það veit ég ekki um. En það eina sem ég sagði í því efni var þetta: Í þeim viðræðum árið 1989 við sjávarútvegsdeildina var það tekið til formlegrar umræðu. Sjávarútvegskommissar Evrópubandalagsins var spurður um það hvort þeir hefðu einhverjar tillögur um veiðiheimildir til Íslendinga ef það ætti að ræða um einhverja gagnkvæmni á því sviði og ég veit ekki betur en það hafi allan tímann síðan verið svo að þeir hafi engar slíkar tillögur komið fram með, engum hugmyndum hreyft um það.
    Það er líka alveg rétt og það er rétt að það komi hér fram líka að þegar við Steingrímur Hermannsson áttum viðræður við framkvæmdastjórnina í apríl árið 1990 þá var þetta mál enn á dagskrá. Við sögðum enn að það tilboð íslensku ríkisstjórnarinnar, þ.e. að við værum tilbúnir til viðræðna um það mál ef þeir hreyfðu einhverjum slíkum tillögum, það stæði, en það komu engar slíkar tillögur fram. Það hafa engar slíkar tillögur komið fram. Eftir stendur þessi kjarni málsins: Í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, í tíð þessarar ríkisstjórnar er víglínan dregin um það: Við tökum ekki í mál aðgang Evrópubandalagsins að innlendri fiskveiðilögsögu. Ég held meira að segja að þetta sé orðið svo skýrt að þeir í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins

séu farnir að skilja það og taka mark á því. Ég held það.
    Að því er varðar einhver skilaboð eða eitthvað sem hér var í íslenskri pressu og lekið hefði einhvers staðar frá um að einhver málamiðlunartillaga væri á leiðinni eða væri hugsuð um að fyrirtæki innan EB ættu að geta tekið upp samstarfsverkefni við íslensk fyrirtæki um einhverja kvótaaðild, þá verð ég bara að svara því til sem ég veit sannast og réttast. Ég hef ekki hugmynd um eitt eða neitt slíkt.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson spurði mikið um kjörtímabil og umboð. ( ÓÞÞ: Landbrh.) Landbrh. Ég leiði það hjá mér, en ég skildi ræðu hans á þann veg að hann teldi að þessir samningar, sem hófust haustið 1989 undir forustu óumdeilds leiðtoga Framsfl., Steingríms Hermannssonar, væru nú allt í einu komnir á það stig að fullveldi Íslands stafaði hætta af. Var það virkilega meining hv. þm.? Telur hv. þm. að það hafi gerst í tíð ríkisstjórnar undir forustu Framsfl.? Eða hefur hv. þm. einhver rök fram að færa um það að eitthvað hafi það gerst á undanförnum dögum sem hafi breytt samningsstöðu okkar þegar ég er búinn að færa að því rök í stóru sem smáu að hún er gersamlega sú hin sama? ( Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Hvað er ekki rétt? ( ÓÞÞ: Það er verið að semja um yfirþjóðlegar stofnanir.) Það er ekki verið að semja um neina yfirþjóðlega stofnun. ( ÓRG: Maður fer nú að halda að utanrrh. hafi ekkert heyrt um . . . ) (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi með þessum orðum svarað flestum þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint --- og þó, það er nú ekki alls kostar rétt. Hv. 10. þm. Reykv. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði einnig um eftirlitsstofnunina. Að vísu hefur það svar komið fram. Eftirlitsstofnunin er á vegum EFTA. Hún hefur það hlutverk að tryggja jafnárangursríkt eftirlit með framkvæmd samningsins og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur á sinni könnu, en einungis á þessu verksviði þannig að hún er gerólík framkvæmdastjórninni sem hefur vald langt umfram þetta, m.a. löggjafarvald. Þessi eftirlitsstofnun hefur það ekki og þetta er eftirlitsstofnun á vegum EFTA til þess að líta eftir framkvæmd samningsins. Að vísu verður framkvæmdin af hálfu þessarar yfireftirlitsstofnunar á vegum hvers lands fyrir sig með undirstofnunum í hverju landi.
    Hv. þm. spurði líka að því er varðar heimildir erlendra aðila til fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi hvort þessi niðurstaða, sem ég hef lýst, sé óheimil og Íslendingar hafi fyrirvara um það mál, hvort það sé sameiginlegur skilningur beggja aðila, hvort Evrópubandalagið hafi viðurkennt það og fallist á það. Svarið við því er þetta: Á lokaklukkustundum samningaþófsins mánudaginn 13. maí, þar sem gengið var frá þessari sameiginlegu yfirlýsingu, áréttaði ég fyrir Íslands hönd þennan fyrirvara. Hann felst í tveimur línum sem ég las upp og honum var látið ómótmælt. ( HG: Hvað þýðir það?) Það þýðir, eins og gerðist með margar aðrar þær greinar, að ef slíkum greinum var ómótmælt, þá voru þær bókaðar sem niðurstaða.

(Gripið fram í.) Já, við skulum hafa þetta á hreinu.
    Nú er það svo að í þessu skjali sem er hin sameiginlega yfirlýsing fundarins var ekki verið að fjalla um sjávarútvegsmál umfram þessa almennu formúlu til bókunar. Hins vegar fylgdu þessu skjali fylgiskjöl sem eru vinnugögn og eru ekki birt. Það er að ákvörðun Evrópubandalagsins sjálfs. Að því er varðar 10. gr., þá er þessi fyrirvari þar skráður og honum er ekki mótmælt. Nú ætla ég ekkert að fullyrða það að Evrópubandalagið hafi þar með sagt sitt síðasta orð um þetta vegna þess að hingað til hafa þeir andmælt þessu. Ég vil hins vegar segja eins og ég veit sannast og réttast frá, að þessum fyrirvara höfum við haldið til streitu. Við höfum aldrei fallið frá honum og seinast þegar um þetta mál var fjallað var honum ekki mótmælt af Evrópubandalaginu á formlegum samningafundi sem aldrei hefur gerst áður.
    Að því er varðar sjóðinn, þá hafa margir spurt um hann, fyrirkomulag hans, upphæð, skuldbindingar Íslendinga o.s.frv. Því get ég ekki svarað á þessari stundu vegna þess einfaldlega að það er ekki að því komið. Hann verður afgangsstærð. Það verður ekkert um hann fjallað fyrr en fyrir liggur lausn á sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálinu og þá verður þetta tekið inn í það dæmi.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún taldi forgang þeirra reglna sem felast í þessum samningi að íslenskum rétti vera einhvers konar valdaframsal. Það er það ekki. Það er hin almenna regla í íslenskum rétti að skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum hafa forgang umfram eldri innlenda löggjöf ef upp kemur árekstur þar á milli. Að því er varðar félagslega þáttinn, þá taldi hún að þar hefðum við af Íslands hálfu, ef ég skildi hana rétt, ekki gætt þess nægilega vel að fylgja eftir óskum launþegahreyfingarinnar um aðild að því en því hef ég þegar svarað. Við höfum einmitt fellt niður fyrirvarana að því er það varðar í samræmi við óskir launþegahreyfingarinnar.
    Virðulegi forseti. Þá held ég að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín var beint ásamt með því að fara aftur yfir þau mál sem ég tel mestu máli skipta og vera stærst í þessum heildarsamningi. Mín niðurstaða er einfaldlega sú: Það hefur skapast víðtæk samstaða, það gerðist í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, milli stjórnmálaflokka, um forsendur og markmið þessara samninga, um það mat að það væri eftir miklu að slægjast, það væri veruleg vinningsvon fyrir Íslendinga að ná þessum samningum. Það hefur farið fram ítarlegt hagsmunamat og verið til kvaddar helstu stofnanir íslensks þjóðfélags. Það er afar eðlilegt að fram fari rækileg umræða um áhættuna sem kann að vera í þessu fólgin. Við höfum ekkert vanrækt það hér í þessum umræðum að fara yfir það mál. Ég vil taka það fram að á liðnu kjörtímabili er það a.m.k. mitt mat að þá hafi hv. utanrmn. gegnt sínu hlutverki með mikilli prýði, þ.e. að fylgjast mjög rækilega og grannt með málinu, að fara ofan í kjölinn á öllum álitamálum sem upp komu. Ekki hvað síst var það fyrir gott málefnalegt framlag hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem þekkir þetta mál vel þó við höfum á því ólíkar

skoðanir. Kannski er það besta við þessa lýðræðislegu umfjöllun að menn sem þrátt fyrir allt hafa ólíkar skoðanir en vilja kynna sér málið og hafa báðir hagsmuni þjóðar sinnar að leiðarljósi eiga að bera saman bækur sínar og það eigum við öll að gera og fyrir það út af fyrir sig er ég þakklátur að því er varðar þessa umræðu.