Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið en ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til þess að fjalla um landakaup og ég spyr hvort hæstv. landbrh. sé í húsinu. Ég sé að taskan er þarna svo að líklega er hann einhvers staðar nálægt. Mér þætti vænt um það ef hann gæti verið hér. ( Forseti: Hæstv. landbrh. er í húsinu og forseti mun gera ráðstafanir til þess að láta hann vita að nærveru hans sé óskað.) Ég ætla þá á meðan að snúa mér að fáeinum öðrum atriðum.
    Ég vil fagna því sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu kæmi ekki til greina nema fullt tollfrelsi fengist fyrir sjávarafurðir. Og ég skildi hæstv. ráðherra svo að hann væri ekki reiðubúinn að fórna til þess neinu eða a.m.k. alls ekki fiskveiðiheimildum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ég vona að þetta sé rétt skilið og ég fagna því og tek undir það.
    Ég vil einnig taka undir það sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að styrkjakerfi Evrópubandalagsins er okkur mikill þyrnir í auga að sjálfsögðu. Ég hef satt að segja heldur litla trú á því að vinur minn hæstv. utanrrh. fái það fram að fallið verði frá þessu styrkjakerfi þó hann lesi það á öllum tungumálum Evrópubandalagsins sem ég veit ekki hvort hann hefur tekið að sér að gera. Ég óttast að það verði æði lengi við lýði og muni reynast okkur að mörgu leyti erfitt.
    Ég sé að hæstv. landbrh. er kominn hér inn og ætla þá að snúa mér aðeins að því sem hér hefur verið rætt um landakaup og þá staðreynd að hann hefur leitað og leitað og ekki fundið neina fyrirvara um það mál. Þetta var m.a. rætt mjög ítarlega á fundi ríkisstjórnarinnar, löngum fundi í Ráðherrabústaðnum líklega í nóvember á sl. hausti, og þar var farið yfir alla þá fyrirvara sem við Íslendingar eða fyrri ríkisstjórn hafði sett og ég hygg að um fátt hafi verið rætt meira en einmitt það hvernig mætti koma í veg fyrir að erlendir aðilar eignuðust hér lönd önnur en þau sem væru algerlega nauðsynleg vegna atvinnurekstrar sem leyfður yrði í hugsanlegu Evrópsku efnahagssvæði. Það var um það full samstaða á þeim fundi að það yrði að koma í veg fyrir að slíkt gæti orðið og vitanlega engin ástæða til þess þá fyrir neinn stjórnarflokkanna að fara að gera sérstakan fyrirvara um það. En um þetta var fullkomin samstaða. Og ég hlýt að taka undir það með hæstv. utanrrh. að mér urðu það nokkur vonbrigði að fyrrv. hæstv. landbrh. skoðaði ekki hvaða almenna reglu mætti setja til þess að koma í veg fyrir slíkt.
    Vitanlega eru til þess margar leiðir og ég skil vel hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þegar hann segir að hann hefði kosið að þarna gilti bara einfaldlega sú regla að annað ætti að ríkja fyrir Íslendinga en aðra meðlimi á Evrópsku efnahagssvæði og ég get tekið undir það með honum. En þetta er nefnilega eitt af mestu erfiðleikaatriðunum í öllum samningunum við Evrópubandalagið. Þar er það ein meginregla að ekki megi mismuna þegnum Evrópubandalagsins og þetta

er eitt af því sem hefur legið fyrir sem þáttur í þessum svokölluðu fjóru frelsum. Og þess vegna er nauðsynlegt að finna almennar reglur sem komast fram hjá þessu og þær eru margar. Það er á margan máta unnt að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti eignast hér land. Og ég treysti því að hæstv. landbrh. skoði þær leiðir mjög vandlega. Ég ætla ekki að fara að nefna þær hér, en ég nefni t.d. kröfu um búsetu hér í einhvern árafjölda, fimm ár, tíu ár, til að geta eignast íslenskt land sem mundi að sjálfsögðu vera í fullkomnu lagi fyrir íslenska ríkisborgara en ekki fyrir þá sem erlendis búa og fjölmargt slíkt fleira mætti nefna. Ég vildi sem sagt undirstrika það að þetta var atriði sem fyrrv. ríkisstjórn var fullkomlega sammála um að yrði að tryggja, mætti alls ekki bregðast.
    Svo að ég snúi mér svo aftur að ýmsu sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., ég skal ekki endurtaka það sem ég hef sagt hér áður. Ég vil, eins og ég sagði áðan, þakka honum fyrir svörin sem margt hafa skýrt. Ein ástæðan fyrir því að ég spurði um fyrirvarana var sú að í þeirri yfirlýsingu sem kom frá hæstv. ríkisstjórn --- ég hygg að hún hafi birst í fjölmiðlum 5. maí og var þá ítarlega yfirfarin á Stöð 2 og byggt að því er ég veit best á viðtali við hæstv. forsrh. --- þá var eini fyrirvarinn sem var nefndur heimild til að veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Nú hefur hæstv. utanrrh. tekið fram að allir fyrirvarar fyrri ríkisstjórnar séu í fullu gildi. Ég þakka honum fyrir það og treysti því að hann fylgi því vandlega eftir. Þeirra verði allra vandlega gætt.
    Staðreyndin er nefnilega sú að við takmörkuðum okkar fyrirvara meira en flestar aðrar EFTA - þjóðir. Við völdum nokkra mjög stóra og ætluðum að standa á þeim. Það voru aðeins tveir eða svo miklu minni fyrirvarar sem við töldum á fundinum í nóvember að kæmi til greina að víkja frá. Það væri í sambandi við lyfjasölu ef ég man rétt og einkarétt Pósts og síma. Að vísu var talað um það að setja almennar reglur í sambandi við Póst og síma. Þáv. hæstv. samgrh. hygg ég að hafi nefnt að það mætti gera t.d. þá kröfu að slíkt fyrirtæki sinnti símaþjónustu um land allt. Það var a.m.k. rætt. Eða var það hæstv. utanrrh. sem nefndi það? Þetta var a.m.k. nefnt á þeim fundi. Það var eingöngu talað um það að þessir tveir væru minni háttar, alls ekki ákveðið að falla frá þeim, langt frá því.
    Ég vil svo aðeins nefna það út af ýmsu öðru sem ég kom að hér áðan og spurði um og tengist hins vegar því sem kom fram hjá ýmsum stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar, að menn undrast það að ég skuli vera að spyrja um ýmislegt í þessum nýja samningi því að fyrir liggi skýrsla frá fundi 19. des. Mér hefur skilist að stórkostlegur árangur hafi náðst á þessum nýja fundi. Er það ekki rétt hjá mér? Mér hafði skilist áður að þetta væri allt í strandi. Aðalsamningamaðurinn hefði gengið út. Hann er kominn aftur inn og við Íslendingar erum komnir á fullan skrið aftur í þessum samningum. Svo að það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það er mikill munur á því sem um er talað í skýrslunni frá því í mars, sem ég

geri ekki athugasemdir við og ríkisstjórnin hafði að sjálfsögðu allar upplýsingar um, og því sem núna birtist, enda kemur það fram þegar þetta tvennt er lesið. Ég skal ekki fara yfir margt. En t.d. sýnist mér orðalagið töluvert annað um þessa sjálfstæðu EFTA - stofnun, sem er að vísu á enskunni kölluð EFTA - structures, sem þýðir að mínu mati töluvert annað, EFTA - skipulag, uppbygging, sem er töluvert annað. En ég ætla ekki að gera mál úr því. Í skýrslunni frá því í mars segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra tók fram að samningamenn ynnu nú á þeim grundvelli að sett yrði upp sjálfstæð EFTAstofnun til að beita samkeppnisreglum.`` Beita er nú undarlegt orð í þessu sambandi, að hafa eftirlit með samkeppnisreglum á það í raun og veru held ég að þýða. Hins vegar segir hér: ,,Þeir``, þ.e. ráðherrarnir, ,,tóku fram að dregið hefði saman með samningsaðilum við að skilgreina í meginatriðum verkaskiptingu og samstarf milli framkvæmdastjórnar EB annars vegar og sjálfstæðrar EFTA - stofnunar sem hefði samsvarandi umboð og svipað hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hins vegar.``
    Þetta er miklu víðtækara. Í fyrri setningunni er talað sérstaklega um samkeppnisreglur, það er að vísu í upphafi greinarinnar talað um samkeppnisreglur. En í þessu þar sem talað er um þessar tvær stofnanir kemur það ekki eins skýrt fram. Ég vildi fá það greinilega fram. Hæstv. utanrrh. segir nú að þetta eigi eingöngu við um samkeppnisreglurnar. Og ég er því sammála, eins og ég var þá, að það verður að setja upp stofnanir til þess að hafa eftirlit og það er ekki síður trygging í því fyrir okkur. Hins vegar kemur einnig fram í skýrslunni frá því í mars aðeins aftar að um þessa stofnun hefur sáralítið verið rætt. Ég finn það nú ekki hér í flýti, en það segir hér einhvers staðar í þessari skýrslu að um slíka stofnun innan Evrópubandalagsins hafi sáralítið verið rætt og það er vitanlega lykilatriði. Með leyfi forseta: ,,Umræða um uppbyggingu sjálfstæðrar EFTA - eftirlitsstofnunar hefur verið mjög takmörkuð innan EFTA.`` Eða með öðrum orðum við höfðum í raun og veru ekkert fjallað um hana þá eða sáralítið. Það var eingöngu upplýst að það væri unnið að því að koma upp slíkri stofnun. Nú virðist þetta vera komið töluvert mikið lengra og því er fagnað af ráðherrum á þessum fundi. Svo sannarlega er nú ekki óeðlilegt þó að um þetta sé spurt.
    Ég vil líka taka t.d. fram í sambandi við heilbrigðis - , öryggis - og umhverfisreglur. Um það höfðum við ekkert fjallað. Það er rétt sem kom fram hér að þetta var einn af fyrirvörunum, að þessir hlutir yrðu að vera tryggir.
    Nú upplýsir hæstv. utanrrh. að á ýmsum sviðum séu þessar reglur jafnvel strangari en innan EB sem kemur mér að vísu dálítið á óvart. Hann upplýsir jafnframt að það standi til að Evrópubandalagið taki upp reglur EFTA á mörgum þessum sviðum. Af hverju er þetta ekki orðað í þessari skýrslu? Ég finn hvergi í þessari miklu skýrslu sagt að reglur EFTA eigi að gilda innan EB. Það er hvergi sagt. Það er sagt aftur og aftur og aftur og aftur að reglur EB eigi að gilda

fyrir Evrópskt efnahagssvæði. Þetta er bara mikið mál, finnst mér. Mér finnst það mikið mál ef það hefur virkilega náðst fram og hefði þurft að koma betur fram í þessari skýrslu að á ýmsum sviðum þar sem reglur EFTA - landanna eru strangari, skilvirkari, ákveðnari, þá verði þær fyrir 1993 teknar upp fyrir EB. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við í okkar umræðu í fyrri ríkisstjórn einmitt ræddum að það væri óaðgengilegt að ýmsar reglur Evrópubandalagsins
ættu skilyrðislaust og allar reglur skilyrðislaust að gilda á Evrópsku efnahagssvæði. Nú er sagt að ýmsar reglur EFTA eigi að gilda innan Evrópsks efnahagssvæðis. Vitanlega væri mjög nauðsynlegt fyrir hv. Alþingi að fá um þetta langtum ítarlegra yfirlit. Við þurfum náttúrlega að skoða það í smáatriðum hvaða reglur er þarna um að ræða og er einhverju fórnað og er það virkilega svo að hæstv. ráðherra hafi tekist að koma vitinu fyrir, ef ég má orða það svo, Evrópubandalagið og það ætli nú að taka upp skynsemina á einhverjum þessum sviðum? Ég nefni aftur t.d. félagsmálefnin eða stefnuna sem á enskunni er hér kallað ,,social policy`` og getur náttúrlega verið afar víðtækt.
    Það er hárrétt, sem kom núna fram hjá hæstv. utanrrh., að þetta taldi ég satt að segja að væri utan fjórfrelsisins svokallaða. Þetta er algjörlega nýtt í þessu hér og áður en a.m.k. ég treysti mér til að taka afstöðu til þessa máls, þá hlýt ég að biðja um miklu nánari skýringar á því og aðrar heldur en hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh. að verkalýðsfélögin hér beinlínis óski eftir því að við tökum upp þessi lög og reglur hér. Ég vil fá að skoða það miklu nánar.
    Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að lengja þessa umræðu um of og vil því ekki færa frekari rök fyrir því að allt það sem ég spurði um var í raun og veru afar eðlilegt. Það hafa orðið, hvort sem menn vilja kalla það miklar framfarir eða miklar breytingar, í þessu máli núna upp á síðkastið.
    Síðan aðeins þetta með ávinninginn. Ég kemst kannski ekki hjá því að minnast aðeins á þetta með fulla aðild fyrst það er gert hér að umræðuefni. Jú, ég hef aldrei neitað því að nokkur ávinningur gæti orðið af þessu ef við fáum fullt tollfrelsi. Ég hef aldrei neitað því. Ég sagði hins vegar að mér þykir, þegar ég fer að skoða betur niðurstöður sérfræðinganna, að þeir meti ávinninginn tiltölulega lítinn. Og það sem ég held að menn gleymi í þessu sambandi er það að við höfum núna mjög góðan samning, bókun 6. Meira að segja fyrrv. forsætisráðherra Bretlands sagði við mig að hún skildi bara ekkert eftir hverju við værum að sækjast. Við hefðum þann besta samning sem ríki hefði við Evrópubandalagið. Og það er mikið til í því.
    Við getum sjálfir náð fjölmörgu af því sem við erum að sækja eftir og erum að gera það. Við höfum t.d. sett ný lög um erlenda fjárfestingu. Við höfum gert það á eigin vegum. Við höfum sett nýjar reglur um fjármagnsflutninga. Við höfum gert það á eigin vegum. Og við getum ef við viljum gert fjölmargt slíkt sem aðlagar okkur því sem er að gerast í Evrópu. Ég vil taka það skýrt fram að við framsóknarmenn erum þeirrar skoðunar að við eigum að gera það. Við megum ekki einangrast frá þessari þróun.
    Hins vegar eru þeir margir fræðimennirnir sem nú halda því fram að árangurinn af hugmyndum Evrópubandalagsins um þennan innri markað og enn þá meiri samruna sé ekki eins í hendi og margir telja. Margir halda að kostnaðurinn við það t.d. að lyfta upp Suður-Evrópulöndunum félagslega og tekjulega verði miklu meiri en áður var talið. Ég þarf áreiðanlega ekki að benda hæstv. utanrrh. á það að það eru fjölmargir sem telja að kostnaðurinn við að lyfta Austur-Þýskalandi upp verði margfalt meiri en t.d. Þjóðverjar töldu og muni verða verulegt vandamál fyrir Evrópubandalagið. Ég tala ekki um ef á að fara að taka önnur Austur-Evrópulönd. T.d. kostnaðurinn á sviði mengunarvarna o.s.frv. verði margfaldur á við það sem var talið.
    Það eru því margir fræðimenn, og reyndar kemur það fram í mati þeirra sérfræðinga sem til voru kvaddir og ég nefndi áður til að meta þetta, að ávinningurinn er mjög umdeildur. Þess vegna er ég að segja það að þó að ég styðji það, eins og ég hef gert og við framsóknarmenn, að við gerumst aðilar að því tilskildu, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl., að allt sé tryggt sem við höfum lagt áherslu á, þá mega menn ekki blindast af því að það sé svo óskaplega mikill ávinningur í þessu. Menn mega alls ekki fórna því sem við getum náð á fjölmörgum öðrum mörkuðum.
    Eins og ég sagði áðan kemst ég ekki hjá því að fara örfáum orðum um aðildina að EB og vegna þeirra orða sem hæstv. utanrrh. lét falla um það áðan. Ég hrökk líka við þegar ég hlustaði á hæstv. forsrh. segja að aðild að EB kæmi ekki til greina að svo stöddu. Og ég verð að viðurkenna það að ég hrökk við þegar ég las í stefnuskrá Alþfl. að Alþfl. útilokar ekki fulla aðild, segir að vísu fyrirvara um það, enda höfum við óskoruð yfirráð yfir okkar auðlindum.
    Ég ráðlegg mönnum að lesa það fræðirit sem alþingismönnum hefur verið afhent núna, eða þeir geta fengið, eftir Stefán Má Stefánsson. Það er mjög fróðlegt rit. Þeir sem trúa því, sem annar prófessor hefur sagt, að það sé ekki nema stigsmunur á milli Evrópsks efnahagssvæðis og fullrar aðildar ættu að lesa þetta rit. Það er svart og hvítt samkvæmt hans mati þar á milli. Nóttin mundi ekki duga til að rekja mismuninn sem þar er á. Og það er nákvæmlega þetta sem ég fann að, að aðeins fyrirvari um auðlindina skyldi verða settur, því það er svo ótal margt annað. Og þeir sem hafa talið að við getum fengið undanþágu þar eiga að skoða þetta rit. Þar er það rakið sem grundvallaratriði að sameiginleg stefna skuli vera í sjávarútvegsmálum. Eitt af grundvallaratriðunum. Og svo segja sumir hv. þm. eða menn sem um þetta ræða: Við fáum bara undanþágu frá því. Jú, við gerumst aðilar ef við fáum undanþágu frá þessu.
    Það er alveg ljóst að þó að framkvæmdin sé ákveðin með reglugerð þá er því stjórnað sameiginlega frá Brussel og það er það sem við getum aldrei

sætt okkur við. Þess vegna segi ég: Með því að vera að ýja að því að full aðild komi til greina er verið að blekkja þjóðina, því miður, verið að rugla og blekkja þjóðina. Ég er ekki að segja það að hv. alþýðuflokksmenn hafi ætlað sér það. Ég skrifa þetta á kostnað vanþekkingar á Rómarsáttmálanum. Ég held að það hljóti að vera. Svo ég vona að ég hafi skýrt það að þetta atriði þótti mér nauðsynlegt m.a. að fá á hreint og nú hafa allir svarið það af sér að aðild komi til greina og við munum það og það er bókað og skráð. Ég treysti því og dreg það ekki í efa.
    Ég vil svo að lokum segja það að ég tel að þessi umræða hafi verið mjög þörf en fram undan hljóta að vera stórir atburðir og ég treysti því að við fáum fljótlega miklu ítarlegri skýrslu um öll þessi atriði, sem hér hafa verið rædd, svo við getum metið þau, hvort sem þing situr eða situr ekki. Eflaust verður þetta rætt vandlega í utanrmn. og ég fagna því að hún tekur strax til starfa. Hún hefur mikið verkefni að fylgjast vel með þessum málum og við þingmenn allir og þarna má hvergi misstíga sig.