Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Frú forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. hefur flutt okkur stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar. Fulltrúar stjórnarflokkanna hafa lagt á borð fyrir alþjóð það sem þeir hafa upp á að bjóða við upphaf stjórnarsetu. Í ljós hefur komið að það er engin veisla í farangrinum, það er ekkert sem nýnæmi er í né heldur nokkuð sem gefur kjarngóða undirstöðu.
    Stefnuræða hæstv. forsrh. var fyrir margra hluta sakir merkileg, ekki þó vegna þess sem þar var sagt heldur miklu fremur hins sem var ósagt látið. Í ræðunni var ekki minnst einu orði á heimilin og fjölskyldurnar í landinu og þau mál sem á þeim brenna, svo sem húsnæðismál og aðbúnað barna. Þar var ekkert að finna um mennta - eða menningarmál og hvergi voru umhverfismál nefnd á nafn. Samt eru þetta hin stórpólitísku mál í nútíð og framtíð sem bæði atvinnulíf og peningamarkaður ætti að lúta. Þetta eru þau mál sem þjóðinni finnst að ný ríkisstjórn ætti að leggja mikla áherslu á. Ný og viðamikil könnun Félagsvísindastofnunar sýnir þetta svo að ekki verður um villst. Samt skenkir forsrh. þeim ekki eina hugsun við samningu sinnar fyrstu stefnuræðu. Hann er ekki samstiga þjóð sinni.
    Stefnuræða hæstv. forsrh. bar það með sér að flugeldasýningunni miklu er lokið. Hin tilkomumiklu neyðarblys sem send voru á loft í tilefni kosninga eru slokknuð. Gleymd eru þau góðu fyrirheit sem gefin voru þegar blysunum var skotið á loft. Gleymd eru fögur orð um fórnir launafólks sem sjálfsagt þótti að verðlauna með kjarabótum að loknum kosningum. Gleymd eru orð hæstv. utanrrh. og formanns Alþfl. kvöldið fyrir kjördag þegar hann sagði: ,,Það er að koma góðæri. Launþegar þurfa að fá sinn réttmæta skerf fyrir þær fórnir sem þeir hafa fært. Þær hafa ekki verið til einskis. Inneignin er þarna.`` Fögur orð og fyrirheit hæstv. utanrrh. brunnu upp með síðustu kosningaflugeldunum. Inneignin sem launafólki var sagt að það ætti hvarf að mestu úr huga og munni stjórnmálamanna daginn eftir kjördag.
    Sama dularfulla hvarfið átti sér stað á síðum Morgunblaðsins. Svo seint sem á kjördag birtist þar Reykjavíkurbréf um hina margumræddu inneign. En eins og allir vita var blaðið þá í stjórnarandstöðu. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:
    ,,Forsendur fyrir kjarabótum eru óumdeilanlega fyrir hendi. Ef t.d. talsmenn Vinnuveitendasambandsins tækju upp á því að halda því fram að svo væri ekki, mundu launþegar einfaldlega ekki leggja trúnað á orð þeirra vegna þess að staðreyndirnar blasa við.``
    Hinn 8. maí sl. kveður aftur á móti við nokkurn annan tón, enda vill Morgunblaðið standa með afkvæmi sínu, viðreisnarstjórninni. Þann dag segir í leiðara blaðsins, með leyfi forseta:
    ,,Endurnýjun þjóðarsáttarsamninga stendur fyrir dyrum í haust. Spáð er að hagvöxtur verði aðeins 1% í ár. Það er því ekki mikið til skiptanna.`` Hvort eiga lesendur að trúa hæstv. ritstjórum Morgunblaðsins fyrir eða eftir kosningar?

    Hluti inneignarinnar sem hæstv. utanrrh. gerði að umtalsefni daginn fyrir kosningar er hinn svokallaði viðskiptakjarabati sem ríkisstjórn þessa sama ráðherra reynir nú að hafa af launafólki. Gekk hæstv. fjmrh. m.a. svo langt í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að fullyrða að hann væri ekkert bundinn af því sem gert var í febrúar á síðasta ári. Slík orð frá ráðherra eru siðlaus gagnvart almenningi sem á mikið undir afstöðu stjórnvalda og samkvæmni í stjórnarathöfnum. Persóna fjmrh. skiptir ekki máli. Stjórnvaldið er eitt og hið sama, embætti er eitt og hið sama. Þessu embætti ber að standa við sitt, því ber að standa við gerða samninga.
    Fulltrúar ríkisstjórnar og atvinnurekenda neita því ekki að það hafi orðið verulegur viðskiptakjarabati. Þeir vilja hins vegar ekki semja um að greiða hann á yfirstandandi samningstíma heldur nota hann sem viðspyrnu fyrir sig þegar til nýrra kjarasamninga kemur í haust. Það er sannfæring mín að fái þeir vilja sínum framgengt þýði það einfaldlega að atvinnurekendur og ríkisvald fái svigrúm til að hygla þeim sem hafa sterkasta samkeppnisstöðu á vinnumarkaði og þarf að friða með sporslum og greiðslum fram hjá samningum. Eftir sitja konur og aðrir þeir sem fá laun samkvæmt umsömdum töxtum. Þessi leikur hefur verið margendurtekinn og á sinn drjúga þátt í því að það hefur dregið sundur með konum og körlum í launum.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og stefnuræðu hæstv. forsrh. kemur fram að ríkisstjórnin ætli fyrst að takast á við ríkisfjármálin og bæta verðmætasköpun í atvinnulífinu. Svo komi röðin að því að bæta lífskjörin. En hver trúir þessu? Þeir sem síðast sátu við stjórnvölinn sögðust fyrst ætla að ná niður verðbólgunni, svo átti röðin að koma að hinum tekjulægstu. Þetta urðu aldrei annað en orðin tóm. Og núna horfir launafólk á útbrunnu flugeldana sem sendir voru upp því til heiðurs fyrir mánuði síðan. Sá sígildi lærdómur blasir við að launþegum eru engar gjafir gefnar. Kjarabætur verða hvorki færðar þeim á silfurfati né taldar upp úr kjörkössum. Þær þarf að sækja.
    Í stefnu ríkisstjórnarinnar endurspeglast sú skoðun að aukin verðmætasköpun í samfélaginu sé forsenda aukinnar velferðar og bættra lífskjara. Meira magn er talið til marks um meiri gæði. Þessi viðhorf á ríkisstjórnarbænum koma ekki á óvart. Alþýðuflokksmenn háðu sína kosningabaráttu undir yfirskriftinni ,,Ísland í A - flokk``. Þeir líta með öðrum orðum svo á að land og þjóð sé ekki í þeim gæðaflokki heldur einhverjum sem neðar stendur.
    Núv. forsrh. lýsti því líka margsinnis yfir í kosningabaráttunni að sú hætta vofði yfir að Ísland yrði meðal fátækustu ríkja Evrópu við aldarlok ef Sjálfstfl. fengi ekki stjórnartaumana. Þvílíkar blekkingar og þvílíkur barlómur. Þjóðarauður Íslendinga er mikill. Hér eru gjöful fiskimið og verðmætar orkulindir. Hér býr menntuð og vinnusöm þjóð. Hér er landsframleiðsla og þjóðartekjur með því sem hæst gerist í vestrænum löndum og hér lifir fjöldi fólks í vellystingum praktuglega. Í samfélagi þjóðanna erum við svo sannarlega í A - flokki og við stöndum ekki á neinum þröskuldi

fátæktar.
    Lífskjör fólks eru hins vegar mjög misjöfn hér á landi, lífsgæðunum er misskipt. Því verður ekki breytt með því að auka það sem við höfum úr að spila, heldur með því að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Auðlegð okkar og fámenni ætti að gera okkur kleift að skapa hér fyrirmyndarþjóðfélag þar sem allir leggjast á eitt um að hlúa að einstaklingunum, þar sem hæfileikar hvers og eins fá notið sín og enginn er dæmdur úr leik. Það eina sem kemur í veg fyrir að við búum í slíku samfélagi er sérgæska og viljaleysi þeirra sem mest hafa. Þau rök heyrast gjarnan að margir sem hafa mikið umleikis hafi unnið hörðum höndum og lagt mikið á sig til að komast í álnir. Þetta er vissulega rétt. En það hafa fjölmargir aðrir gert líka en borið ólíkt minna úr býtum. Þá er okkur sagt að við því sé ekkert að gera. Misskipting gæða og tekna sé lögmál. Þannig hafi þetta alltaf verið og þessu verði ekki breytt. Nú síðast heyrðust orð í þessa veru sögð af formanni Vinnuveitendasambandsins. Það er vissulega á brattann að sækja þegar jöfnuður og jafnrétti er annars vegar en ef við játumst undir lögmál ójafnaðar og misréttis jafngildir það siðgæðisuppgjöf, þá beygjum við okkur undir vald nauðhyggjunnar sem segir að engu verði breytt, þeirrar nauðhyggju sem slævir réttlætiskennd og frumkvæði einstaklinganna.
    Frú forseti. Góðir áheyrendur. Í ræðu sinni sagði hæstv. forsrh. dæmisögu af Persakeisara sem lét hermenn sína hýða sjóinn þar sem hann vildi ekki hlýðnast honum. Í dag hlæja menn að oflátungshætti Persakeisara en fara þó sífellt að fordæmi hans. Mennirnir telja sig herra sköpunarverksins og beita náttúruna ofbeldi af ýmsu tagi í þeim tilgangi að brjóta hana undir sig, gera hana sér undirgefna. Þeir arðræna hana, spilla ásjónu hennar, draga úr sköpunarkrafti hennar og koma í veg fyrir að hún endurnýi sig. Allt er þetta gert í nafni hins góða, í nafni framfara, hagvaxtar og hagsældar. Allt er þetta gert í nafni þeirra svokölluðu vestrænu viðhorfa í atvinnumálum sem hæstv. forsrh. sagði ríkisstjórnina aðhyllast.
    Þó allir sem um véla séu sammála um að framtíð okkar byggist á að við sættum okkur við að minna sé betra, þá skipuleggja öll Vesturlönd framtíð sína út frá hinu gagnstæða. Evrópubandalagið og Evrópska efnahagssvæðið byggja t.d. tilveru sína á aukinni framleiðslu, aukinni neyslu og auknum hagvexti. Við verðum að snúa af þessari braut og eins og Vaclav Havel, forseti Tékkóslóvakíu, orðaði það: ,,Við verðum, án þess að skeyta um hæðnisraddir, að endurheimta gildismat okkar frá náttúruheiminum og játa þeirri leiðsögn hans sem við áður höfum afneitað. . . . Maðurinn verður að snúa aftur til sjálfs sín og ábyrgðar sinnar á heiminum.``
    Góðir Íslendingar. Stjórnvöld mæðast í mörgu en eitt er nauðsynlegt, aðeins eitt. Það er að taka ábyrga afstöðu gagnvart framtíðinni. Það útheimtir aftur að við búum börnum okkar aðstæður sem eru líklegar til að efla þau til dáða og góðra verka síðar meir og það útheimtir að við skilum af okkur ekki minni höfuðstól í ómenguðu umhverfi og náttúruauðlindum en við fengum í arf frá fyrri kynslóðum. Aðeins þannig tryggjum við framtíð þessarar þjóðar.
    Ég þakka þeim sem á hlýddu. --- Góða nótt.