Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tel rétt að víkja hér örfáum orðum að hæstv. félmrh. vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram um húsnæðiskerfið frá 1986 og húsbréfakerfið.
    Ríkisendurskoðun hefur lagt mat á bæði þessi kerfi. Það er hæstv. ráðherra fullkunnugt um. Ríkisendurskoðun hefur komist að þeirri niðurstöðu að bæði kerfin kosti ríkið álíka mikið. Annars vegar þyrftu að koma til bein framlög, hins vegar koma til húsnæðisbætur gegnum skattakerfið. Aftur á móti er ómetið hversu mörg lán munu falla á ríkið vegna ábyrgðar ríkisins á þessum lánum. Og allt tal um það að hægt sé að reikna fram í tímann fjárhag manna, eins og hér er verið að tala um, er náttúrlega í reynd út og suður. Auðvitað kemur þar margt til. Þar koma til veikindi og margir aðrir hlutir. Þar kemur til hverjum verður sagt upp vinnu og hverjum ekki. Hver getur reiknað þetta út og hvar eru þessir sérfræðingar sem eru svona færir að þeir geti séð þetta allt fyrir? Það dugar ekki að hafa stærðfræðinga. Það verður þá að hafa spákonulið líka.
    Ég hygg nú að hæstv. félmrh. sakni þess ekki síður en ég að hér er ekki í salnum hv. 8. þm. Reykv. Hann er fjarri góðu gamni. Hann hefur oft viljað ræða húsnæðismál. Sá er nú formaður þingflokks Sjálfstfl., ef ég veit rétt, og væri nú fróðlegt að fá hans álit á stöðunni. Hins vegar tel ég að það sé sjálfgefið miðað við það frelsi sem menn eru að tala um að hæstv. félmrh. manni sig upp í það að fara með húsbréfin á erlendan markað og selja þau þar. Auðvitað getur Jóhannes Nordal, hæstv. seðlabankastjóri, alveg eins fjármagnað virkjanirnar hér innan lands og notað húsbréfin til að selja erlendis. Það er talað um að hér eigi að vera algert frelsi í fjármálum eftir tvö ár og hvernig fær það þá staðist ef það er allt í lagi að hafa algert frelsi eftir tvö ár að þetta sé óframkvæmanlegt í dag og gangi bara ekki upp með slíka hæfileikamenn í ríkisstjórn sem nú sitja? Það er alveg óvíst um gæði stjórnarherranna eftir tvö ár. Það veit það ekki nokkur maður. En nú ku vera valinn maður í hverju sæti og ef það er ekki hægt að gera þetta núna, þá er spurning: Verður það þá nokkurn tíma hægt?
    Ég held að hæstv. félmrh. ætti að manna sig upp og fara með eina skjalatösku út og selja og sjá hvort það kemur ekki hreyfing á liðið hér heima.
    Það var einu sinni umræða í Frjálsri þjóð um kaup ákveðins lögfræðings á víxlum með afföllum sem hann seldi svo einum af ríkisbönkunum. Svo hörð urðu þau skrif að ærulaus fór sá lögfræðingur frá um síðir. Nú eru afföllin eitt af því sem allir sérfræðingar sáu fyrir. Hvenær verða afföllin svo há að hæstv. félmrh. fari að hafa áhyggjur af þessum húsbréfum sem keypt eru með afföllum?
    Mér er ljóst að gamla kerfið byggði á þeirri hagfræði að fyrst yrði að vera til sparnaður og svo yrði hægt að lána. Nú hafa menn snúið þessu við. Nú eru bréfin prentuð og svo er látið á það reyna hvort einhverjir vilja kaupa þau og hvort lán getur orðið til með

þeim hætti.
    Ég held að þessi umræða um húsbréfin hljóti að verða til þess að menn hugleiði hvar landamærin eru. Hvenær telja menn að þetta sé ekki í lagi? Upp í hvað eru afföllin komin þegar þar að kemur?
    Ég hlýddi hér áðan á hæstv. iðn. - og viðskrh. þessarar ríkisstjórnar. Reyndar finnst mér að þar fari í reynd yfirráðherra ríkisstjórnarinnar, sá sem leiðbeini í öllum málaflokkum sem ríkisstjórnin fæst við og fyrst og fremst muni honum ætlað að leiðbeina hæstv. forsrh.
Sú umræða fjallaði um gengismál. Og sú umræða fjallaði um það hvort rétt væri að binda gengi íslensku krónunnar við evrópumynt Efnahagsbandalags Evrópu. Hvort það væri skynsamleg ráðstöfun. Hvort það væri verið að skerða þau stjórntæki sem við hefðum eða ekki. Hæstv. viðskrh. er fullkunnugt um það að Svíar hyggjast ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Hæstv. viðskrh. er fullkunnugt um það að miklar hræringar eru í Noregi um að gera það einnig. Hæstv. viðskrh. er fullkunnugt um það að þessar þjóðir eru með allt annað hlutfall milli útflutnings og viðskipta innan lands en Íslendingar. Allt annað hlutfall og allt önnur hlutföll líka innan Evrópu en við Íslendingar. Hæstv. ráðherra er farinn að hrista höfuðið og batnar nú lítið ástandið við það. Hæstv. ráðherra vill aftur á móti gera tilraun til að verja það í reynd að hann er höfuðsmiður þeirrar kenningar að það beri að aga íslenskt atvinnulíf með þeim hætti að neyða menn til að afhenda þann erlenda gjaldeyri sem þeir hafa aflað undir sannvirði. Þannig vill hann aga íslenskt atvinnulíf og enn hristir hæstv. ráðherra höfuðið.
    Ég vil minnast þess að viðreisnin stóð frammi fyrir ýmsum erfiðum ákvörðunum. Það var kannski ekki svo erfitt að stjórna þegar síldin óð hér við strendur þessa lands og auðvelt var að selja síldina. En þegar síldarstofninn hrundi og gengi íslensku krónunnar var orðið svo vitlaust að það náði engri átt, þá þurfti að taka erfiðar ákvarðanir og þá reyndi á menn hvort þeir þyrðu að taka erfiðar ákvarðanir og þeir tóku þær. Þeir felldu gengi íslensku krónunnar, mun hæstv. viðskrh. vafalaust segja. Ég segi: þeir gerðu tilraun til að skrá það rétt. Og ég vil bæta því við að ég tel það hættulegri leik í íslenskum efnahagsmálum en nokkuð annað að falsa gengi íslensku krónunnar.
    En sú viðleitni að það þurfi að aga íslenskt efnahagslíf og það þurfi að halda aga á viðskiptum er ekki nýtilkomin á Íslandi. Til forna var það þannig að goðarnir réðu verði erlendra kaupmanna sem komu hér með varning og vildu selja. Goðarnir fóru fyrstir til skips. Þeir máttu ráða hvað þeir keyptu af varningnum og þeir verðlögðu jafnframt. Þorgrímur goðorðsmaður úr Haukadal gekk að vísu dálítið lengra því hann borgaði ekki varninginn og þegar Austmenn gerðu athugasemd við það þá fór hann til og drap þá. Enda hygg ég að það hafi orðið til að fækka þó nokkuð viðskiptum erlendra kaupmanna við Vestfirði. Engu að síður þá stóðu deilurnar löngum milli þessara innlendu valdsmanna sem vildu halda aga á þessum viðskiptum og hinna erlendu. Og niðurstaðan varð

sú að siglingar til landsins lögðust verulega af því að það var þó nokkur áhætta sem kaupmennirnir tóku, að búa við það að goðorðsmennirnir skyldu hafa þetta vald. En það er ekki minni áhætta sem þeir Íslendingar taka í dag sem glíma við að afla þessari þjóð gjaldeyris þegar hæstv. viðskrh. er þeirrar skoðunar að Seðlabanki Íslands eigi að kaupa gjaldeyrinn á því verði sem Seðlabanka Íslands þóknast. Og nú ætli Seðlabanki Íslands að binda þetta fast og það verði alveg sama hvaða vitleysur verða gerðar í íslenskum efnahagsmálum, alveg sama hvernig markaðsmál þróast, þetta verður keypt á ákveðnu verði af Seðlabanka Íslands og menn eru skyldugir að selja.
    Þetta er nú stefna sem segir sex. Það er ekki skrýtið þó hæstv. viðskrh. telji að það þurfi að pakka þetta inn í góðar umbúðir, glanspappír, til þess að koma þessu niður í annað sinn því menn minnast þess hvað þetta var kallað í fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, þegar þetta var kallað fastgengisstefna og varð banabiti þeirrar ríkisstjórnar. Einfaldlega vegna þess að það gengur ekki upp að láta sér detta það í hug að afsala sér því hagstjórnarvaldi sem felst í því að leiðrétta gengisskráningu þegar vitleysan hefur átt sér stað.
    Auðvitað vilja allir Íslendingar að efnahagsmál í þessu landi þróist á þann veg að við búum við sem stöðugast verðlag. Hver vill það ekki? Ég þekki engan sem ekki vill að þannig sé staðið að efnahagsmálum. En það er ákaflega sérstætt að telja að hægt sé að stöðva verðbólguna í frystihúsunum, stöðva hana hjá þeim hluta sem vinnur að gjaldeyrisframleiðslunni þegar aðrir hafa frelsi til að vaða áfram með hækkanir.
    Ég vil trúa því að núv. hæstv. forsrh. muni hugsa sig um tvisvar áður en hann fer út í það fen að láta hæstv. viðskrh. heilaþvo sig í þessum efnum. Ég trúi því að hann muni hugsa sig um tvisvar. Og eitt veit ég fyrir víst, að hæstv. sjútvrh. mun ekki láta það gerast aftur að hann verði ruglaður í ríminu hvað þetta snertir. Það er nefnilega svo að sporin hræða.
    Hæstv. viðskrh. er málsnjall maður og ákaflega snjall í að setja fram ýmsar hugmyndir og flytja þannig fram mál að þingmenn trúa í fyrsta skipti. Ég hygg að það væri fróðlegt fyrir þá sem eru að koma hér í þingið núna að lesa það sem sagt var um Bifreiðaskoðun Íslands hf. af hæstv. ráðherra. Það er skemmtileg kvöldlesning ef menn hafa ekki reyfara við hendina og bera svo saman hvað gerðist. Ætli það hafi í annað sinn verið meira logið að þinginu en í þetta skipti? Ég efa það. Og það sem verra er. Það er búið að koma óorði á sölu ríkisfyrirtækja með tiltækinu, hreinu óorði á sölu ríkisfyrirtækja. Menn eru bara logandi hræddir og spyrja: Fer þá með þetta eins og með Bifreiðaskoðun Íslands hf.? Og enn vaknar spurningin: Á hvaða forsendum voru allar skuldir húsbyggjenda á Íslandi hækkaðar með frv. til laga um Bifreiðaskoðun Íslands hf.? Og hvers vegna voru þær hækkaðar? Vegna þess að þetta hækkaði verðbólguna í landinu og þar með vísitöluna og þar með skuldirnar. Allt tengt saman sjálfvirkt.

    Nei, hæstv. viðskrh. Því miður hefur það gerst að við höfum mátt upplifa það sumir hverjir að þrátt fyrir mjög vandað málfar, góða framsetningu, yfirvegaða rósemd hér í ræðustólnum þá hefur niðurstaðan verið hrein martröð.