Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegur forseti. Hv. 15. þm. Reykv. beindi til mín örfáum orðum varðandi fyrirhugað álver sem rísa mun á Keilisnesi, eftir því sem vonir standa til. Hún lýsti áhyggjum sínum vegna þess að hún sagði að sér sýndist að ekki ætti að krefjast fullkominna mengunarvarna og lagði áherslu á að við ættum í þeim efnum að gera miklar kröfur. Undir það tek ég heils hugar með henni en fullvissa hana jafnframt um að gerðar verða mjög strangar kröfur um fullkomnar mengunarvarnir í þessu iðjuveri og legg áherslu á að ef þetta álver rís á þessum stað verður það búið bestu mengunarvörnum sem í dag eru tíðkanlegar í slíkum fyrirtækjum. Á því leikur enginn vafi. Um það verða gerðar kröfur.
    Það er unnið að því um þessar mundir að leggja síðustu hönd á starfsleyfi fyrir þetta væntanlega stóriðjuver, um það verður fundað í næstu viku. Það munu gera fulltrúar umhvrn., Hollustuverndar og iðnrn. á fundi sem fram fer í Þýskalandi í næstu viku. Það verður ekkert gefið eftir í þessum efnum. Ég tek líka undir það sem hún sagði: Íslendingar verða að geta staðið við þær fullyrðingar að við búum í hreinu og ómenguðu landi. Undir það skal heils hugar tekið en jafnframt á það bent að það er nú því miður svo að við eigum býsna víða ótiltekið í þeim efnum þó ekki sé um stóriðju talað. Þar eru önnur mál sem bíða úrlausnar og hafa beðið lengi þar sem þarf að taka til hendi og þar sem kostar mikið að taka til hendi og þar sem við verðum að taka til hendi vegna þess að við eigum engan annan kost og eigum að gera fyrr en síðar.
    Ég ítreka það að gerðar verða strangar kröfur um fullkomnar mengunarvarnir. Hins vegar er auðvitað hægt að haga sínum málflutningi á þann veg að enda þótt hér sé ýtrustu kröfum fullnægt þá er auðvitað alltaf hægt að gera kröfur um meira og meira og það er í rauninni endalaust. En þetta álver mun áreiðanlega verða til fyrirmyndar í mengunarvörnum og jafn vel eða betur búið en það sem best þekkist í dag. Um það fullvissa ég hv. 15. þm. Reykv. í þessu sameiginlega áhugamáli okkar.
    Aðeins langar mig, virðulegi forseti, að víkja að því sem hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson sagði hér áðan. Hann beindi spurningu til formanns þingflokks Alþfl. sem formaðurinn mun áreiðanlega svara í þessum umræðum síðar. En þar sem sá er þetta mælir gegndi formennsku í þingflokknum þar til fyrir skömmu er mér málið ekki óskylt og kýs þess vegna að svara því að því er mig varðar.
    Hv. þm. Svavar Gestsson, sem hefur nú horfið úr þessum sal, spurði hvort það hefði verið rætt í þingflokki Alþfl. sem segir í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, með leyfi forseta: ,,með því að kanna vandlega hvernig stuðla megi að auknum stöðugleika í efnahagslífinu með tengingu íslensku krónunnar við evrópska myntkerfið.``
    Ég svara hv. þm. Svavari Gestssyni því til að auðvitað hefur þetta verið rætt í þingflokki Alþfl. Við

höfum talið rétt að þessi könnun færi fram. Við viljum skoða þessi mál með opnum huga og fordómalaust. Það er ástæða til þess og sú skoðun hefur verið uppi í þingflokki Alþfl. En honum skal jafnframt sagt að þar hefur heldur ekki verið gerð um þetta mál nein sérstök samþykkt. Það er mjög algengt hjá þeim hv. þm. Alþb., þar sem fordómarnir fylla svo mikið rúm, að menn setja sig á móti því að hlutir séu kannaðir. Þekkingarleit og athugun á málavöxtum er þar ekki talið vera af hinu góða.
    Hv. þm. Svavar Gestsson talaði líka almennt um þennan stjórnarsáttmála og sagði að þar væri ekki snefill af jöfnuði og Alþfl. hefði engar kröfur gert nema að fá tiltekinn fjölda ráðherrastóla. Við höfum heyrt þetta áður frá talsmönnum Alþb., einkanlega frá fyrrv. ráðherrum þess flokks, sem nú er mikið niðri fyrir, þungt í sinni og líður illa. Við höfum heyrt það frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrv. fjmrh., og formanni Alþb. að Alþfl. hafi fengið eina jeppabifreið fyrir sinn snúð í þessu stjórnarsamstarfi. Svo sem fram hefur komið í fréttum hefur sú bifreið verið seld, þannig að líklega er ekki mikið eftir að mati þeirra alþýðubandalagsmanna. Ég veit ekki hvort hv. þm. Svavar Gestsson tekur undir þetta mat síns formanns, að Alþfl. hafi borið þennan hlut frá borði við verkaskipti í nýrri ríkisstjórn. ( HG: Er búið að selja hann?) Svo segja fréttir mér, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, það var í fréttum í gærkvöldi. Hvort hv. þm. Svavar Gestsson tekur undir það mat og hvort hann metur umhverfismálin svo lítils sem formaður hans flokks gerir. Hann hefur þá væntanlega orðið hissa þegar hann sá niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskólans þar sem 86 -- 87% þeirra sem spurðir voru telja að umhverfisvernd sé það mál sem mestu skipti og eigi að setja í forgang. En það er auðvitað ljóst og það er fróðlegt fyrir unga fólkið, það er fróðlegt fyrir kjósendur, fróðlegt fyrir almenning í landinu, að heyra hvert mat Alþb. leggur á þessi mál.
    Mig langar líka að lokum, virðulegi forseti, til að nefna það að hv. þm. Svavar Gestsson talaði hér um hagfræði. Hann talaði um sparnað og vaxtastig, áhrif vaxtastigs á sparnað og ýmislegt fleira. Hann hefur lært sína hagfræði og gerði á ungum árum, bæði í Moskvu og Berlín eða var það Greifswald í Austur-Þýskalandi, að ég hygg, og í leshringunum hjá Brynjólfi eins og vikið var að hér í ræðu í gær. Sú hagfræði hefur gefist heldur illa. ( Gripið fram í: Hann fór í fleiri tíma.) Hann hefur greinilega ekki lært nóg hafi hann sótt tíma hjá prófessor Gylfa Þ. Gíslasyni og ekki hlustað, hann hefur verið með eyrun stillt á aðra bylgjulengd á þeim árum, eins og þjóðin veit, en hann lærði sína hagfræði þarna og það er nú ekki góð hagfræði eins og þjóð veit og hefur fengið dóm sögunnar.
    Aðaltilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs nú við þessa umræðu, virðulegur forseti, var að svara þeim spurningum sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir beindi til mín, en ég gat ekki stillt mig um að víkja stuttlega að því sem hv. 9. þm. Reykv. sagði hér. Það var vissulega margt fleira í hans orðum sem mætti

gera athugasemd við en þau hljómuðu kunnuglega flest og komu lítt á óvart.