Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Um leið og sjálfsagt er að þakka hæstv. forsrh. fyrir stefnuræðu hans hlýt ég að lýsa vonbrigðum. Ég gerði, eins og ég hygg flestir Íslendingar, ráð fyrir því að fá nú loksins að heyra stefnu Sjálfstfl. Við leituðum mikið að henni fyrir kosningar. Ég hætti að vísu þegar Reykjavíkurbréf upplýsti um það bil tveimur vikum fyrir kosningar að Sjálfstfl. gengi stefnulaus til þeirra. Reyndar upplýsti blaðið jafnframt að það þyrfti að fræða almenning í landinu áður en stjórnmálaflokkar gætu lýst stefnu. Líklega er ekki búið að fræða almenning nóg í landinu.
    Ég varð hins vegar undrandi að sjá þar afar lítið af stefnumálum Alþfl. því að formaður Alþfl. lýsti með hárri raust í kosningabaráttunni aftur og aftur að Alþfl. hefði stefnu í sérhverju máli. Reyndar gaf Alþfl. út stefnuskrá upp á, hygg ég, 55 síður. M.a. var það eitt í stefnu Alþfl. að taka skyldi upp búvörusamninginn og það átti að spara ríkissjóði þá ef ég man rétt u.þ.b. 5 milljarða kr. Þetta er ekki að finna í stefnuræðu hæstv. forsrh. Þvert á móti ætlar Sjálfstfl. og ríkisstjórnin þar með að byggja á því samkomulagi sem hefur orðið með bændum og launþegum í landinu. Og ef ég þekki hæstv. landbrh. rétt þá er hann ákveðinn í að standa á þeim samningi. Alþfl. lýsti því einnig að nú ætti að taka upp nýja stefnu í sjávarútvegsmálum. Nú ætti að hefja sölu veiðileyfa. Ekki er heldur að finna það í stefnuræðu forsrh. Þvert á móti segir að það eigi nú að fara að lögum og eigi að skipa nefnd til endurskoðunar á sjávarútvegsstefnunni, eins og að sjálfsögðu allir gerðu ráð fyrir, og læra af þeirri reynslu sem hefur fengist. En við höfum heyrt það hjá hæstv. sjútvrh. að hann telur ekki koma til greina að hefja sölu á veiðileyfum og fögnum við því.
    Hvar eru þá stefnumið Alþfl.? Þetta voru tvö þau stefnumið sem alþýðuflokksmenn töldu standa í vegi fyrir því að unnt væri að mynda hér á landi nýja félagshyggjustjórn. Þeir töldu útilokað að ná samkomulagi við Framsfl. og Alþb. um þessi tvö mikilvægu mál. Við fengum að vísu afarlítið að heyra af heiðursmannasamkomulaginu sem gert var í Viðey. Við þekkjum bara einn lítinn anga þess, þ.e. flutning á landgræðslu og skógrækt yfir til umhvrn. en við höfum líka fengið að heyra að þar hafi hæstv. utanrrh. lagt of mikið í heiðursmannaorðin.
    En er þá ekkert í stefnuræðu hæstv. forsrh. sem unnt er að ræða um? Jú, það er það. Hæstv. forsrh. flengdi sjóinn eins og þingmenn Persakeisara í leit að sökudólg. Hann var að leita að sökudólg fyrir því sem hann sér hættulegt fram undan á ferli frjálshyggjunnar. Og hann kennir fyrri ríkisstjórn um það sem hann óttast svo sannarlega og með réttu að kunni að gerast. Hann dró upp ansi dökka mynd af viðskilnaðinum . Þó er það nú staðreynd að Þjóðhagsstofnun birti aðeins örfáum vikum fyrir kosningar nýja þjóðhagsspá. Og það sem kom fram í þjóðhagsspá þeirri var: Að afkoman væri, ef nokkuð, betri en Þjóðhagsstofnun hafði áður talið. Að verðbólgan væri jafnvel um eða innan við 5% á 12 mánaða grundvelli. Að vöruskiptaafgangur væri meiri en Þjóðhagsstofnun hafði áður talið og þannig gæti ég haldið áfram að telja.
    Það er vissulega alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að nokkur þenslumerki voru og var aldrei farið leynt með það. Enda er það að sjálfsögðu ekkert nýtt í íslensku efnahagslífi. Það hafa ætíð verið afar miklar sveiflur í íslensku efnahagslífi. Og við höfum nýlega gengið í gegnum einhvern mesta samdrátt sem við Íslendingar þekkjum í tvö til þrjú ár. En við erum núna á uppleið. Fyrri ríkisstjórn var að sjálfsögðu ljóst að þegar sá vinningur kæmi þá yrði vitanlega að draga úr ýmsum þáttum og þannig að draga úr þenslunni. Fyrri ríkisstjórn hefði hins vegar ekki dottið í hug að gera það með því að brjóta þjóðarsáttina. Og því miður, og ég harma það, að núv. ríkisstjórn hefur kastað inn stríðshanskanum með þeirri vaxtahækkun sem nú hefur verið ákveðin.
    Að sjálfsögðu eru fjölmargar aðrar leiðir til að draga úr þenslu en að hækka vexti. Og reyndar hygg ég að hækkun vaxta sé einhver sú versta leið sem ríkisstjórn getur fundið upp á. Það var leiðin sem því miður var farin árið 1987 og leiddi til gjaldþrots flestra útflutningsfyrirtækja í landinu. Menn verða í þessu sambandi að gera sér grein fyrir því hve skuldsett íslensk fyrirtæki eru. Þau þola ekki háa vexti.
    Vitanlega varð og á að draga úr eftirspurn eftir fjármagni á lánamarkaðnum og eðlilegasta leiðin í þessari stöðu sem nú er er að draga úr framboði húsbréfa. Útlán til húsnæðiskerfisins jukust frá árinu 1988 -- 1989 á verðlagi ársins 1991 úr rúmum 9 milljörðum í um 16 milljarða. Og það þarf að draga úr því eins og ástandið er nú. Sömuleiðis á vitanlega að krefja Seðlabankann um aðhald að bankakerfinu í landinu, m.a. að breyta innlánsvaxtakerfinu eins og það er nú og draga úr vaxtamun. Þannig má vitanlega rekja fjölmargt annað sem má gera til að draga úr þenslu. Og við framsóknarmenn munum við þessa stöðu alls ekki leggjast gegn því að draga úr ríkisútgjöldum ef með því er ekki verið að kasta fyrir róða mikilvægum þáttum velferðarkerfisins.
    Ég sagði áðan að því miður hefði hæstv. ríkisstjórn kastað stríðshanskanum. Hæstv. forsrh. lýsir í ræðu sinni --- það er ein af vestrænu kenningunum, líklega ein af þeim sem ég á að vera svo mikið á móti --- þar segir nú að ríkisstjórnin eigi ekki að hafa stefnu og skoðun. Já, það er rétt ég er á móti þessari kenningu þó ég fylgi nú kannski flestum öðrum ef þær eru aðlagaðar að íslenskum staðháttum.
    Er það ætlun ríkisstjórnarinnar, ég spyr, að hafa ekki skoðun á nýrri þjóðarsátt? Er það ætlun hæstv. nýrrar ríkisstjórnar að taka ekki þátt í gerð nýrrar þjóðarsáttar? Ég vek athygli á því sem formaður VSÍ sagði á aðalfundi VSÍ: ,,Ríkisstjórnin fyrri átti afgerandi þátt í því að þjóðarsáttin tókst.`` Og formaðurinn sagði líka: ,,Fyrri ríkisstjórn stóð við hvert einasta atriði sem hún lofaði.`` Ég viðurkenni að mér þótti vænt um að heyra þetta frá Einari Oddi.
    Þessi ríkisstjórn hefur brotið eitt af mikilvægustu

atriðum þjóðarsáttarinnar, lækkun vaxta. Það var grundvallaratriði í samningum á milli vinnuveitenda og launþega. Og launþegar gengu sérstaklega hart í þessu máli, m.a. með viðræðum við bankakerfið í landinu. Ég spyr því: Hvernig ætlar núv. hæstv. ríkisstjórn að ná þeim trúnaði sem nauðsynlegur er hjá launþegum og verkalýðshreyfingunni í landinu til að hún geti átt afgerandi þátt í gerð nýrrar þjóðarsáttar? Ætlar hún enga fyrirhyggju að sýna í þeim málum? Ætlar hún að kasta því öllu fyrir róða? E.t.v. er þetta mikilvægasta spurningin sem spurt verður í dag. Því á svari við þessari spurningu og meira en á svari, á framkvæmdum mun velta hvort hér tekst að varðveita þann mikilvæga stöðugleika sem fyrri ríkisstjórn kom á og viðurkenndur er af allri þjóðinni að vera einsdæmi um áratuga skeið. Jú, jú, það segja allir: Þeim stöðugleika má ekki glata. Það vantar ekki. Það segir hæstv. forsrh. Það segja allir hv. sjálfstæðismenn. En með því sem nú hefur verið gert hefur honum í raun, óttast ég, verið fórnað.
    Ég óska þessari ríkisstjórn sannarlega þess að betur fari heldur en nú horfir. Ég óska þessari ríkisstjórn þess þjóðarinnar vegna að það takist að varðveita stöðugleikann og takist að varðveita friðinn. Við framsóknarmenn munum í þessu skyni reka mjög málefnalega baráttu hér á þingi og utan. Við framsóknarmenn höfum ákveðið að skipa málaflokka í alla mikilvægustu flokkana. Við munum skipa málsvara fyrir þá málaflokka og við munum afla okkur upplýsinga innan og utan þings til þess að geta tekið ábyrga afstöðu til allra mála sem frá ríkisstjórninni koma en einnig undirbúið okkar eigin mál í samráði við þá sem við fáum til samstarfs utan þings. Við væntum þess að við getum þannig lagt gott til mála. Við munum gagnrýna harðlega það sem við teljum afvega fara hjá hæstv. ríkisstjórn, en við munum styðja það sem hún kann gott að gera. Því miður eru fyrstu sporin ekki vænleg.