Ólafur Ragnar Grímsson :
    Ég þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa mér að bera hér af mér sakir. Hæstv. utanrrh. sakaði mig um það að ég hefði farið hér með retorík og svar hans, hið umrædda ,,nei`` sem hann gaf hér, hefði verið viðbrögð við þeirri retorík. Þetta er rangt hjá hæstv. utanrrh. Sá texti sem ég fór með var orðréttur frá hæstv. sjútvrh. Og ,,nei-ið`` var svar við hæstv. sjútvrh. Sá langi kafli í ræðu hæstv. utanrrh. sem hann fór með hér áðan og sagði að væri svar við minni retorík var hins vegar svar til hæstv. sjútvrh. þótt hæstv. utanrrh. kysi að nota mitt nafn til þess að það væri ekki eins áberandi að hann var að deila í grundvallaratriðum við samráðherra sinn, hæstv. sjútvrh. og fyrrv. formann Sjálfstfl. Þess vegna er nauðsynlegt að það komi hér fram að það voru ekki sakir á mig sem hæstv. ráðherra var að svara heldur var það svar hæstv. utanrrh. til hæstv. sjútvrh. þar sem skýrt kom fram að hæstv. utanrrh. er í grundvallaratriðum ósammála því sem hæstv. sjútvrh. sagði hér sem höfuðatriði í sinni ræðu og þar með hefur staðfestst enn á ný grundvallarágreiningur innan þessarar ríkisstjórnar um höfuðatriði þess máls sem hér hefur verið rætt í dag og í nótt.