Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég er þess albúinn ef svo fer að ég næ ekki að ljúka máli mínu fyrir hálfsex að gera þá hlé á því. Ég er því ekkert óvanur að þurfa að skipta mér á nokkra fundi og reyni þá að koma því haganlega fyrir í textanum.
    Ég ætlaði að ræða fyrst nokkur atriði í stefnuræðu hæstv. forsrh. sem ég hef skilið svo, þrátt fyrir allt, að sé nú aðaldagskrárefni þessa fundar. Væri þá auðvitað til mikilla bóta að hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur, en væntanlega er hann ekki langt undan. Ég ætla þá að fara í textann og fletta þar upp sem hæstv. forsrh. er að hefja mál sitt og byrjar á því að leggja út af þeirri athyglisverðu kenningu, eins og það sé rétt svo gott sem sannað, að tveggja flokka ríkisstjórnir séu mun betri stjórnir en þegar fleiri flokkar koma að málum.
    Ég held það væri ástæða til þess að hafa það í huga þegar þessari merku kenningu er nú enn einu sinni gert svo hátt undir höfði að hæstv. forsrh. hefur stefnuræðu sína, hina fyrstu, og kannski einu, maður veit það ekki, á því að það sé stóri punkturinn við myndun þessarar ríkisstjórnar að hún sé bara tveggja flokka. (Gripið fram í.) Það er aldrei að vita nema þetta eigi líka við víðar í sveitarstjórnum. En alla vega er það nú dálítið spaugilegt í ljósi reynslunnar undanfarin ár, þess að stjórn fjögurra eða fimm flokka sat út kjörtímabil og tókst að starfa með ágætum árangri og í ljósi þess að þriggja flokka ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. hrökklaðist frá. Það mætti alveg eins ímynda sér að þetta sneri alveg öfugt og stjórnir væru þeim mun verri og veikari sem færri væru í þeim flokkarnir. Alla vega verður þessi fullyrðing og þessi gamla kenning ekki studd í ljósi þróunar í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár. Svo mikið er víst.
    Í öðru lagi kemur önnur gömul kenning sem oft hefur heyrst og ég ætla að leyfa mér að ræða lítillega. Það er þetta um viðreisnina og gloríuna um viðreisn. Hér er því haldið fram, eins og ekkert þurfi að rökstyðja það nánar, sagt í tveimur línum, með leyfi forseta, á bls. 2 í stefnuræðu hæstv. forsrh.: ,,Afar góð reynsla var af samstarfi þessara tveggja flokka á árunum 1959 til 1971.`` --- Alþfl. og Sjálfstfl. Afar góð reynsla var af samstarfi þessara flokka á þessum tíma. Punktur. Ekki frekari rökstuðningur fyrir því. Var þetta nú svona afar gott, eins og hæstv. forsrh. heldur fram? ( Gripið fram í: Sérstaklega fylgi Alþfl. Það var mjög gott.) Já, það var eiginlega það eina, held ég, sem ég man eftir í svipinn, að þróaðist með réttum hætti á þessum árum. Það var fylgi Alþfl. Hann var við það að deyja í höndunum á þeim eins og einn af forustumönnum Sjálfstfl. orðaði það. ,,Ætlar þetta nú að drepast í höndunum á okkur``, var haft eftir einum af forustumönnum Sjálfstfl. á þessum tíma eða undir lok viðreisnar og höfðu þeir þá orðið áhyggjur af því að Alþfl. gufaði þarna upp, mundi bíða aldurtila í höndunum á þeim.
    Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að viðreisnarstjórnin svokölluð hafi verið einhver versta ríkisstjórn ef ekki versta ríkisstjórn sem Ísland hefur haft. Það vill nú þannig til að ræðumaður var að alast upp á þessum árum, eins og fleiri að taka út þroska sinn, og ég þekkti vel til aðstæðna í landsbyggðarhéraði á þessum árum. Mér er ákaflega minnisstætt það landlæga og árlega atvinnuleysi sem öllu öðru fremur einkenndi lífskjör og aðstæður í íslenskum byggðarlögum við sjávarsíðuna á þessum árum. Þannig háttaði til í Norður-Þingeyjarsýslu á þessum árum að þar þurftu svo til allir menn sem ætluðu sér að tryggja sér störf að ferðast um langan veg til vertíðar eða annarrar starfsemi, jafnvel í öðrum landshlutum, eða sitja heima við árlegt og reglubundið atvinnuleysi kannski meiri hluta vetrar. Það er auðvitað ekki að því að spyrja að þetta setti mikið mark á allt andrúmsloft byggðarlaganna á þessum tíma.
    Þessari ríkisstjórn, þessari frægu viðreisn sem hæstv. forsrh. var að hæla í ræðu sinni, tókst að sólunda einhverju mesta góðæri til sjávar sem komið hefur í sögu Íslands þegar norsk-íslenska síldarstofninum var mokað upp og honum gjöreytt á nokkrum árum. Og hvernig var ástandið í lokin? Það var skilið þannig við íslenskan sjávarútveg að flotinn var gjörsamlega ónothæfur. Það var skilið þannig við íslenskan fiskiðnað að það varð að byggja hann upp nánast frá grunni þegar ný stjórn tók við. Meiri hörmungarstjórn hefur í raun og veru ekki verið á Íslandi ef litið er til þess að eitthvað hafi verið gert til þess að undirbyggja framfarasókn, uppbyggingu og aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu.
    Þetta eru nú ósköp einfaldlega staðreyndir málsins. Það er auðvelt að fletta upp tölum um það hvernig íslenski fiskiskipastóllinn var samansettur árið 1970. Það er auðvelt að fara yfir það hvernig fiskvinnslustöðvarnar hringinn í kringum landið voru á sig komnar.
    Ég hygg að allir sanngjarnir menn verði að viðurkenna að það hefur orðið mikil breyting á til hins betra frá því að það tókst að koma þessari hörmungarviðreisnarstjórn frá. Og það er nú svo þrátt fyrir allt að viðreisn er skammaryrði í hugum fólks sem man þessa tíma, alveg sérstaklega út um landsbyggðina. Alveg sérstaklega út um landsbyggðina er viðreisn skammaryrði. Þess vegna er það neyðarlegt af hæstv. forsrh. og ber auðvitað vitni um það sem oft hefur verið að koma fram undanfarna daga að hæstv. forsrh. er ekki nógu vel að sér um hlutina. Hann hefur lifað í hinum verndaða heimi borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, á vernduðum vinnustað eins og einhverjir hafa orðað það, og veit næsta lítið um það hvernig hlutirnir liggja í andrúmslofti og hugum almennings annars staðar í landinu en utan veggja hins verndaða vinnustaðar.
    Í öllu falli skulu því mín eftirmæli um þessa viðreisnarstjórn vera þau að hún hafi verið einhver mesta hörmungarstjórn sem við Íslendingar höfum búið við áratugum saman og í raun og veru á ég í erfiðleikum með að finna þar nokkurn samjöfnuð nema ef vera skyldi sú ríkisstjórn sem sat á Íslandi í 14 -- 16 mánuði 1987 og fram á haustdaga 1988. Eymd þeirrar stjórnar var þó af öðrum toga en viðreisnarinnar. Fyrst

og fremst var þar á ferðinni stjórn sem ekki náði saman um nokkurn skapaðan hlut og hrökklaðist að lokum frá af þeim sökum.
    Í þriðja lagi er hér í stefnuræðu hæstv. forsrh. --- hvernig er það, hæstv. forseti, er forsrh. genginn algerlega úr umræðunni? ( Forseti: Samkvæmt töflu í borði forseta, þá er hæstv. forsrh. í húsinu. Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að gera honum viðvart svo að það verður að vænta þess að hann komi fljótlega í salinn.) Já, ég geri enga athugasemd við það að sjálfsögðu þó að hæstv. forsrh. bregði sér frá augnablik. Það getur hent alla menn að þurfa þess á löngum fundum, en það er náttúrlega óæskilegt að hann sé fjarstaddur langtímum saman.
    Þá vildi ég aðeins koma að kafla í ræðu hæstv. forsrh. þar sem mikið er gert úr því að viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar hafi verið slæmur. Það er dálítið merkilegt að hér koma stjórnarsinnar hver á fætur öðrum í ræðustólinn og reyna að hamra á þetta járn. Að það sé aðalvandinn að viðskilnaður fyrrv. ríkisstjórnar hafi verið svo vondur og eru þar með um leið, sérstaklega sjálfstæðismenn, að níða niður Alþfl. ekki síður en aðra flokka sem áttu sæti í þessari stjórn. Það er talað um slaka í hagstjórn og fleiri slíka hluti sem séu mjög alvarlegs eðlis og menn hleypa í brýrnar og verða mjög ábúðarmiklir þegar þeir ræða um þennan viðskilnað fráfarandi ríkisstjórnar.
    Hvernig ætli það standi ef aðeins er farið yfir það og skoðaður viðskilnaður ríkisstjórna við nokkur síðustu stjórnarskipti? Hvaða einkunn halda menn þá að sú ríkisstjórn sem fór frá á sl. vori fái í þeim samanburði? ( Fjmrh.: Mjög slæmur.) Hæstv. fjmrh. kallar hér fram í og segir: Mjög slæmur. Það er best að ræða það aðeins við hæstv. fjmrh.
    Hvað heldur hæstv. fjmrh. um ríkisstjórnina sem fór frá haustið 1988? Dettur honum í hug eitt augnablik annað en að viðurkenna að viðskilnaður síðustu ríkisstjórnar, þeirrar sem lét af völdum 30. apríl sl., var mikið, mikið betri á allan hátt. Og ég vil leyfa mér að segja að það sé borðleggjandi að við þrenn eða fern síðustu stjórnarskipti á undan þessum hafi viðskilnaður ríkisstjórnar verið mun lakari, mun verri. Það er enginn efi um það í mínum huga að stjórnirnar sem fóru frá 1988, 1987 og 1983, það skal ég segja þó að Alþb. hafi átt aðild að þeirri stjórn, voru í öllum tilvikum mun lakari en þessi sem hér er verið að ræða. Og það er dálítið merkilegt að hæstv. ráðherrar og hv. talsmenn stjórnarliðsins vorkenna sjálfum sér og mikla það mjög fyrir sér hversu bágt þeir eigi nú að þurfa að taka við stjórnartaumunum og það sé svo erfitt verkefni sem er fram undan.
    En hvað er það sem er fram undan? Það eru ósköp einfaldlega venjuleg hagstjórnaratriði sem taka þarf á. Og það liggur alveg á borðinu að engin ríkisstjórn um langan tíma hefur í raun og veru tekið við jafngóðu búi, jafnlágri verðbólgu og tiltölulega jafnmiklum stöðugleika almennt séð í þjóðarbúskapnum. Það er alveg sama hversu oft hæstv. núv. fjmrh. hristir höfuðið. Hann getur ekki borið á móti þeim staðreyndum sem liggja fyrir um það að ástand í okkar efnahagsmálum, ástand í atvinnulífinu hvað verðlag og þróun þess snertir er á allan hátt mikið betra en verið hefur um stjórnarskipti um langt árabil.
    Það sem helst er rætt um er staðan á fjármálamarkaðnum, ákveðin þenslumerki sem engum þarf að koma á óvart að láti á sér kræla og fyrri ríkisstjórn reyndar oft búin að ræða á fundum sínum að þyrfti að fylgjast með. M.a. þess vegna ákvað fyrrv. ríkisstjórn að láta hefja inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð og taka á tiltölulega skömmum tíma upp háar inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð, allt að 5 og upp í 5,5%, til þess að bati í viðskiptakjörum sjávarútvegsins færi ekki allur út í efnahagslífið. Þannig var þegar búið að grípa til ýmissa ráðstafana vegna þess að menn bjuggust við að fyrr eða síðar hlytu þenslumerki að láta á sér kræla vegna batnandi efnahagsástands og batnandi viðskiptakjara. Og ég segi: Þetta eru ekki annað en ósköp venjuleg og dagleg verkefni ríkisstjórna sem þurfa að sjálfsögðu að grípa til stjórnunaraðgerða af þessu tagi jafnan þegar slíkir hlutir láta á sér kræla. Þetta er hvorki merkilegra né meira en bara dagsdaglega á að vera á borðum ríkisstjórnar.
    Það er algerlega ástæðulaust af hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að vera að vorkenna sér svona út af því. Eða bjuggust þeir við því að fá stjórn landsins í þannig ástandi í sínar hendur að þeir þyrftu ekkert að gera í fjögur ár? Ætluðust þeir til þess að þetta væri svo fullkomið ástand að þeir gætu setið með hendurnar undir rassinum í heil fjögur ár og þyrftu ekkert að stjórna, ha hæstv. fjmrh., ef þú vildir hlusta á augnablik? ( Fjmrh.: Ég heyri, hlusta og mun svara.) Þannig er sem sagt, hæstv. fjmrh., sem grét á síðum Morgunblaðsins í miklu viðtali þar fyrir nokkrum dögum, að þú þarft ekkert að vorkenna sjálfum þér. Þitt hlutskipti er ekki annað en það sem allir ráðherrar fá, að taka á málum þegar þau koma upp og reyna að gera það með skynsamlegum hætti. Það er alveg ástæðulaust og mun ekkert hjálpa þér í erfiðu starfi að gráta svona, hvort sem þú gerir það á síðum Morgunblaðsins eða einhverjum öðrum öxlum. Það er nú það. Svona sjálfsmeðaumkun og vorkunn er bara leiðinleg, satt best að segja.
    Læt ég þá lokið að ræða um þennan viðskilnað sem, hvað sem talsmenn stjórnarinnar reyna hér að gera, mun alveg óumdeilanlega hljóta þann dóm sögunnar að hafa verið mikið betri að flestu leyti en aðrar ríkisstjórnir hafa fengið til að taka við. Það mun ekki takast að hrekja þá staðreynd. ( Forseti: Nú heyrist forseta hv. þm. vera kominn að þáttaskilum í sinni ræðu og nú er klukkan hálfsex svo að það er þá kannski rétti tíminn til að fresta þessari ræðu ef hv. þm. er tilbúinn til þess og þar sem fresta þarf þessum fundi núna.) Sérstaklega í von um það að hæstv. forsrh. verði þá við þegar ég held áfram máli mínu. ( Forseti: Hæstv. forsrh. hefur verið hér við en vegna mistaka um boð til hans áðan kom hann ekki strax í salinn en hann kom um leið og hann fékk boðin. Forseti vill taka það fram.) --- [Fundarhlé.]
    Ég hafði drepið á nokkur atriði, ein þrjú tölusett atriði sem ég taldi svo upp í ræðu hæstv. forsrh. og

ætla að ljúka minni yfirferð yfir þá merku ræðu sem að sjálfsögðu eðli málsins samkvæmt á öðru fremur að vera hér grundvöllur umræðnanna þar sem þetta heitir nú einu sinni umræða um stefnuræðu forsrh. Ég ætlaði að koma næst að atriðum sem vikið er að á bls. 12 í því handriti sem ég fékk sent og ég geri ráð fyrir að hafi verið flutt óbreytt af hæstv. forsrh.
    Þar er vikið að þeim aðgerðum eða þeirri meginstefnu í fjármálum hins opinbera sem að sögn hæstv. forsrh. er skýr og kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þrennt er þar nefnt, að það verði að brúa bil milli útgjalda og tekna með lækkun útgjalda og frestun framkvæmda, í annan stað með sölu fyrirtækja ríkisins og einkavæðingu og í þriðja lagi með því að taka í auknum mæli gjald fyrir þjónustu sem fyrirtæki og stofnanir á vegum hins opinbera veita.
    Um hið fyrsta er ekki margt að segja. Það liggja þegar fyrir einhver áform hæstv. ríkisstjórnar um að draga úr framkvæmdum og lækka útgjöld og það er ekki eins og það hafi aldrei verið gert áður eða reynt áður og er ekki mikið meira um það að segja. Þótt að sjálfsögðu sé þar ýmislegt sem sársaukafullt er fyrir menn að taka á, þá ætla ég síst að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir að reyna að ná einhverjum árangri á því sviði. Það hafa flestar aðrar ríkisstjórnir reynt og ekkert nema gott eitt um það að segja svo fremi sem þar sé farið fram af skynsemi.
    Um það sem í annan stað er talið, þá er það nú svo að ég sé ekkert athugavert við það þó að það sé skoðað í einstökum tilvikum að selja eitthvað af fyrirtækjum sem ríkið á ef breyttar aðstæður gera það að verkum að slíkt sé eðlilegt. Það hafa flestar ríkisstjórnir á undanförnum árum eða áratugum jafnvel gert í einhverjum mæli, meiri eða minni. Sú ríkisstjórn sem síðast sat á undan þessari gerði nokkuð af því og þá var jafnvel reynt að fá sæmilegt verð fyrir fyrirtækin, ekki bara að gefa þau. Stundum hefur manni virst að það væri meira af hugsjónaástæðum gert að reyna að koma fyrirtækjunum með einhverjum hætti frá ríkinu bara þó svo að það þyrfti jafnvel að gefa þau, hvort sem það væru nú bankar eða eitthvað annað. En svo fremi sem það séu þá einhver skynsamleg viðskipti og ríkið fái eðlilegt verð fyrir þær eignir sem almenningur á í slíkum fyrirtækjum og svo fremi sem ekkert mæli gegn því af öðrum ástæðum að viðkomandi starfsemi færist á hendur einkaaðila, þá hef ég ekkert nema gott um viðleitni af því tagi að segja.
    En í þriðja lagi um einkavæðinguna eða öllu heldur í öðru lagi um einkavæðinguna eins og síðan er vikið að í ræðu forsrh., þá hlýtur maður að spyrja: Við hvaða mörk skal þessi einkavæðing dregin og ef hæstv. forsrh. vildi nú nótera hjá sér, þá hefði ég nú haft áhuga á því að heyra ef hæstv. ríkisstjórn er þegar komin með skýra stefnu í þeim efnum: Hvar liggja mörkin sem hæstv. ríkisstjórn vonandi hefur dregið sér gagnvart því hvað skuli einkavæða og hvað ekki? Því að þar vil ég gera mjög skýran greinarmun á, annars vegar ýmsum rekstri, t.d. framleiðslustarfsemi eða þjónustu af því tagi að hún sé þegar fyrir í viðamiklum mæli í höndum einkaaðila og einkavæðingu sem lýtur að því að færa kannski það sem eftir er af ríkisumsvifum eða opinberum umsvifum á slíkum sviðum yfir í hendur einkaaðila og hins vegar ef til stendur að hefja einkavæðingu í velferðarþjónustunni. Ég geri skýran greinarmun á því hvort ríkið er að standa í framleiðslustarfsemi eða við gætum hugsað okkur að reka bjórkrá eða eitthvað af því tagi eða hvort ríkið er að sjá um undirstöðuþætti velferðarþjónustunnar og hvort til stendur að hefja einkavæðingu inn á það svið. Það væri nú fróðlegt fyrir okkur, jafnvel fleiri en ræðumann og fyrirspyrjanda, að heyra hvað hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið í þessum efnum, ef eitthvað, eða hvort hugsanlega hafi verið samið eitthvað um þetta úti í Viðey eins og fleira, og þá hvað. Ég þarf svo sem ekkert að boða það, en það má alveg fljóta með, að ef það á að lesa á milli línanna að jafnvel eigi nú að láta drauma um einkaskóla og einkarekstur í heilbrigðisgeiranum rætast í þessari ríkisstjórn, þá verður það ekki gert nema í mikilli andstöðu við mig a.m.k.
    Þá er enn fremur í úrræðum hæstv. forsrh. gamalkunnugur skolli á ferðinni þar sem talað er um að í auknum mæli skuli taka gjald fyrir þjónustu sem fyrirtæki og stofnanir á vegum hins opinbera veita. Þetta er náskyldur hlutur og spurningin er aftur sú sama: Hvar ætlar þá hæstv. ríkisstjórn að draga mörkin í þessum efnum? Á þetta jafnvel að ganga yfir heilbrigðiskerfið, skólakerfið almennt eða í einhverjum einstökum tilvikum? Þarna verður líka að mínu mati að gera einhvern talsverðan greinarmun á þeirri starfsemi sem hið opinbera hefur með höndum eða kemur nálægt eftir því hvers eðlis hún er og hversu viðkvæm sú þjónusta er. Og það er stutt leiðin á milli þess að hefja slíka gjaldtöku þótt hún geti í fyrstu umferð virst býsna sakleysisleg og yfir í hitt að slík gjaldtaka fari að mismuna þegnum þjóðfélagsins með tilliti til efnahags þannig að slík þjónusta verði forréttindi þeirra sem betur mega sín. Ef hæstv. forsrh. hefði eitthvað að segja okkur aðeins ítarlegar um þessi efni hvað ríkisstjórnin hefur hugsað sér í þessum málum.
    Í sjötta lagi vil ég þá nefna vaxtamál sem nokkuð er komið inn á í þessari ræðu og verða nú e.t.v. hugsanlega rædd eitthvað meira hér í umræðum um skýrslu hæstv. fjmrh. Ég veit ekki í raun og veru hvar skal til taka þegar vaxtamálin ber á góma. Það er alveg ljóst að ég hef verið í hópi þeirra sem vilja gjalda mikinn varhug við óhóflegum vaxtahækkunum og mjög háu vaxtastigi. Ég óskaði eftir því við Þjóðhagsstofnun í morgun að hún taki saman fyrir mig upplýsingar um skuldsetningu helstu greina atvinnulífsins og ákveðna sundurgreiningu á slíkum upplýsingum sökum þess að ég held að það sé óhjákvæmilegt ef menn vilja reyna að skoða það eitthvað af skynsemi hvaða áhrif til að mynda þær raunvaxtahækkanir sem nú þegar blasa við og eru að hluta orðnar fyrir atbeina ríkisins, ríkisstjórnarinnar, hvaða áhrif þær hafi í þjóðfélaginu, þá verði menn aðeins að glöggva sig á skuldsetningu þeirra aðila í þjóðfélaginu sem greiða vextina. Því

miður virðist það vera svo að menn gleymi æðioft að á vaxtadæminu eru tvær hliðar, debet og kredit í raun og veru. Menn horfa á þetta öðrum megin frá, að það sé eftirsókn í lánsfé og það sé jafnvægisleysi að því leyti og segja: Við verðum að kippa þessu í lag með því að hækka vextina. En menn mega þá ekki gleyma því að það gerist ýmislegt fleira heldur en kannski hugsanlega þetta að hækkandi vextir dragi úr eftirspurn eftir lánsfé og auki jafnvel eitthvað sparnað. Það er jú kennisetningin að svoleiðis eigi þetta nú að vera, en það gerist bara ýmislegt fleira sem líka hefur áhrif og líka eru efnahagsmál í sjálfu sér. Það þurfa einhverjir um leið að borga hækkandi vexti og það eru ekki endilega aðilar sem geta bara dregið það við sig að taka lán, bara pakkað saman og hætt því af því að vextirnir hafi hækkað. Það er nefnilega ekki þannig.
    Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. ríkisstjórn eða efnahagssérfræðinga hennar að skoða tímabilið 1985 -- 1988 og reyna að rýna svolítið í það. Hvað var það sem gerðist á þessum árum? Því að vonandi eru menn ekki búnir að gleyma því að einmitt á þessum tíma fóru vextirnir í þær hæðir sem þeir hafa hvorki fyrr né síðar komist í. Þá vantaði ekki aldeilis að það væru nógu háir raunvextir. En sló það á þensluna? Læknaði það öll mein efnahagsmálanna á árunum 1985 -- 1988, það háa raunvaxtastig sem þá var innleitt? Ekki aldeilis. Þvert á móti hefur ástandið aldrei verið verra en einmitt í lok hávaxtaskeiðsins og þenslan í raun og veru aldrei meiri heldur en undir lok þess skeiðs. Segir þetta okkur ekki einhverja sögu? Er ekki ástæða til þess að setja spurningarmerki við það að þessi fínu lögmál verki eins, þessir hlutir taki eins við sér hér uppi á Íslandi eins og þeir eiga að gera í fræðibókunum þeirra frjálshyggjumanna?
    Það er nefnilega staðreynd, eða hefur a.m.k. verið hingað til nema eitthvað mikið sé þá að breytast, að hinn sérhæfði og litli og þröngi íslenski peningamarkaður lýtur bara ekkert þessum fínu lögmálum. Það er ekki hægt að stilla hann svona upp eða niður. Þensla á Íslandi verður ekki slegin niður í einu vetfangi með einhverjum vaxtaákvörðunum. Það er löng reynsla fyrir því. Menn gætu sagt sem svo að þeir vildu að það væri svo, að hér væri svo fullkominn markaður að hann hegðaði sér 100% eins og kennslubækurnar segja að hann eigi að gera úti í hinum stóra heimi. En það er bara löng reynsla fyrir því að hann gerir það ekki á Íslandi.
    Það þarf að hyggja að ýmsu fleiru í hagstjórn og efnahagsmálum hér ef á að ná að halda jafnvægi heldur en þessum vaxtaþætti einum. Þess vegna finnst mér í stefnuræðu forsrh. og því sem enn hefur komið fram af ráðstöfunum eða áformum hæstv. ríkisstjórnar í raun og veru fjallað með furðu einfeldningslegum hætti um þessi atriði sem lúta að þenslunni og vaxtastiginu. Það er næstum að segja einhver barnsleg trú sem þar skín í gegn að það sé hægt að lækna þetta bara svona með einni vaxtahækkun og þá verði allt komið í samt lag, allt komið í jafnvægi og allir ánægðir og sælir eftir það. Það er nú ekki svo og út

af fyrir sig væri fróðlegt, hæstv. forseti, að ræða dálítið rækilegar um þetta vaxtadæmi því að það er svo margt sem þar kemur inn í. En ef hæstv. félmrh. skyldi eiga leið hingað í þinghúsið á meðan ég er hér í ræðustóli, þá hafði ég hugsað mér að bæta lítillega við og víkja orðum að húsnæðismálum og vaxtaákvörðunum þar og ljúka þá kannski umfjöllun um vexti. Ef hins vegar hæstv. félmrh. er vant við látinn, þá gæti ég hugsað mér að skjóta þeim spurningum til hæstv. forsrh. því að ég þykist vita að það tali allir fyrir einn og einn fyrir alla í hæstv. ríkisstjórn í Viðeyjarstíl og það komi þá út á eitt þó að ég beini máli mínu þangað.
    En þá aðeins í sjöunda lagi um evrópska myntkerfið sem vikið er að bæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem og í stefnuræðunni að ríkisstjórnin hafi áhuga á að láta athuga hvort stuðla megi að auknum stöðugleika í efnahagslífinu með tengingu íslensku krónunnar við evrópska myntkerfið, eins og segir hér í þessu kveri sem maður er á góðri leið með að læra utan að, enda er það ekki langt. Og svo er vikið að þessu hér líka í ræðunni. Ég held að úr því að menn eru á annað borð farnir að velta vöngum yfir þessu og ætla að fara að setja skoðun í gang, þá sé mikilvægt að taka þetta til umræðu því að maður verður að ætla að hér séu menn að tala í alvöru, ekki bara að slá þessu svona fram í gríni þó menn séu gamansamir í hæstv. ríkisstjórn eins og kunnugt er. Ég vildi þá gjarnan, ef athugun verður sett í gang á þessum hlutum í annað borð, að það yrði skoðað fleira en bara evrópska myntkerfið og ég spyr: Þó svo að Evrópa sé mikilvægur markaður okkar Íslendinga, hvers vegna er ekki horft til þess að við eigum víða mikilvæga markaði sem lúta öðrum gjaldmiðlum? Þannig er það til að mynda þegar gengi krónunnar í dag er skoðað að þá er tekin þar ákveðin karfa sem tekur mið af helstu viðskiptasvæðum okkar og myntum á þeim. Ég held að það séu margar hættur því samfara, þessari hugsun að það sé hægt að leysa efnahagsvandamálin uppi á Íslandi m.a. með því að binda bara gengi krónunnar fast við einhverjar brautir úti í Evrópu. Þar með fái menn þennan stöðugleika sem menn hafi svo lengi verið að þrá. Og ég held, eins og reyndar hefur komið fram í þessari umræðu, ég sé það í ræðum sem ég hef lesið úr umræðunni, að fyrir það fyrsta væru menn þarna að afsala sér í raun og veru einu viðamesta hagstjórnartækinu sem menn hafa haft í höndum, hvað sem um það má nú segja og beitingu þess, þ.e. að geta lagað gengi krónunnar að breyttum aðstæðum. Í öðru lagi held ég að það væri ákaflega óskynsamlegt að gefa sér það að hagsveiflur á Íslandi við okkar sérstöku aðstæður, okkar sérhæfðu framleiðslu hér til útflutnings væru samfara eða færu það vel í takt við það sem gerist á meginlandi Evrópu hjá iðnríkjunum þar að það væri skynsamlegt að binda þetta tvennt alltaf saman.
    Við skulum nú segja að einhverjar þær framleiðsluvörur iðnríkjanna í Evrópu sem eru mikilvægar í þeirra útflutningi eða efnahagsmálum, stál eða kol eða hver fjandinn sem það nú kann að vera, bílar t.d.,

hrynji í verði. Er þá ástæða til að breyta gengi íslensku krónunnar vegna þess að Evrópugjaldmiðlar veikist af einhverjum slíkum ástæðum gagnvart öðrum? Eða öfugt, ef það gerist nú á sama tíma að afli vex á Íslandsmiðum og fiskur hækkar í verði. Ég held að menn verði að muna eftir því rétt eins og þegar menn eru að ræða við Evrópubandalagið um sérhagsmuni Íslands að þessir sérhagsmunir koma víðar fram heldur en bara í því að við þurfum að koma fiskinum á markað. Þeir þýða auðvitað líka að hagsveifla hér er allt önnur heldur en í okkar nágrannaríkjum vegna okkar sérhæfðu framleiðslustarfsemi og okkar sérhæfða efnahagslífs og útflutnings.
    Við megum ekki gleyma heldur mörkuðum okkar vestan hafs og í Asíu sem að sjálfsögðu tengjast ekki Evrópugjaldmiðlum eða sveiflum þar og ég held að það sé ákaflega varhugavert að gefa sér það að það sé endilega einhlít og skynsamleg ráðstöfun að tengja þetta svona við Evrópumyntina. Vonandi lítur hæstv. ríkisstjórn ekki á þetta í þröngu ljósi heldur þá víðu ef hún er að skoða á annað borð með hvaða hætti væri hægt að tengja eða miða gengi krónunnar við erlenda gjaldmiðla.
    Hæstv. forseti. Það hefði verið ástæða til þess mönnum til skemmtunar að lesa upp úr ræðu hæstv. forsrh. á bls. 15 og 16 þar sem fjallað er um sjávarútvegsmál. Satt best að segja setti endurtekið að mér hlátur þegar ég las þann kafla, frá greinaskilum ofarlega á bls. 15 og langleiðina niður bls. 16 og einhver hefði nú af prakkaraskap beðið hæstv. forsrh. um að þýða kaflann, hvað þetta eigi að þýða sem er nú sagt því að ég bókstaflega fæ ekki nokkurn skapaðan hlut út úr því og las ég þó þetta vandlega og af velvilja og með jákvæðu hugarfari eins og hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson sagðist hafa lesið annan texta hérna í ræðu fyrr í dag.
Það er þó ekki hægt annað en að segja að umfjöllun hæstv. ríkisstjórnar um sjávarútvegsmálin er satt best að segja brjóstumkennanleg. En upp úr stendur þó að það á að skipa nefnd og svo var upplýst í svari hér í dag að hún á að vera sjö manna nefnd. Í henni eiga að vera þrír frá hvorum flokki og oddamaður sem ýmist alþýðuflokksmenn telja sig einir eiga að ráða eða samráð skuli verða um hver sé. Þetta hefur þó komið fram þegar um stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum og má segja að það sé nokkuð miðað við svona ýmislegt annað.
    En besti kafli ræðunnar er tvímælalaust á bls. 16. Málsgreinin á miðri síðu er fjórar línur og ég ætla að leyfa mér að lesa hana. Þessi setning er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Fjórða meginverkefni stjórnarinnar verður að framkvæma þá stefnu í landbúnaðarmálum sem mörkuð hefur verið af stjórnvöldum og bændum í sameiningu hin síðari ár.``
    Þetta er fínn kafli, góður ,,passus``. Tvímælalaust það besta í ræðunni. (Gripið fram í.) Ja, það geta ýmsir tekið þetta til sín, en svo lengi sem hæstv. ríkisstjórn segir ekki og gerir ekki annað en þetta í landbúnaðarmálunum, þá er það í ágætis lagi.

    Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort ég sjái ástæðu til að koma víðar við í þessari ræðu nema þá að fara að tala í bundnu máli því að talsvert af því sem eftir er er nú kveðskapur eftir ýmsa menn. En ég ætla þá lítillega að ræða húsnæðismálin og hér er hæstv. félmrh. kominn og kemur þá aftur að umræðum um vexti og vaxtamál. Það verður að segja eins og er að því miður hlýt ég að álykta sem svo að hæstv. félmrh. hafi í þessari ríkisstjórn þegar beðið sinn fyrsta ósigur því að ég trúi því tæplega nema fá að heyra það af munni hæstv. félmrh. að með glöðu geði hafi sú ákvörðun af hennar hálfu verið tekin um vexti sem nýlega hefur verið tilkynnt. Þar á ég að sjálfsögðu við þá ákvörðun að breyta vöxtum á eldri lánum, húsnæðislánum allt aftur til ársins 1984. Ég hlýt að harma þá ráðstöfun, ég tel hana óskynsamlega og í raun og veru ómaklega gagnvart þessu fólki, þolendum þessa máls og ætla að fara um það nokkrum orðum hvers vegna ég tel að svo sé.
    Það er alveg ljóst að sá hópur sem fyrir þessari breytingu verður, íbúðabyggjendur eða kaupendur frá níunda áratugnum, er búinn að ganga í gegnum ýmislegt. Hér eru á ferðinni m.a. þeir frægu misgengishópar sem fengu á sig og nýtekin lán sín á árunum eftir 1983 margillræmt misgengi lána og launa. Hér eru á ferðinni fyrstu kynslóðir í raun og veru þolendur verðtryggðra lána í mikilli verðbólgu sem auðvitað voru settir í allt aðra og mikið verri stöðu en næstu kynslóðir á undan sem höfðu getað ráðist í þessa stærstu fjárfestingu hverrar venjulegrar fjölskyldu á niðurgreiddum kjörum. Og þetta eru hópar sem sumir hverjir þurftu, vegna ýmiss konar breytinga og óáranar sem gekk yfir í húsnæðismálum þjóðarinnar, að bíða eftir lánum sínum, þurftu að þola kerfisbreytingar og þurftu að ganga í gegnum ýmsar hremmingar sem of langt mál yrði upp að telja.
    Og enn er nú hróflað við forsendum þessa fólks og það afturvirkt. Þess vegna er það nú sem ég harma það af því að ég trúi ekki öðru en þetta hafi verið nauðug gjörð af hálfu hæstv. félmrh. Í ræðu félmrh. er að vísu talað um að hér séu ekki mjög stórar upphæðir á ferðinni, nefnd dæmi um fólk sem tók lán á árunum 1984 -- 1986 og svo aftur hópinn eftir það að kerfið breyttist og talað um 11 þús., 22 þús. eða 10 þús. kr. af svona meðalláni sem greiðslubyrðin þyngist. Þegar um meðallán er að ræða er auðvitað ljóst að þá verður stór hluti lántakendanna fyrir miklu meiri greiðslubyrði heldur en þarna er upp talið. Sjálfur hef ég á síðustu dögum reiknað ein tvö dæmi sem ég þekki til þar sem greiðslubyrðin þyngist um 30 -- 40 þús. á ári. En þar með er bara ekki öll sagan sögð og reyndar vil ég fyrst undirstrika að það eru ekki endilega upphæðirnar í þessu máli sem skipta sköpum að mínu mati um eðli verknaðarins. Það er grundvallaratriði sem hér er til umræðu. Hvort síðan greiðslubyrðin þyngist um 22 þús. eða 44 þús. eða jafnvel 88 þús., það breytir ekki eðli verknaðarins. Það sem gert er, og því miður ekki í fyrsta sinn gagnvart hluta af þessu fólki, er að þeim forsendum, sem það gekk út frá þegar það tók sínar ákvarðanir um tiltekna fjárfestingu, er raskað og það er það sem er slæmt í þessu máli, fyrirvaralaust, án nokkurs aðdraganda.
    Ég held að miklu skárri leið hefði verið sú sem rædd var t.d. í ráðherranefnd um húsnæðismál á sl. vetri, að gefa þá a.m.k. einhverja aðlögun að slíkri breytingu. Ég var sjálfur tilbúinn til þess að ræða málamiðlun af því tagi að vextir breyttust á lánum við eigendaskipti á íbúðum. Hvers vegna? Fyrst og fremst vegna þess að það breytir því grundvallareðli þessa máls að þá vita menn fyrir fram að hverju þeir ganga. Áður en þeir ganga til tiltekinna íbúðakaupa vita þeir að vextirnir munu breytast og hækka á áhvílandi lánum og geta reiknað dæmið út frá þeim forsendum. Það er grundvallaratriði í þessu máli.
    Í öðru lagi hefði að mínu mati verið mun skárri aðferð en þetta að gefa tiltekinn aðlögunartíma frá stofndegi láns áður en vöxtunum var breytt, t.d. 10 ár eins og við ræddum í margnefndri ráðherranefnd sl. vetur. Þannig til að mynda að fyrstu lánin, lán tekin 1984, hefðu þá hækkað í vöxtum 1994 og síðan koll af kolli þangað til við værum búin að ná á tíu árum eða sex árum upp að nútímanum. Þetta hefði líka skipt máli vegna þess að yfirleitt er greiðslubyrði húsbyggjenda mest fyrstu árin, gjarnan fyrstu fjögur árin meðan eftirstöðvalán eru greidd upp og yfirleitt munar það miklu þegar fyrsti fjórðungurinn af 40 ára láni væri þannig greiddur upp. Með þessu móti hefðu á tiltölulega skömmum tíma náðst inn svipaðar tekjur fyrir byggingarsjóðina því að ár frá ári hefði þetta skilað byggingarsjóðunum vaxandi tekjum og minnkað vaxtamuninn. En eðli aðgerðarinnar væri allt annað og mun mannúðlegra að mínu mati og síður hægt að segja að þannig væri komið aftan að fólki.
    Ég held að það verði líka að hafa það í huga að þetta fólk, sem tekið hefur lán til íbúðakaupa eða bygginga síðan 1984, verður fyrir vaxtahækkunum með ýmsum öðrum hætti en þessum. Að sjálfsögðu er þetta fólk einnig mjög gjarnan með lífeyrissjóðslán frá þeim tíma sem þau voru aðalfjármögnunin til hliðar við hið opinbera húsnæðislánakerfi og með ýmis önnur skammtímalán af ýmsum toga sem taka þá núna á sig að fullu vaxtahækkanir sem hæstv. ríkisstjórn beitir sér fyrir. Þannig að því miður verður það ekki þannig, óttast ég, þegar upp verður staðið að þynging greiðslubyrðarinnar verði bara 10 þús., 11 þús. eða 22 þús. að meðaltali eins og hér er reiknað út. Ég óttast það að við eigum eftir að sjá þar miklu ljótari dæmi, bara reynslunni ríkari af því að glíma við þau vandamál sem upp hafa komið hjá húsbyggjendum á undanförnum árum.
    Ég held þess vegna að hæstv. ríkisstjórn hafi þarna því miður ekki tekið skynsamlega eða réttlætanlega ákvörðun og ég hlýt að þessu sinni að verða sammála höfundum Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins um það að það vanti algjörlega hinar siðferðislegu forsendur til að réttlæta þessa ákvörðun.
    Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins víkur líka að því að misgengið sem búið var til með óskynsamlegum stjórnarathöfnum á árunum 1983 -- 1984 og 1985 var í raun og veru siðleysi, hvernig þar var komið aftan að

fólki og hér er höggvið í sama knérunn, því miður, og hefði maður þó ætlað að þessi hópur, þessi kynslóð sem baksað hefur í því á þessum síðasta áratug að koma sér upp húsnæði væri búin að þola nóg. Það hélt ég að skuldbreytingaaðgerðir, greiðsluerfiðleikalán, jöfnun á greiðslubyrði og annað því um líkt, sem menn hafa verið að baksa við allan þennan áratug til þess að reyna að koma til móts við gífurlega erfiðleika fólks á þessu sviði, væri búið að kenna mönnum. En því miður virðist svo ekki vera.
    Það væri svo auðvitað fróðlegt, ef maður leyfði sér það að fara út í vangaveltur í framhaldi af þessu um kynslóðaskiptin á Íslandi, þau hin einu og sönnu kynslóðaskipti sem ekki eru mæld í árum heldur fyrst og fremst mæld í því hverjir komu til og réðust í þessa fjárfestingu fyrir tíma verðtryggingar, misgengis og vaxtasprengingar og hverjir ekki. Enn verður aukið á aðstöðumun kynslóðanna í landinu einmitt með þessum ráðstöfunum, með því að hækka vextina ofan á verðtryggð lán þannig að sá hópur sem ber skuldirnar í dag þurfi að greiða það enn dýrara verði en ávöxtun hinna sem eiga peningana --- og skyldi það nú ekki einmitt vera kynslóðin sem fékk sérstaka hjálp á verðbólgutímanum m.a. við að koma sér upp húsnæði --- hún verður aukin með þessum ráðstöfunum. Það er enginn vafi á því að ef draga á einhverja eina markalínu í gegnum landið þar sem verulega mikill aðstöðumunur er á ferðinni í þessum efnum, þá eru það þessi kynslóðaskipti sem ráðast af verðtryggingu fjármagns og háum vöxtum og ýmsum mislukkuðum stjórnarathöfnum á síðustu árum sem skapa þann aðstöðumun --- og ekki bætir þessi ráðstöfun úr skák.
    Ég veit ekki hvort hæstv. félmrh. á eftir að tala hér í umræðunni og ég veit svo sem ekki satt best að segja hvort ég á að leggja það á hana að biðja hana um að ræða þetta mál aðeins frekar eða reyna að rökstyðja það hvers vegna þessi niðurstaða varð fyrir valinu. Ég hefði þó haft áhuga á því að spyrja, hvort ekki hefði komið til tals í ríkisstjórninni að fara frekar þá leið að láta vaxtahækkanirnar koma inn á tilteknum tíma, við eigendaskipti á íbúðum eða eftir tiltekinn tíma frá stofndegi láns, þannig að ekki þyrfti að koma til þeirra afturvirku aðgerða sem hér er verið að kynna.
    Hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson kom hér inn í umræðuna í dag og þá var þetta farið að líkjast venjulegum eldhúsdegi fannst mér því að lítt hélt nú ræðumaður sig við dagskrárefnið, þ.e. stefnuræðu forsrh., en fór hér í talsverðar æfingar og gerðist dómari yfir málflutningi stjórnarandstöðunnar. Það var út af fyrir sig ágætt og ég hugsa að okkur gæti enst þessi umræða langt fram á sumar og jafnvel fram undir Jónsmessu ef allir stjórnarsinnar gengju jafnmyndarlega fram í henni og hv. 3. þm. Vestf. Einar Kr. Guðfinnsson. Hann fór meira að segja að lesa upp úr ræðu hæstv. fyrrv. forsrh. frá haustinu 1988 og taldi að hún hefði ekki verið mjög merkileg og satt best að segja hefði enn minni stefna komið fram í henni heldur en í stefnuræðu núv. hæstv. forsrh. og var það þá orðin réttlætingin af hálfu hv. þm. að það mætti finna

dæmi um enn lélegri ræður eða ég skildi hans málflutning þannig. En ég hygg að hv. þm., þó að hann hafi ekki verið hér á Alþingi þá haustdaga 1988, hljóti að muna það að þá var við talsvert aðrar aðstæður að glíma. Þá var ekki ríkisstjórn að koma saman að afloknum kosningum heldur var mynduð í skyndingu ríkisstjórn til að taka við því þrotabúi sem Sjálfstfl. skildi eftir sig og eðli málsins samkvæmt var sú skyndihjálp efnahagslífsins og atvinnulífsins, sem þá varð að grípa til, efst á baugi og aðalumfjöllunarefni jafnt í stefnuræðu forsrh. sem umræðum almennt á því hausti. Það skapaði að sjálfsögðu allt aðrar aðstæður heldur en nú þar sem ríkisstjórn tekur við góðu búi að afloknum kosningum og hefur fátt sér til afsökunar að hafa ekki gengið frá ítarlegri stefnuskrá og stjórnarsáttmála annað en bráðræði við að komast í stólana.
    Varðandi þær spurningar sem hv. þm. beindi til mín og studdust við heimildir, sem hann greinilega tekur mikið mark á, í tímaritinu Þjóðlífi, þá verð ég nú að hryggja hann með því að ekki kannast ég við þær tillögur eða þau plögg upp á sjö blaðsíður eða hvað það nú var sem þar er talað um og held ég að hv. þm. verði að ganga betur á heimildarmenn sína um það hvað þeir hafi fyrir sér í þessum efnum. Ýmislegt af því sem þar er upp talið kannast ég ekki við, annað gæti svo sem staðið heima, en í heildina tekið var þetta eiginlega nokkuð sérkennilegt innlegg, það verð ég að segja, í stefnuræðu forsrh. og ég sé ekki að umfjöllun um þessa heimild hv. þm. úr Þjóðlífi hafi mikið erindi inn í þessa umræðu, enda skildi ég ekki satt best að segja í fljótu bragði hvaða erindi það átti inn í umræðuna, hverju það hefði breytt eða skipt hv. þm. þó svo að eitthvað af því væri rétt sem þar er upp talið. Sú tenging kom a.m.k. ekki skýrt fram í máli hans en kannski getur hann aðstoðað mig við það að skilja samhengið í þeim efnum.
    Úr því að stefnuræða hæstv. forsrh. er hér á dagskrá, þá vænti ég þess að sömuleiðis sé stefnuyfirlýsingin í þessu bláa kveri upp á þrjár síður eða þrjár arkir. Þar er í einum stað vikið að atriði sem ég hefði haft áhuga á að heyra hæstv. forsrh. fjalla ofurlítið nánar um. Þar stendur í 14. tölul. að ríkisstjórnin ætli sér að ná fram markmiðum sínum m.a. með því að endurskoða núgildandi kosningalög í þeim tilgangi að tryggja jafnræði með kjósendum og auka áhrif þeirra á það hverjir veljist til þingsetu. Ég hefði gjarnan viljað fá þýðingu á þessum texta líka. Hvað er hæstv. ríkisstjórn hér að fara? Hvað stendur til? Er það sem sagt orðið samkomulag milli stjórnarflokkanna að breyta kjördæmaskipan á nýjan leik? Ber að skilja það svo að það eigi að fjölga þingmönnum hér á Reykjavíkur - og Reykjanessvæðinu eða hvað? Gæti hæstv. forsrh. upplýst þingheim um það hvað sé í vændum í þessum efnum því að eitthvað hlýtur að valda því að þessir hlutir eru settir svona á blað? Ég hefði haft gaman af því að heyra þó ekki væri nema eitthvert lítilræði frá hæstv. forsrh. um það.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi þá ekki mikið meira um þetta að segja. Ég hafði reyndar hugsað mér að ræða hér lítillega um aðdragandann að þessari stjórnarmyndun og andrúmsloftið almennt í kringum hana, en ég veit eiginlega ekki hvort það er ástæða til að leggja það á hv. þingheim og hæstv. ráðherra. Þeir hafa sjálfsagt um nóg að hugsa svo sem eins og nýgerðar skoðanakannanir í þeim efnum sem út af fyrir sig talar fyrir sig sjálft og segir, held ég, það sem segja þarf um andrúmsloftið í kringum þessa stjórnarmyndun og verður væntanlega aðstandendum hæstv. ríkisstjórnar nokkurt umhugsunarefni.
    En það er þó ekki hægt að neita því að ýmislegt verkar satt best að segja sérkennilega á mann hafandi verið í ríkisstjórn og átt það maður best vissi ágætt samstarf við hæstv. ráðherra Alþfl. sem síðan hefur komið á daginn. Ég var nú í þeim hópi sem varð nokkuð undrandi kosninganóttina þegar tveir hæstv. ráðherrar Alþfl. komu í fjölmiðla, hvor í sínum fjölmiðlinum, og fluttu sömu ræðuna sem greinilega var vel undirbúin og vel lærð heima. Það var dálítið önnur ræða heldur en við höfðum heyrt í ríkisstjórninni dagana þá á undan og það var dálítið önnur ræða heldur en þjóðin fékk að heyra í kosningabaráttunni. A.m.k. rekur mig ekki minni til þess að frambjóðandi Alþfl. á Norðurl. e. hafi talað með þeim hætti á framboðsfundum sem þeir hæstv. ráðherrar Jónar tveir gerðu á kosninganóttina um leið og búið var að loka kjörstöðum. Sá grunur hefur óneitanlega læðst að mönnum æ oftar á sl. vikum frá því að kosningum lauk að eitthvað meira hafi verið búið að vinna að þessari stjórnarmyndun áður en sest var niður í Viðey heldur en látið hefur verið í veðri vaka.
    Á baksíðu Dagblaðsins er greint frá því í dag, og ber blaðið þar fyrir sig áreiðanlegar heimildir að það telur úr þingflokki Alþfl., að núv. hæstv. viðskrh. og iðnrh. muni taka við stöðu seðlabankastjóra svona um mitt kjörtímabil. Nú verður að segja það eins og er honum til hróss að þetta er auðvitað skynsamleg ákvörðun, ef rétt er, af honum að forða sér vel fyrir næstu kosningar út úr stjórnmálunum og reyna ekki á gæfu sína oftar í kosningum. En þetta bendir til þess að ýmislegt sem sagt hefur verið um samkomulag um hitt og þetta löngu fyrir stjórnarmyndun eigi við einhver rök að styðjast. Hér var á það minnt af einum hv. þm. og ræðumanni áður í umræðunni að skipan Birgis Ísl. Gunnarssonar, fyrrv. hv. þm., í bankastjórastöðu hefði verið nokkurt umhugsunarefni í þessu sambandi og hugsanlegt er að þessum kaupum hafi þá fylgt frátekið sæti fyrir næsta væntanlegan seðlabankastjóra, hver sem það nú verður.
    Allt er þetta nú skrautlegt, svo ekki sé meira sagt, og hlýtur að hafa sín áhrif á þróun stjórnmálanna hér á næstu mánuðum og missirum, og hefur reyndar þegar gert það eða er þegar farið að gera það ef marka má hræringar sem skoðanakannanir virðast endurspegla og get ég ekki annað sagt en það að þjóðin virðist ætla að draga hárréttan lærdóm af því sem henni hefur verið boðið upp á í þessum efnum sl. daga og sl. vikur. Alþfl. fær vonandi sína refsingu, hana á hann skilið og ekkert annað. Sú ríkisstjórn sem ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum með sæmilega sterkan þingmeirihluta að baki að hafa talsverðan stuðning og meðbyr þjóðarinnar í fyrstu, býr við merkilega rýran kost í þeim efnum, verandi að leggja af stað á nýju kjörtímabili.
    Ég held að allur aðdragandi að stjórnarmynduninni, að uppleggið valdi því að svona er. Hæstv. ríkisstjórn verður því að taka sig heldur betur á ef hún á að geta vænst þess að sigla við meðbyr hér á næstu missirum í stjórnmálum. Ekki get ég nú sagt að fyrstu stjórnarathafnir auki manni trú á að svo verði og satt best að segja held ég að ákveðin axarsköft og mistök sem þegar hafa verið gerð valdi því að ekki bara við, pólitískir andstæðingar stjórnarinnar svo sem eðlilegt er að höfum ýmsar hugleiðingar, óttumst að nú sigli landsmenn aftur inn í svipaða óáran stjórnmálalega og efnahagslega og þeir bjuggu við hér fyrir nokkrum árum síðan heldur hefur greinilega þjóðin öll af þessu áhyggjur. Ég óttast það að sömu gömlu íhalds- og frjálshyggjuúrræðin, sem nú er byrjað á að grípa til, reynist nákvæmlega jafnilla, verði nákvæmlega jafnhaldlaus og þau reyndust t.d. á árunum 1985 -- 1988. Og ég sé ekki hvers vegna, hvað það ætti að vera sem hefur breyst svo að til að mynda okurháir vextir í landi eins og Íslandi, þar sem atvinnulífið og einstaklingarnir upp til hópa eru mjög skuldsettir, hafi önnur áhrif nú heldur en þeir höfðu þá. Og því miður þarf þá ekki að sökum að spyrja, við þekkjum hvað af slíku leiðir.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég láti þá máli mínu lokið. Ég hef beint nokkrum atriðum til hæstv. forsrh. og félmrh. og vænti þess að þeir hæstv. ráðherrar sjái sér fært að víkja að þeim hér á eftir.