Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það eru vissulega tímamót í sögu hverrar þjóðar þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum. Hin nýja ríkisstjórn er jafnvel svo ný að hæstv. forsrh. hefur ekki áður átt sæti á Alþingi sem þingmaður en hefur sinn feril þar sem forsrh. Sú staðreynd verður e.t.v. skoðuð síðar í ljósi sögunnar. En mestu máli skiptir í nútíð og framtíð hver verk hennar verða og af þeim verður hún vegin og metin þegar ferli hennar lýkur. Við þingkonur Kvennalistans óskum þess að störf þessarar ríkisstjórnar verði landi og þjóð til farsældar. Við munum þó vera gagnrýnar á störf hennar en taka málefnalega afstöðu til þingmála hverju sinni.
    Stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar, sem mönnum hefur þótt fáorð mjög, tekur í raun ekki afgerandi á neinu máli og í stefnuræðu hæstv. forsrh. hér áðan er heldur ekki að finna mikilsverðar upplýsingar um það hvernig stjórn landsmála er fyrirhuguð. Eitt má þó lesa út úr boðskapnum. Nú er ætlunin að koma á markaðsbúskap. Frjálshyggjan á að sitja í fyrirrúmi, gengið að sitja sem fastast og opna landið fyrir auðjöfrum Evrópu.
    Einu er ríkisstjórnin búin að koma í verk nú þegar og það er að ýta af stað stórfelldri hækkun vaxta í þjóðfélaginu með því að hækka vexti á víxlum og skuldabréfum ríkissjóðs. Í dag var ákveðið í stjórn Húsnæðisstofnunar að hækka vexti á húsnæðislánum í 4,9%. Ávöxtunarkrafa húsbréfa er 8,5% og afföll eru komin í 22,5%. Vandi íbúðakaupenda í dag er því óheyrilega mikill og þeir taka á sig skuldbindingar í 25 ár sem eru til komnar vegna stefnu fyrrv. ríkisstjórnar í húsnæðismálum og núv. ríkisstjórnar í vaxtamálum. Allir hugsandi menn hljóta því að horfa með skelfingu til þess ef vaxtaskriðan er nú að fara af stað á nýjan leik því að þau skriðuföll munu vinda upp á sig rétt eins og um náttúruhamfarir væri að ræða og eyðileggja bæði fjárhag heimilanna í landinu og þess atvinnurekstrar sem þjóðin byggir afkomu sína á.
    Fyrir kosningar var það helsta baráttumál allra flokka að bæta lífskjör almennings. Nú skyldu menn uppskera fyrir þolinmæði og þrautseigju á þjóðarsáttartímanum. Úrbætur í launa - og kjaramálum eru eitt af aðalstefnumálum Kvennalistans eins og við sýndum með því tilboði sem við gerðum fráfarandi ríkisstjórnarflokkum strax eftir kosningar. En þá voru komnar breyttar áherslur, a.m.k. hjá Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokki Íslands. Nú var sá flokkur búinn að fá sín atkvæði og launa - og kjaramál kjósenda skipta ekki lengur máli. Þessi stefnubreyting Alþfl. er e.t.v. tilefni til þeirra einstæðu ummæla sem formaður VSÍ viðhafði á nýafstöðnum aðalfundi þeirra samtaka að engir stjórnmálamenn meini neitt með fyrirheitum sínum um hækkun lægstu launa. Þessi virðingarverði sjálfstæðismaður getur kannski leyft sér að setja svona fullyrðingar fram sem slíkur, en mér er það til efs að hann geti leyft sér að alhæfa þetta fyrir alla stjórnmálamenn. Ég frábið mér túlkun Einars Odds á minni skoðun því ég læt ekki af því að sá hópur launþega

sem mestu hefur kostað til þjóðarsáttar er þeir sem lægstu launin hafa og fá greitt samkvæmt umsömdum töxtum.
    Boðskapur formanns VSÍ er jafnalvarlegur sem hann er fráhrindandi. Það er hins vegar umhugsunarvert að þessi boðskapur kemur fram einmitt núna þegar ný ríkisstjórn undir forsæti sjálfstæðismanna sest að völdum. Það verður í það minnsta að ætla að formaðurinn ætti að vera vel kunnugur efndum og meiningum sjálfstæðismanna um kosningaloforð í launamálum.
    Í hinu fáorða Viðeyjarsamkomulagi stendur þó m.a. þessi setning, með leyfi forseta: ,,Lífskjör verði jöfnuð, m.a. með lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er hæstur.`` Í kosningabaráttu síðustu vikna kom það fram í máli alþýðuflokksmanna á Vestfjörðum að tillaga um jöfnun orkuverðs, sem nefnd á vegum iðnrn. vann að, hafði ekki fengið afgreiðslu á síðasta þingi vegna fyrirstöðu sjálfstæðismanna. Nú hefur hæstv. umhvrh. upplýst það hér fyrr í kvöld að ríkisstjórnin hafi samþykkt að framkvæma fyrstu aðgerðir í lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er hæstur. Ég hlýt að lýsa ánægju minni yfir því ef nú á að taka á því mikla nauðsynjamáli í jöfnun búsetuskilyrða. Hins vegar tel ég að sú tillaga sem hér um ræðir gangi allt of skammt og ég óttast að nú verði litið svo á að búið sé að afgreiða þetta mál endanlega.
    Staðreyndin er sú að það er löngu orðið tímabært að jafna orkuverð í landinu. Um það mál hafa verið gerðar margar skýrslur hin síðari ár en frekar lítið orðið úr framkvæmdum. Þolinmæli þeirra sem árum saman hafa mátt búa við margfalt orkuverð til heimilisnota og atvinnurekstrar á við það sem gerist á suðvesturhorninu er þrotin og menn telja með réttu að tími skýrslugerða sé liðinn og tímabært að sjá úrbætur í framkvæmd.
    Í stefnuræðu hæstv. forsrh. hér áðan var lögð áhersla á það að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Ef það ákvæði á að vera virkt, er þá ekki tími til þess kominn að aðrar auðlindir landsins eins og orkulindir séu einnig lýstar sameign þjóðarinnar og þjóðin njóti þeirra með jöfnuð að leiðarljósi?
    Fólkið í hinum dreifðu byggðum sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi og landbúnaði vill gjarnan vita hverju það á von á frá hinum nýju stjórnvöldum. Í stefnuræðu hæstv. forsrh. kom fram að leitast verði við að ná víðtækri sátt um stefnu í sjávarútvegsmálum. En hver sú stefna er kemur ekki fram, enda hafði Sjálfstfl. enga stefnu í þeim málum fyrir kosningar. Það verður því fróðlegt að fylgjast með því hvort einhver stefna finnst þegar farið verður að leita betur og eins gott að sú nefnd sem skipuð verður til að fjalla um það mál hafi hagsmuni íbúanna í sjávarplássum landsins að leiðarljósi en ekki hagsmuni fárra útvaldra sem hafa keypt óveiddan fisk í sjó á grundvelli hinna alræmdu kvótalaga.
    Í Kvennalistanum höfum við lagt fram tillögu um nýja skipan fiskveiða sem byggir á því að 80% af úthlutuðum afla samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar ár hvert sé úthlutað til byggðarlaga og 20% renni

í sameiginlegan sjóð sem verði til sölu, leigu eða sérstakrar ráðstöfunar eftir ákveðnum reglum. Þessi tillaga hefur hingað til lítið fengist rædd.
    Hver landbúnaðarstefnan verður hjá hæstv. ríkisstjórn er hægt að lesa í DV 17. maí sl., en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Af hálfu ríkisins er sú krafa gerð að sauðfé fækki um minnst 55 þús. ær. Náist þetta markmið ekki með frjálsri sölu kemur til nánast flatur niðurskurður á heildarfullvirðisrétti bænda.``
    Þar með blasir það við sem bændur hafa óttast mest því þar sem byggðin er hvað veikust eru flest bú undir stærðarmörkum meðalbús. Það liggur í augum uppi að þó að þetta sé sú tillaga sem unnin var í sjö manna nefnd, að næðist ekki fram fækkun sauðfjár í landinu með kaupum á fullvirðisrétti kæmi til flöt skerðing, þá er það stjórnmálamannanna að taka ákvörðun um það hvort þannig skuli að verki staðið. Í þessum tillögum er ekkert tillit tekið til landnýtingar eða byggðarsjónarmiða. Skerðingin tekur jafnt til þeirra sem eru undir meðalbústærð og hinna sem ekkert munar um þessa skerðingu. Það hefur þó verið sannað tölulega að það eru minni búin sem hagkvæmast er að reka og skila mestum arði. Þau eru því hagkvæmust fyrir þjóðarbúið. Það er ekki alltaf hagstæðast að hafa einingarnar sem stærstar. Það verður því að gera þá kröfu til stjórnvalda að fullt tillit verði tekið til þessara atriða þegar kemur að framkvæmd búvörusamningsins.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Allar ríkisstjórnir síðari ára hafa byrjað sinn feril með því að nú skyldi taka á fjárlagahallanum og alltaf hefur fólkinu í landinu verið lofað því að þegar búið væri að koma ríkisbúskapnum á réttan kjöl kæmi röðin að því, þá skyldi tekið á mjúku málunum svokölluðu sem gjarnan hafa verið kennd við Kvennalistann. Og hver eru svo þessi mjúku mál? Jú, það er í stuttu máli allt það sem snertir hið daglega líf fjölskyldna og einstaklinga á Íslandi. Það eru skólamálin, heilbrigðismálin, kjaramálin, félagsmálin og ekki síst umhverfismálin. Það er lífið sjálft sem þar er um að ræða, og eiga ekki stjórnmál að snúast um það? Eiga þau bara að snúast um peninga, um vexti, um halla ríkissjóðs?
    Það þarf að breyta áherslum í þjóðarbúskapnum. Það hefur oft verið vitnað til þess að umfang hinna íslensku fjárlaga sé ekki meira, jafnvel minna en í einu stórfyrirtæki úti í heimi. En í vel reknum fyrirtækjum er það líka viðurkennt að ekki næst góður árangur í starfseminni nema starfsmennirnir séu ánægðir og þeir finni að þeir séu metnir að verðleikum. Að fyrirtækið hugsi jafnframt um hag þeirra samhliða hag fyrirtækisins. Þegar góður skilningur og traust ríkir á milli manna, þá næst árangur. Þegar íslenska þjóðin getur treyst því að þjóðkjörnir fulltrúar hennar séu að hugsa um hag heimilanna í landinu, þess hornsteins sem þjóðfélagið byggir á, séu að taka tillit til og byggja upp framtíðina sem er börn þessa lands, séu að launa þeim öldruðu starf þeirra við uppbyggingu þess þjóðfélags sem við lifum í með því að þeir geti átt áhyggjulaust ævikvöld, þá er von til að við getum

rekið þetta þjóðfélag með reisn og þá verður enn betra að búa á Íslandi en annars staðar í heiminum og þá byggjum við Ísland allt.