Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Við hlýddum á stefnuræðu forsrh. hér í gærkvöldi og þrjár þingkonur Kvennalistans gerðu grein fyrir áliti Kvennalistans á henni í meginatriðum á ágætan hátt og þarf ég ekki miklu við það að bæta. Það eru þó nokkur atriði sem ég vildi gera að frekara umtalsefni hér í örstuttu máli.
    Rauði þráðurinn í ræðu hæstv. forsrh., sem ég vona að sé ekki allt of langt undan þannig að hann megi hlýða á mál mitt. Ég sé ekki til hæstv. forsrh. ( Forseti: Ég skal láta athuga það, ég held hann hafi aðeins skroppið fram, kannski í síma eða eitthvað slíkt.) Mér þykir heldur verra að þurfa að halda áfram að fjalla um ræðu hans að honum fjarstöddum þó hér sé ágætur fulltrúi ríkisstjórnarinnar í líki hæstv. umhvrh. sem, eins og ég hef sagt við hann sjálfan, gegnir einu mikilvægasta hlutverkinu í ríkisstjórninni. Ég mun koma aðeins að því síðar, en það breytir ekki því að ég hefði gjarnan kosið að hæstv. forsrh. væri hér jafnframt ef hann hefur hugsað sér að taka þátt í umræðunni. ( Forseti: Hæstv. forsrh. mun hafa verið í símanum og það er verið að gera honum viðvart.)
    Ég mun, virðulegur forseti, samt hefja mál mitt og tel ekki ástæðu til þess að bíða mjög lengi. Það sem mér þótti athyglisvert við ræðu hæstv. forsrh. í gærkvöldi var rauði þráðurinn sem þar var og kom kannski skýrast fram þegar hann sagði: ,,Ríkisstjórnin hefur bolmagn til að fella úr gildi margvísleg ólög, skráð og óskráð, sem truflað hafa menn og torveldað í verðmætasköpun og viðskiptum.`` --- Þannig að það virðist vera að hömlulaust markaðskerfi sé rauði þráðurinn í stefnu þessarar ríkisstjórnar og fannst mér það koma mjög skýrt fram í máli hæstv. forsrh. hér í gær.
    Það á einnig að taka upp einkavæðingu á vissum sviðum, taka hærri gjöld fyrir þjónustu ríkisins og taka greiðslur fyrir hana þar sem það hefur ekki verið gert ef maður skilur rétt það sem þar kom fram.
    Tenging íslensku krónunnar við evrópska myntkerfið er á óskalista ríkisstjórnarinnar og munum við þá ekki hafa möguleika á því að mæta sveiflum í íslensku efnahagslífi sem eru óhjákvæmilegar þar sem stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar byggir á náttúrulegum sveiflum og getum við ekki komist hjá því að það endurspeglist í efnahagskerfinu. Við getum ekki gengið að fiskinum í sjónum vísum sem einhverri fastri stærð.
    Ég hefði einmitt hér viljað spyrja hæstv. forsrh. nánar út í það hvernig ríkisstjórnin hefur hugsað sér að þetta muni verða gert. Hann sagði að vísu í ræðu sinni að það yrði kannað hvernig því yrði fyrir komið að tengja íslensku krónuna evrópska myntkerfinu en mér þætti fróðlegt að vita á hvern hátt ríkisstjórnin hyggst þá mæta sveiflum í hagkerfinu vegna þess að það hlýtur að vera mjög erfitt að gera það ef við erum með fastbundið við evrópska myntkerfið og dettur manni í hug að enn einu sinni eigi að seilast ofan í vasa launafólks ef ekki verður um neina aðra möguleika að ræða. Ég vildi því gjarnan varpa þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvernig þeir hafa hugsað sér

þetta eða hvort þetta er kannski algerlega óhugsað enn.
    Evrópska efnahagssvæðið er líka mjög ofarlega á lista ríkisstjórnarinnar. Ég held því enn fram, þrátt fyrir mótmæli hæstv. utanrrh., að þarna sé verið að taka stórt skref inn í Evrópubandalagið.
    Á undanförnum árum hafa ríkisstjórnir og stuðningsmenn þeirra verið iðnir við að setja lög á launafólk. Sett hefur verið bann á kjarasamninga, teknar af með lögum launahækkanir sem launafólk hefur samið um í frjálsum kjarasamningum og svo til að bíta höfuðið af skömminni þá setti síðasta ríkisstjórn lög sem felldu úr gildi samning sem þáv. fjmrh. hafði gert fyrir hennar hönd við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn. (Gripið fram í.) Það eru þó nokkrir. Allar slíkar ráðstafanir sem kallast efnahagsráðstafanir koma harðast niður á þeim sem lægstu launin hafa en í þeim hópi eru konur fjölmennastar. Auk þess virðast karlarnir eiga auðveldara með að fá launahækkanir umfram taxta. Þjóðarsáttin svokallaða var að miklu meiri hluta borin uppi af konum en körlum. Frá því í febrúar 1990, þegar þessi svokallaða þjóðarsátt var gerð, hefur dregið í sundur í launum kvenna og karla þrátt fyrir að konur vinni nú enn lengri vinnudag en áður.
    En hvað með nýju ríkisstjórnina? Er líklegt að einhver stefnubreyting verði í þessum málum hjá henni? Ekki bendir nú margt til þess, ekki enn sem komið er alla vega.
    Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni að ríkisstjórnin vildi ná stöðugleika á vinnumarkaði. Hvaða úrræði hefur svo ríkisstjórnin til að ná þessu jafnvægi? Jú, hækkun vaxta er það fyrsta sem á að taka til bragðs. Ríkisstjórnin spennir upp vextina með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir fyrirtækin í landinu, að ég tali nú ekki um heimilin. Áætlað er að heimilin í landinu skuldi um 170 milljarða króna svo hækkun vaxta hefur veruleg áhrif fyrir þau og mörg heimili munu varla geta ráðið við þessa hækkun vaxta. Þeir sem hins vegar hagnast af hækkun vaxta eru fjármagnseigendur sem nú fá verulegar upphæðir í sinn vasa án þess að þurfa að greiða nokkuð af þeim tekjum í sameiginlega sjóði landsmanna.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, bláa ritlingnum sem við fengum á borðið okkar fyrir nokkrum dögum, frá 30. apríl, segir í sjöunda lið, með leyfi forseta: ,,Samræmd verði skattlagning eigna og eignatekna.``
    Þetta er hin opinbera útgáfa. Að vísu var önnur útgáfa birt í Alþýðublaðinu á sínum tíma þar sem tekið var miklu ákveðnar á þessum málum, en þarna er orðið eftir að ,,samræmd verði skattlagning eigna og eignatekna`` --- hvað sem það nú boðar. Væri nú fróðlegt að fá nánari svör við því.
    Hækkaðir vextir hafa auðvitað þær afleiðingar að verðbólga eykst, kostnaður fyrirtækjanna eykst og þar af leiðandi verður minna svigrúm fyrir fyrirtækin að hækka launin þegar að kjarasamningum kemur. Það er merkilegt að alltaf þegar laun hækka þá er hrópað úlfur, úlfur, verðbólga, verðbólga, en þegar vextir eiga að hækka þá virðist það eiga að vera allt í lagi og

ekki hafa nein áhrif.
    En það er fleira sem ríkisstjórnin virðist ætla að gera til að ná svokölluðum stöðugleika á vinnumarkaði ef marka má fréttir.
    Í febrúar sl. var samið við BSRB og KÍ um að ef einhver bati yrði á viðskiptakjörum þá mundu launamenn í þessum félögum fá að njóta þess eftir ákveðnum reiknireglum. Nú segir hæstv. fjmrh. að hann sé að sjálfsögðu ekki bundinn þeim samningum sem gerðir voru, eins og hann komst að orði í útvarpsfréttum þann 20. maí sl. Þarna virðist því ríkisstjórninni finnast eðlilegt að standa ekki við það sem fyrri ríkisstjórn hefur samið um við launþega. Þetta þykja mér slæmar fréttir og vona að þetta sé einhver misskilningur af hálfu hæstv. fjmrh. eða að hann hafi mismælt sig í útvarpsfréttum. Þætti mér fróðlegt að vita hvort hæstv. forsrh. er sammála þessari túlkun fjmrh.
    Að mati atvinnurekenda, studdir mjög dyggilega af ríkisstjórninni, er ekkert svigrúm nú til að hækka launin. Tíminn er ekki kominn. Tíminn er ekki runninn upp, segja þeir. Við verðum að bíða til haustsins. Formaður Vinnuveitendasambandsins sagði eitthvað á þá leið að krónutöluhækkunin sé í raun launalækkun, hvernig sem hann fór nú að því að fá það út. Viðleitnin til tekjujöfnunar virðist því vera minni en engin.
    Sala ríkisfyrirtækja og einkavæðing er einnig lausn á vanda ríkissjóðs að mati ríkisstjórnarinnar ef marka má stefnuræðu hæstv. forsrh.
    Ég tel fyllilega koma til greina að selja einhver fyrirtæki ríkisins en það verður að gaumgæfa málið mjög vel. Reynsla manna er mjög misjöfn af því er þessa leið varðar erlendis þar sem hún hefur víða verið reynd. Þarna þarf því að athuga málið mjög vel og það er heldur ekki hægt að heimfæra reynslu annarra þjóða beint upp á Íslendinga. Það hefur t.d. komið verulega niður á þjónustu víða erlendis og alltaf er hætta á því þegar um einkavæðingu er að ræða að ekki sé tekið tillit til heildarhagsmuna þegar verið er að meta hagkvæmni.
    Í mörgum tilvikum getur verið eðlilegt að ríkið eigi hlut í atvinnufyrirtækjum og sé ég raunar ekkert athugavert við það að ríkið aðstoði við uppbyggingu, setji á stofn ný fyrirtæki, stuðli að þróunarstarfi og byggðaþróun t.d., þannig að það er ýmislegt sem þarf að taka tillit til þegar verið er að tala um einkavæðingu. Einnig getur í sumum tilvikum verið erfitt fyrir einstaklinga að ráða við fjárfestingu og því mjög eðlilegt að ríkið komi þar til aðstoðar. Það verður þess vegna að gæta þess mjög þegar verið er að ræða um einkavæðingu að ekki sé rasað um ráð fram og ekki sé farið út í það að einkavæða bara einkavæðingarinnar vegna, eins og mér hefur reyndar oftast fundist vera talað um.
    Það verður einnig að hafa í huga í þessu sambandi að fyrirtæki í eigu ríkisins geta verið ákveðinn sveiflujafnari í hagkerfinu og er það sérstaklega mikilvægt fyrir okkar hagkerfi sem er eins sveiflukennt og raun ber vitni. Þannig að þegar um þenslu er að ræða, þá sé hægt að draga úr umsvifum ríkisfyrirtækja og síðan öfugt þegar um samdrátt er að ræða.
    Ég tel auðvitað að einkavæðing geti aldrei átt við löggæslu og dómstóla og að mínu mati á það heldur ekki við í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Þegar ég er að tala um það svona þá er ég ekki að ræða um að það geti ekki verið einkaaðilar sem reka ákveðnar þjónustustofnanir innan heilbrigðisgeirans eins og t.d. sjúkraþjálfarar. Það er nú eðlilegt að þeir haldi áfram. Tannlæknar hafa rekið sínar stofur og læknar. En það má þó ekki vera þannig að hægt sé að senda reikningana til ríkisins fyrir þjónustu sem veitt er algjörlega óháð því hver hún er, sem frægt er nú orðið og þarf ekki að ræða það hér úr þessum ræðustóli.
    Ég vil benda á að fyrir skömmu kom maður frá Bretlandi sem hélt erindi á ársfundi Vinnuveitendasambands Íslands, þar sem hann ræddi um einkavæðingu. Hann sagði aðspurður að í Bretlandi væri ekki einkavæðing í heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Þetta kom eilítið á óvart því þar er
vagga einkavæðingarinnar. Þá skýrði maðurinn það út: Jú, við erum með innan við 10% af skólakerfinu einkavætt. Hann taldi að ekki væri hægt að ræða um einkavæðingu og hann flokkaði það heldur ekki undir einkavæðingu þegar einkaaðilum er falinn ákveðinn þáttur t.d. heilbrigðisþjónustunnar fyrir hönd ríkisins. Ég tel því að við eigum alls ekki að fara út í einkavæðingu á þessu sviði og vona ég að það sé heldur ekki ætlun ríkisstjórnarinnar þó að það komi ekki fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar né heldur kom það fram í ræðu hæstv. forsrh. hér í gær.
    Það skiptir líka mjög miklu máli þegar sala ríkisfyrirtækja er metin að ekki verði komið á einkaeinokun í stað einkavæðingar eins og dæmi eru um. Við getum t.d. tekið Bifreiðaskoðun Íslands, sem er eitt frægasta dæmið um þessar mundir, þar sem Bifreiðaskoðun Íslands skoðar bifreiðar og þangað eru allir skyldugir að fara. Við höfum enga möguleika á að velja á milli Bifreiðaskoðunar Íslands og einhvers annars. Síðan er taxtinn settur upp og við verðum að gera svo vel og borga vegna þess að við erum skyldug samkvæmt lögum til þess að fara með bifreiðar okkar til skoðunar. Það tel ég vera eina stærstu hættuna hér í okkar fámenna litla landi að einkavæðingin leiði til einkaeinokunar og þá er verr farið en heima setið.
    Ég tel að almennt eigi að draga úr miðstýringu í kerfinu, að ríkisvaldið sé ekki stöðugt að skipta sér af einstökum stofnunum og fyrirtækjum, skipa í stöður og hafa pólitísk afskipti af hverju og einu heldur eigi að auka sjálfstæði ríkisstofnana og fyrirtækja ríkisins og ekki síst auka ábyrgð starfsmanna. Það er þess vegna hægt að fara ýmsar leiðir til valddreifingar aðrar en færa fyrirtækin í hendur einstaklinga sem getur skilið eftir kannski enn verra og stærra vandamál ef það fer í hendur mjög fárra aðila. Er þó ekki á það bætandi þegar mjög stór hluti stórra fyrirtækja á Íslandi í einkaeign eru í eigu örfárra aðila. Það getur ekki verið það sem við viljum stefna að og ég vara eindregið við því.
    Hæstv. forsrh. boðaði einnig í ræðu sinni að það eigi að hækka gjald fyrir þjónustu og taka gjald fyrir þjónustu sem ekki hefur verið gert hingað til. Það kemur í raun ekkert á óvart að það þurfi að hækka gjöld fyrir þjónustu því að þarna er auðvitað um að ræða gamlar stíflur frá fyrri ríkisstjórn sem kom í veg fyrir hækkun því að það mátti ekkert hækka á þjóðarsáttartíma svokölluðum. Það varð að bíða þangað til eftir það. Við kvennalistakonur höfðum margoft bent á að það þurfti auðvitað að gera sér grein fyrir því að þarna væri um frestun að ræða í mörgum tilvikum en ekki það að það væri hægt að fara þær leiðir sem farnar væru. Get ég minnt t.d. á það að í upphafi þessa árs gerði Tryggingastofnun ríkisins samning við sérfræðinga sem var með þeim ósköpum gerður að stærstur hluti af hækkuninni kom fram eftir 1. sept. til þess að það kæmi ekki fram á þessu tímabili sem hefur verið kennt við þjóðarsátt.
    En allar hækkanir á þjónustu og gjöldum koma mjög illa við fólk og það getur verið mjög erfitt fyrir fólk sem verður að sækja ýmsa opinbera þjónustu að ráða við að greiða mikið fyrir hana. Og gildir þetta auðvitað sérstaklega um þá sem lægstu launin hafa og hafa borið uppi þjóðarsáttina.
    Til hvers mun svo það allt saman leiða sem ríkisstjórnin boðar? Ég get ekki séð að þetta leiði til jöfnunar lífskjara, svo langt í frá. Það stuðlar alls ekki að byggðajafnvægi. Og það bætir alls ekki stöðu kvenna í þessu þjóðfélagi.
    Konum í hvaða þjóðskipulagi sem er er sérstaklega annt um samhjálp og félagsleg réttindi og vilja að þau séu í heiðri höfð. Þær bera yfirleitt mesta ábyrgð á hag og velferð fjölskyldunnar og sjá að stærstum hluta um þá sjúku og þá sem minna mega sín. Þær eru sér því meira meðvitaðar um hve mikilvægt það er að standa vörð um velferðarkerfið. Ég óttast um velferðarkerfið í höndum þessarar ríkisstjórnar.
    Það þýðir ekki alltaf að segja við konur og aðra þá sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu: Bíðið þið. Fyrst þurfum við að gera þetta og svo kemur að ykkur á eftir. Þetta hefur verið sagt allt of lengi og við erum ekki tilbúnar til að bíða eftir því.
    Í síðustu ríkisstjórn skorti mikið á að tekið væri tillit til sjónarmiða kvenna. Hér voru flutt jafnréttisfrumvörp þar sem stöðugt var reynt að sjá til þess að skera niður þau ákvæði sem væru líkleg til þess að auka hlut kvenna. Ég vil minna á og hef ég af því nokkrar áhyggjur að það voru ekki síst þingmenn Sjálfstfl. sem gengu fram í því að skerða og skera burtu þau ákvæði frv. sem voru þó til bóta. Ég vona að þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, geri sér grein fyrir því að það verður að gæta þess í allri lagasetningu að sjónarmið kvenna komi þar að. Eitt af því er frv. um jafna stöðu kvenna og karla sem reyndar varð að lögum á síðasta þingi en það þarf að bæta það verulega.
    Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að lagasetning um jafna stöðu kynjanna er engin lausn. Það höfum við margséð.
    Ég hef nokkrar áhyggjur af því að ekki er vikið einu orði að leikskóla og grunnskóla í ræðu hæstv. forsrh. Ég hafði bundið nokkrar vonir við það að frv.

um samfelldan skóladag, sem var samþykkt í lok síðasta þings, og um leikskóla mundi verða hvatning til þessarar ríkisstjórnar um að taka nú þarna myndarlega á málum. Það kemur ekkert fram í ræðu hæstv. forsrh. en ég skora á hann að taka nú myndarlega á þessum málum og láta það verða eitt af forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar að leggja áherslu á málefni barna. Það er eitt af forgangsmálunum í þessu þjóðfélagi.
    Ég vil einnig minna ríkisstjórnina á það að í júní árið 1985 var staðfestur hér á Alþingi sáttmáli um afnám alls misréttis gagnvart konum eða mismununar gagnvart konum held ég að hann hafi nú heitið. Það er margt mjög merkilegt í þeim sáttmála og þar sem ríkisstjórnin er svo hrifin af því að fara vel eftir öllum samningum við erlend ríki og alþjóðasamningum, þá skora ég á hana að dusta rykið af þessum samningi og reyna að miða út frá honum við alla lagasetningu því að hann tekur á mörgum málum í þjóðfélaginu með tilliti til kvenna. Ég vil því beina því til ríkisstjórnarinnar að skoða nú hvað Alþingi og ríkisstjórn staðfestu árið 1985.
    Í atvinnumálum gildir það sama um þessa ríkisstjórn og þá fyrri að það á að leggja höfuðáherslu á álframleiðslu. Og eins og hæstv. forsrh. sagði orðrétt hér í gær: Eins og verulegur meiri hluti þjóðarinnar vill. Ég er ekki alveg viss um að hæstv. ráðherra hafi lesið eða kynnt sér þá þjóðmálakönnun, sem birtist í Morgunblaðinu nú um helgina, þar sem greinilega kemur fram að aðeins liðlega 30% af þeim sem tóku þátt í þessari skoðanakönnun lögðu áherslu á orkufreka stóriðju. Ég held þess vegna að þarna hafi kannski verið einhver misskilningur á ferð en auðvitað var eðlilegt að hæstv. ráðherra vissi ekki af þessari könnun þar sem hún birtist sunnudaginn 19. maí í Morgnblaðinu, en við fengum ræðu ráðherrans í hendur fyrir þann tíma. Þarna held ég að hefði þurft að leiðrétta því að verulegur meiri hluti þjóðarinnar vill ekki álver. Enda er það eðlilegt. Við kvennalistakonur urðum varar við það í kosningabaráttunni að mjög margir höfðu áhyggjur af þessari stefnu fyrrv. ríkisstjórnar --- sem er sú stefna sem þessi ríkisstjórn tekur upp líka --- og að fólk telur mikla hættu á því að verið sé að selja orkuna á undirverði. Eftir þeim upplýsingum sem við höfum núna, þó að við fáum ekki mikið að vita, virðist sem að við fáum varla það verð fyrir orkuna sem er nauðsynlegt fyrir okkur. Þarna er einnig verið að selja stóran hluta af orkunni til einnar tegundar framleiðslu og það á að miða raforkuverðið við álverð sem þýðir að þarna verður um verulegar sveiflur að ræða í raforkuverði. Síðan á að veita verulegan skattaafslátt. Fyrrv. fjmrh. upplýsti okkur á síðasta þingi um að það kæmi ekkert í ríkiskassann fyrr en eftir níu ár. Ekki veit ég hvort það stendur enn. Og síðan eru auðvitað byggðasjónarmiðin sem ekki hefur neitt tillit verið tekið til.
    Og það sem verst af öllu er --- og nú sakna ég nærveru hæstv. umhvrh. sem var hér staddur áðan --- að það virðist ekki eiga að krefjast fullkominna mengunarvarna.

    Ég skal ekki tefja umhvrh. mjög lengi, en það sem mér þykir verst af öllu varðandi það álver sem byggja á á Keilisnesi er að það virtist sem ekki ætti að krefjast fullkominna mengunarvarna í þessari álverksmiðju. Ég átti oft orðastað við fyrrv. umhvrh., sem ekki er lengur hér á þinginu, um þetta mál. Hann var mér mjög ósammála um það að þarna þyrfti að krefjast fullkominna megnunarvarna. Ég taldi, og ég deili þeim skoðunum með mörgum öðrum, að þarna þyrfti að hreinsa t.d. brennisteinsdíoxíð og ég taldi að þarna þyrfti að gera miklar kröfur. Það var mikið deilt hér í þinginu um það samkomulag sem hæstv. iðnrh. hafði undirritað varðandi mengunarvarnarþáttinn í þessu. Ekki veit ég hversu langt þetta er komið núna af hálfu núv. hæstv. umhvrh. en mig langaði til að vita hvernig þessi mál stæðu núna vegna þess að þetta skiptir verulega miklu máli og ég skora á hæstv. umhvrh. að gefa ekkert eftir í þessum efnum. Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi að ég tel að umhvrn. sé eitt mikilvægasta ráðuneytið í þessari ríkisstjórn og það sem meira er, það kemur fram í þessari könnun sem ég minntist á áðan, að meiri hluti þjóðarinnar virðist vera á sama máli. Það er mjög ánægjulegt að fá niðurstöðu þessarar könnunar og ég vil leggja áherslu á það í þessu svokallaða álmáli, að þar verði ekkert gefið eftir og það verði frekar lagst á árar af hálfu umhvrn. með þeim sem hafa viljað auka og setja miklu strangari kröfur heldur en heyrst hefur að ætti að gera af hálfu ráðherra í fyrrv. ríkisstjórn.
    Ég treysti því að hæstv. umhvrh. vilji að Ísland geti staðið undir þeirri auglýsingu sem mikið hefur verið haldið á lofti um að Ísland sé hreint og ómengað land því að það verður ekkert nema auglýsingin ef við ætlum að fara að gefa eitthvað eftir í mengunarvarnamálum. Ég ætla mér ekki við þessa umræðu að ræða um önnur umhverfismál sem eru auðvitað ekkert síður brýn. Ég geymi mér það til síðari tíma. Ég vona því að nýr umhvrh. taki þarna myndarlega á málum.
    En almennt finnst mér að það sé mikið ráðleysi í þessari ríkisstjórn. Mér hefur ekki gefist tími til að líta á þennan bláa bækling sem við vorum að fá um leið og ég gekk upp í þennan ræðustól, en það verður að gerast síðar á fundinum af hálfu okkar kvennalistakvenna ef við höfum tíma til að líta á þennan bækling áður en umræðunni lýkur. Ráðleysi ríkisstjórnarinnar er svo mikið að það sem þeim finnst einna vænlegast í stöðunni er að gefa alveg eftir alla efnahagsstjórn til yfirþjóðlegra stofnana. Þetta fullyrði ég því að þessi ríkisstjórn er enn ákafari en sú fyrri, sem var nokkuð áköf, að gera samning um Evrópskt efnahagsvæði. Mér sýnist að þessi ríkisstjórn, ef marka má það sem hér hefur verið rætt fyrr í umræðunni, sé jafnvel tilbúin til að taka enn stærra skref í átt til Evrópubandalagsins en fyrri ríkisstjórn var tilbúin til að gera. Í umræðunni á þriðjudaginn var um Evrópska efnahagssvæðið fullyrti ég að Ísland afsalaði sér bæði dómsvaldi og löggjafarvaldi. Hæstv. utanrrh. mótmælti því mjög kröftuglega í ræðu sinni, en

ég vil endurtaka það hér að ég tel að hér sé um afsal á löggjafarvaldi að ræða og vil ég fá, með leyfi forseta, örlítið að minnast á það. Það skal ekki verða langt en mér finnst skipta máli að það komi fram hér.
    Í 23. gr. yfirlýsingar ráðherranna, sem utanrrh. Íslands er aðili að, er tekið fram að löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins eigi að vera æðri löggjöf aðildarlandanna. Það þýðir að ef við gerumst aðilar að þessu og tökum yfir um 60% af löggjöf Evrópubandalagsins að því er varðar efnahagsmál, þá mun Alþingi Íslendinga ekki geta sett lög á þessu sviði nema vera þá um leið að segja sig frá þessum samningum. Þó svo að formsins vegna þýði það það að Alþingi geti auðvitað gert það, þá er það í raun að afsala sér algerlega möguleikanum á að setja lög, því að um leið og þeir vilja breyta einhverju í löggjöf um efnahagsmál eða gera einhverjar ráðstafanir á því sviði, þá eru þeir í raun að segja upp samningnum. Ég vil þess vegna meina að þarna sé verið að afsala sér verulegum hluta af löggjafarvaldinu
þó að auðvitað væri hægt að segja að formsins vegna hafi Alþingi enn þá möguleika á að setja lög.
    Ég hef sömu skoðun á þeim dómstól sem þarna er um að ræða ef hann á að vera æðri dómstólum landsins og ekki verður hægt að áfrýja úrskurði hans til Hæstaréttar Íslands. Mín skoðun er sú að þarna sé verið að afsala sér verulegum hluta af yfirráðum yfir efnahag landsins, efnahagsstjórninni. Mér finnst einkennilegt ef ríkisstjórnin er tilbúin til þess að afsala sér efnahagsstjórn að verulegu leyti.
    Við kvennalistakonur munum að sjálfsögðu vera málefnalegar í stjórnarandstöðu, eins og við höfum reyndar alltaf verið, og taka afstöðu með góðum málum sem þessi ríkisstjórn flytur ef um það er að ræða. En okkar hlutverk er auðvitað fyrst og fremst að gæta hagsmuna kvenna og barna og umhverfisins einnig. Við leggjum líka mjög mikið upp úr því að menningarlegt og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé í heiðri haft. Þess vegna höfum við lýst andstöðu okkar við því að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði eins og meiningin er að gera núna á þeim grunni og á þeim forsendum sem gefnar eru. Við erum ekki á móti því að við gerum samninga og höfum samstarf við aðrar þjóðir, því erum við auðvitað fylgjandi og okkur þykir mjög mikilvægt að það sé gert, en ekki að það sé gert á þeim grunni sem þarna virðist vera lagður.