Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem fór frá við kosningarnar þann 20. apríl sl. náði árangri í efnahagsmálum sem mjög lengi hafði verið beðið eftir. Árangurinn byggðist á samstarfi fjölmargra aðila í þjóðfélaginu.
    Það, að þeir flokkar sem að stjórninni stóðu áttu möguleika á að halda samstarfinu áfram að kosningum loknum, lagði þeim þá skyldu á herðar að reyna til þrautar að ná samkomulagi um endurnýjun stjórnarsamstarfsins. Þessi niðurstaða kosninganna var yfirlýsing kjósenda og áskorun um að halda verkinu áfram. Það urðu þess vegna mikil vonbrigði að Alþfl. skyldi ekki vilja gera alvarlega tilraun til að endurnýja stjórnarsamstarfið. Í stað þess að fara í alvöru stjórnarmyndunarviðræður við fyrrum samstarfsflokka sína fór alþýðuflokksforustan í viðræður við Sjálfstfl. þvert ofan í vilja flestra stuðningsmanna sinna. Síðan hafa verið veruleg átök í flokknum og nóg að gera hjá forustumönnum hans við að róa menn og kannski hefur hæstv. utanrrh. lýst hugarástandi samflokksmanna sinna best sjálfur þegar hann kom af fundi með félögum sínum og sagði að þeir væru milli vonar og ótta.
    En það eru ekki einungis alþýðuflokksmenn sem eru milli vonar og ótta. Meiri hluti þjóðarinnar er vonsvikinn vegna þess að ekki var reynt til þrautar að endurnýja stjórnarsamstarfið milli flokkanna sem voru í síðustu ríkisstjórn og milli vonar og ótta vegna þess sem hefur gerst á síðustu dögum, vegna þess hvernig hæstv. ríkisstjórn hagar sínum fyrstu aðgerðum.
    Í stað þess að leitast við að halda góðri samvinnu við launþegahreyfingarnar og aðra aðila í þjóðfélaginu um áframhaldandi stöðugleika er miklum vaxtahækkunum lýst yfir. Við þurfum að hækka vextina svo þeir geti lækkað aftur. Það er boðskapur hæstv. forsrh. Þetta var líka boðskapur stjórnar Þorsteins Pálssonar á sínum tíma og allir vita hvernig þeirri efnahagsstjórn reiddi af.
    En nú er skriðunni ýtt af stað. Í dag hækka raunvextir af spariskírteinum ríkissjóðs um 1,9%, úr 6% í 7,9%. Þetta þýðir að raunkostnaður af lánum hækkar um 32% frá því sem var og vitanlega mun þetta verka á allt fjármálalífið. Þannig munu raunvextir bankanna sjálfsagt fara í 9 -- 11% og afföll af húsbréfum fylgja eftir og húsnæðismálalánin hækkuðu líka í dag.
    Hæstv. forsrh. sagði reyndar líka áðan að vaxtalækkun hefði mikla þýðingu til að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefði í þjóðarbúskapnum að undanförnu. En um leið boðar hann vaxtahækkanir. Hver skilur þetta? Hvers vegna var ekki atvinnulífið á fullri ferð úr því vextirnir voru lágir? Svarið við því er einfalt. Vextir hér voru of háir og hér eru menn að setja af stað verðbólgurúllettu ef þeir sjá ekki að sér.
    Launþegasamtökin mótmæla þessum vaxtahækkunum auðvitað mjög harkalega, en forsvarsmenn atvinnurekenda segja þetta skiljanlegar ráðstafanir. Hvers vegna skilja atvinnurekendur þessar aðgerðir svona vel þegar þeir á sama tíma kalla hugmyndir verkalýðsforingjanna um að launþegar fái hlutdeild sína í viðskiptakjarabatanum tilræði við stöðugleikann? Það er vegna þess að hæstv. ríkisstjórn er að eyða kauphækkunartilefnunum. Fyrirtækin geta auðvitað ekki borgað það í kauphækkanir sem þau borga í vexti og forsvarsmenn þeirra telja það heppilegra að borga um tíma hærri vexti en að sitja uppi með hærra kaup.
    Þarna er ógæfulega af stað farið hjá hæstv. ríkisstjórn og stefnt í óefni þeirri lífsnauðsynlegu samvinnu sem var komin á um að halda stöðugleika í efnahagslífinu. Það er því miður staðfesting á því sem menn óttuðust, að í þessu stjórnarsamstarfi mundi ekki verða lögð sama áhersla á þjóðarsátt og gert var í því fyrra.
    Ég taldi, eftir að hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum um sjávarútvegsmál í nýafstaðinni kosningabaráttu, einsýnt að ný ríkisstjórn mundi strax í upphafi taka ákvörðun um að stefna að því að taka upp nýja skipan mála sem fyrst. Mér eru það því mikil vonbrigði að hæstv. forsrh. skuli við þessa umræðu upplýsa að hann telur ekki næga reynslu vera komna á núverandi fyrirkomulag, ekki fyrr en í ársbyrjun 1993 og að þá muni menn fara yfir þá reynslu sem fengist hafi af núgildandi skipulagi. Þetta þýðir að breytingar á þessu stórhættulega kerfi, sem er að setja sjávarbyggðir allt í kringum landið í hættu, eru ekkert á næstu grösum.
    Ég skil þetta þannig að hæstv. ríkisstjórn vilji fresta því að taka á málinu vegna þess að það hefur komið fram að ekki er samstaða meðal stjórnarliða um hvað eigi að gera. Líklega mun sú frestun vara langt fram eftir kjörtímabilinu ef svona fer og kannski fram yfir lífdaga stjórnarinnar. Það gæti verið ástæðan fyrir því hvernig hæstv. forsrh. tekur til orða af þessu tilefni. Að hann sé að ýta óþægilegu ágreiningsmáli inn í framtíðina. En eru alþýðuflokksmenn sáttir við að þessu máli verði ýtt inn í framtíðina? Að stefnuleysi Sjálfstfl. sem þeir kölluðu svo í kosningabaráttunni er orðið að þeirra eigin stefnu? Eða er það eins og með búvörusamninginn, að þeir verði að láta það yfir sig ganga að hæstv. forsrh. lýsi því yfir að fjórða meginverkefni ríkisstjórnarinnar sé að framkvæma stefnu fyrri ríkisstjórna í landbúnaðarmálum.
    Ég tel að hér megi einskis bíða, heldur eigi að skipa nefnd nú þegar sem verði skipuð mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum, ekki bara úr stjórnarflokkunum, því að það þarf samstarf, það þarf víðtækt samstarf ef það á að ná samkomulagi um breytingu á stjórn fiskveiða. Það þarf að skipa þessa nefnd strax og það skulu vera mín lokaorð, virðulegi forseti, það væri óskynsamlegt af hv. Alþingi og ríkisstjórn að binda sig við mastrið með stefnuleysi í sjávarútvegsmálum til að bíða eftir reynslu af núgildandi kerfi sem fyrir löngu er næg.