Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það var rétt athugað hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að þessi ríkisstjórn sem nýlega hefur tekið við störfum var ekki mynduð til þess eins að grípa til þeirra aðhaldsaðgerða sem óhjákvæmilegar reyndust við upphaf hennar starfs. Það er rétt athugað. Hún var mynduð til þess að rjúfa kyrrstöðu og auka verðmætasköpun í atvinnulífinu sem mun skila sér í bættum lífskjörum. Hún var mynduð til þess að koma hér á frjálsara, réttlátara og jafnara þjóðfélagi en við höfum búið við.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. fór hér nokkrum orðum um almenn stjórnmálaviðhorf. Það var líka vel til fundið þótt nokkurs misskilnings gætti því miður í hans máli. Því auðvitað er það rétt og vel þekkt af þeim sem fylgjast vel með þróun stjórnmála í okkar landi og í veröldinni yfirleitt að markaðslausnir duga einna best til þess að leysa flest efnahagsleg viðfangsefni.
Þar sem markaðurinn bregst grípur ríkið inn í. Og það er ranghugmynd að hagkvæmni og jöfnuður þurfi að rekast á. Miklu oftar en ekki fer markaðsfrelsi og jafnrétti einstaklinganna saman en að þetta tvennt stangist á. Þetta eru sannindi sem hafa lengi verið kunn, en vefjast því miður fyrir ýmsum hv. þm. ef marka má þau orð sem fallið hafa í þessum umræðum.
    Að þessu sögðu er það líka rétt að nefna að meðal mikilvægustu verkefna sem þessi stjórn ætlar sér að vinna að er að gera samninga við erlenda aðila um nýtingu okkar orkulinda til þess að efla hér atvinnulíf, tekjur og lífskjör í framtíðinni. M.a. til þess að halda þessari leið opinni og til þess að við eigum þess kost að efla hér fjölbreytt atvinnulíf á grundvelli hugvits og hátækni, þekkingar fólksins og auðlinda landsins, þá þurfum við traust og örugg sambönd við þau lönd sem við höfum við mestan samgang að hefð og sögu og af hagsmunum okkar, þ.e. Evrópuríkin.
    Það er ekki síst um þessi stóru verkefni sem þessi stjórn er mynduð. En til þess að hún nái tökum á þessum miklu verkefnum var ekki undan því að víkjast og það dylst reyndar engum að taka þyrfti á því helsta verkefni sem að kallar í stjórn efnahagsmála á Ísland um þessar mundir, sem er að verja forsendur þeirra kjarasamninga sem kenndir hafa verið við þjóðarsátt. Það er verkefnið og stjórnin tekur á því eins og það ber að höndum. Og sem betur fer hefur hulu verðbólgunnar verið svipt burtu og við okkur blasa hin raunverulegu viðfangsefni á sviði efnahagsmálanna jafnt til skamms tíma sem langs tíma.
    Það var ánægjulegt að heyra það í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. að honum var það ljóst og reyndar er það athyglisvert við þessa umræðu að menn deila hér ekki um viðfangsefnið. Öllum ber saman um að þenslumerki hafi mátt greina í þjóðarbúskapnum og ekki síst í ríkisbúskapnum og hv. 6. þm. Norðurl. e. fór um þetta mál mjög athyglisverðum orðum þegar hann nefndi það að fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. hv. 8. þm. Reykn., hafi nokkuð förlast á síðustu mánuðum síns starfs. Hann gat sér gott orð í upphafi síns starfs fyrir að vilja taka myndarlega á þeim erfiðu viðfangsefnum sem þá var við að glíma og fyrir það eiga menn að sjálfsögðu hrós sem þeir hafa vel af hendi leyst, en því miður þá fataðist honum flugið og þess vegna fór sem fór. Aukinn halli ríkissjóðs er staðreynd. Þetta viðurkennir fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. 8. þm. Reykn., að hafi verið svo. Hann lýsti því sjálfur hér í gær að auðvitað hefði þurft að grípa til aðhaldsaðgerða og reyndar í blaðaviðtölum fyrr að að sjálfsögðu hefði mátt athuga það að hækka vextina á ríkisvíxlunum eitthvað ef á hefði þurft að halda og það hefði reyndar legið fyrir.
    Ég ætla ekki hér að fara að tala um talnalestir, um hallamælingarnar, þær liggja hér fyrir í þessari skýrslu sem fjmrh. hefur útbýtt í þinginu í dag og munu senn verða ræddar. Það sem blasir við okkur er að útkoman verður mun lakari en að var stefnt með fjárlögum. Það er vaxandi innflutningur. Það er vaxandi viðskiptahalli þrátt fyrir batnandi viðskiptakjör.
    En það er ekki allt með erfiðleikamerkjum. Sem betur fer hafa forsendur kjarasamninganna um verðlagsþróun staðist til þessa og reyndar heldur betur en það þannig að kaupmátturinn er aðeins yfir þeim mörkum sem að var stefnt með þessum samningum. Það eru reyndar kannski merkilegustu tímamótin í okkar efnahagssögu á síðustu árum og áratugum að þetta hafi tekist. Við þurfum þess vegna að verja þessar forsendur og bregðast við hættumerkjum með aðhaldsaðgerðum á sviði ríkisfjármála og peningamála og það er einmitt það sem hér hefur verið gert og fyrir því máli er gerð grein í skýrslu fjmrh. sem útbýtt er í þinginu í dag.
    En svo ég víki aftur að almennum stjórnmálaatriðum í mínu máli þá vil ég láta í ljós ánægju mína með það hvað hv. stjórnarandstæðingum, bæði í gær og í dag, hefur orðið tíðrætt um stefnumál Alþfl. og hversu annt þeir láta sér um kosningastefnuskrá hans í þessu stjórnarsamstarfi. Stjórnarandstaðan er því miður ekki hlynnt öllum okkar málum og við því er ekkert að segja. Það liggur í eðli stjórnarandstöðuhlutverksins. En það er hins vegar ljóst af því sem fram hefur komið frá þeim að einmitt þessi kosningastefnuskrá er heillegasta skjal sem saman hefur verið sett um þessar mundir um það hvernig við eigum að búa í haginn fyrir framtíðina.
    Mig langar að víkja nokkrum orðum að sjávarútvegsmálunum í því samhengi. Því auðvitað er það mjög mikilvægt að við náum því skipulagi í sjávarútveginum sem skilar þjóðinni sem mestum arði af þessari undirstöðugrein --- og því fólki sem við hana vinnur. Þetta er eitt af framtíðarmálunum. Þetta er líka eitt af þeim sviðum í atvinnurekstri og þjóðlífi þar sem markaðurinn veitir ekki einhlíta leiðsögn vegna þess að sótt er í sameiginlega auðlind þar sem óheftur aðgangur mundi spilla henni. Þetta eru grundvallarstaðreyndir og við þeim þarf að bregðast.
    Hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. sjútvrh., Halldór Ásgrímsson sagði hér í umræðunum í gær að það væri nauðsynlegt að útvegurinn byggi við stöðugt stjórnkerfi, stöðugt rekstrarumhverfi. Þetta er auðvitað laukrétt. En það er einmitt af þessum ástæðum sem við þurfum að taka fiskveiðistjórnunina til gagngerrar endurskoðunar. Sannleikurinn er nefnilega sá að fiskveiðistjórnkerfi okkar hefur nú lent í vanda --- með vissum hætti í öngstræti. Ég ætla ekki hér að fjölyrða um það í hverju þessi vandi er fólginn en bendi á að þegar bætt er 2000 smábátum í úthlutunarkerfið, sem kennt er við kvótann, við þau 600 eða 700 skip sem voru þar fyrir koma upp alveg ný vandamál. Ég ætla líka að nefna að eftir því sem þetta kerfi festist í sessi --- og ég tek það fram að ég tel að það hafi verið alveg bráðnauðsynlegt að koma því á í upphafi --- þá koma vaxandi vandamál í sambandi við viðskipti og framsal með kvóta. Sé ekkert gert stefnir að mínu áliti í óstöðugleika í sjávarútveginum vegna ósættis um þetta fyrirkomulag. Það sem skiptir máli í umfjöllun núv. ríkisstjórnar um sjávarútvegsmálin er sú sterka áhersla sem lögð hefur verið á sameignarákvæði 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Og mig langar til að minna á að það var einmitt fyrir tilstilli Alþfl. að þetta ákvæði var sett í lögin. ( Gripið fram í: Já.) Það er rétt, virðulegur þingmaður. Nú þarf að fara skipulega í þetta mál til þess að gera þetta ákvæði virkt eins og margoft hefur fram komið. Og ég treysti á að um það geti tekist gott samstarf við þingmenn úr öllum flokkum og veit að virðulegur þingmaður, 1. þm. Austurl., mun leggja af mörkum í því samstarfi af sinni hálfu og bið hann að vera ekki of bundinn af því sem gert var í fyrri tíð einfaldlega vegna þess að lífið heldur áfram, hlutirnir þróast, ekkert kerfi af mannahöndum gert stenst þá þróun sem þarna hefur orðið. Við þurfum að finna nýjar lausnir einmitt til að koma á þessum stöðugu rekstrarskilyrðum í sjávarútveginum sem hann réttilega lýsti eftir.
    Nú bendi ég á annað kerfi ekki síður mikilvægt fyrir hagi fólksins í landinu sem er húsnæðiskerfið. Mér finnst það reyndar mjög merkilegt hvað Framsfl. kýs að binda sig fast og lengi við þetta gamla húsnæðiskerfi. Það er sérhverjum manni ljóst sem vill líta á þessi mál með lágmarksskynsemi að það kerfi sem kennt hefur verið við árið 1986 var mistök frá upphafi. Framhald þess hefði þýtt óviðunandi mismunun milli þjóðfélagsþegnanna í einhvers konar biðraðakerfi og gjaldþrot húsnæðissjóðanna vegna lágu vaxtanna. Það hefur loksins verið tekið á þessu máli núna og ég hélt að hv. 1. þm. Austurl. hlyti að fagna því, þekkjandi af fyrri reynslu hversu mikla áherslu hann leggur á ábyrga fjármálastjórn. Hann nefndi til stuðnings sínu máli að afföll í húsbréfakerfinu stefndu í fjórðung og jafnvel meir og enginn gæti staðið undir slíkum afföllum. Mér finnst þetta merkileg yfirlýsing af hálfu þessa bókhaldsfróða manns.
    Í upphafi míns máls benti ég á að hula verðbólgunnar er núna ekki lengur til trafala að meta svona hluti. Nú sjá menn verkefni efnahagsmálanna skýrar en áður. Það hefur nefnilega gerst svipað í húsnæðismálunum með tilkomu húsbréfanna. Þegar meiri hluti fjármögnunar íbúðakaupa er kominn á einn stað þá verða breytingar á kjörum eins og afföllum ljósari en áður. Reyndar er það líka rétt að það er ekkert einhlítt mál á hverjum þessi afföll lenda þegar um fasteignaviðskipti er að ræða. Það fer eftir gangi greiðslnanna, eftir verðinu á eignunum og fleira af því tagi. Og hver man ekki eftir því eða þekkir það ekki úr gamla húsnæðislánakerfinu þegar kaupendur þurftu sífellt að vera að framlengja og endursemja um bankalán, slá víxla til að brúa bilið á milli útborgana lána og biðja sinn kunningja - og fjölskylduhring að ábyrgjast lán? Verðbólguþróunin gat líka haft geysimikil áhrif á kostnað af eftirstöðvum íbúðarverðsins. Þetta kostaði allt sína peninga en allur heildarkostnaðurinn var mönnum dulinn. Nú horfast menn í augu við þetta. Og að mínu áliti er þetta framför en ekki afturför. Nú hefur hulunni verið svipt burt og tengslin milli fjármögnunar íbúðakaupa og lífskjaranna blasa við. Og það er einmitt einn þáttur í því samkomulagi sem náðst hefur í ríkisstjórninni um húsnæðismálin að greiða og tryggja stöðu húsbréfanna á markaðnum betur en verið hefur einmitt til þess að draga úr afföllunum. Þessi orð um húsnæðismálin vildi ég láta koma hér fram af því að þau hafa mikið verið rædd.
    Ég kem að enn öðru máli, landbúnaðarmálunum. Hv. þm. sá 6. frá Norðurl. e. og ýmsir aðrir hér fyrr í umræðunni hafa gert þau nokkuð að umtalsefni. Mig langar að láta í ljós þá einföldu skoðun að tíminn vinni með okkur í landbúnaðarmálunum. Bæði hérlendis og erlendis eru að gerast hlutir sem auka þrýstinginn á þetta kerfi okkar. Það kom m.a. fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. Við þurfum að taka nú á þessu máli, eins og greinir í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, að móta landbúnaðarstefnu sem hafi að leiðarljósi lægra verð til neytenda, bætta samkeppnisstöðu bænda, lægri ríkisútgjöld og gróðurvernd. Þetta felur m.a. í sér breytingu á vinnslu- og dreifingarkerfi landbúnaðarvöru í framhaldi af endurskoðun búvörusamningsins. Þetta er ekki yfirlýsing um kyrrstöðu í landbúnaðarmálum. Þetta er ekki yfirlýsing um status quo. Þetta er yfirlýsing um það að vinna af skynsemi að því að vinna niður kostnaðinn af þessu kerfi, opna kerfið fyrir viðskiptum, gera samkeppnisstöðu þess líkari öðrum atvinnugreinum. Þetta eru mikilvægir hlutir.
    Og vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e. finnst mér hann tala heldur óvirðulega um orð og orðaleppa sem hann kallaði svo sem greina mætti í málflutningi okkar alþýðuflokksmanna um landbúnaðarmál. Orð eru nefnilega til alls fyrst og ég tel að með þessum orðum sé hreyft við þeim breytingum sem eru ekki síst bændum í hag, en reyndar neytendum og landsmönnum öllum líka. Það þarf að taka á þessu öðruvísi en að segja sem svo: Það kerfi sem framsóknarflokkurinn hefur byggt upp á tuttugu árum, eða hvað það nú er, er það eina sem til greina kemur. Ég vara við því hugarfari.
    Ég ætla að víkja nokkuð að vaxtamálum. Í gegnum vaxtaræður stjórnarandstæðinga hér í þessum umræðum finnst mér skína ráðstjórnarhugsun. Menn sem þykjast vera nútímalega þenkjandi koma upp um sig hvað eftir annað þegar þessi gamla vanahugsun íslenskra stjórnmálamanna, að stjórna vöxtunum með tilskipunum, kemur fram í orðum þeirra hvað eftir annað. Hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson talaði hér um vextina eins og skatt en vöxtunum er alls ekki ætlað það hlutverk sem skatti er ætlað. Vöxtunum er ætlað það hlutverk að hvetja til sparnaðar, draga úr eyðslu, hafa áhrif á ráðstöfun fjármuna til fjárfestingar og annarrar notkunar. Þessar breytingar, sem nýlega hafa verið ákveðnar, eru nú kallaðar svik við þjóðarsátt. Mig langar til að minna á að fyrrv. fjmrh., hv. 8. þm. Reykn., sem nú hefur einna hæst um þessi meintu svik bauð sjálfur spariskírteini á vildarkjörum, 7,05% vextir þýddi það, um mitt sl. ár til stórra kaupenda. Og hann var aftur á ferðinni undir lok ársins þegar hann örvaði söluna á ríkisvíxlunum með tilboðum undir borðið til útvalinna kaupenda. Þá var ekki talað um neina vaxtaskrúfu. Það var heldur ekki gert þegar hann hækkaði vextina á ríkisvíxlunum í upphafi þessa árs upp í 11 -- 12% úr 10%. Þá var ekki rætt um nein svik við þjóðarsáttina. Kannski er þjóðarsáttin bara í gildi suma daga í hugum ykkar alþýðubandalagsmanna.
    En auðvitað eru þessar vaxtabreytingar engin svik við þjóðarsáttina. Þær eru einfaldlega nauðsynlegar til þess að sporna gegn þeirri þenslu sem nú gætir í þjóðarbúskapnum og kynni að grafa undan þjóðarsáttinni ef ekki yrði tekið á málinu. Vaxtahækkunin hjá ríkissjóði er nauðsynleg til þess að örva sölu á ríkisvíxlunum og spariskírteinunum, en vextir á þeim hafa legið of langt undir því sem gengur og gerist á fjármagnsmarkaði till þess að þetta seljist. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að horfast í augu við veruleikann á lánamarkaðnum en ekki upphafið að vaxtaskrúfu, eins og reyndar dæmin frá liðnu ári sýna og sanna að mínu áliti.
    Mig langar líka til að nefna í þessu sambandi að sú staðreynd að við höfum nú frjálslegri viðskipti með fjármagn og lán milli Íslands og annarra landa gerir það að verkum að þessir vextir geta ekki og eiga ekki, mega ekki, víkja lengi mikið frá því sem gerist í heiminum í kringum okkur. Það er það aðhald sem frelsið veitir, bæði sparendum og lántakendum til hagsbóta. Þetta skilja allir sem vilja skilja það, en án vaxtahækkunar og aukinnar sölu á ríkisvíxlum og spariskírteinum nú yrði ríkissjóður að treysta á lántökur í Seðlabankanum eða erlend lán þegar í stað. Það er ekki leiðin til þess að varðveita stöðugleika í efnahagsmálum.
    Ýmsir af talsmönnum Kvennalistans hafa haldið því fram að fyrirtækjaumhverfi hér á Íslandi, og reyndar í þeim stefnuyfirlýsingum sem þessi stjórn hefur látið frá sér fara, væri andstætt smáfyrirtækjum. Mig langar til að benda á að það hefur afar margt verið gert að undanförnu einmitt til þess að bæta stöðu hinna smærri fyrirtækja. Ég nefni þar fyrst og fremst breytingar á gjaldeyrisreglum, frjálsari gjaldeyrisviðskipti, bankakerfi með greiðari aðgangi fyrir viðskiptavinina og svo sérstakar stuðningsaðgerðir við smáfyrirtækjarekstur á sl. árum. Það sem áður voru forréttindi fárra í viðskiptum, þeirra sem nutu velvilja valdhafanna, er nú öllum heimilt á eigin ábyrgð. Þetta gildir um gjaldeyrisviðskipti og erlendar lántökur og verður enn almennara í framhaldi þeirra breytinga sem nú eru á áætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nýlega hefur tekið við störfum.
    Umræðan hér um Evrópusamstarfið hefur líka beinst í þennan farveg. Hv. 14. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir hélt því t.d. fram í gær að Evrópubandalagið væri hagsmunabandalag stórfyrirtækjanna og eingöngu hugsað til þess að bæta þeirra hag. Mér finnst það nú satt að segja ófyrirgefanlegt af þingmanni sem vill láta taka sig alvarlega að leyfa sér slíkan málflutning í ræðustóli á þingi. Evrópubandalagið snýst um miklu mikilvægari og fyrir almenning afdrifaríkari hluti. Það eru reyndar settar ýmsar hömlur á rekstur stórfyrirtækjanna í starfsreglum bandalagsins og eins og margoft hefur komið fram eru heildaráhrifin af hinum fyrirhuguðu breytingum og auknu samstarfi bandalagsríkjanna aukinn hagvöxtur sem bætir lífskjör allra þjóðanna. Það er reyndar athyglisvert að í samstarfsáætlunum Evrópubandalagsins og í samstarfsáætlunum þeirra og annarra ríkja er mjög mikið að því hugað að bæta stöðu smárra og miðlungi stórra fyrirtækja. Í því samstarfi hafa Íslendingar tekið þátt og hugsa sér að gera eftir því sem skynsamlegt og hagkvæmt er. Styrkur Evrópusamstarfsins liggur ekki síst í því að það viðurkennir fjölbreytni í atvinnulífi, í menningu, í þjóðlífi Evrópuríkja og lítur á þessa fjölbreytni sem eina helstu auðlind álfunnar. Þessu er ég sammála.
    En víkjum aftur talinu að vöxtunum og fjármagnsmarkaðnum. Í máli talsmanna stjórnarandstæðinganna, ekki síst hv. 9. þm. Reykv., kom það fram, og reyndar var það í máli hv. 7. þm. Reykn., að vaxtahækkunin
væri fjármagnseigendum í hag og það var yfirleitt talað um fjármagnseigendurna eins og einhverja örfáa stórríka menn.
    Þetta er dæmi um óvandaðan málflutning. Öllum sem vilja vita má vera það ljóst að Íslendingar svo þúsundum skiptir sem betur fer eiga sparifé og þá sakar heldur ekki að nefna almannasjóði eins og lífeyrissjóðina sem eru stærstu fjármagnseigendur á Íslandi. Það er spurning um það hvort þessi skattlagning sem hv. 9. þm. Reykv. var að tala um var ekki einhver misskilningur af hans hálfu, vegna þess að vaxtabreytingin gagnast að langmestu leyti þessum almannasjóðum og þessum almenningi sem á sparifé í bönkunum. Hvað varðar hagsmuni alls þessa fólks, jafnt ungra sem gamalla, er mjög mikilvægt að hér sé rekin ábyrg vaxtapólitík. Reyndar er það svo að 60% af innlánum í bönkum og sparisjóðum koma frá einstaklingunum og hlutur þeirra sem eru komnir yfir sextugt er langstærstur eða um 35% af öllum innlánum. Hv. 9. þm. Reykv. telur sig e.t.v. ekki þurfa að bera hag þessa fólks sérstaklega fyrir brjósti.
    Svo ég víki enn að málflutningi stjórnarandstæðinga í umræðunum í gær þá kom það fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. e. Guðmundar Bjarnasonar að hann teldi Alþfl. hafa komið í veg fyrir og stöðvað hagræðingaráform hans í heilbrigðiskerfinu í fyrrv. ríkisstjórn. Þetta eru staðlausir stafir. Ég vil alls ekki gera lítið úr vilja Guðmundar Bjarnasonar til þess að hagræða í heilbrigðiskerfinu, hann hafði til þess góðan vilja, en staðreyndin er sú að hann kom þeim hugmyndum sínum ekki fram. Það mikilvæga verkefni, eins og glöggt má sjá í þessari skýrslu um ríkisfjármálin, stöðu þeirra, horfur og aðgerðir, er nú í höndum hins nýja heilbrrh. Sighvats Björgvinssonar og hann er ekki öfundsverður af því hlutverki og því hlutskipti að þurfa að taka á þeim óleystu útgjaldavandamálum sem þar er að finna. En á þeim þarf þó að taka.
    Mig langar, virðulegi forseti, að koma hér að lokum nokkuð að því sem rætt hefur verið um gengistilhögun. Hv. 9. þm. Reykv. vék að því nokkrum orðum að sú stefna ríkisstjórnarinnar sem finna má í hennar stefnuyfirlýsingu og segir, með leyfi forseta: ,,Með því að kanna vandlega hvernig stuðla megi að auknum stöðugleika í efnahagslífinu með tengingu íslensku krónunnar við evrópska myntkerfið.``
    Hv. þm. innti eftir því hvort þetta mál hefði verið rætt í þingflokkum stjórnarinnar og fyrrv. þingflokksformaður Alþfl. hefur þegar svarað því að það mál hefði vissulega verið rætt þar í samhengi stefnuyfirlýsingarinnar ef ekki sérstaklega. Hér er fyrst og fremst um könnun að ræða, en ég bendi á að stöðugleiki í gengi er einhver mikilvægasta forsenda þeirrar kjarasáttar sem hv. stjórnarandstæðingar láta sér svo annt um. Við þurfum að finna leiðir til þess að gera stöðugleika í gengi og þann aga sem hann veitir okkar efnahagslega umhverfi, trúverðugan í augum þeirra sem semja um kaup og kjör og í augum þeirra sem þurfa að gera ráðstafanir fram í tímann í sínum viðskiptum við önnur lönd og í sínum fjárráðstöfunum. Ein leið til þess kynni að verða nánari tenging við myntkerfi Evrópuríkjanna. Ég bendi á það að á liðnu ári ákváðu Norðmenn einhliða að tengja gengi norsku krónunnar við ECU, hina evrópsku mynteiningu, með þeim hætti sem þeim hentar sjálfum. Í síðustu viku tóku Svíar sömu ákvörðun. Ég lít svo á að við þurfum að kanna mjög vandlega þær breytingar, þá þróun sem er að verða í okkar efnahagslega umhverfi hvað varðar gengistilhögun.
    Þetta er bakgrunnur þessa fimmta liðar stefnuyfirlýsingarinnar og auðvitað verður þetta mál undirbúið með þeim hætti að okkar efnahagsstofnanir, stofnanir á þessu sviði, Seðlabanki, Þjóðhagsstofnun, ráðuneytin sem með þessi mál fara, munu í sameiningu kynna sér vandlega hvernig að þessu er staðið, t.d. hjá þessum nágrönnum okkar sem ég hef nefnt. Viðleitnin er jafnan sú að reyna að búa hér svo um hnúta að íslenskt atvinnulíf og íslenskur almenningur geti búið við stöðugleika í efnahagsmálum til þess að leggja grunn að þeirri efnahagslegu framtíð, þeim efnahagslegu framförum, sem þessi ríkisstjórn stefnir að að ná. Hún ætlar sér að rjúfa kyrrstöðuna. Hún ætlar sér að efla hér hagvöxt. Hún ætlar sér að nýta hér íslenskar auðlindir og umhverfi eins og best má verða íslenskum almenningi til hagsbóta.
    Þetta er bakgrunnurinn. Það er ekki nokkur minnsta

ástæða til þess af hv. 9. þm. Reykv. að reyna að gera þetta tortryggilegt, enda fellur slík tilraun um sig sjálfa.