Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og reyndar hefur komið fram í ræðum manna hér áður þá er ég nýr í þinginu og eins og nýir þingmenn að læra. Ég hef gaman af því. Eitt af því sem ég læri er þetta: Það er gert ráð fyrir því, sem sjálfsagt auðvitað er, að ráðherrar sitji hér og hlusti á allar umræður sem snerta þann málaflokk sem þeim tengist. En jafnframt gera menn ráð fyrir því að þingmenn geti verið á vappi og komi hér lítið. Spurt spurninga og farið svo. Svo er þeim svarað og þá koma aðrir þingmenn og spyrja sömu spurninganna og jafnvel fara svo. Þetta getur gerst nokkrum sinnum. Þetta er sennilega einhver venja sem hér er en fyrir nýjan þingmann og reyndar í senn nýjan ráðherra er þetta afskaplega skrýtin aðferð sem notuð er. ( ÓRG: Pálmi Jónsson er alveg snillingur í þessu.) Mér finnst nú sá þingmaður sem kallaði fram í vera snillingur í ýmsu og reyndar líka í þessu.
    Ég ætla þess vegna ekki hér og nú að fara yfir allar þær spurningar sem fram hafa komið því flestum þeirra hefur nú verið svarað áður. Ég tel þó að sumar ræður hafi verið afskaplega gagnlegar. Fyrir mig hafa þær líka verið gagnlegar og ég vona að fyrir þingheim allan og þjóðina hafi verið gagnlegt að sjá staðfestingu þess að hið fyrra stjórnarsamstarf, sem menn sumir hverjir syrgja svo mjög, var gersamlega gengið sér til húðar og gat ekki áfram gengið. Og ég segi nú fyrir mig að ef ég hefði verið ráðherra af hálfu Alþfl. og setið síðan undir þeim árásum öllum sem þeir hafa hér gert þá hefði ég velt fyrir mér hvernig þessir ágætu hv. þm., fyrrv. samstarfsmenn mínir, hafi ætlað sér að sitja með mér áfram í ríkisstjórn. Það hafa ekki verið spöruð stóryrðin og árásirnar á fyrrum samstarfsmenn hér í þessum þingsal við þessa umræðu.
    Hv. 2. þm. Vestf. sagði í lok sinnar ræðu og þá var hann reyndar ekki staddur á landnámsöld eins og verulegan hluta af ræðunni: ,,Verst er þegar leiðrétta þarf þegar vitleysan hefur átt sér stað`` og þá átti hann við gengið. Að það væri erfitt að þurfa að leiðrétta það þegar vitleysa í þeim efnum hefði átt sér stað. Þetta má hv. þm. núna færa yfir á vextina. Það kom nefnilega í hlut þessarar ríkisstjórnar sem nú er að leiðrétta það mál þegar vitleysan hafði átt sér stað allt of lengi.
    Það kemur að þætti sem margir hv. þm. hafa vikið að, m.a. hv. 11. þm. Reykv., um hvernig atvinnulífið gæti þrifist við vaxtahækkun af þessu tagi. Þingmaðurinn spurði hér hvort ég teldi og ríkisstjórnin teldi að atvinnulífið þyldi 10 -- 12% raunvexti. Ég er þeirrar skoðunar að ekkert atvinnulíf hvorki hér né annars staðar þoli slíkt til lengdar. En ég er með sama hætti sömu skoðunar og forsvarsmenn atvinnulífsins, til að mynda formaður Vinnuveitendasambandsins, sem hafa sagt að sú vaxtahækkun sem þessi stjórn greip til hafi verið vondur kostur en þó óhjákvæmilegur. Við, ráðherrar þessarar ríkisstjórnar, höfum sagt það að þessi kostur sé vondur, hafi þó þurft að gerast fyrr og þá í minna mæli og það sé verkefni stjórnarinnar, og

reyndar hefur hún þegar haldið á stað í það verkefni, að skapa hér skilyrði þess að þessir háu vextir geti gengið niður á ný þannig að atvinnulífið hafi eðlilegt svigrúm. Atvinnulífið hefur ekki eðlilegt svigrúm til lengdar við vaxtastig af þessu tagi. Það fer ekkert á milli mála í mínum huga. Það hefur að vísu búið við það áður tímabundið.
    Ég minnist þess reyndar að þau einu ríkisskuldabréf sem ég á persónulega keypti ég 1986 þegar hv. 7. þm. Reykn. var forsrh. og þau bera 9% fasta vexti. Það var undir forustu Framsfl. sem þessir vextir voru settir. Það vaxtastig er afskaplega hátt. Það vaxtastig sem við höfum, gagnvart okkar þætti ríkisins, orðið að stilla okkur á um þessar mundir er verulega lægra, en þó afskaplega hátt. Þetta viðurkennum við og við gerum okkur grein fyrir að aðgerðin var nauðsynleg en forsenda okkar starfa er sú að vextir megi lækka á ný og við höfum þegar hafið það verk eins og hefur komið fram hjá fjmrh. ( Gripið fram í: Hvenær kemur það til framkvæmda?) Það kemur til framkvæmda í rauninni strax að hluta til að skapa þá stöðu gagnvart búskap ríkisins að þunginn í fjármagni sem ýtir vöxtunum upp minnki. Ég vænti þess að það sem gerist með þessar ráðstafanir okkar dugi til þess að það jafnvægi skapist, sem var í ójafnvægi komið, og að með haustinu muni vextir lækka á nýjan leik. Ég bind vonir við það.
    Hv. 5. þm. Suðurl. flutti hér mjög mikilúðlega ræðu og ágæta og ábyggilega vel meinta til okkar í ríkisstjórninni og óskaði okkur góðs en taldi okkur þó vera á villigötum. Hann taldi að við værum að stefna þjóðarsátt í voða og ganga þar götuna aftur á bak. Ég fullyrði að þetta er hið gagnstæða. Við erum einmitt að koma böndum á það sem úr böndum hafði farið. Ég tel að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til muni þýða það að jafnvægi haldist og þær upplýsingar sem við höfum benda til þess að með þessum aðgerðum muni kaupmáttur launa verða heldur hærri út árið en gert var ráð fyrir við framlengingu kjarasamninga í nóvember. Þess vegna er það ekki rétt hjá þingmanninum að við séum að stofna í hættu samskiptum og samningum við launþega. Þvert á móti erum við að koma í veg fyrir að þeir hlutir gerist sem aðrir hér höfðu stofnað til að gætu gerst. Þess vegna er engin hætta á því sem þingmaðurinn nefndi að þessi ríkisstjórn mundi rústa efnahag landsins á einu sumri, eins og hann orðaði það með svo stórbrotnum hætti. Enda þótt hann sé nú nær búskap en ég er þá skildist mér á honum að hann hefði það háttalag að fara í reiðtúr eftir að hann hefði tekið beislið úr hestinum og þeysti síðan um grundir. Það var ekki gert þar sem ég var í sveit. En það kann að vera að það gildi á Suðurlandi. ( ÓÞÞ: Hvar var hæstv. forsrh. í sveit?) Í Svartárdalnum, herra þingmaður, hjá góðum og gegnum framsóknarmönnum.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. fór yfir nokkra þætti í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og það sem nefnt var í stefnuræðu einkum varðandi einkavæðingu fyrirtækja eða útboð og bað um nánari skýringar á þessum þáttum. Það hefur nú komið áður fram að með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru menn auðvitað að setja meginlínur og draga þær meginlínur sem stjórnin ætlar að ganga eftir. Menn hafa ekki tekið ákvörðun um það, og það hefur ekkert farið leynt, á þessu stigi nákvæmlega hvaða fyrirtæki það eru sem seld verða. Þó hafa mörk verið sett og skorður reistar. Við höfum þannig sagt til að mynda að fyrirtæki sem væru í eðli sínu einokunarfyrirtæki væru síður seljanleg en hin. Þar væri mun erfiðara við að eiga. Þó er það þekkt að fyrirtæki sem hafa einokunareðli hafa verið seld annars staðar og það dæmi hefur gengið upp. Það er að vísu í stærri löndum en okkar en það hefur þó gengið upp. En þar verða menn að mínu viti að fara miklu varlegar en þar sem öðruvísi horfir.
    Þingmaðurinn nefndi að hann sæi ekki að einkavæðing í velferðarþjónustunni gæti komið til greina. Ég er ósammála honum. Auðvitað getur einkavæðing í velferðarþjónustunni komið til greina en þó með þeim hætti að velferðarþjónustan verði ekki skert og e.t.v. með þeim hætti að menn geti fremur notið hennar í vaxandi mæli vegna þess að menn fái hana við lægra gjaldi en ella væri.
    Jafnframt var spurt um hvaða gjöld menn hefðu hugsað sér að taka eða hvers eðlis þau gjöld væru fyrir þjónustu sem veitt væri. Þetta hefur ekki verið tiltekið en slíkt hefur auðvitað verið rætt, bæði hér inni á þinginu og annars staðar. Hugsunin er auðvitað sú að gera mönnum ljósan þann kostnað sem á bak við þjónustuna býr, auka kostnaðarvitund þeirra sem þjónustunnar njóta, en um leið hljóta menn auðvitað þegar gjaldtaka hefst með þessum hætti að lækka þá skatta á móti þegar gjald er tekið. Það held ég að sé enginn vafi á að menn eiga að gera.
    Það hefur töluvert verið rætt um þá ákvörðun að hækka vexti á hinu gamla húsnæðiskerfi og menn tala þar um að þeir vextir séu afturvirkir.
Ég vil nú vara menn við því að nota orðalag af þessu tagi því það er villandi. Það væru jú afturvirkir vextir ef vextir væru hækkaðir á þeim afborgunum sem menn hafa þegar greitt. Það væru afturvirkir vextir. Það eru ekki afturvirkir vextir þegar vextir eru hækkaðir á lánum þar sem áskilið er að vextir séu breytilegir, þannig að menn gátu við því búist að slíkir vextir hækkuðu. Það eru ekki afturvirkir vextir í þeim skilningi sem það orð tekur til. Til að mynda í þeim banka sem hv. 5. þm. Suðurl. mun vera formaður fyrir breytast vextir af þessu tagi. Ég tók eitt sinn sjálfur lán í þeim banka og þeir vextir hækkuðu reglubundið ef vextir hækkuðu og reyndar, rétt að taka það fram að þeir höfðu tilhneigingu til að lækka þó aðeins hægar ef vextir lækkuðu. Þetta voru breytilegir vextir. Ég leit ekki þannig á að þar væri um afturvirka vexti að ræða. Ég bið því menn að fara varlega í notkun hugtaka af þessu tagi.
    Ég er líka undrandi á því hversu mjög menn hafa haft uppi stór orð varðandi þann þátt stefnuyfirlýsingar sem lýtur að hugsanlegri tengingu við hið evrópska myntkerfi. Þar tala menn um könnun á því efni og könnun þá væntanlega á kostum þess. Ókostir þess hafa verið nefndir. Auðvitað eru ókostir fylgjandi

slíkri ráðagjörð, en um leið og kostir eru kannaðir þá ætla menn auðvitað ekki að horfa fram hjá þeim ókostum sem kunna að vera. ( Gripið fram í: Það eru góð tíðindi.) Það eru tíðindi sem þingmaðurinn gat gefið sér sjálfur. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn hefur ekki kannað ræðuna grannt. Það er fjarri öllu lagi því það er jafnan tekið fram að menn ætli að kanna þessa kosti. Ef þeir eru hagfelldir þá verða þeir farnir. Það er einmitt verið að skapa með slíkri aðgerð heilbrigðari skilyrði fyrir atvinnulífið þannig að atvinnulífið viti að hvaða kjörum það gengur. Auðvitað hafa menn talað um gengisfellingarnotkun eins og hún var hér á árum áður. Við vitum það vel að þá var gjarnan í samningum samið með gengisfellingu í huga. Aðilar sem höfðu ekkert með gengið að gera sömdu upp á gengisfellingu. Þekkingin er orðin meiri núna og menn vilja ekki þau vinnubrögð á nýjan leik.
    Þarna hafa menn haft uppi allt of stór orð um þennan þátt sem ég held að geti verið mjög til framdráttar, en ég hef þennan fyrirvara, eins og hæstv. viðskrh. sló hér mjög fastan, menn eru að kanna hér kosti. Séu kostirnir ekki nægjanlegir þá verður aðferðin ekki notuð.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði jafnframt hvað þýddi ákvæði um það í stefnuyfirlýsingu að auka bæri jafnræði með kjósendum. Mér er nú fyrirmunað að átta mig á hvers vegna þarf að skýra þessa setningu. Mér finnst hún reyndar segja allt sem segja þarf í þessum efnum. Það er mál manna að auka beri jafnræði með kjósendum. Menn vilja að atkvæði fylgi eins og kostur er persónu manna, ekki búsetu. Við viðurkennum á hinn bóginn að að sjálfsögðu verða menn að fara þar að með gát. Þetta þarf allt sinn aðlögunartíma, en það hlýtur þó að vera markmið í sjálfu sér, sem ég held að flestir þingmenn hljóti að hafa, að þetta jafnræði beri að auka. Mér finnst reyndar textinn þarna, eins og víðast annars staðar í þessari knöppu stefnuyfirlýsingu, vera afskaplega skýr og klár.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi vikið að flestum þáttum sem menn hafa hér drepið á sem ekki hefur verið svarað áður af öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Hæstv. félmrh. hefur svarað mörgum árásum á ráðherrann og ég verð að segja það alveg eins og er að ég er alveg undrandi á því hve framsóknarmenn hér, hv. þm., hafa ráðist af mikilli hörku á félmrh. sem sat allt þar til fyrir skömmu í ríkisstjórn með þeim. Ég tel að Framsfl. geti ekki og eigi ekki að komast upp með að bera ekki ábyrgð á verkum sem unnin eru í stjórn sem flokkurinn hefur forsæti fyrir. Ég hef a.m.k. tekið eftir því að ef eitthvað hefur vel verið gert þá er það sérstaklega nefnt að það hafi verið gert af ríkisstjórn sem var undir forustu Framsfl. En síðan getur hver þingmaðurinn á fætur öðrum komið hér með stórar árásir á samstarfsmenn sína og látið eins og viðkomandi ráðherrar og stjórnarflokkur hafi verið gjörsamlega ábyrgðarlaus. Mönnum á ekki að haldast það uppi. Menn eiga ekki að komast upp með það og ég held að þeir komist ekki upp með það.