Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það hafa nú komið fram fjölmörg atriði sem væri ástæða til þess að ræða sérstaklega hér í framhaldi af þeim umræðum sem urðu í gærkvöldi, hinum formbundnu umræðum. Reyndar hóf hv. 9. þm. Reykv. ræðu um að það hefði orðið að halda ríkisstjórninni og forsrh. sérstaklega að því að flytja stefnuræðu með þeim hætti sem gert var. Ég vil ekki kannast við það að í sjálfu sér hafi nokkuð verið amast við því að verða við óskum um það þó ég sé reyndar þeirrar skoðunar að ákvæðin í þingskapalögum um stefnuræðu forsrh. séu bersýnilega ætluð almennu, venjulegu þingi, þegar þingið er að hefja sinn feril að hausti og lögð eru drög að verkáætlun þess þingvetrar sem fram undan er.
    Þetta þing sem við höldum núna er sérstakt þing, aukaþing um tiltekið verkefni og það er ljóst að fyrirmæli í þingskapalögunum um tveggja vikna hámarksfrest á framlagningu stefnuræðu gagnvart þessu þingi er nánast bundið við lok þingtímans, því að þinginu var ekki ætlað að standa nema rétt um tvær vikur. En engu að síður var sjálfsagt að verða við því að flytja ræðu af því tagi þó auðvitað megi segja að sú ræða markaðist töluvert af þessu. Þetta var ekki hefðbundin stefnuræða þar sem vikið var að þáttum frá hinum einstöku ráðuneytum og hvað þar yrði helst á dagskránni. Þess vegna er eðlilegt að ýmsir ræðumenn, hv. þm. stjórnarandstöðunnar, hafi fundið að því að það vantaði atriði um þennan þáttinn og hinn, umhverfismál, skólamál, leikskólamál. Fjöldinn allur af slíkum þáttum hefur auðvitað verið nefndur, en það helgast af þessu sem ég er að nefna. Það var auðvitað annars konar aðdragandi að stefnuræðu núna en gerist á venjulegum haustþingum.
    Fyrst ég er að fjalla um orð hv. 9. þm. Reykv. fyrir utan þennan þátt, þá lagði hann mjög mikla áherslu á sérstaka þætti sem tengdust kannski ekki beint stefnuræðunni. Honum var mikið í mun að fjalla um litinn á þeim bæklingum sem fram koma og fram hafa komið að undanförnu, þetta væri allt saman blátt, sagði hv. þm. og ég fann ekki betur en hann legði í það mikla merkingu. Það er engin merking sérstök í því. Við leggjum ekki jafnmikið og hv. þm. og reyndar Alþb. upp úr litasamsetningu af þessu tagi. Ég minnist þess sérstaklega, ég hygg að það hafi verið mánuði fyrir kosningarnar eða svo, þegar hv. 8. þm. Reykn., formaður Alþb., lét draga að hún sérstakan nýjan fána fyrir flokkinn, mánuði fyrir kosningar til þess að reyna að láta fenna yfir fortíðina þennan mánuðinn sem menn höfðu til þess að gera upp hug sinn til flokkanna. Það má auðvitað lesa upp heilmiklar merkingar úr þeim litum sem þar voru. Það var rauður punktur, punkturinn aftan við sósíalismann, síðan var græn sletta til að minna á veru formannsins í Möðruvallahreyfingunni og Framsfl. og síðan var allur helsti flöturinn hvítmálaður til merkis um uppgjöf Alþb. og sósíalismans í veröldinni. ( SvG: Bláa bókin er blá, er það ekki?) Bláa bókin er blá og falleg og fögur, en þetta er sem sagt merkingin sem hægt er að

leggja í litasamsetningu af þessu tagi eins og kom fram hjá formanni Alþb. mánuði fyrir kosningar.
    Jafnframt gerði hv. þm. mjög ákveðnar kröfur um að fá þau bakskjöl sem rætt hefur verið um að forustumenn flokkanna hefðu vitnað til í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður þeirra. Það er alveg rétt. Það var nefnt alveg sérstaklega að flokkarnir hefðu af sinni hálfu látið fara fram margvíslega vinnu á þessum tiltölulega fáu dögum sem menn höfðu. Það var nefnt að þau skjöl öll og sú vinna sem þar lægi til grundvallar yrði auðvitað notuð þegar verkáætlun stjórnarinnar, sem samkvæmt stefnuyfirlýsingunni á að leggja fram á haustþingi, verður unnin. Fyrir utan öll hin almennu plögg sem trúnaðarmenn flokkanna unnu á þessum tíma voru jafnframt lögð fram plögg sem ég hygg að hafi verið birt og dreift af hálfu annarra aðila, bæði fjmrn., Ríkisendurskoðunar og fleiri slíkra aðila.
    Ég býst við því og ég hef reyndar það fyrir satt að þegar stjórnarsáttmálar hafi verið mjög langir eins og þeir stundum hafa verið, afskaplega langir, þá liggi bak við þá sáttmála óheyrilegur fjöldi bakplagga, heil fjöll af bakplöggum sem engum manni hefur dottið í hug að óska eftir að fá lögð fram. Í tengslum við þessa þætti, bakskjölin og slíka hluti, og í tengslum við umræðuna í gær sem sjónvarpað var var því haldið blákalt fram af sumum ræðumönnum að þessi stjórnarmyndunartími hefði verið raunar aðeins yfirskin því að stjórnarmyndun hefði átt sér stað fyrr. Og ég sá reyndar í blaði í dag að hv. 4. þm. Austurl. endurprentar lítið brot úr langri ræðu þar sem hann þykist hafa séð það allt saman fyrir að slíkar viðræður hefðu þegar átt sér stað og allt væri þannig í pottinn búið að það væri bara formsatriði, ef ég skildi ræðu hans og grein rétt, að mynda þessa stjórn. Ég sá einnig í blöðum fyrir kosningarnar greinar um að annars vegar ætti Sjálfstfl. og forustumenn hans í viðræðum um stjórnarmyndun við Alþfl. og hins vegar voru sögur um það að forustumenn Sjálfstfl. hefðu átt þess háttar samtöl við forustumenn Alþb. Báðar þessar lýsingar eru jafnrangar og ég held að menn þurfi ekki að hafa neinar getgátur uppi í þessum efnum hvað þetta snertir.
    Hv. 15. þm. Reykv. kom hér inn á það hvað í því fælist þegar talað er um að tengja eða kanna tengingu krónunnar við evrópska myntkerfið. Hæstv. viðskrh. hefur gert mjög ítarlega og góða grein fyrir þeim þætti. Í því felst auðvitað fyrst og fremst að menn vilja skapa og tryggja atvinnulífinu traustan grundvöll, trausta viðmiðun sem það getur byggt á. Og vegna þess að hv. 9. þm. Reykv. talaði mikið um þennan þátt og í rauninni sviptingu á sjálfsforræði í hagstjórn sem í þessu gæti falist, ekki síst fyrir atvinnulífið, þá hygg ég að einmitt atvinnulífið vilji gjarnan að til sé þess háttar viðmiðun, ekki viðmiðun sem tryggi í raun blýfast gengi heldur stöðugt gengi, gengi sem er í samræmi og samhengi við þann raunveruleika sem menn búa við, þann raunveruleika sem er í viðskiptalöndunum í nágrenni við okkur þar sem okkar tengsl eru mikilvægust.

    Hv. 15. þm. Reykv. spurði jafnframt um hvað orð um samræmingu eigna og eignatekna þýddu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í þessu felst í rauninni það sem þar segir, að menn vilji taka skattlagningu eignatekna til athugunar. Það hefur verið mjög í umræðunni að óeðlilegt væri að þess háttar tekjur lytu ekki lögmálum skattlagningar. En um leið er sagt að þegar slíkt er skoðað eigi menn að gæta þess að ekki komi upp tvísköttun. Þess vegna vija menn á sama tíma og í samhengi skoða skattlagningu annars vegar eigna og hins vegar eignatekna. Ég held að þetta sé ósköp ljóst og ósköp skýrt, eins og reyndar flest í þessari stuttu stefnuyfirlýsingu.
    Hv. 15. þm. Reykv. talaði jafnframt töluvert um einkavæðingu. Ég get ekki annað en verið ánægður með það að mér finnst að hugtök að þessu leyti til séu töluvert að breytast. Þingmaðurinn talaði töluvert um að hún vildi forðast miðstýringu. Þetta er að verða allra manna mál að miðstýring er eitthvað sem mönnum finnst fjandsamlegt heilbrigðu atvinnulífi og þróun þess og þessi ágæti hv. þm. tók undir það. Að vísu hafði þingmaðurinn áhyggjur af vissum þáttum einkavæðingar og einkum þá þar sem um væri að ræða starfsemi sem hefði einokunargildi eða einokunarþátturinn væri ríkur. Ríkisstjórnin deilir þessum áhyggjum með þingmanninum og vill varðandi einkavæðingu fara afskaplega varlega þar sem þannig er í pottinn búið að um starfsemi sem hefur einokunarblæ á sér eða einokunarréttindi beint er að ræða. Þar kemur einkavæðing síst fyrr en ella og þarf a.m.k. vandlegrar íhugunar við áður en í slíkt er ráðist.
    En varðandi hitt sem þingmaðurinn nefndi að í vissum þáttum eins og félags - og menntamálum ætti einkavæðing ekki við, þá er ég ekki sammála. Þingmaðurinn nefndi sérstaklega dómstóla og lögreglu, þar ætti slíkt ekki við, og auðvitað virðist það liggja í augum uppi. Þó vek ég athygli á því að einkafyrirtæki hafa tekið að sér vissa þætti sem lögregla sá alfarið um áður eins og til að mynda gæslu á mannvirkjum með eftirlitsmönnum. Þetta er nýr þáttur sem almenn löggæsla sá áður um og einkarekstur hefur sýnt að slíkir aðilar geta ágætlega sinnt.
    Hv. þm. taldi, og það þótti mér athyglisvert, að ríkisstjórnin og ég í ræðu minni í gær hefði mistúlkað það að verulegur meiri hluti þjóðarinnar styddi álver á Keilisnesi eða byggingu þess ef samningar tækjust. Þetta kom mér á óvart vegna þess að það er svo stutt síðan hv. 10. þm. Reykv. lýsti því yfir að Kvennalistinn mundi fyrir sitt leyti ekki láta það mál vefjast fyrir sér vegna þess að kosningarnar sýndu að verulegur meiri hluti þjóðarinnar styddi það að álver kæmi á Keilisnesi. Ég hygg að þarna sé eitthvað málum blandað ef hv. þm. telur að við séum að ofætla í þessum efnum. Kvennalistinn hafði sjálfur á mikilvægum fundi, á ögurstundu ákvarðað að þetta væri svona. Og ég hygg þess vegna að við getum verið mjög öruggir um það að a.m.k. hér í þinginu séu flestir þeirrar skoðunar að verulegur meiri hluti þjóðarinnar vilji álver á Keilisnesi.
    Ég verð að segja það eins og er að mér sýnist á

öllum þessum umræðum að það hafi sannast að þau orð, þær fullyrðingar sem hafðar voru uppi á stjórnarmyndunartímabilinu, að auðvelt væri að endurvekja fyrrv. ríkisstjórn, það væri í rauninni fátt sem þar bæri á milli, hafa bersýnilega alls ekki staðist. Jafnframt hafa menn talað um að liðsstyrkur Kvennalistans mundi styrkja þá stjórn og málefnasamstöðu þar. Umræður þær sem hér hafa átt sér stað sanna að það er heldur ekki rétt hvað mjög mikilvæg mál snertir. Það hefði bersýnilega verið bullandi ágreiningur í slíku stjórnarliði ef til slíks fjögurra flokka stjórnarmynsturs hefði verið stofnað. Ég hygg að sú ríkisstjórn hefði varla hangið með mikið meira hald heldur en Þorgeir á hvönninni forðum ef hún hefði verið sett á laggirnar.
    Hv. 8. þm. Reykv. fjallaði heilmikið um vaxtahækkanir, að vísu alls ekki í samhengi hlutanna. Hv. þm. fjallaði í rauninni alls ekki um það hvers vegna vaxtahækkanir hafa verið óhjákvæmilegar. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, var ég að rugla ykkur saman, hv. 8. þm. Reykn.? Ég skal ekki gera það aftur. ( SvG: Þú ert að rugla mér saman við Geir Haarde.) Það er enn þá lakara. Það var auðvitað hv. 9. þm. Reykv. sem var með þennan ruglanda. Hv. þm. Geir Haarde hefði aldrei verið með slíkan ruglanda, hann er svo vel að sér í þessum fræðum að hann hefði aldrei farið að rugla saman, eins og hv. 9. þm. Reykv. gerði, skattahækkunum og vaxtahækkunum því að slíkt er svo fráleitt að gera eins og hæstv. viðskrh. benti á og fór ítarlega og vel yfir. En það er nauðsynlegt og þýðingarmikið að allir þingmenn geri sér grein fyrir því að þessi vaxtahækkun er í raun atriði um form. Allar forsendurnar lágu fyrir. Þannig hafði verið á málum haldið, eins og reyndar hv. 6. þm. Norðurl. e. vakti athygli á, af hálfu hv. 8. þm. Reykn. að við þessum hlutum varð að bregðast og vaxtahækkun var óhjákvæmilegur hluti af þeim viðbrögðum. Ég vil fullyrða að hæstv. fyrrv. fjmrh. hefði brugðist við með mjög svipuðum hætti þó hann forðaðist það fram yfir kosningar. Ég er ekki í vafa um að sú hefði orðið niðurstaðan.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurði hvort rætt hefði verið sérstaklega á stjórnarmyndunarfundum um aðstöðugjöld og hvernig yrði með slík gjöld farið. Jú, það er alveg rétt, þeir þættir komu til umræðu í stjórnarmyndunarviðræðum eins og fjölmargir aðrir þættir. Og það er enginn vafi á því að þetta verður einn af þeim þáttum sem ræddir verða á milli flokkanna í þeirra stjórnarstamstarfi. Ég legg hins vegar áherslu á það fyrir mitt leyti að aðstöðugjöld eru í sjálfu sér ekki neinn heilagur hlutur. Það er alveg rétt sem bent hefur verið á að aðstöðugjöld sem aðferð til þess að rukka inn skatt geta verið ósanngjörn vegna þess að aðferðin tekur ekkert mið af því hvernig hag fyrirtækjanna er komið. En ég tel að vilji menn hverfa frá slíku fyrirkomulagi, þá sé algerlega nauðsynlegt að hafa samt hvata fyrir sveitarfélögin til þess að ýta undir atvinnulíf í sínu byggðarlagi. Þau hafi af því beinan ávinning að greiða götu þess að til atvinnufyrirtækja sé stofnað í sínu byggðarlagi, mjög ríkan hvata

til þess og aðstöðugjöldin hafa vissulega verið slíkur hvati. Hann er rangur sá samanburður sem hv. þm. gerði á skatttekjum Reykjavíkur, þeim skatti sem Reykjavík leggur á sína þegna og önnur sveitarfélög. Það er alveg rétt á hinn bóginn að skatttekjur borgarinnar jukust vegna þess að menn bjuggu einmitt í haginn. Menn notfærðu sér þennan hvata m.a. Það er hollt fyrir atvinnulífið og það er hollt fyrir sveitarfélögin að hafa hvata af þessu tagi. En engin slík gjöld eru heilög vé sem menn geta ekki rætt stjórnarflokkanna á milli. En ég legg þó áherslu á það að ég tel, og sú skoðun mín er óbreytt, að það sé ekki í verkahring sveitarfélaganna að jafna stöðu þeirra á milli. Það er verkefni ríkisvaldsins í viðskiptum sínum við sveitarfélögin.
    Ég hygg að ég fái nú tækifæri aftur, fyrst umræðan mun halda áfram á mánudaginn, til að fjalla nánar um ýmsa þætti sem hér hafa komið fram og í þeim ræðum sem ég veit að á eftir að flytja hér. En ég hygg að forseti hafi rætt um að slíta umræðum um þetta leyti.