Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Austurl. fjallaði í máli sínu einkum um tvo þætti. Annars vegar mál sem snerta sjávarútvegsstefnu og hins vegar þætti varðandi húsnæðismálin og reyndar vaxtamál í beinum og óbeinum tengslum við þau. Hv. þm. nefndi það að hann sæi ekki rök fyrir þeirri fullyrðingu hæstv. viðskrh. að mál þessi hefðu verið komin í öngstræti og í annan stað talaði hann um að það væri ófært að af hálfu ríkisstjórnarinnar væri talað með svo mjög mismunandi hætti um jafnmikilvægan þátt og sjávarútvegsmálin.
    Ég vil ræða þessi tvö atriði í samhengi og rifja aðeins upp hvernig þessi mál voru komin hvað þetta snertir á síðustu dögum fyrri ríkisstjórnar, hvort þau mál hafi verið komin í öngstræti og hvort ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir og talsmenn þeirra hafi talað einum rómi um þessi mál, til að mynda gagnvart kjósendum sem áttu að velja Alþingi og hugsanlega stuðla að myndun ríkisstjórnar eftir kosningar.
    Auðvitað fór því fjarri að ríkisstjórnarflokkarnir töluðu einum rómi. Sem sjútvrh. talaði hv. 1. þm. Austurl. auðvitað um kvótann með sínu lagi og vildi ekki miklar breytingar á honum gera, taldi hann hafa verið farsæla lausn ef ég man rétt. Alþfl. vildi gjörbreytta stefnu, vildi kvótaleigu eins og menn minnast og flutti fyrir þeim hugmyndum sínum sín rök. Alþb. hafði aftur á móti mismunandi skoðanir á málinu eftir því hvernig lá á. Hv. 8. þm. Reykn. talaði um að af hálfu Alþb. hafi verið settar fram mjög athyglisverðar tillögur þegar hv. 3. þm. Vesturl. við annan mann skrifaði sérstaka grein um það með hvaða hætti ætti að fara með þetta mál. Þarna væri komin alveg ný lausn, nokkurs konar aflagjald og nýtt skrapdagakerfi undir heitinu banndagakerfi. En hann tók jafnframt fram og þeir alþýðubandalagsmenn þegar þeir áttu við talsmenn Kvennalistans að Alþb. væri líka hlynnt byggðakvóta. Ég get því ekki ímyndað mér að hægt hafi verið að tala með misjafnari hætti um þennan þátt en stjórnarflokkarnir gerðu fyrir síðustu kosningar og sá blæbrigðamunur sem nú er talað um af hálfu núv. stjórnarflokka er hátíð mikil hjá því sem þarna var.
    Núv. stjórnarflokkar hafa komið sér saman um það með hvaða hætti þeir vilji nálgast þetta viðfangsefni. Þeir halda því ekki leyndu og enginn þarf að fara í grafgötur með það að þessir tveir flokkar töluðu líka með mismunandi hætti fyrir kosningar. Þá lá ekki á þeim sú skylda að boða sameiginlega stefnu eða hafa sameiginlega afstöðu, eins og hefði mátt gera kröfu til þáv. ríkisstjórnarflokka sem sinntu þeirri skyldu sinni með þeim hætti sem ég var að lýsa. Núv. stjórnarflokkar hafa komið sér saman um með hvaða hætti þeir vilja nálgast þetta viðfangsefni.
    Þá vil ég koma að beinum spurningum sem hv. 1. þm. Austurl. bar fram varðandi þessa þætti. Fyrst varðandi þá nefnd sem stjórnarflokkarnir hafa orðið ásáttir um að skipa og hefur verið lýst að það skuli vera fullt jafnræði milli þeirra. Þingmaðurinn spurði hversu fjölmenn þessi nefnd yrði, hver yrði formaður nefndarinnar og hver skipaði nefndina. Gert er ráð fyrir því að þessi nefnd verði sjö manna, þrír frá hvorum stjórnarflokknum og síðan formaður. Formaður, eins og nefndin, er skipaður af hæstv. sjútvrh. en það er gert ráð fyrir því að samráð verði milli stjórnarflokkanna um formanninn. Það kemur auðvitað í hlut hæstv. sjútvrh. að leita þess samráðs og skipa síðan formanninn og nefndina í framhaldi af því.
    Það er auðvitað alveg ljóst að nefndin mun eiga náið og gott samstarf við alla þá aðila sem að þessu máli koma, hagsmunaaðila sem aðra. Með öðrum hætti vinnst þetta mál ekki skaplega. Síðan þegar málið kemur til kasta þingsins, þegar það nálgast þann farveginn, tel ég alveg einsýnt að einnig verði haft náið samstarf við stjórnarandstöðuna. Með þessum hætti hafa stjórnarflokkarnir markað þá braut með hvaða hætti þeir vilja nálgast þetta viðfangsefni. Og ég verð að segja það og endurtaka það að mér finnst miklu meiri samhljómur í þessari stefnumótun og þessari atburðarás en nema mátti úr orðum talsmanna fráfarandi stjórnarflokka fyrir síðustu kosningar þar sem hvað gekk á annars horn og enginn samhljómur var.
    Hv. þm. ræddi töluvert um húsbréfin og vandamál sem þeim tengdust vegna þeirrar miklu eftirspurnar eftir því naumt skammtaða sparifé sem nú væri.
    Ég hef nú tekið eftir því að undanförnu að ótrúlega fljótt eru tveir fráfarandi stjórnarflokkar að hlaupa frá verkum sínum í síðustu ríkisstjórn --- hreint alveg með ótrúlegum hraða.
    Ég las það í viðtali við hv. 7. þm. Reykn., hæstv. fyrrv. forsrh., að húsbréfin hefðu hreinlega verið mistök. Það hefði verið eðlilegra að segja þetta fyrir kosningar en eftir kosningar. Ég minnist þess alveg sérstaklega þegar formenn flokka voru í yfirheyrslu í sjónvarpi. Þá var auðvitað formaður Framsfl. þar til sérstakrar yfirheyrslu eins og við hinir. Þar var lesið fyrir hann upp úr stefnuskrá Framsfl. fyrir kosningarnar 1987 þar sem var sagt eitthvað á þá lund að efla ætti húsnæðiskerfið og gera á því umfangsmiklar breytingar. Spyrjendurnir bentu á að húsnæðiskerfinu frá 1986 hefði verið lokað, hvort þetta væru efndir. Þá svaraði formaður Framsfl. og þáv. forsrh. að húsbréfakerfið, sem komið hefði verið á af hans ríkisstjórn, væri þessi umbreyting og bylting sem þarna hefði verið boðuð. Þetta var þremur vikum eða svo, kannski fjórum, fyrir kosningar. Nú er liðinn mánuður frá kosningum og þá er sagt að kerfið sé mistök.
    Ég get ekki ímyndað mér að fólkið í landinu vilji hentistefnu af þessu tagi og muni flokka hentistefnu af þessu tagi undir óheilindi, bæði gagnvart samstarfsmönnum í ríkisstjórn og gagnvart kjósendum sem fá boðskap af þessu tagi.
    Reyndar, ef maður fer að fara yfir málin eins og menn hafa hlaupið frá þeim, var í þessu sama viðtali rætt við hv. 7. þm. Reykn. um álmálið. Þar voru stórkostleg mistök gerð líka að mati þingmannsins. Við höfum heyrt það sama um Evrópskt efnahagssvæði og jafnframt hefur hann tekið fram að stjórn ríkisfjármálanna síðasta missirið hafi verið mistök. Ég sé því ekki annað en langan mistakaferil í þessari ríkisstjórn sem

hann vildi helst endurreisa og hefur talið í þessum viðtölum að vel hefði mátt gera, þrátt fyrir samfelldan mistakaferil sem rakinn var af hálfu hans í þessum viðtölum.
    Hv. 1. þm. Austurl. spurði hvort ákveðið hefði verið að takmarka útgáfu húsbréfa á þessum þrengingartímum og þá eftirspurn sem er eftir minnkandi sparifé almennings. Slík ákvörðun hefur ekki verið tekin. Ég tel reyndar að sá áfangi sem ríkisstjórnin náði og kynntur hefur verið í húsnæðismálum hafi verið afskaplega mikilvægur, hefði þurft að gerast fyrr en hafi verið afskaplega mikilvægur og um hann var samstaða. Ég tel hins vegar að húsbréfin hljóti að verða áfram til meðferðar hjá ríkisstjórninni og til þess þáttar verði litið varðandi heildareftirspurn eftir lánsfé. Á hinn bóginn vil ég ítreka það að ég tel að húsbréfin séu komin til að vera og þau eigi eftir að sanna sig þegar þau fá að starfa við heilbrigðar aðstæður. Þessi ríkisstjórn er að vinna að því að skapa þessar heilbrigðu aðstæður, m.a. með því að losa sig við hið tvöfalda kerfi sem í gangi hefur verið og með því að reyna að draga úr umsvifum á öðrum sviðum. Menn gera líka ráð fyrir því að áform um útvíkkun á húsbréfakerfinu verði að bíða um sinn. Allt þetta tel ég vera afskaplega mikilvægt. Ég tel að það sé allt of snemmt að fella dóma yfir húsbréfakerfinu með þeim hætti sem hv. 7. þm. Reykn. leyfði sér að gera þrátt fyrir stórar yfirlýsingar örskömmu fyrir kosningar.
    Hv. 2. þm. Vestf. hélt sig mest við hvönnina og reyndar Persakeisara, sem ég hafði aðeins fjallað um. Ég verð að segja það eins og er að ég get ekki ímyndað mér neinn sem mundi vera líklegri til þess að segja spakleg ummæli á örlagastundu eins og þeirri, hangandi í hvönn fyrir þverhníptu bjargi heldur en einmitt hv. þm.
    En varðandi Persakeisara, sem ég hafði nefnt sérstaklega í minni ræðu, þá lét ég þess líka getið að sumir talsmenn fyrrv. ríkisstjórnar hafi borið sig líkt að og Persakeisari við stjórnun vaxta- og peningamála. Það er fróðlegt í þessu sambandi að hafa í huga að hv. þm. sagði að hermennirnir hefðu forðum verið látnir berja sjóinn með svipu því ella hefðu þeir farið að berja hvern annan. Vel má vera að þetta hafi verið hugsunin hjá hæstv. þáv. forsrh. að haga sér eins í vaxta- og peningamálum til þess að stuðningsmenn stjórnarinnar færu nú ekki að berja hvern annan. En ég man reyndar ekki betur en þetta hafi ekki dugað vegna þess að þeir hafi einmitt varðandi vaxtamálin, hér í þinghúsinu, tekið upp á því að berja hvern annan.