Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að koma hér upp og tala langt mál, enda er orðið talsvert áliðið. Ég ætlaði hins vegar að nota tækifærið og fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram vegna þess að hún hefur bæði verið mjög ítarleg og á köflum a.m.k. málefnaleg þó að heldur hafi líka slegið út í fyrir mönnum. Ég vil líka fagna því að hafa séð fyrrverandi stjórnarsinna stíga hér í stólinn, hvern á fætur öðrum, fulla efasemda um ágæti hins Evrópska efnahagssvæðis, vegna þess að mér fannst þær efasemdir fara heldur hljótt á síðasta kjörtímabili og þeir hafa sig ekki mjög í frammi með þá hluti.
    Í rauninni hefur ekki átt sér stað nein grundvallarbreyting frá því í október 1990 eða frá því í mars 1991. Málið er aðeins að taka á sig skýrari mynd. Blikurnar sem voru í fjarska, sem voru úti við sjóndeildarhringinn á þessum tímum, eru bara beint yfir hausamótum okkar núna. Sá er munurinn.
    Það var ljóst í október árið 1990 þegar skýrslan var lögð fram hér á Alþingi að lagagjörningar Efnahagsbandalagsins yrðu grundvöllur Evrópska efnahagssvæðisins. Það var ljóst að dómsúrskurðir Efnahagsbandalagsins væru hluti af EB - reglunum og þar af leiðandi hluti af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það var ljóst að eftirlitskerfi EFTA yrði sniðið að framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins, fengi þar af leiðandi mjög ríkulegt umboð og vítt valdsvið. Það var ljóst að aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins yrðu að framselja hluta af dómsvaldi sínu til EES - dómstólsins. Því vil ég halda fram þrátt fyrir það sem utanrrh. hefur sagt hér í dag.
    En við skulum láta þetta eiga sig. Batnandi mönnum er best að lifa og það er gott að fyrrv. stjórnarliðar skuli hafa bæst í hóp okkar kvennalistakvenna sem alltaf höfum haft efasemdir varðandi Evrópska efnahagssvæðið. Því miður er það svo að þegar menn eru í ríkisstjórn þá eru þeir stundum eins og veðhlaupahross með innskeifar augnhlífar, en þeir sem utan standa leyfa sér aðeins rýmra sjónarhorn.
    Mig langar aðeins til að fara örfáum orðum um það sem kom fram í svari hæstv. utanrrh. áðan. Í fyrsta lagi svaraði hann því til varðandi hinn félagslega þátt Evrópska efnahagssvæðisins að það hefði verið látið að kröfum ASÍ og BSRB um að Íslendingar og þar af leiðandi Evrópska efnahagssvæðið gerðist aðili að félagsmálastefnu Efnahagsbandalagsins. Það kann að vera rétt að svo hafi verið gert en ég held að það sé tæplega vegna ágætis þeirrar stefnu, eins og mér fannst koma fram í máli utanrrh., heldur sé það mun fremur til að tryggja að Evrópska efnahagssvæðið hafi þó einhverja félagslega vídd. Að hinn félagslegi þáttur komi með einhverjum hætti inn í hið Evrópska efnahagssvæði. Því ef maður lítur á félagsmálastefnu EB þá sér maður að hún er afskaplega takmörkuð, eins og ég sagði í dag. Hún er heldur ekki bindandi og hún er afskaplega loðin. Það segir t.d. í þessari stefnu að allir vinnandi menn skuli hafa rétt til viðunandi launa, og ef ég man þetta rétt, samkvæmt

hefðum og reglum einstakra ríkja. Það segir líka að menn skuli hafa rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðum í lögum einstakra ríkja. Þannig er þetta meira og minna í þessari félagsmálastefnu.
    Þessi félagsmálastefna EB tekur aðeins til fólks sem er á vinnumarkaði. Hún tekur ekki til fólks sem ekki er á hinum svokallaða vinnumarkaði, en ég er viss um að það er meiri hluti íbúa allra ríkja. Um 57% íbúa EB, svo maður taki það bara, eru ekki á hinum svokallaða vinnumarkaði. Það er ungt fólk, það er gamalt fólk, það eru börn, það eru heimavinnandi húsmæður, það eru námsmenn o.s.frv. Félagsmálastefna Evrópubandalagsins tekur heldur ekki til þess sem í Checchini - skýrslunni er kallað ,,ódæmigerð störf``. Það eru hlutastörf og það eru árstíðabundin störf sem eru einmitt dæmigerð fyrir konur. Þessum störfum fylgja engin félagsleg réttindi eða réttur sem tengist verkalýðsfélögum. Ég skal alveg játa það hér að mér finnst íslensk verkalýðshreyfing hafa gert allt of mikið úr ágæti þessarar svokölluðu félagsmálastefnu Efnahagsbandalagsins og ekki séð þá vankanta sem vissulega eru á henni.
    Utanrrh. hefur haldið því stíft fram hér í dag að það sé ekkert framsal á dómsvaldi sem felist í þeim samningi um Evrópskt efnahagssvæði sem nú er í deiglunni. Hér hafa ýmsir svarað því og það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að taka það mál upp en ég get samt ekki orða bundist vegna þess að til áréttingar máli sínu las hæstv. utanrrh. bls. 21 í skýrslu sinni frá því í mars 1991. Ég get ekki séð að það sem þar stendur eigi við um þá samþykkt sem gerð var á síðasta utanríkisráðherrafundi EB og EFTA. Ég get alls ekki séð að það eigi við vegna þess að í skýrslunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Ekki hefur enn verið samið um hlutverk EES - dómstóls. EFTA-ríkin hafa sóst eftir að komið verði á forúrskurðarkerfi sem gerir ráð fyrir að dómstólar í aðildarríkjunum fái úrskurð EES - dómstólsins um álitamál um túlkun á EES - reglunum.`` Allt sem utanrrh. las hérna byggir á forúrskurðarkerfinu. Ég get ekki séð í þeirri yfirlýsingu sem liggur fyrir frá síðasta utanríkisráðherrafundi að þetta forúrskurðarkerfi sé enn við lýði. Ég fæ ekki betur séð
en að þessu forúrskurðarkerfi hafi einmitt verið hafnað. Ef forúrskurðarkerfi hefði verið við lýði kann það að vera rétt að þarna væri ekki framsal á dómsvaldi, en í yfirlýsingunni frá 13. maí segir bara ósköp einfaldlega að ráðherrarnir hafi tekið fram að aðildarríki EFTA væru reiðubúin til þess að setja ákvæði í innri löggjöf sína í þá veru að reglur samningsins um Evrópskt efnahagssvæði skuli hafa forgang í þeim tilfellum sem þær rekast á við önnur ákvæði innri löggjafar þeirra, þ.e. þær hafa forgang umfram lög þjóðríkjanna.
    Nú fletti ég upp í bæklingi sem líka er frá utanrrn. en er frá október 1990 þar sem m.a. er fjallað um réttaráhrif samningsins. Þar segir, og þetta er bara frá utanrrh. sjálfum komið:
    ,,Innan EB hefur EB - réttur forgang umfram landslög. EB hefur lagt áherslu á að gildi EES - reglnanna

verði tryggt gagnvart landslögum sem hugsanlega yrðu sett í andstöðu við reglurnar. Að öðrum kosti mundi grundvöllur fyrir samræmdum reglum svæðisins raskast fljótt.`` Og svo segir: ,,Samkvæmt íslensku réttarkerfi þyrfti stjórnarskrárbreytingu til að tryggja algeran forgang EES - réttar fyrir landslögum.`` Þetta segir í skýrslu frá utanrrh. þannig að ég get ekki skilið hvernig hægt er að halda því fram, eins og hefur verið gert hér í dag, að ekki þurfi stjórnarskrárbreytingu og að þarna sé ekki framsal á dómsvaldi. Mér finnst að þetta liggi ljóst fyrir og við þurfum ekki að þræta um það meira. Ég vildi samt gjarnan að utanrrh. skýrði það hvernig á því stendur að hann vitnar hér í þetta forúrskurðarkerfi sem ég fæ ekki betur séð en sé þegar fallið úr gildi.