Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. svaraði því miður ekki nægilega skýrt þeim spurningum sem ég bar fram fyrir hann áðan í fullri alvöru. Hann flutti nokkurn texta um dómstóla og lög sem flokkast undir það sem heita sjálfsagðir hlutir og er ekkert merkilegt við. Eins og t.d. það að þegar við höfum gerst aðilar að einhverjum alþjóðalögum þá túlki menn íslensk lög í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar og slíkt geti haft forgang umfram aðra eða nýja íslenska löggjöf. Það er í sjálfu sér ekkert merkilegt við það og það er engin speki. Það er ekkert svar heldur við því sem ég var að tala hér um áðan.
    Hæstv. ráðherra vék aðeins að dómstólum og sagði: ,,Það er þrennt sem dómstóllinn á að gera``, ef ég tók rétt eftir. Það er í fyrsta lagi túlkun á EFTA-reglum eða EES-reglum. Í öðru lagi á hann að úrskurða í deilum milli ríkis og eftirlitsstofnunar, ég hygg að það sé rétt eftir haft. Í þriðja lagi á hann að úrskurða um samkeppnisreglur. Þegar um þessi mál hefur verið fjallað áður, m.a. í málflutningi þingmanna Framsfl., hefur ævinlega verið talað um þetta þannig að þessi dómstóll eigi að takmarka sig við samkeppnisreglur. Hv. 1. þm. Austurl. hefur aftur og aftur talað um að það sé allt í lagi ef um það er að ræða að svona dómstóll takmarki sig við samkeppnisreglur. Nú er það hins vegar ljóst að þessi dómstóll mun auðvitað koma víðar við sögu eins og hæstv. ráðherra rakti. Og hæstv. ráðherra nefndi nokkur dæmi sem hann taldi vera hliðstæð, sem er algerlega fráleitt að bera saman, að mínu mati. Hann nefndi t.d. það að við hefðum gerst aðilar að norrænum samningum m.a. um skattamál og meðlagagreiðslur. Munurinn á þeim samningum og þessu er sá að hér er gert ráð fyrir því að dómstóllinn úrskurði í deilu á milli ríkis, þ.e. íslenska ríkisins, og eftirlitsstofnunarinnar, erlends aðila og fjölþjóðlegs aðila. Það er auðvitað reginmunur á því hvort um er að ræða slíka úrskurði eða einhver almenn norræn ákvæði um skyldur til meðlagsgreiðslna, svo þarft sem það nú er og brýnt eins og allir menn þekkja. Hér er því um algerlega ósambærilega hluti að ræða að mínu mati.
    En það mikilvæga hins vegar sem hæstv. utanrrh. sagði svo að lokum í sinni ræðu var það og ég vil vekja athygli alls þingheims á, sem eftir lifir hér enn í þessum stólum, það er það: Það getur vel verið að menn vilji skoða nánar einhver álitamál í sambandi við þessa hluti. Þá er auðvitað komið að því sem hv. 8. þm. Reykn. nefndi fyrr á þessum fundi að það er auðvitað nauðsynlegt að utanrmn. kembi álitamál af þessu tagi og geri það vandlega og átti sig nákvæmlega á því hvert menn eru að fara. Auðvitað kann það líka að vera svo að eitt og annað í þessum fræðum standist út af fyrir sig þau stjórnarskrárákvæði sem við eigum þótt það standist ekki norsku stjórnarskrána. Það stafar m.a. af því að okkar stjórnarskrá er að stofni til afar gömul. Norska stjórnarskráin hefur hins vegar verið endurnýjuð og endurskoðuð nokkrum sinnum á öldinni. M.a. var hún endurskoðuð í tengslum við umræður um hugsanlega aðild Norðmanna að Evrópubandalaginu á sínum tíma. Þá var sett inn 93. gr. sem ég var að vitna til áðan. En þó hún hafi verið sett inn við þær aðstæður í raun og veru til að opna, að ég segi ekki að teppaleggja, fyrir hugsanlegri aðild Noregs að Evrópubandalaginu, þá er hún samt þröskuldur núna í þessu EES-máli, sem hlýtur að vera athyglisvert umhugsunarefni.
    Það er auðvitað alveg ljóst að í umræðum hér á Íslandi um það sem heitir yfirþjóðleg stofnun vantar margar blaðsíður og marga kafla. Og þar hafa ekki farið fram nægilega glöggar rannsóknir með hliðsjón af
okkar lögum og hefðum og stjórnarskrá. Ég held að það sé nauðsynlegt að það verði gert og ég held að það sé alveg augljóst mál að hér hafa verið færð, m.a. af mér nú á þessari nóttu, fullgild rök fyrir því að það er ástæða til að spyrja spurninganna og fullgild rök fyrir því að það er rangt sem hæstv. utanrrh. sagði hér aftur og aftur fyrr í umræðunum, að það væri svo sem ekkert yfirþjóðlegt í þessu. Aftur og aftur kom það fram hjá ráðherranum, en svo er það ekki, hér er bersýnilega um það að ræða að það er verið að takmarka þann umsvifa- og valdsrétt sem grunnstofnanir okkar fullveldis hafa, án þess að það þýði fullveldisafsal eða alvarlega fullveldisskerðingu í heild. Það er ekkert slíkt uppi. Ég skora á hæstv. utanrrh. í þessu máli að sýna okkur, sem hér höfum verið að tala við hann, a.m.k. sanngirni og a.m.k. meiri sanngirni en mér fannst hann sýna hv. 1. þm. Austurl. hér áðan, fjarstöddum, þegar hann las yfir honum hér svar til Framsfl. sem ég er þó ekki sérstakur milligöngumaður fyrir.