Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér hafa menn varið mörgum dögum í að ræða lítið efni sem er sú stefnuræða sem hæstv. forsrh. flutti þingi og þjóð nú á dögunum. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er við upphaf ferils síns óvinsælasta ríkisstjórn á Íslandi frá því mælingar hófust. Ríkisstjórnin er ekki óvinsæl vegna þess að stjórnarsáttmálinn er þunnur í roðinu og segir ekkert um ferðalagið sem er í vændum. Hæstv. ríkisstjórn er á leiðinni til frjálshyggjuvallanna. Þessi ríkisstjórn er ekki óvinsæl vegna stefnuræðu hæstv. forsrh. sem segir lítið um ferðalagið. Ríkisstjórnin er óvinsæl vegna sinna fyrstu aðgerða. Hún er óvinsæl af sínum fyrstu verkum og óvinsældir hennar munu vaxa haldi hún áfram með sama hætti.
    Fólkið í landinu er hrætt við fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki að ástæðulausu því að fyrstu aðgerðirnar hræða. Fólkið í Reykjavík og fólkið í byggðunum er hrætt við þá ríkisstjórn sem nú hefur tekið við völdum á Íslandi. Það finnur nú að til valda hafa sest menn sem bera kannski ekki mikla virðingu fyrir því sem vel hefur gefist, menn sem ætla að fara aðrar leiðir en þjóðarsátt var um. Viljinn til sáttargerðar og samkomulags er horfinn, enda kallaði hæstv. forsrh. slíkt að flengja sjóinn í stefnuræðu sinni. Engum þurfti að koma slíkt á óvart. Þar talaði maður sem nánast hefur stjórnað sem einræðisherra í einu stærsta fyrirtæki á Íslandi nú í átta ár.
    Það er á fyrstu starfsvikum þessarar ríkisstjórnar sem stjórnarflokkarnir tapa frá sér þriðja eða fjórða hverjum fylgismanni sem þeir plötuðu til að kjósa sig í kosningunum 20. apríl. Það gera þessir flokkar vegna þess að fólkið sem kaus þá hefur nú áttað sig á að stefna þessarar ríkisstjórnar er með og fyrir þá ríku en gegn þeim mörgu, smáu og fátæku.
    Alþfl. mælist nú með 9,5% kjósenda og sex þingmenn. Sjálfstfl. mælist hins vegar með 40% fylgi og 26 þingmenn. En það vita allir að Sjálfstfl. mælist stærri í skoðanakönnunum en í kosningum. Formaður Sjálfstfl. sagði sjálfur að allir vissu að flokkurinn fengi 10% minna fylgi í kosningum en í könnunum. Þetta sagði hann þegar hann glímdi við hæstv. sjútvrh. á frægum landsfundi fyrir stuttu síðan. Ég hygg að þessi skoðun Davíðs Oddssonar sé rétt. Það þýðir að stjórnarflokkarnir sem nú hafa aðeins ráðið ríkjum á Íslandi í tæpar fjórar vikur hafa ekki lengur á bak við sig meirihlutavilja þessarar þjóðar. Ef gengið yrði til kosninga nú hefðu þessir flokkar trúlega ekki nema 25 -- 26 þingmenn á Alþingi Íslendinga. Slíkur er hugurinn sem fylgir þessari ríkisstjórn úr garði eftir nokkurra daga verkstjórn.
    Það hefur orðið mikið vinsældahrap hjá barnungri ríkisstjórn. Alþfl. kom vel fram genginn úr fyrri ríkisstjórn en nú eru góðir drengir fjötraðir í heljarböndum. Alþfl. er nú eftir fjögurra vikna samstarf við íhaldið það grátt leikinn að kosningar yrðu spurning upp á líf og dauða. Er það hart að hafa svo selt líf sitt í hendur kvalara síns, en auðvitað er það svo að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

    Nú ber svo við að öllum þingheimi mun verða boðið til Þjóðleikhússins í þessari viku að sjá eitt verka Þjóðleikhússins. Nafn leikritsins vekur forvitni mína og fleiri þingmanna því að leikritið heitir Ráðherrann klipptur. Mér kemur til hugar að Þjóðleikhúsið hafi verið svo frjótt í hugsun sinni eftir að hv. samþingmaður minn Árni Johnsen og hæstv. fyrrv. menntmrh. hefðu rutt í það 700 millj. til breytinga og brambolts, að nú eigi að setja á svið merkilegt stykki þar sem þeir sýna hvernig hæstv. forsrh. fer að því að klippa fylgið af flokki sínum og vinsældirnar af sjálfum sér. Mér kæmi til hugar að frjóleiki Þjóðleikhússins yrði með þeim hætti að þegar við komum hér saman á haustdögum verði þeir með nýtt stykki á fjölunum sem gæti heitið Hvar er ráðherrann með hattinn og menn hans?
    Það stefnir vissulega í það að flokkur ráðherrans með hattinn og menn hans séu að hverfa út úr íslenskri stjórnmálasögu. Slík eru verkin eftir fjögurra vikna starf í ríkisráðinu. Kannski spaugstofan úr Viðey verði til þess að frjóvga mjög leikritagerð og menningarstarf í íslensku samfélagi. Kannski hún verði til þess að rithöfundar þurfi ekki styrki úr ríkissjóði, að menningin dafni í skjóli þeirra spaugilegu atriða sem hér hafa farið fram á Alþingi Íslendinga og við myndun þessarar óvinsælustu ríkisstjórnar frá því að mælingar hófust, hæstv. forsrh. Þar er sparnaður upp á nokkur hundruð milljónir fyrir ríkisstjórnina ef svo vel tekst til.
    Hæstv. forseti. Ég verð eigi að síður að viðurkenna það hér á hinu háa Alþingi að ég bar góðan hug til þessarar ríkisstjórnar. Ég árnaði henni heilla og vænti þess að þar gengju að störfum menn sem vildu láta gott af sér leiða. Ég vildi trúa því a.m.k. að það yrði borin virðing fyrir þjóðarsáttinni og þeirri von sem alþýðan á Íslandi bar í brjósti um að lífskjarajöfnun væri næsta skrefið á Íslandi. Ef ríkisstjórnin bar ekki virðingu fyrir óskum alþýðunnar, þá hélt ég að hún skynjaði mikilvægi breyttrar rekstrarstöðu fyrirtækjanna á Íslandi. Lág verðbólga, lægri vextir og stöðugleiki er það sem forráðamenn þeirra segja að hafi valdið byltingu á síðustu tveimur árum undir forustu Framsfl. í ríkisstjórn. Það er nákvæmlega sama hvar í flokki menn eru sem stjórna fyrirtækjum. Þeir segja: Staðan er gjörbreytt hjá íslenskum fyrirtækjum og það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem nú hefur verið mörkuð. En nú sjá allir sem heyra og sjá að mál munu á örskömmum tíma þróast í það sama og var 1987 og 1988.
    Það er enginn vafi á því að fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar eru lík því sem gerðist á árunum 1987 -- 1988. Stjórnarsáttmálinn segir ekkert, stefnuræðan segir ekkert og aðgerðirnar eru allar enn á einn veg. Að koma hlutunum í það sama horf og lagði íslensk fyrirtæki að velli svo til haustið 1988. Það yrði örlagarík niðurstaða fyrir vinsælasta borgarstjóra heimsins, ef hann rústar íslenskan efnahag á einu sumri, ef fyrirtækin standa í þeim sömu sporum og þau stóðu í á haustdögum 1988.
    Ég vil því vona að innan þessarar ríkisstjórnar

myndist smástjórnarandstaða. Ég vil treysta á hæstv. sjútvrh., sem lærði svo mjög mikið á þeim tíma sem hann var forsrh., sem hét Einari Oddi og öllum þeim að slíkt skyldi aldrei koma fyrir framar ef hann yrði forsrh. á ný. Hann verður að þjappa saman stjórnarandstöðu í Sjálfstfl. þar sem menn snúast til varnar. Hann getur farið um Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn, hann getur farið um Selfoss og Vík og spurt hvort hann eigi ekki að halda áfram þeirri stefnu sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði. Ég hygg að hann hafi óþægilega oft verið minntur á hina 13 óhappasömu mánuði sem honum mistókst í forsrn. Það kynni þó ekki að vera að ef hann beitti harðri stjórnarandstöðu gegn þeim aðgerðum sem nú eru hafnar og sem munu koma fram á íslenskum vinnumarkaði á næstu mánuðum, að hann yrði endurreistur. Það er mikilvægt að hafa öflugan húsbónda í Stjórnarráðinu. Að vísu vil ég trúa því að borgarstjórinn, eftir þessa ræðu mína hér, taki sig til og lesi þá harmsögu sem félagi hans, hæstv. sjútvrh., lenti í á þessum 13 mánuðum og hafði heitið þjóð sinni, flokki sínum, atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni að slíkt skyldi aldrei koma fyrir sig aftur, að hæstv. forsrh. láti það verða sitt fyrsta verk að hafa þá sögu til lestrar meðan vornóttin er björtust og muni síðan breyta stefnu sinni.
    En hvað er það sem ríkisstjórnin hefur gert á stuttum ferli? Hefur hún eitthvað gert? Hvað er það sem hræðir svo mjög sem hún hefur aðhafst? Skyldu það ekki vera ólánsvextirnir sem eiga þar hlut að máli? Þegar við sem áttum aðild að fyrri ríkisstjórn, ég og hæstv. viðskrh. nú og þá, vorum að tala saman, vorum við stundum sammála og æði oft. En þá vorum við yfirleitt að tala um skitna nafnvexti, yfirleitt að tala um mikið samkomulag sem þyrfti að ríkja, yfirleitt að tala um það að vaxtakjörin væru einn mikilvægasti þátturinn, ekki bara í rekstri fyrirtækjanna heldur fólksins á Íslandi. En við vorum að glíma þá við skitna nafnvexti. Hvað hefur gerst nú?
    Hæstv. fjmrh. hélt hér fjálglega ræðu þá og talaði við fyrirrennara sinn, hv. þm. Ólaf Ragnar, og kallaði hann vaxtakóng. Nú er íslenska þjóðin að eignast nýjan vaxtakóng því að fyrsta keyrslan á þessum fjórum vikum ríkisstjórnarinnar hefur verið með því einu að keyra upp raunvaxtastigið á Íslandi. Ég trúi því að hv. þm. og félagi minn Eggert Haukdal líti undan, því að vissulega er það þetta sem fyrirtækin og fólkið óttast. Það er þetta sem gerir það að verkum að nú situr við völd óvinsælasta ríkisstjórn frá því að lýðveldið var stofnað sem er dæmd til að tapa af sér þriðja eða fjórða hverjum manni yrði gengið til kosninga.
    Vextir ríkisvíxla hækkuðu úr 11,5% upp í 14% á einu bretti. Nokkrum dögum síðar hækkuðu þeir raunvextina á spariskírteinum ríkissjóðs úr 6,6% upp í 7,9 og 8,1%. Skynja menn nú hvaða kapphlaup fer í gang? Dettur mönnum það í hug að bankakerfið sem hefur verið með vexti á sparisjóðsbókum, á megninu á fjármagninu, upp á 3,5%, hæstu raunvextir upp í 5,75%, geti setið kyrrt? Hér fer Einbjörn að toga í Tvíbjörn. Hér hefst barátta.

    Hæstv. ríkisstjórn hefur því miður ekki leitað samkomulags við þá aðila á Íslandi sem ráða fjármagninu og vaxtaþróuninni. Þeir segja: Þetta var orðið, við erum að viðurkenna staðreyndir. En hitt er ljóst og á öllum að vera ljóst að það er ekkert reynt að fara aðrar leiðir, ná samkomulagi o.s.frv. Auðvitað vissi maður það að hjá fyrri ríkisstjórn voru ákveðin vandamál í gangi. Jóhanna barði húsbréfin við bakhlið Stjórnarráðsins þá. Húsbréfin hafa því miður verið vandamál og hafa því miður gert það að verkum að raunvextir á Íslandi hafa hækkað. En það bar að leita leiða því ýmislegt hefur farið úrskeiðis. Núv. ríkisstjórn bar að gera það sem hin ætlaði sér en vannst ekki tími til, leita samkomulags við lífeyrissjóðina um fjármögnun, leita eftir því að Seðlabankinn, sem er viðskiptavaki húsbréfanna, standi við sitt hlutverk. Þetta bar að gera. Það bar jafnvel að loka þessu húsbréfakerfi um sinn til að stöðva afföllin, spenninginn í þjóðfélaginu. En ekkert af þessu var gert. Keyrslan á raunvöxtum hófst upp á við.
    Síðan sjáið þið þetta á fleiri sviðum. Vextir á húsnæðislánum hækka, var það ekki úr 3,5% í 4,9%? Þar var heill milljarður á einni nóttu lagður á herðar íslenskra heimila. Stjórnarherrarnir segja að þeir hafi frekar viljað fara þessa leið en fara í skattahækkanir. Þó er það ljóst að hefði verið farið í skattahækkanir, þá hefði verið hægt að leggja þær á ákveðin breið bök í íslensku samfélagi sem þær hefðu engu máli skipt. Hér eru hundruð manna sem eiga aleigu sína í bréfum, ekki 50 millj., ekki 100 millj., heldur jafnvel 150 eða 200 millj. kr. og borga ekkert til ríkisins eða sveitarfélagsins. Þarna var leið.
    Nú mun það gerast að þetta fátæka fólk sem hafði gert sér áætlanir fram til aldamóta stendur frammi fyrir því að enn verður það að leita á náðir hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur. Biðraðir munu lengjast sem biðja um skuldbreytingu vegna vaxtahækkunarinnar. Fólk í þrotum mun koma og leita á náðir hæstv. félmrh. og biðja um skuldbreytingu því vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar standi það ekki undir þeim áætlunum sem það hafði gert um sín fjármál. Mér skilst að vextir í verkamannabústaðakerfinu, sem hafi verið 1% muni á næstunni eða hafi þegar verið hækkaðir, ég hef ekki verið heima um sinn, hafi hækkað eða verði hækkaðir. Hæstv. forsrh. hristir höfuð sitt og hefur það þá ekki gerst enn þá. ( Félmrh.: Þú samþykktir þá hækkun.) Margt gerði maður nú fyrir hæstv. félmrh. til þess að halda friði á hinu fyrra heimili ríkisstjórnarinnar sem maður studdi.
    Ég held að það hefði verið mjög mikilvægt fyrir hæstv. ríkisstjórn að leita annarra leiða, að fara ekki í þessar stórkostlegu raunvaxtahækkanir. Menn verða að gá að því að þetta eru stórkostlegar raunvaxtahækkanir. Bankarnir sumir hafa á orði að nota sér nú aðstæðurnar og auka vaxtamuninn. Eftir höfðinu dansa limirnir og börnin á heimilinu reyna að nota sér þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherrar leiti samkomulags þegar um að fara aðrar leiðir. Þeir eru með aðgerðum sínum að rjúfa samkomulagið í íslensku þjóðfélagi. Þeir munu standa frammi fyrir því á haustdögum að samkomulagið verði rofið nema þeir leiti annarra aðgerða. Þetta sér hver læs maður í yfirlýsingum verkalýðsins, í þeim ótta sem nú ríkir hjá íslenskum forráðamönnum í fyrirtækjunum. Launþegarnir munu spyrja eftir kauphækkun og stríðsdansinn á vinnumarkaðinum byrjar strax nema stefnunni verði snúið við.
    Hér er mættur hæstv. landbrh. Ég ætla að gleðja hann með því að ég hef ráðlagt ýmsum þeim mönnum sem nú sitja í ríkisstjórn og eiga aðild að henni í flokkum sínum að minnast 13 mánaða ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og hefja innan flokksins öfluga leiðsögn þar sem hinu unga, óharðnaða liði verður vísað frá villu síns vegar.
    En það er ljóst mál að þessi ríkisstjórn ræðst ekki bara að því að hækka vextina. Hvar byrjar hún að skera? Voru það ekki 350 millj. kr. sem á beint að skera af vegafénu? Hæstv. samgrh. verður vandi á höndum ef svo fer fram sem nú horfir.
    Vissulega eru víða hættur. Mér finnst hætturnar vera meiri á milli línanna í stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar í sögðum og ósögðum orðum, í glaðbeittu brosi manna heldur en í því sem hefur komið fram. Það ríkir glaðværð nú yfir félaga Hannesi Hólmsteini og fleirum hans skoðanabræðrum. Og vissulega óttast ég og fann það í ræðu hv. þm. Eggerts Haukdals hér áðan að hann hefði áhyggjur af samningunum úti í Evrópu. Þetta er ræða sem hann á að halda á hverjum degi í sínum flokki og á hverjum þingflokksfundi á hann að rísa upp í lokin og halda þrumandi ræðu um EES. ( EH: Ég hafði áhyggjur af samningaviðræðum fyrrv. ríkisstjórnar. Það voru þær sem eru aðaláhyggjuefnið.) Vissulega var ástæða til þess að hafa áhyggjur þá og það hafði ég með hv. þm. En nú hefur beislið verið tekið út úr hæstv. utanrrh. og hann ferðast frjáls um heiminn. Hann einn fer með málið. Ég bið stjórnarandstöðuna í Sjálfstfl. að reyna að koma á ný upp í hann beislinu. (Gripið fram í.) En þeir höfðu bæði á honum taglband og beisli uppi í honum allan tímann. ( Forseti: Forseti biður hv. þm. um að vera ekki með samtal í salnum.) (Gripið fram í.) Hann hófst nú á dögunum um leið og beislið var tekið út úr hæstv. utanrrh. ( SJS: Hver hafði beislað hann þá?) Það er margt að óttast og ég bið hæstv. ríkisstjórn að ganga hægt um gleðinnar dyr.
    Eitt er skelfilegt að sjá í þeim sáttmála sem nú hefur verið gerður. Það eitt getur kostað íslensku þjóðina sjálfstæðið. Það er ætlunin að binda íslensku krónuna við erlendan gjaldmiðil. --- Hæstv. landbrh. tekur sig til og fer að lesa þann sáttmála sem ríkisstjórnin hefur gert. Ég hygg, miðað við það efnahagsástand sem hér hefur oft ríkt, að við gætum lent í ægilegri stöðu ef við höfum afsalað okkur frelsinu yfir því að ráða okkar gjaldmiðli. Við getum séð fyrir okkur að þá væru þeir einir ábyrgir í samfélaginu, mennirnir sem reka sjávarútveginn á Íslandi. Þeir einir vissu að þeir mættu engan glæfrasamning gera um kaup á vinnumarkaði. En fyrir kosningar gæti það hent að borgarstjórinn í Reykjavík eða hæstv. ríkisstjórn gerði óheyrilegan samning við opinbera starfsmenn. Slíku yrði ekki fleytt áfram. ( ÓRG: Eins og gerðist 1989.) Nema þá var gjaldmiðillinn ekki --- ja, hann var bundinn þá. Auðvitað var það svo að menn upplifðu það þá í sjálfu sér að sjá þetta fyrir sér, óðaverðbólgu, verðstöðvunina sem lenti á frystihúsunum. Auðvitað sjá menn þetta fyrir sér. Þetta er hættumerki sem ég bið hæstv. ráðherra, ekki síst landsbyggðarmenn þá fáu sem eru í hópnum, að íhuga gætilega og taka til skoðunar. Nú sé ég að hæstv. landbrh. hefur lesið sér til um málið, brosir blítt og mér líður betur.
    Síðan eru það auðvitað mörg mál sem eru í aðsigi sem maður hefur ekki séð enn þá á borðunum. Það er sala ríkisfyrirtækja, sala á ýmsu því sem ég ætla ekki að fara hér út í að ræða. Maður á yfirleitt ekki að ræða um hluti sem ekki hafa verið settir fram og ekki eru í augsýn. Ég held að það eigi ekki að gera. Hins vegar er það svo að auðvitað tekur þessi ríkisstjórn við töluverðum vanda. Ég veit að hæstv. landbrh. er vandi á höndum í nýju starfi. Auðvitað var það svo að þeir sem studdu fyrri ríkisstjórn hafa aðeins talað úr pokahorni sínu í ýmsum málum nú eftir að kosningar eru gengnar hjá garði af því að þeir þurftu að taka tillit til félaga sinna. Þetta hefur hent í ýmsum málaflokkum og þá ekki síst sem varða hæstv. iðnrh. og fleiri.
    Nú hef ég vissulega miklar áhyggjur af því sem fram undan er í íslenskum landbúnaði. Ég hef aldrei verið sannfærður um að sá búvörusamningur sem ríkisvaldið og Stéttarsamband bænda gerðu með sér sé gallalaus. Ég held að í honum séu miklar hættur fólgnar sem menn þurfi að hafa í huga. Ég hef aldrei verið sannfærður um að það eigi að gera landbúnaðinn að markaðstorgi peningahyggjunnar. Ég er ekki búinn að sjá fyrir afleiðingar þess samkomulags sem gert var. Það var kannski skiljanlegt að menn reyndu að leysa vandann í sauðfjárræktinni með uppkaupum á rétti. En við skulum huga að því sem nú heyrist manna á meðal að kvótinn í mjólkinni eigi að fara að seljast, lítrinn á 100, 200 eða 250 kr. Þarna sé komið í gang markaðstorg þar sem sá smái verður undir, þar sem réttinum verður ekki komið til þeirra fátæku, til þeirra með verðtryggðu skuldirnar. Þeir ganga ekki á sölutorgið og kaupa réttinn fyrir þetta verð. Þess vegna er þarna atriði sem löggjafarþingið sjálft þyrfti að taka til skoðunar og umræðu því að ég hygg að það væri mikil vá fyrir dyrum ef slík peningahyggja ryður sér inn í íslenskan landbúnað.
    Ég tel að menn ættu að hafa rétt til þess að skipta sín á milli á sauðfjárrétti og mjólkurrétti en að uppkaupin færu fram í gegnum Framleiðnisjóð eða uppkaupasjóð eða Framleiðsluráð og væru síðan endurseld þaðan. Hverjir munu bíða tjón ef þessar vangaveltur mínar eiga við rök að styðjast? Það eru íslenskir neytendur. Þetta mun hækka vöruverðið. Það eru íslenskar byggðir sem munu drúpa höfði ef þetta á við rök að styðjast. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að menn skoði þær hættur sem má koma í veg fyrir án þess að rjúfa sáttargerðina, einungis með

reglugerð og samkomulagi við Stéttarsambandið og bændurna í landinu.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa ræðu mína öllu meira. Mér þótti mikilvægt að hafa tekið til máls áður en haldið er heim í sumarfrí. Samviska mín sagði mér að það væri mikilvægt að segja þessari ríkisstjórn, sem svo gáleysislega hefur lagt af stað í mikið ferðalag, að hún þyrfti að endurskoða aðgerðir sínar, læra af staðreyndum sem liggja fyrir skammt aftur í tímanum, taka sig á í tilverunni og skila að ferli sínum loknum, Íslendinga vegna, góðri afkomu og góðu búi.