Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Hér fór fram fyrir nokkru umræða um Evrópska efnahagssvæðið í framhaldi af skýrslu utanrrh. um ráðherrafund EB og EFTA 13. maí sl. Ég gat því miður ekki verið þarna viðstaddur nema að litlu leyti og því blanda ég mér hér í almennar stjórnmálaumræður í framhaldi af stefnuræðu forsrh. með því að ræða fyrst og fremst um EES.
    Hinn 9. febr. sl. skrifaði ég leiðara í blaðið Suðurland á Selfossi sem ég nefndi: ,,Forðumst fjötrana frá Brussel. Flýtum okkur hægt í EES og EB.`` Með leyfi hæstv. forseta vildi ég vitna til leiðarans enda eiga þau aðvörunarorð sem þar voru sögð enn þá vel við.
    ,,Mikil umræða stendur nú yfir um hvort Ísland eigi að gerast aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði eða jafnvel verða beinn aðili að Evrópubandalaginu. Stærsti gallinn við þessar umræður er skortur á upplýsingum frá ríkisstjórninni um hvað felist í samningunum frá EES fyrir atvinnuvegina og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar yfirleitt. Engin viðhlítandi grein hefur verið gerð fyrir því hverjir eru kostir og hverjir gallar við Evrópska efnahagssvæðið. Samt er talað um að fyrir Íslands hönd verði skrifað undir þennan samning í vor eða sumar. Slík frammistaða utanrrh. og ríkisstjórnarinnar allrar er stórlega ámælisverð þó ekki sé meira sagt. Hér er því ástæða til að nema staðar og spyrja: Eigum við Íslendingar nokkuð erindi í þessi bandalög? Þjónar það markmiðum okkar sem lítillar þjóðar sem vill halda óskertu sjálfstæði sínu? Gera menn sér ljóst hvað hér hangir á spýtunni? Með því að ganga í Evrópska efnahagssvæðið verður Alþingi að samþykkja á einu bretti í haust löggjöf Evrópubandalagsins upp á 11.000 blaðsíður eða alls 1400 lög og tilskipanir. Við höfum enga heimild til að gera neinar breytingar á þeirri löggjöf í meðferð Alþingis. Hvað felst í þessum lögum? Með þeim innleiðum við hér á landi óheft frelsi eins og tíðkast innan EB í búsetu- og atvinnumálum. Frelsi til að stofna þjónustufyrirtæki, fjármagnsfyrirtæki og öllum viðskiptahömlum verður rutt úr vegi. Við verðum með öðrum orðum að veita 320 milljónum manna sem búa í EB fullt jafnrétti hér á landi á borð við íslenska þegna í öllum atvinnuefnum ef frá er skilinn landbúnaður og sjávarútvegur. Hætt er við að einhverjum muni þykja slíkt frelsi æði þungur baggi þegar erlend félög fara að seilast hér til umsvifa þar sem arðvænlegast er á fullum jafnréttisgrundvelli og íslenskir menn og félög. Hverjir munu þá verða að láta í minni pokann ef svo ber undir? Svarið liggur í augum uppi.
    Annað er það sem menn hafa heldur varla áttað sig á. Settur verður upp sérstakur dómstóll EES. Hann fer með æðsta dómsvald í öllum sameiginlegum málum svæðisins og verður því yfirdómstóll Hæstaréttar í þeim efnum. Lög EES koma til með að ganga framar íslenskum lögum á öllum þeim sviðum sem efnahagssvæðið nær til og erlend eftirlitsstofnun verður æðsti stjórnsýsluaðilinn. Í þessu öllu felst meira valdaframsal og skerðing á fullveldi þjóðarinnar en menn

hafa flestir gert sér grein fyrir. Er aðild að EES kaupandi þessu verði? Hvað fáum við í staðinn?
    Helsti ávinningur okkar að aðild EES væri tollfrjáls verslun með sjávarafurðir innan EB alls. Það var lengi okkar krafa. En nú er komið í ljós að því er algjörlega hafnað af yfirvöldum EB nema fiskveiðiréttindi komi á móti. Það viljum við ekki. Þar með er fallin um sjálfa sig aðalröksemdin fyrir inngöngu í EES eða EB. Þar við bætist að ein krafa EB í viðræðunum nú er að EFTA-löndin fallist á að leyfa innflutning á 70 vörutegundum á sviði landbúnaðar undir merkjum frjálsra viðskipta. Viljum við Íslendingar taka við slíku? Um þennan böggul skammrifsins hefur verið vandlega þagað af samningamönnum okkar.
    Ég held að framtíð okkar sé best borgið utan slíkra bandalaga. Við fengum ekki sjálfstæðið 1944 til að glata því hálfri öld síðar.
    En hver á þá stefnan að vera ef ekki aðild að EES? Því er auðsvarað. Við eigum að gera tvíhliða samninga við EB sem þýðir útvíkkun á þeim samningi sem við höfðum við bandalagið frá 1972. Það þýðir að tollfrelsi þarf að fást fyrir allar okkar sjávarafurðir en ekki u.þ.b. 80% af þeim eins og nú er. Þar að auki eigum við að stofna viðskiptasendiráð í Japan og hefja öfluga markaðssölu í Asíu sem er mesti framtíðarmarkaður allra Evrópuþjóða. Í þriðja lagi eigum við að framkvæma þá ályktun sem Alþingi samþykkti fyrir fjórum árum um gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin. Það mál hefur alveg verið vanrækt af núv. stjórn. Þar liggja miklir ónýttir viðskiptamöguleikar eins og Kanadamenn hafa séð. Austur-Evrópa hefur verið mikilvægt viðskiptasvæði og bakslagið þar verður vonandi ekki til þess að viðskiptatengsl rofni heldur birti á ný. Þá má ekki vanrækja að huga að nánari utanríkisviðskiptatengslum við næstu nágranna okkar, Færeyinga og Grænlendinga, en ásamt þeim getum við ráðið miklu um fiskveiðistefnu og framboð á sjávarafurðum frá Norður-Atlantshafssvæðinu.
    Margt er því til ráða í alþjóðasamvinnu okkar og viðskiptum annað en að fjötrast miðstýringarvaldinu í Brussel og skerða fullveldi fyrir hagsmuni sem eru ímyndaðir en ekki raunverulegir.``
    Svo mörg voru þau orð frá 9. febr. sl. og sem enn eru í fullu gildi.
    Þessu næst örfáar athugasemdir vegna yfirlýsingar ráðherrafundar Evrópubandalagsins og EFTA 13. maí 1991.
    Það er rétt að undirstrika að áður en núv. ríkisstjórn tók við völdum hafði ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar leitt viðræður af Íslands hálfu ásamt öðrum EFTA-ríkjum við Efnahagsbandalagið um sameiginlegt efnahagssvæði í Evrópu sem skyldi verða skref til endanlegrar sameiningar þessara ríkja í eitt allsherjar Evrópubandalag. Það hefði í för með sér frjálsan flutning á vörum, fólki og fjármagni milli landanna ásamt sameiginlegri landbúnaðarstefnu og frjálsan aðgang aðildarríkjanna að fiskimiðunum. Gera má ráð fyrir að einhver aðlögunartími fáist til þess að koma þessum markmiðum í höfn en lokatakmarkið er

þetta, það vil ég undirstrika. Innri lög aðildarríkjanna verða að víkja gagnvart lögum bandalagsins og æðsta dómsvald í mörgum málum verður í höndum erlendra dómenda. Einhvern tímann á aðlögunartímabili þessara Evrópusamninga þarf að vísu að bera þá undir íslenska kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnframt að breyta stjórnarskránni en hæpið er að þá verði aftur snúið.
    Þetta er Evrópumálið, sem núv. ríkisstjórn tók í arf frá fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. forsrh. Steingrími Hermannssyni. Að vísu sneri hann blaðinu við í áróðursstríði síðustu daga fyrir kosningar eða kannski hann hafi verið búinn að gleyma öllum þessum samningaumræðum eigin ríkisstjórnar. Nú skiptir það reyndar ekki máli lengur hverju Steingrímur gleymir eða hvað hann man. Það sem skiptir máli í dag er að ganga varlega og með galopin augun til þessara viðræðna og gefa síðan Alþingi kost á því að fjalla um þetta viðkvæma mál, samþykkja hugsanlegt samningsuppkast eða hafna.
    Þegar rætt er um aðild Íslands að EES hefur mjög mörgum sést yfir að slík aðild kemur til með að hafa byltingarkenndar breytingar í för með sér á stöðu fyrirtækja og atvinnulífsins í landinu. Gert er ráð fyrir að samþykkja verði alls 1400 lög vegna aðildarinnar, 11.000 blaðsíður að lengd. Þessi lög hafa því að meginmarkmiði að innleiða ákvæði sambærileg lögum EB í íslenskan rétt. Hvað þýðir þetta í framkvæmd? Hér er um að ræða að ríkisborgurum allra EB-landanna og EES-landanna verði veitt jafnrétti á við íslenska borgara á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins. Þau svið eru þjónustuviðskipti, stofnun atvinnufyrirtækja á flestum sviðum utan sjávarútvegsins, frelsi og jafnrétti til fjármagnsflutninga og jöfn atvinnu- og búseturéttindi. Hætt er við að samkeppnisaðstaða íslenskra fyrirtækja geti orðið allt önnur og verri þegar erlend fyrirtæki hafa hér jafnrétti til starfa, m.a. vegna þess hve íslensk fyrirtæki eru háð lánsfjármagni til uppbyggingar og nýtískureksturs. Hér verður heimilað að stofna erlenda banka og fjármagnsfyrirtæki svo dæmi séu tekin. Og í öllum greinum þjónustufyrirtækja fá borgarar ríkjanna 18 jafnrétti á við Íslendinga. Nú er hins vegar krafist íslensks ríkisborgararéttar
til verslunarrekstrar og margs annars hér á landi. Hafa menn gert sér grein fyrir því hver áhrif slík óheft erlend samkeppni fyrirtækja milljónaþjóðanna getur haft á hina litlu markaði hér á landi? Er ekki hætt við að kostur ýmissa Íslendinga sem í rekstri standa verði æði mikið þrengdur frá því sem nú er?
    Ég vil í þessum umræðum varpa fram nokkrum spurningum sem reynst hefur erfitt að fá svar við. Það virðast allir vera sammála um að ekki komi til greina að heimila erlendum veiðiskipum að veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Eins hefur af hálfu margra þingmanna, m.a. sjútvrh. og formanns utanrmn., komið fram sú skoðun að við höfum ekkert í EES að gera nema við fáum fullar tollaívilnanir á fiskafurðir okkar í ríkjum Efnahagsbandalagsins. Er hæstv. utanrrh. sammála þessu? Ef þessi atriði nást fram í samningum, verður það þá gert á kostnað landbúnaðarins og

heimilaður innflutningur landbúnaðarafurða? Í skýrslum ráðherra má lesa í 14. lið að svo verði gert, m.a. með unnar landbúnaðarvörur og hugsanlega garðávexti, sams konar vörur og ræktaðar eru í gróðurhúsum á Íslandi. Slíkt gæti á skömmum tíma gengið af þessum greinum landbúnaðarins dauðum og því spyr ég utanrrh.: Er verið að versla með þessi atriði í samningaviðræðum um Evrópskt efnahagssvæði? Sú verslun hófst þá að sjálfsögðu í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Vonandi stendur hún ekki enn þá.
    Í 10. lið yfirlýsingarinnar frá ráðherrafundinum er fagnað því samkomulagi sem náðst hefur í tengslum við hindrunarlausa fjármagnsflutninga og þjónustuviðskipta. Víst er gott að eiga aðgang að stórum markaði í Evrópu. Þann aðgang höfum við þó í dag að mestu leyti. Allar okkar iðnaðarvörur fara þar tollfrjálst inn og 80% af okkar sjávarafurðum. Eftir hverju er þá verið að sækjast? Borgum við ekki aðildina of dýru verði? Menn verða að gera sér ljóst hvaða böggull fylgir hér skammrifi. Umræða um það hefur verið allt of lítil. Menn vita ekki hvað aðildin felur í sér. Landið verður opnað fyrir atvinnuumsækjendum og fjárfestingum milljónaþjóðanna sem vinsa bestu bitana úr þar sem hagnaðurinn er mestur. Sitjum við þá uppi með ruðurnar einar. Þeirri spurningu er beint til hæstv. utanrrh.: Þýðir þetta að erlend fyrirtæki geti keypt íslensk útgerðar - og fiskvinnslufyrirtæki? Og geta þessir erlendu fjármagnseigendur hugsanlega eftir stuttan aðlögunartíma fest kaup á fasteignum og jörðum hér á landi eða jafnvel orkuvirkjunum? ( HG: Hvar er utanrrh.?) Ef svör við þessum spurningum eru jákvæð minni ég á að við erum að semja fyrir komandi kynslóðir á Íslandi um afsal á fullveldi okkar og auðlindum og þá eigum við að standa utan við þessi bandalög og finna aðrar leiðir til að tryggja utanríkisviðskiptahagsmuni okkar.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.