Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það var ekki ætlan mín að lengja þessa umræðu en ég geri það sérstaklega vegna ummæla hæstv. utanrrh. um mál sem ég hreyfði hér. En ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir mjög skýrt svar að því er varðaði ummæli hans á tilteknum fundi hér fyrir nokkrum dögum síðan. Ég tek mark á því svari sem var skýrt. Það er mikilvægt að þurfa ekki að eyða tímanum í það að vera að ræða um hluti sem ekki eru á dagskrá. En þá eiga menn heldur ekki endalaust að vera að tala um þá. Það er nú svo að við sem erum að hlusta á ummæli af ýmsu tagi og lesa blaðagreinar og skýrslur og svör í blöðum, ekki síst þegar við erum í stjórnarandstöðu, hljótum að spyrja menn út úr um þessi ummæli til þess að vita hvað menn eru að fara því að það er mikilvægt að þeir sem sitja á Alþingi hafi nokkuð góða vitneskju um það hvað menn hafi í hyggju. Og ég get vel skilið hæstv. utanrrh. í þeim efnum að það getur stundum verið óþægilegt að svara fyrir það sem stendur í svona margvíslegum stefnuyfirlýsingum flokka. Það er ekki alltaf allt viskulegt.
    En það er nú svo með hæstv. utanrrh. að hann er formaður Alþfl. og verður að gera sér það að góðu að svara því sem stendur á blöðum sem frá þessum flokki kemur. Það kann að vera óþægilegt og hæstv. utanrrh. veit afar vel að Alþfl. varð það á að setja það í sína stefnuskrá að þeir útilokuðu ekki aðild að Efnahagsbandalaginu. Mér skilst að ungliðahreyfingin hafi gengið svo langt að samþykkja það en þar var að vísu bætt við fyrirvörum sem vörðuðu náttúruauðlindir, bæði land og auðlindir hafsins. Það var að sjálfsögðu alveg óþarfi að vera að setja þessi orð á blað. En það var eðlilegt að Alþfl. væri spurður út úr um það og þegar hann svaraði því tók ég mark á þeim svörum. En jafnvel þótt eitthvað kunni að koma upp óþægilegt í sambandi við slík mál, þá réttlætir það vart að grípa til hvaða aðgerða sem er. Mér fannst á hæstv. utanrrh. að hann væri að halda því fram að vegna þess að þetta hefði nú verið svona heldur óþægilegt, ég ætla nú ekki að fara að gera mjög mikið mál úr því, þá væri hægt að gera ýmislegt.
    Hæstv. utanrrh. skrifaði það að Framsfl. væri eini flokkurinn á Íslandi sem formlega hefði boðið í viðræðum við EB að opna íslenska fiskveiðilögsögu fyrir veiðiflota EB. Þetta skrifaði hæstv. utanrrh. í Morgunblaðið og það er mjög alvarlegt mál þegar svona er gefið ranglega í skyn. Og þótt ég sé ekki mikið fyrir það að vitna í trúnaðarskjöl, þá verð ég samt að vitna í tvö skjöl sem eru orðin mjög gömul. Í fyrsta lagi skjal frá því í febrúar 1977 sem heitir ,,Working paper on a possible draft agreement between the Government of Iceland and the European Economy Community``, þar sem þessi mál eru m.a. reifuð, hvernig slíkur samningur gæti litið út, og aftur ekki neinn ,,working paper`` heldur ,,Draft agreement on fisheries between the European Economy Community and the Government of Iceland`` frá því í júlí 1981. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar allan þennan tíma,

öll þessi ár. Menn hafa verið að hamast við öll þessi ár að reyna að kreista eitthvað út úr þessu sem gæti verið hagkvæmt fyrir Ísland. Og það
hafa menn gert af fullum heilindum, hvaða ríkisstjórn og hvaða ráðherrar sem þar hafa komið að máli. En að halda því fram að eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem hafi leyft sér að nefna slíka hluti sé maður að nafni Halldór Ásgrímsson er að sjálfsögðu mjög alvarlegt, ekki síst vegna þess að hæstv. utanrrh. sagði áðan að hann hefði líka tekið þátt í því ásamt fyrrv. forsrh. Steingrími Hermannssyni. Þeir eru ekkert einir um það. Ég ætla ekkert að telja þá alla upp, enda skiptir það ekki máli. En þessir menn hafa ekki gert það með því hugarfari að opna landhelgi Íslands, nei, ekki aldeilis, heldur til þess að reyna að kreista út úr þeim mönnum sem eru alltaf að tala um þessa hluti og eru enn þá að tala um þessa hluti: Við hvað eigið þið? Hvað eruð þið að tala um? Og ætli geti ekki verið að þetta tilboð, þessi málamiðlun, sem svo er kölluð af fréttamanni, sé eitthvað sem þessir ágætu menn eru nú að finna upp af vanþekkingu vegna þess að þeir hafa margir hverjir ekki haft fyrir því að kynna sér málefni Íslands? Þá á ég við þá sem starfa á þeirri skrifstofu Efnahagsbandalagsins sem fer með þessi mál. Ég á ekki við forustumenn aðildarríkja Efnahagsbandalagsins. En þetta er það sem við höfum átt að eiga við.
    Ég get ekki sætt mig við það, hæstv. utanrrh., þótt þetta kunni að hafa verið óþægilegt fyrir formann Alþfl. að það gefi hæstv. utanrrh. einhverja afsökun fyrir því að fara með ranga hluti í skrifum sínum, segja það sem rangt er, kaupa sérstaka auglýsingu í dagblað til þess að auglýsa þennan samstarfsmann sinn í ríkisstjórn sem sérstakan sakamann á þessu sviði og þar að auki að birta í blöðum parta úr trúnaðarskjölum.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en svona er þetta. Og ég vitnaði í þetta hér vegna þess að það er mikilvægt að það sé tiltrú milli manna í þessum viðkvæmu málum, hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þetta eru svo stór mál að þau eru að sjálfsögðu á ábyrgð stjórnarandstöðu að mínu mati jafnt sem stuðningsmanna ríkisstjórnar. Þetta eru mál sem varða framtíðarhagsmuni landsins og það verður að geta ríkt um þessi mál fullur trúnaður eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh., en þá er það grundvallaratriði að menn fari rétt með.
    Síðan aðeins að lokum vegna þess að hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon spurðist fyrir um afstöðu Framsfl. í tilteknu máli og vitnaði þar til ummæla hv. 7. þm. Reykn. Steingríms Hermannssonar, sem ég hlustaði ekki á, ég var fjarstaddur og þykist vita að hv. þm. hafi vitað af því og ég skil ekki alveg vegna hvers hann er að spyrja mig út úr um þau mál. En af því tilefni er það alveg ljóst að um þessi efni hafa ávallt verið gerðir fyrirvarar og þeir fyrirvarar voru uppi á borðinu í fyrri ríkisstjórn. Hitt er svo annað mál að við gerðum okkur ávallt grein fyrir því að þeir fyrirvarar sem kynnu að standa eftir í lokin yrðu fyrst og fremst sameiginlegir fyrirvarar

allra EFTA - ríkjanna vegna þess að ekki væru líkur til þess að hægt væri að vera með einstaka fyrirvara einstakra ríkja heldur yrðu fyrirvararnir sameiginlegir. Og þess vegna hef ég alltaf gert mér grein fyrir því að í lokin kynnum við að standa frammi fyrir því hvort við ættum að vera aðilar að þessum samningi eða ekki. Það kom t.d. alveg skýrt fram hjá hæstv. sjútvrh. hér áðan, og ég er honum algerlega sammála, að ef við stöndum frammi fyrir því að vera með í þessum samningi og veita veiðiheimildir við Ísland til þess að fá betri aðgang að markaðnum, þá getum við ekki gengið að því. Það er alveg ljóst. Og það er jafnljóst að mínu mati að ef það eru verulegar líkur fyrir því að erlendir aðilar geti keypt upp land, jafnvel í stórum stíl, á Íslandi, þá getum við ekki verið með.
    En við verðum að sjálfsögðu að finna allar færar leiðir til þess að koma í veg fyrir það. Og við verðum að finna allar færar leiðir til þess að geta verið með í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði þar sem þar eru í húfi mikilvægir hagsmunir Íslands. Við verðum að reyna að koma því þannig til leiðar að það sem er í plús sé meira en það sem er í mínus og þar af leiðandi er það sjálfsagt mál að vinna að því á allan hátt að finna þessar færu leiðir. Hvort hæstv. fyrrv. landbrh. átti að vinna að þeim hlutum með öðrum hætti en hann gerði ætla ég ekki að leggja nokkurt mat á. Ég er ekki svo kunnugur því. Hann verður að meta það sjálfur. En ég vænti þess að það hafi verið í þessa veru sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson átti við þegar hann lét þau ummæli falla sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði hér til en ég tek fram að ég átti þess ekki kost að hlýða á þau ummæli.
    Ég vil að lokum vænta þess að við getum haldið áfram að ræða þessi mál og þau skýrist betur nú á næstu dögum og vikum. Og ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn hafi um þetta mál gott samráð við Alþingi og stjórnarandstöðuna vegna þess að við viljum fylgjast vel með því. Við viljum skilja það rétt og viljum ekki tala hér á grundvelli einhvers misskilnings. Það er mikilvægt að umræðan hér fari fram á grundvelli réttra upplýsinga og það sé ekki verið að karpa um það fram og til baka hvort verið sé að koma hér á yfirþjóðlegu valdi í stórum stíl eða ekki. Við verðum að fá þau gögn sem vera ber til að geta lagt sjálfstætt mat á það.
    Ég geri mér hins vegar afar vel ljóst að það kann svo að fara að við getum ekki verið aðilar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði og það kann svo að fara að hann verði ekki að veruleika. Það getur enginn fullyrt um það í dag. Ég ætla að vona að hann verði að veruleika og ég ætla að vona að við getum verið með í því. En ég er ánægður að heyra það frá hæstv. ráðherrum að ef svo fer, þá er komin ný staða í málið sem þarf þá að ræða á þeim grundvelli. Við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því að svo kynni að fara og það er mikilvægt að þannig verði haldið á málum þangað til það er komið á lokastig.