Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegur forseti. Góðir tilheyrendur. Undanfarnar vikur hefur hin pólitíska atburðarás á Íslandi verið venju fremur hröð. Í kjölfar stuttrar kosningabaráttu komu stuttar stjórnarmyndunarviðræður og í gær þegar ný ríkisstjórn hafði starfað í þrjár vikur var aðeins mánuður frá kosningum.
    Þið heyrið það á ræðum stjórnarandstæðinga hér í kvöld, góðir áheyrendur, að þeim svíður sárt og þeir eru næstum grátklökkir af reiði sumir hverjir. Þeir eru ekki bara sárir heldur eru þeir liggur mér við að segja súrir yfir því hvernig komið er. Og yfir hverju eru þeir súrir? Kannski helst segir mér svo hugur um yfir því að vera nú ekki lengur ráðherrar. Þið munuð heyra það þegar formaður Alþb. kemur hér í ræðustól á eftir. Þetta er auðvitað mannlegt en það er ykkar að dæma um það hvort það er stórmannlegt. Það er annar handleggur.
    Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar er ekki löng en langlífi og dugur ríkisstjórna hafa oftar en ekki verið í öfugu hlutfalli við lengd stefnuyfirlýsingar. Í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar segir að lífskjör skuli jöfnuð, m.a. með lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er hæstur. Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt tillögur iðnrh. um auknar niðurgreiðslur á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis þannig að um 11% lækkun verður á kostnaði vísitölufjölskyldunnar á hinum svokölluðu köldu svæðum sé miðað við algengasta taxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Þá er kominn til framkvæmda fyrsti áfanginn af þremur úr tillögum orkuverðsjöfnunarnefndar frá í vetur. Báðir núv. stjórnarflokkar lofuðu í kosningabaráttunni að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er hæstur. Þetta er nú verið að efna. Þetta er lífskjarajöfnun í framkvæmd og mikið hagsmunamál íbúa landsbyggðarinnar sem allt of margir búa við allt of háan hitunarkostnað.
    Í þessu nýbyrjaða stjórnarsamstarfi hefur það komið í hlut Alþfl. að fara með umhverfismál. Það er í senn mikilvægt og vandasamt verkefni að vernda og verja það sem þessi þjóð á sér dýrmætast, landið sjálft, náttúru þess og viðkvæmt lífríki. Fjölmiðlar fluttu okkur um helgina fregnir af skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskólans. Þar var spurt um mikilvægustu verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Umhverfisvernd var þar efst á blaði, ofar öllum öðrum verkefnum hjá þorra svarenda. Þetta eru ekki aðeins góð og gagnmerk tíðindi heldur gætu þetta verið vatnaskil í umhverfismálum á Íslandi. Sú vakning sem orðið hefur í umhverfismálum víða um lönd, sú bylgja umhverfis- og gróðurverndar sem hátt hefur risið um álfur hefur nú ekki aðeins náð hingað heldur hefur hún náð til næstum allra landsmanna. Og þessi skoðanakönnun er ekki aðeins ábending eða leiðbeining, hún er annað og meira. Hún er krafa til nýrrar ríkisstjórnar um að sinna umhverfismálum og ekki síst gróðurvernd af kostgæfni og gera það betur en gert hefur verið til þessa.
    Þessi skoðanakönnun sýnir líka annað og ekki síður merkilegt, nefnilega það að verðmætamat er að

breytast. Hreint og hollustusamlegt umhverfi eru lífsgæði sem skipta miklu og á mikils að meta.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lýst að styðja skuli einstaklinga og félög í baráttu gegn landeyðingu og fyrir gróðurvernd. Lög á að setja um eignarhald á orkulindum og almenningum og um afnotarétt almennings. Þá er það og stefna ríkisstjórnarinnar að taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi um mengunarvarnir og verndun lífríkis sjávar. En hér þarf fleira að koma til og ég nefni nokkur meginmál úr ítarlegri kosningastefnuskrá Alþfl. sem við hljótum að vera sammála um að stefna að.
    Það verður að setja löggjöf þar sem meginreglan er sú að lausaganga búfjár verði ekki leyfð. Við eigum hiklaust að stefna að því marki í áföngum að um aldamót eða jafnvel fyrr heyri lausaganga búfjár á Íslandi sögunni til. Þetta er stórmál. Þetta verðum við að gera til að hlífa landinu, stöðva ofbeit og eins til að minnka slysahættu. Við verðum að auka ræktun örfoka lands, hlífa viðkvæmum stöðum og náttúruminjum, gera átak í frárennslismálum gegn fjörumengun, bæta meðferð úrgangs og auka endurvinnslu. Þar eru miklir möguleikar ónýttir. Stofna byggðasamlög um sorpeyðingu er nái til allra þéttbýlissvæða og koma á skilagjaldi af ökutækjum. Tryggja fullkomnar mengunarvarnir jafnt í stóriðju sem í smáiðju. Í stóriðju eins og gert verður í væntanlegu álveri á Keilisnesi. Við eigum líka að gera það að lagaskyldu að umhverfismat framkvæmda fari ævinlega fram áður en framkvæmdir hefjast. Við eigum líka að taka upp og staðfesta hina alþjóðlegu mengunarbótareglu að sá borgar sem menguninni veldur eða úrganginn skapar.
    Umhverfismál eru mál sem varða okkur öll. Þau varða alla menn alls staðar. Þau varða kannski mestu þá sem á eftir okkur koma, komandi kynslóðir. Við berum ábyrgð gagnvart þeim. Sú ábyrgð felst ekki aðeins í því að varðveita það sem okkur hefur verið trúað fyrir heldur líka skila betra landi til þeirra sem á eftir okkur koma.
    Umhverfismál eru mál sem sérstaklega höfða til unga fólksins og samstarf á þeim vettvangi er sannarlega tilhlökkunarefni. Það er líka brýnt að leggja áherslu á það að umhverfismál eru landsbyggðarmál því þau taka til landsins alls, jafnt í byggðum sem óbyggðum. En fyrst og síðast eru umhverfismálin mál okkar allra hvort sem við erum ung eða aldin. Þau eru mál okkar allra vegna þess að landið og tungan eru dýrmætust sameign þessarar þjóðar.
    Góðar stundir.