Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nú orðinn allmikill lager hér af bókinni Evrópa 1992 og ríkisfjármálin sem ég þarf ekki á að halda þannig að ég held að það væri rétt að fjarlægja það úr ræðupúltinu.
    Ég tel nú og tek undir það sem margir hv. ræðumenn hafa sagt að þessi umræða, eins og umræður eru nú mjög gjarnan, er orðin til góðs. Sem betur fer er það nú oftast svo að það er betra en ekki og gagnlegt að skiptast á skoðunum. Ég tel reyndar að þó ekkert annað hefði komið til og ekkert annað gerst í þessari umræðu en að sú afdráttarlausa yfirlýsing hefði fram komið sem hæstv. sjútvrh. gaf hér, þá hefði þessum tíma í raun verið vel varið. Ég tek undir það að það langmarkverðasta sem hefur gerst á fundinum og í þessari umræðu er sú afdráttarlausa afstaða sem birtist hjá hæstv. sjútvrh. og hlýtur að hafa a.m.k. veruleg áhrif á framvindu málsins, að hann telur það ekkert álitamál og ekki þurfa frekari umræðna við eða skoðunar að við höfum ekkert inn í þetta Evrópska efnahagssvæði að gera nema algjör tollfríðindi náist þar fram til handa okkar sjávarafurðum. Ég tel a.m.k. að þessi skýra og gagnorða yfirlýsing sjútvrh. hafi staðið langt upp úr vaðlinum sem hér hefur verið á köflum í hæstv. utanrrh. og hnútukasti hans í fyrrverandi samstarfsaðila sína sem ég ætla að koma lítillega að hér á eftir.
    Það tengist máli sem ég tel mér skylt að svara hér aðeins og fara betur yfir til þess að fyrirbyggja misskilning og þá m.a. fræða hæstv. núv. landbrh. og mun ég aldrei telja það eftir mér að fræða hann og upplýsa ef ég er þess umkominn. Ég ætla að gera það m.a. með því að vitna í skjöl sem að vísu voru stimpluð sem mikil trúnaðarmál á þeim tíma og dreift var í ríkisstjórninni í nóvembermánuði sl., vegna þess að því hefur verið haldið hér fram af hæstv. núv. landbrh. að alls engir fyrirvarar af Íslands hálfu hafi verið settir fram varðandi það að útlendingar hefðu hér sama rétt til að kaupa jarðnæði og Íslendingar. Reyndar var það svo að þegar á fundum snemma sumars 1990 á Þingvöllum kom ég þeirri ósk skýrt og skilmerkilega á framfæri við hæstv. utanrrh. að nauðsynlegt væri að setja fram í þessum viðræðum fyrirvara af Íslands hálfu í þessum efnum. Þá höfðu þegar hafist upp í Noregi umræður um nákvæmlega þetta sama atriði, sem höfðu heldur betur pólitísk áhrif í því landi eins og menn muna, í raun og veru alveg þetta sama atriði, þar sem norsk lög mismuna með mjög afgerandi hætti eða ívilna norskum ríkisborgurum samanborið við útlendinga í þessu efni. Það leiddi til falls þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat í Noregi.
    Það var því ekki nema von að að þessu væri eitthvað hugað hér uppi á Íslandi. Síðan er það svo að á fundum í nóvembermánuði sl., fyrst á fundi 5. nóv. 1990, er dreift í ríkisstjórninni skjali frá aðalsamningamanni um Evrópskt efnahagssvæði til ríkisstjórnarinnar --- það skjal er ég með hér. Þar er aðalsamningamaður að gera grein fyrir stöðunni og óska eftir umboði og heimild frá ríkisstjórn til að hefja nýjan

kafla í samningaviðræðunum sem í grófum dráttum má segja að átti að byggja á því að ljá máls á því að fella niður alla varanlega fyrirvara gegn aðild EFTA - ríkjanna að ákvarðanatökuferli hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég hygg að það sé réttlætanlegt að einfalda þetta með þeim hætti að segja að í þessu grundvallaratriði hafi þetta falist. Í þessu skjali er gerð grein fyrir þeim fyrirvörum og athugasemdum og óskum um undanþágur sem fulltrúar Íslands í viðræðunum höfðu komið á framfæri og þau atriði talin hér upp. Þau eru í allmörgum liðum, byrja á fjárfestingum í vatnsorku og jarðhitarétti. Í öðru lagi fjárfestingar í landareignum í ágóðaskyni. Í þriðja lagi fjárfestingar í fjölmiðlum. Í fjórða lagi þýðingarskylda á útsendu sjónvarpsefni. Í fimmta lagi einkaréttur Pósts og síma. Í sjötta lagi lyfjakaup. Í sjöunda lagi samningsbundin skylda til að eiga olíu til þriggja mánaða. Í áttunda lagi bókun 4 við Fríverslunarsamning Íslands og Evrópubandalagsins. Í níunda lagi niðurfelling fjáröflunartolla. Í tíunda lagi tæknilegar viðskiptahindranir og í ellefta lagi aðrir fyrirvarar sem lutu m.a. að aðlögunartímanum.
    Um fjárfestingar í landareignum í ágóðaskyni segir í þessu skjali frá aðalsamningamanni Íslands, með leyfi forseta:
    ,,Settur var fyrirvari við frelsi í þessum efnum af ótta við að hlutfallslega ódýrar íslenskar jarðir, einkum hlunnindajarðir, kynnu að verða keyptar upp af erlendum aðilum.``
    Ég held ég þurfi ekkert að lesa meira. Þarna segir aðalsamningamaður Íslendinga við ríkisstjórnina að settur hafi verið fyrirvari í þessu sambandi af ótta við þessi atriði sem þarna koma fram. Hann segir síðan að vegna þess að að hans mati, samningamannsins, eigi að vera hægt að sjá við þessu með breytingum á jarðalögum eigi fyrirvari að vera óþarfur. Eða reyndar orðar hann það svo, með leyfi forseta: ,,Fyrirvari sýnist því óþarfur hvað þetta snertir.`` --- En það er hans skoðun.
    Í skjali frá hæstv. utanrrh., dags. 25. nóv. 1990, er aftur komið inn á þessa sömu hluti og þar er hæstv. utanrrh. að gera grein fyrir stöðunni á nýjan leik og sérstaklega stöðunni hvað fyrirvarana snertir. Hann dregur þá saman stöðuna í umræðunum á þennan hátt og segir:
    ,,Stærstu málaflokkarnir í EES - viðræðunum eru þrír: Í fyrsta lagi stofnanahliðin og áhrif á ákvarðanatöku. Í öðru lagi undanþágurnar. Í þriðja lagi sjávarútvegsmálin og landbúnaðurinn.``
    Síðan fer hæstv. utanrrh. í þessu skjali til ríkisstjórnarinnar yfir þessa þætti. Í fyrsta lagi um stofnanahliðina og í öðru lagi um undanþágurnar og segir að Evrópubandalagið telji varanlegar undanþágur óviðunandi. Svo kemur: ,,Íslensku undanþáguóskirnar: a. takmörkun á fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi, b. orkumálin, c. fjárfestingar í landareignum í ágóðaskyni.`` --- Og um það segir í þessu skjali utanrrh. til ríkisstjórnarinnar frá 25. nóv. sl.: ,,Hér hafa einkum verið hafðar í huga fjárfestingar í bújörðum sem hlunnindi fylgja, t.d. laxveiði, án þess

að jafnframt sé um búsetu að ræða. Íslensk löggjöf setur Íslendingum þegar svo þröngar skorður í þessum efnum, sbr. t.d. jarðalög, að möguleikar útlendinga til fjárfestinga á þessu sviði eru sem næst engir. Auðvelt ætti að vera að gera lagfæringar á íslenskri löggjöf sem komi í veg fyrir hættu á þessu sviði. Undanþága ætti því að vera óþörf,`` --- segir hæstv. utanrrh. þarna. En það er hans skoðun. Það var hans mat. Og hann var að fara þarna fram á heimild til að fara áfram í samningaviðræðurnar sér til handa eða samningamanninum og fá að ganga inn í viðræðurnar á þessu spori, að falla frá eða ljá máls á því að falla frá fyrirvörum eða undanþágum gegn aðild að ákvarðanatökuferlinu. Að sjálfsögðu með fyrirvara um það að næðist þar ekki ásættanleg niðurstaða stæðu fyrirvararnir. Ef býttin varðandi aðildina að ákvarðanatökuferlinu annars vegar á móti fyrirvörunum gengju ekki upp, þá stæðu þeir. Það tók hann mjög skýrt fram.
    En ríkisstjórnin afgreiddi aldrei umboð til hæstv. utanrrh. til að gera þetta og það er nauðsynlegt að það liggi alveg ljóst fyrir úr því sem umræðan hefur hér þróast. Og m.a. vegna þeirra ómaklegu ummæla að mínu mati sem hæstv. utanrrh. lét falla í minn garð, þeirra ómaklegu ummæla, kalla ég það, hæstv. utanrrh. í hliðarsölum, þá er best að það sé alveg skýrt og þess vegna ætla ég að ítreka það og undirstrika sem hv. 8. þm. Reykn. sagði hér áðan: Utanrrh. fékk aldrei þetta umboð. Samninganefndarmaður Íslands fékk aldrei umboð til að falla frá fyrirvörunum. Ríkisstjórnin afgreiddi það aldrei. Ekki sú ríkisstjórn sem ég sat í. Hvorki annað né þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar á tímum lýðveldisins afgreiddi það mál. Svo einfalt er það. Hvað samninganefndarmaður eða utanrrh. kann umboðslaus að hafa gert síðan, það er annað mál. En það verður að vera alveg skýrt til þess að það linni nú ásökunum í þessum efnum að á þessar tillögur utanrrh. var aldrei fallist. Þær voru aldrei afgreiddar í ríkisstjórninni. Hann kom reyndar ekki oftar með málið inn í stjórnina undir þessum formerkjum sem þarna var gert en í þessi tvö skipti. Þess vegna var það sem ég hóf ekki vinnu að því eins og búið væri að ákveða að falla frá möguleikanum á því að réttarstaða Íslendinga í þessum efnum væri önnur en útlendinga og á þeim grundvelli fara að breyta íslensku jarðalögunum eða öðrum lögum í þessu sambandi. Af þeirri ósköp einföldu ástæðu að málið stóð þannig í ríkisstjórninni að það hafði aldrei verið fallist á að varanlegur fyrirvari á þessu sviði félli út.
    Reyndar er líka rétt að upplýsa það að ákvæðin varðandi eignarhaldið eru ekki í jarðalögunum. Þau eru í lögum um afnota- og eignarrétt útlendinga af fasteignum á Íslandi. Lögum sem reyndar var síðan breytt undir lok þingsins í vor. Þannig að það hefði í raun átt að heyra öðrum til að breyta í sjálfu sér þeim þætti málsins sem lýtur að eignarhaldi eða afnotarétti útlendinga af fasteignum. Jarðalögin taka til jarða, bújarða, eyðibýla eða í ábúð, og setja takmarkanir á um ráðstöfun þeirra, en fasteignir að öðru leyti og land í merkingunni fasteign að öðru leyti heyrir undir önnur lög.
    Ég sit því ekki undir ásökunum um það, hvorki frá hæstv. núv. utanrrh., sem ég er að vísu vanur og kæri mig tiltölulega kollóttan um, en enn síður þykir mér það viðunandi og skemmtilegt að hæstv. fyrrv. forsrh. og núv. hv. 7. þm. Reykn., sem mun vera formaður Framsfl. enn þá, hann hefur nýlega tekið það skýrt fram að hann sé formaður Framsfl., viðhafði í raun og veru svipuð ummæli, að hann harmaði það að ég skyldi ekki hafa lagt í þetta vinnu. Ég hefði þess vegna viljað spyrja framsóknarmenn og t.d. varaformann og hv. 1. þm. Austurl.: Bar að skilja ummæli formanns Framsfl. þannig hér áðan að Framsfl. sé tilbúinn til þess að fallast á fyrirvara á þessu sviði? Ber að skilja það svo? Þessi ummæli sem hv. 7. þm. Reykn. viðhafði hér að það væri miður að ég skyldi ekki hafa lagt í það vinnu eða landbrn. á þessum mánuðum að útbúa girðingar í jarðalögin eða annars staðar til þess að hindra möguleika útlendinga og þá reyndar að sjálfsögðu sömuleiðis einstaklinga á Íslandi til að komast yfir jarðnæði. Það er svo sem allt í lagi með það ef Framsfl. er orðinn þeirrar skoðunar að það sé ástæðulaust að hafa þarna varanlegan fyrirvara. Það sé allt í lagi að gefa það upp á bátinn að réttarstaða Íslendinga geti verið önnur en útlendinga og það sé nægjanlegt að setja þarna inn einhver ákvæði í jarðalög. Ef svo er ekki þá skil ég ekki ummæli hv. þm. Steingríms Hermannssonar hér áðan. Ég tek því þunglega að vera sakaður um vanrækslu á þessu sviði þegar ég tel mig ekki hafa verið að gera annað en það að halda í þann möguleika að réttarstaða Íslendinga í þessum efnum gæti orðið önnur en útlendinga. Það er allt og sumt sem ég gerði og það er allt og sumt sem ég hef gert og samkvæmt þeirri sannfæringu minni að við eigum ekki að stíga það skref Íslendingar, a.m.k. ekki fyrr en að mikið betur athuguðu máli en enn er.
    Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á því að þurfa að taka þennan tíma í það að verja hendur mínar að ég tel hér vegna ómaklegra ásakana hæstv. utanrrh. sem því miður á það til að leggjast í skæting og ómerkilegan málflutning á köflum. Það er einn ljótur ljóður á ráði hans sem hann hefur ekki náð þrátt fyrir allnokkurn þroska og allnokkurn aldur, líklega eitthvað á sjötta tug ára sem hann hefur lifað, að venja sig af, því miður, þessi hæstv. ráðherra.
    Ég vona að hann falli ekki í þessa gryfju þegar meira liggur við heldur en svo sem á einum kvöldfundi hér á hv. Alþingi þó það sé í sjálfu sér slæmt og þegar aðrir verða þá fyrir því sem verr eru undir það búnir að taka við því heldur en ég.
    En ég vona að þetta hafi nokkuð skýrt málið og síðan ætla ég að lokinni ræðu minni að ljósrita þessi skjöl og afhenda núv. hæstv. landbrh. þau til þess að hann þurfi aldrei aftur að halda því fram að engir fyrirvarar af neinu tagi hafi af Íslands hálfu verið settir fram í þessum efnum. Það er að vísu rétt að taka það fram til að öllu sé nú til haga haldið eins og ég kann það best og réttast að þegar þessir fyrirvarar, athugasemdir eða óskir um undanþágur, eins og þetta heitir reyndar sitt á hvað í plöggum frá utanrrn., voru settar fram, þá var ekki búið að skilgreina í sjálfu sér í smáatriðum með hvaða hætti þeir fyrirvarar yrðu síðan endanlega staðfestir af Íslands hálfu, ef ég man þessa hluti rétt. Til að mynda er í þessum plöggum einhvers staðar vikið að því að utanrrn. taldi orka tvímælis að unnt yrði að rökstyðja þessa fyrirvara með vísan til grundvallarhagsmuna, eins og það var kallað í þessum fræðum öllum. En engu að síður var þetta sett fram. Auðvitað. Því annars hefði samninganefndarmaður Íslands og utanrrh. ekki þurft að óska eftir heimild til að falla frá þeim. Eða hvað? Ég held að það segi sig sjálft að samninganefndarmaður eða utanrrh. hefði ekki þurft heimild frá ríkisstjórninni til að falla frá fyrirvörum sem aldrei hefðu verið settir fram, eða eru menn að halda það? Ég held ekki. Þannig að væntanlega þarf ekki flóknari röksemdafærslu til þess að sanna það fyrir mönnum að þetta var gert og einasta skýringin á því að svo væri ekki væri þá ósköp einfaldlega sú að það sem í þessum plöggum er sagt að hafi verið gert hefði þá ekki verið gert, þ.e. ríkisstjórn Íslands hefði fengið rangar upplýsingar og því trúi ég að sjálfsögðu ekki og mun nú sem sagt ljúka máli mínu, hæstv. forseti, og afhenda hæstv. núv. landbrh. ljósrit af þessum trúnaðarskjölum sem hann er að sjálfsögðu núna rétt kominn að að hafa undir höndum.