Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska eftir því að hæstv. utanrrh. verði viðstaddur innan tíðar, því ég hyggst bæði beina til hans fyrirspurnum og kynna fyrir honum texta sem ég held að sé gott að hann rifji upp.
    Hæstv. forsrh. lýsti undrun sinni á því að í þeirri umræðu sem hér hefði farið fram hefðu komið fram mismunandi áherslur hjá stuðningsmönnum fráfarandi ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. þarf ekkert að vera undrandi á því. Það er eðli stjórnmálanna í landinu að flokkar með ólíkar skoðanir hafi mismunandi áherslur.
    Hitt er hins vegar nokkuð sérstakt, sem hefur sett svip sinn á þessa umræðu, að annar stjórnarflokkurinn fullyrðir að stefna ríkisstjórnarinnar sé svona og hinn stjórnarflokkurinn fullyrðir að hún sé hinsegin. Maður fær engin svör frá forsrh. um það hver hún er.
    Það er kannski til þess að forðast einhverjar deilur hér milli forsrh. og einstakra ráðherra að sú leið er valin. Ég nefni t.d. þessa umræðu um vextina. Hún er dálítið sérkennileg af hálfu hæstv. forsrh. og reyndar hæstv. viðskrh. líka.
    Í fyrsta lagi er talað um að það hafi verið mikil nauðsyn á að hækka hér vextina. Í þeirri fullyrðingu er enginn greinarmunur gerður á vöxtunum á ríkisvíxlunum annars vegar og á spariskírteinum ríkissjóðs hins vegar. Það er auðvitað málflutningur sem hvorki er samboðinn hæstv. viðskrh., hæstv. fjmrh. né hæstv. forsrh. Því það er auðvitað alveg ljóst að það liggja allt önnur rök á bak við það að hækka vexti á skammtímapappírum eins og ríkisvíxlum, sem eru til tveggja vikna eða jafnvel aðeins lengri tíma, til þess að bregðast við ákveðnum aðstæðum í peningamálum um skamma stund og svo hins vegar að hækka grundvöll allra vaxta í hagkerfinu með því að hækka vextina á spariskírteinum ríkissjóðs um 30%. Það er allt önnur aðgerð, hæstv. ráðherrar. Það er ekki hægt að bjóða þinginu það og efnahagsumræðunni í landinu að ræða þetta eins og ráðherrar hafa gert hér án þess að gera nokkurn greinarmun á þessu tvennu og tala um hvort tveggja sem bundið af hinni sömu nauðsyn.
    Ég hef sagt það og menn hafa vitnað í þau ummæli mín hér nokkrum sinnum að það voru viss rök fyrir því að hækka vextina á ríkisvíxlunum eitthvað. Ég hef aldrei neitað því. ( Fjmrh.: Af hverju var það ekki gert?) Það var ekki gert, hæstv. fjmrh., vegna þess að það stóðu deilur milli fjmrn. og Seðlabankans um það hvort það ætti að knýja vexti viðskiptabankanna niður eða fara með vexti ríkisvíxlanna upp. Ég hefði hins vegar ekki farið eins hátt og hæstv. ráðherra gerði vegna þess að það var í raun og veru algjör uppgjöf í þessari glímu. En að hækka svo vextina á spariskírteinum í kjölfarið fól í sér grundvallarbreytingu á öllu peningakerfinu í landinu.
    Við glímdum við það hér í tæp tvö ár að ná raunvöxtunum niður um rúmt 1%. Ég get sagt hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. það að ef þeir halda að þeir taki

raunvextina á spariskírteinunum niður aftur um þriðjung í haust þá lifa þeir í einhverri sérkennilegri veröld. Það er einhver sérkennileg veröld. Ég vildi þess vegna spyrja vegna ræðu hæstv. forsrh.: Er það virkilega ætlunin hjá hæstv. ráðherrum að það eigi að skilja þá á þann veg að þessa vaxtahækkun á spariskírteinunum eigi að taka til baka í haust? ( ÓÞÞ: Það kom mjög skýrt fram.) Því miður, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, þó að ég viti nú að þingmaðurinn hlustar venjulega vel og les vel, þá held ég að hæstv. ráðherrar hafi sagt ,,vextirnir`` og ekki gert greinarmun þar á hvort þeir voru að tala um vextina á ríkisvíxlunum eða vextina á spariskírteinunum. Þess vegna spyr ég: Eru þeir að tala um hvort tveggja eða eru þeir bara að tala um vextina á ríkisvíxlunum?
    Það er auðvitað alveg nauðsynlegt fyrir atvinnulífið og peningakerfið í landinu og almenning að fá að vita hvort það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka vextina á spariskírteinunum aftur niður í 6% í haust. Og ég spyr hæstv. forsrh. sem sagði þetta hér áðan, hann verður að tala alveg skýrt --- ber að skilja ráðherrann á þann veg?
    Mér fannst hins vegar koma ansi skemmtileg og persónuleg skýring hjá hæstv. ráðherra í léttum dúr á því hvers vegna hann hefði hækkað vextina á spariskírteinunum, því hæstv. forsrh. upplýsti það hér að hann hefði eingöngu keypt spariskírteini þegar vextirnir voru 9%. Síðan hefði hann ekki keypt spariskírteini og var greinilega komið að því að ráðherrann átti dálítinn sjóð og vildi kaupa aftur. (Gripið fram í.) Já, það er hins vegar rétt og rétt að halda því til haga í þingtíðindunum að núv. hæstv. fjmrh. hins vegar gerðist áskrifandi að spariskírteinum ríkisins í minni tíð þegar vextirnir voru um 6% og sýnir það að hann er bæði þjóðhollur og skynsamur maður.
    En um þetta verður auðvitað að spyrja alveg nákvæmlega og fá nákvæm svör.
    Í þessari vaxtaumræðu hefur hæstv. forsrh. einnig, kannski í þeim anda að ekki megi deila við hæstv. félmrh., og ég skil það nú vel svona í byrjun alla vega, ekki minnst á vaxtasamkeppni húsbréfanna og spariskírteina ríkissjóðs. Meginástæðan fyrir því að það gengur erfiðlega að selja spariskírteini ríkissjóðs eru húsbréfin. Og ef hæstv. forsrh. trúir mér ekki í þeim efnum þá getur hann kallað til fundar við sig framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, Þórarin V. Þórarinsson, og spurt hann. Og ef okkur ber nú saman, bæði mér og Þórarni V. Þórarinssyni, þá er kannski eitthvað til í því sem við erum að segja. En Þórarinn V. Þórarinsson sagði það hér fyrir skömmu að aðalmeinið í vaxtamálum ríkisins væri það að ríkið væri að keppa við sjálft sig. Það væri ekki hallinn á ríkissjóði, hann er að vísu almennt vandamál og hefur verið og verður, en vandinn núna einmitt á þessum tímapunkti og á næstu vikum og mánuðum í peningakerfi þjóðarinnar er samkeppni ríkisins við sjálft sig, milli spariskírteinanna annars vegar og húsbréfanna hins vegar. Og á þetta grundvallaratriði, lykilatriði málsins, minntist hæstv. forsrh. ekki.
    Ég ætla hins vegar að hlífa honum við því að

spyrja hann að því hvernig hann ætli að komast hjá þessari samkeppni. Því ef hann kemst ekki hjá henni þá er alveg ljóst að þessi vaxtahækkun sem nýlega var ákveðin skilar engu. Það held ég að verði niðurstaðan að eftir nokkrar vikur munu hæstv. ráðherrar hafa uppgötvað það að þetta mikla patent sem þeir eru búnir að lýsa hér í umræðunum að sé þeirra eina patent til þess að leysa vandamálin muni engu skila. Þess vegna vil ég spyrja hér: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera ef þessi vaxtahækkun skilar ekki þessum árangri? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar sem hún ætlar sér að grípa til ef í ljós kemur að þessi vaxtahækkun skilar ekki tilætluðum árangri? Á þá að hækka vextina enn meira? Á þá að fara með vextina á spariskírteinunum kannski upp í þessi frægu 9%, þegar hæstv. forsrh. keypti síðast? Þannig að bankakerfið allt sé komið með raunvextina upp í 11 -- 12%? Og eins og hæstv. forsrh. sagði hér áðan þá þolir ekkert atvinnulíf slíkt. Það er alveg rétt hjá honum.
    Þess vegna hefur það komið fram hér í umræðunum og að því leyti eru þessar umræður gagnlegar að hæstv. ríkisstjórn hefur bara eitt patent og það er fullkomin óvissa um hvort það virkar eða ekki. Ég er satt að segja þeirrar skoðunar að það muni ekki virka. Ég ætla ekki að fullyrða það alveg hér og nú að það muni alls ekki virka, en ég er þeirrar skoðunar að það muni ekki virka.
    Málið er nefnilega þannig, hæstv. forsrh., að vandi ríkisfjármálanna verður ekki leystur með vaxtabreytingum. Vandi ríkisfjármálanna verður leystur annaðhvort með því að skera niður útgjöldin eða auka tekjurnar eða gera hvort tveggja. Með því að telja sjálfum sér trú um það, eins og hæstv. forsrh. gerði í stefnuræðu sinni, að valið standi milli skattahækkunar og vaxtahækkunar er verið að rugla algjörlega saman tveimur atriðum. Vaxtahækkunin er einfaldlega afleiðing af því að menn hvorki völdu niðurskurð á ríkisútgjöldum né skattahækkun. Eða með öðrum orðum, að ríkisstjórnin hefur ekki viljað taka á grundvallarvandamálum ríkisbúskaparins að sinni. Það er auðvitað merkilegt í ljósi þess að mér sýnast tölur benda til þess að tekjustig ríkisins á þessu ári verði lægra hlutfall af landsframleiðslu en í fyrra og lægra hlutfall en stefnt er að í gildandi fjárlögum, eða með öðrum orðum að ríkisstjórnin ætli sér ekki að sækja einu sinni þær tekjur sem stefnt er að í fjárlögunum. Ég spyr bara: Hvaða efnahagsleg skynsemi er í því? Auðvitað veit ég að Sjálfstfl. söng þennan söng hér í stjórnarandstöðunni og í kosningunum að þeir mundu ekki hækka skatta. En þeir gætu þó skotið sér á bak við það að í fjárlögunum er gengið út frá ákveðnu tekjustigi og hvers vegna ekki að taka það? (Gripið fram í.) Það er vegna þess, ágæti ráðherra, sem virðist líta á að árið hafi endað á kjördag í apríl, að þær aðferðir sem við töluðum þá um, sérstaklega hækkun á áfengi og tóbaki, var ólíkleg að skila þeim tekjuauka sem þurfti. Eins og ég hef bent hæstv. ráðherra á við annað tækifæri er það að seinka lækkun jöfnunargjaldsins aðferð sem gæti dugað. Ég er alveg viss um það að forsvarsmenn iðnaðarins mundu fagna því að

þeirri áformuðu niðurþrepun á jöfnunargjaldinu sem er í lögum verði breytt þannig að jöfnunargjaldið verði óbreytt til næstu áramóta. Það mundi a.m.k. hjálpa til upp í það sem reiknað var með í fjárlögunum.
    Hæstv. forsrh. sagði hér að þessi vaxtahækkun væri gerð til þess að varðveita þjóðarsáttina. Ég vil nú mælast til þess við hæstv. forsrh. að hann biðji hæstv. fjmrh. að segja sér frá ræðu formanns BSRB sem hann flutti í dag á þingi BSRB vegna þess að hæstv. fjmrh. var viðstaddur þegar sú ræða var flutt. Í þeirri ræðu skorar formaður BSRB í fyrsta sinn síðan þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir á félagsmenn BSRB til þess að koma til sérstakra fjöldaaðgerða, til þess að mótmæla atlögu ríkisstjórnarinnar að þjóðarsáttarsamningunum.
Það er því alveg ljóst að forusta BSRB er ekki á sömu skoðun og hæstv. forsrh. Hún sér sérstaka nauðsyn á því að kalla í setningarræðu formanns BSRB á félagsmenn samtakanna til þess að mæta til sérstakra mótmæla til að standa vörð um þjóðarsáttina.
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því hér áðan að fá hæstv. utanrrh. í salinn. Ég vildi spyrja virðulegan forseta að því hvort ekki er hægt að verða við þeirri ósk. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að formaður Alþfl. sé viðstaddur umræðu um stefnuræðu forsrh. því það voru tveir menn sem sömdu um þessa stefnu og aðeins tveir. Þeir eru þeir einu sem vita nákvæmlega hvað í henni felst. Þótt ég hefði gaman af að spyrja varaformann Alþfl. ýmissa spurninga þá veit ég að það dugir ekki því varaformaðurinn var ekki í Viðey. Hefur m.a. áfram verið látinn sitja hérna óæðra megin í ráðherraröðinni í þessari nýju uppsetningu sem var búin ( FrS: Hver sat þarna megin á síðasta kjörtímabili?) Það er auðvitað alveg rétt, ég sat þarna megin, það er alveg rétt. En það tóku hins vegar allir eftir því við þingsetningu að forusta Sjálfstfl. og Alþfl. hafði búið til nýja röð. Hún var þannig að fyrst kom formaður Sjálfstfl., svo kom formaður Alþfl., svo kom varaformaður Sjálfstfl. og svo kom fyrrv. formaður Sjálfstfl. En hver situr í þessum stól hér? Það er maður sem hefur enga trúnaðarstöðu í Alþfl. og það er maðurinn sem lætur eins og hann sé varaformaður Alþfl., hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson. Þegar þetta var stokkað upp hefði auðvitað verið rétt að flytja hæstv. félmrh. líka hérna yfir. Það var ekki gert. Þar með var búið að gefa til kynna hvar þungavigtin í ríkisstjórninni liggur og hvar léttavigtin í ríkisstjórninni liggur. Það er nú svona aukaatriði í málinu. En ég spyr, virðulegur forseti, er ekki þess að vænta að hæstv. utanrrh. komi hér í salinn? ( Forseti: Forseti vill svara því játandi. Hæstv. utanrrh. hefur verið gert viðvart og hann verður væntanlega hér innan tíðar.)
    Meðan beðið er eftir hæstv. utanrrh. þá vil ég bara endurtaka þær spurningar mínar til hæstv. forsrh. eða annarra ráðherra:
    1. Hvað mun ríkisstjórnin gera ef þessi vaxtahækkun skilar ekki árangri?
    2. Hvernig hyggst forsrh. bregðast við samkeppni

húsbréfanna við spariskírteinin?
    3. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. og einnig hæstv. viðskrh.: Hafa viðræður farið fram við Landsbankann um þann mikla vanda sem hefur skapast í fjárhagsstöðu Landsbankans vegna þess hve Landsbankinn liggur með mikið óselt af húsbréfum?
    Síðast þegar ég vissi var Landsbankinn með yfir einn milljarð, síðustu tölur sem ég heyrði voru reyndar einn og hálfur milljarður. Ég skal ekki segja hvort þær eru réttar í dag. En það er alla vega yfir einn milljarður sem Landsbankinn liggur með í óseldum húsbréfum og það er miklu hærri upphæð heldur en Landsbankinn reiknaði nokkurn tímann með þegar hann bauðst til þess að verða viðskiptavaki fyrir húsbréfin. Og það er alveg ljóst að þetta mikla magn af óseldum húsbréfum sem liggur í Landsbankanum er að skapa mikinn vanda í rekstri Landsbankans. Ég vil þess vegna beina þeim spurningum til hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh. hvort viðræður hafi átt sér stað milli þeirra og Landsbankans um þetta mál.
    Meðan beðið er eftir hæstv. utanrrh. vil ég aðeins víkja að því sem sagt var um meðferð hæstv. iðnrh. á álmálinu. Hv. þm. Alþfl., leiðarahöfundar Alþýðublaðsins sem eru nú þögulir mjög í þingsölum, skrifa þeim mun oftar í fjórblöðunginn, og ráðherrar Alþfl. hafa mjög kvartað yfir því að við hefðum í kosningabaráttunni verið eitthvað ósanngjarnir við Alþfl. og það sé ein af skýringunum á því hvers vegna núv. ríkisstjórn var mynduð. Staðreyndin er hins vegar sú að við héldum verndarhendi yfir Alþfl., sérstaklega iðnrh., í þessari kosningabaráttu. (Gripið fram í.) Nei, samanber það að við ræddum hvorki um umhverfismálin sérstaklega né þetta fræga ,,og`` í kosningabaráttunni og afleik iðnrh. í samningunum og glímuna við erlendu fyrirtækin um að fá þetta ,,og`` út úr heiminum. Við ræddum heldur ekki um það hvernig hann prívat handsalaði raforkusamninginn þó hann segði við ríkisstjórnarborðið að hann kæmi ekki nálægt því að semja um raforkuverðið heldur væri Landsvirkjun með það. Við tókum ekki upp þá grundvallarspurningu: Sagði hann ríkisstjórninni ósatt í þessu stóra hagsmunamáli? Eru það erlendu fyrirtækin sem segja satt þegar fulltrúar þeirra sögðu við hæstv. forsrh. og samningamenn Landsvirkjunar þegar þeir reyndu að fá raforkuverðinu breytt: Það getum við ekki gert vegna þess að iðnrh. hefur handsalað okkur þennan samning? Ráðherrann sem sagði við ríkisstjórnarborðið mánuðum saman: Ég tek ekki þátt í að semja um raforkuverðið, það er Landsvirkjun sem gerir það. Hver segir satt, iðnrh. eða erlendu fyrirtækin eða hæstv. forsrh.? Ef það er rétt sem erlendu fyrirtækin og hæstv. forsrh. segja þá er það ljóst að hæstv. iðnrh. sagði ósatt við ríkisstjórnarborðið og það er alvarlegur hlutur, hv. þöguli þingmaður. Þetta ræddum við ekki í kosningabaráttunni. Og við ræddum heldur ekki viðræðufundinn sem ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar átti við samninganefnd Landsvirkjunar um raforkusamninginn. Þegar núv. hæstv. forsrh. lýsti þeim samningsdrögum sem núv. hæstv. iðnrh. handsalaði sem rússneskri rúllettu, sem væri svo mikið hættuspil að það

líktist helst rússneskri rúllettu. En rússnesk rúlletta er á þann veg að menn setja byssu upp að gagnauganu og það er eitt skot í einu gati og ef menn eru óheppnir þá er lífið á enda, í þessu tilviki Landsvirkjun komin á höfuðið. ( Gripið fram í: Hvar er friðurinn núna, Ólafur?) ( Gripið fram í: Hann er úti, það er ljóst.) Það er nefnilega alveg rétt, hv. þm., sem kom inn á þing í krafti vinstri stefnu og situr nú og styður harða hægri stjórn, þetta sögðum við ekki í kosningabaráttunni vegna þess einmitt að þá hefði verið spurt eins og hv. þm. spurði núna: Hvar er friðurinn nú? Við hlífðum nefnilega Alþfl. sérstaklega í kosningabaráttunni.
    Nú er hins vegar tími kominn til að spyrja vegna þess að við höfum ekki fengið að fylgjast með og fengum bara véfréttir sem svör hér áðan frá hæstv. iðnrh. Og ég vil spyrja í fyrsta lagi hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh.: Hafa orðið þær breytingar á raforkusamningnum að líkingin við rússnesku rúllettuna eigi ekki lengur við? Það er ekki samlíking sem var sett fram í einhverju kaffispjalli, það var samlíking sem var sett fram á formlegum samráðsfundi samninganefndar Landsvirkjunar og ráðherranefndar síðustu ríkisstjórnar í álmálinu. Hefur orðið sú breyting á raforkusamningnum að það sé ekki lengur hægt að líkja honum við rússneska rúllettu og hver er þá sú breyting?
    Í öðru lagi held ég að ég hafi tekið rétt eftir því að hæstv. umhvrh. hefur enn ekki kvatt sér hljóðs hér í kvöld. Er það ekki rétt með farið? En til hans var einmitt beint mjög mikilvægri spurningu. Spurningu sem snertir hið fræga ,,og`` í þeim samningsdrögum sem iðnrh. undirritaði sl. haust. Við sem sátum í ráðherranefnd fjögurra ráðherra í tíð síðustu ríkisstjórnar munum marga fundi í þeirri ráðherranefnd þar sem rætt var um það að Ísland gæti aldrei samþykkt samning um nýtt álver nema þetta ,,og`` væri á brott. Fyrrv. hæstv. forsrh. sagði hvað eftir annað á þeim fundum að hann mundi aldrei geta varið það fyrir samvisku sinni eða þjóð sinni að mæla með samningi þar sem Íslendingum væri meinað að gera þær kröfur í umhverfismálum sem bestar og réttastar væru taldar í veröldinni. Og fyrrv. umhvrh. á heiður skilið fyrir það, þó ýmsir hafi gert sér leik að því að hæðast að honum, þá á hann heiður skilið fyrir það að hann tók afdráttarlaust strax þá stefnu þegar okkur var ljóst hvers konar fingurbrjótur þetta ,,og`` var í textanum sem hæstv. iðnrh. hafði undirritað að hann mundi aldrei veita starfsleyfið fyrr en þetta ,,og`` væri á brott. Þess vegna er alveg nauðsynlegt fyrir okkur, og fyrir þingið í heild og sérstaklega fyrir okkur sem höfum fylgst með þessu máli í smáatriðum í rúmt eitt og hálft ár, að fá alveg skýr og ótvíræð svör við því frá hæstv. umhvrh.: Ætlar hann að standa jafnföstum fótum á þessari stefnu eins og fyrirrennari hans?
    Hæstv. iðnrh. sýndi okkur stundum uppkast að texta sem hann batt vonir við að erlendu fyrirtækin gætu samþykkt þar sem þetta ,,og`` var á brott. Þar sem Ísland gat með uppréttu höfði sagt að í samningum um nýtt álver væri lagður sá grundvöllur að hér

yrði að fara að sams konar umhverfisverndarkröfum og í öllum öðrum Evrópulöndum. Ég hef ekki heyrt af því að fyrirtækin hafi enn sem komið er samþykkt slíka texta. En það væri fagnaðarefni ef þau hefðu gert það, það væri fagnaðarefni. Því satt að segja er það þannig að ef þessi fingurbrjótur iðnrh. verður ekki á brott úr hinum endanlega samningi þá getur Alþingi ekki samþykkt þennan álsamning, það er ekki hægt. Það er bara ekki hægt. Okkur er sagt að á næstu dögum verði gengið til mikilvægra viðræðna um þetta atriði og þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. umhvrh. sérstaklega, því ég tel að hann sé maðurinn sem standi þessa vakt aðallega, segi það alveg skýrt hér í þingsalnum hvar hann ætli að standa. Nei, þetta ræddum við ekki í kosningabaráttunni, hv. þöguli þingmaður. Þetta ræddum við ekki í kosningabaráttunni vegna þess að við vildum ekki vera að bera á torg þessi vandamál ráðherra Alþfl. En það var af nógu að taka ef menn á annað borð hefðu viljað opna á þetta en það var ekki gert. Vegna þess að við vildum sýna samstarfsmönnum okkar ákveðinn skilning. ( Gripið fram í: Samanber fundinn í Kópavogi.) Fundurinn í Kópavogi, hv. þöguli þingmaður, var svar við fundi sem tveimur dögum áður var á Suðurnesjum þar sem Jónarnir tveir opnuðu skothríð á þann sem hér stendur og ef hv. þm. vill leita sér staðfestingar á því þá getur hann bara farið í registrið yfir fréttatíma útvarpsins og fundið út hverjir byrjuðu að skjóta í þeim slag. Það getur hann gert milli þess sem hann skrifar eindálkinn í fjórblöðunginn.
    Nú er það þannig, virðulegi forseti, að ég vil gjarnan fara að ljúka ræðu minni svona hvað úr hverju. En það er snúið fyrir mig ef hæstv. utanrrh. kemur ekki fljótlega í salinn --- en ég sé nú að hann er kominn hér í hliðarherbergi. Það er alla vega í áttina. ( Forseti: Hæstv. utanrrh. hefur verið hér allan tímann og hlustað vel.) Já, ég hef ekki vitað af honum fyrr en ég sé að hann er að lesa eitthvað í hliðarherbergi og ég læt mér það nægja. Ég ætla að bera hér fram við hæstv. utanrrh. tvær spurningar og síðan lesa fyrir hann nokkra texta.
    Í fyrsta lagi sagði hæstv. utanrrh. fyrir nokkru síðan að frá því hefði verið gengið milli hans og hæstv. forsrh. að Alþfl. fengi formennsku í þeirri nefnd sem ætti að móta hina nýju sjávarútvegsstefnu. Nú kom það fram hjá hæstv. forsrh. í dag að þetta er oftúlkun, svo notað sé frægt orðalag. Það hefur sem sagt að dómi forsrh. ekki verið samið um það að Alþfl. fái þennan formann, heldur var samið um að hæstv. sjútvrh. ætti að velja þennan formann en forsrh. treysti honum til að gera það skynsamlega. Nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh. að því hvernig standi á því að hann er að segja Alþfl. og þjóðinni frá því að Alþfl. eigi að fá þennan formann þegar forsrh. segir að það sé ekki frágengið. Það er kannski rétt að í leiðinni spyrji ég hæstv. forsrh. að því, af því að það hefur held ég aldrei verið gert í þessum umræðum: Hver eru rökin fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að hafa eingöngu tvo af þeim fimm flokkum sem eiga fulltrúa hér á Alþingi með í þessari nefnd? Í tíð síðustu ríkisstjórnar, ef ég man rétt, áttu allir flokkar fulltrúa í nefnd sem átti að móta tillögur um sjávarútvegsstefnuna. ( Forsrh.: Ég svaraði þessu áðan.) Já, það hefur þá kannski farið fram hjá mér. Ég mun þá bara fletta því upp í þingtíðindum. En ég hefði talið það skynsamlegra að hafa þar fleiri með. Um þetta þarf að myndast breið samstaða og það er alla vega ekki vænlegt fyrir flokka sem hafa samkvæmt skoðanakönnunum ekki lengur þingmeirihluta hér á Alþingi. Samkvæmt skoðanakönnunum fengju núv. stjórnarandstöðuflokkar meiri hluta á Alþingi einir ef kosið væri nú en Sjálfstfl. og Alþfl. væru í minni hluta. Það er ekki vænlegt fyrir slíka flokka að ætla sér að mynda nýja stefnu í jafnmiklu grundvallarhagsmunamáli þjóðarinnar eins og þetta er. Það er satt að segja dálítið merkilegt að við hinir flokkarnir skulum vera tilbúnir að taka þátt í þessari vinnu. En ég tek eftir því að menn óska ekki eftir því samstarfi.
    Hin spurningin sem mig langar að bera fram við hæstv. utanrrh. er hvernig standi á því að Alþfl. hefur samþykkt það að fjórða meginverkefni núv. ríkisstjórnar sé að framkvæma --- og ég legg áherslu á það enda stendur það í stefnuræðu forsrh. --- að framkvæma það sem stjórnvöld og fulltrúar bænda sömdu um á hinum síðari árum. Það er í raun og veru bara eitt sem stjórnvöld og samtök bænda hafa samið um á hinum síðari árum og það er búvörusamningurinn frægi. Mér vitanlega hafa stjórnvöld og bændur og samtök þeirra eiginlega ekki samið um neitt annað markvert á síðari árum.
    Við sátum í ríkisstjórn þar sem ráðherrar Alþfl. mótmæltu þessum búvörusamningi, neituðu að taka þátt í honum, bönnuðu að hann yrði lagður fyrir þingið og háðu sína kosningabaráttu gegn honum. Eftir að ríkisstjórnin var mynduð sagði hæstv. utanrrh. að þessi ríkisstjórn ætlaði sér að taka 4 milljarða út úr þessum búvörusamningi. Nú segir hæstv. forsrh. hins vegar að fjórða meginverkefni ríkisstjórnarinnar sé að framkvæma þennan búvörusamning.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh. að gefnu tilefni: Er þessi texti í stefnuræðu forsrh. samþykktur af Alþfl.? Er þetta rétt lýsing á stefnu ríkisstjórnarinnar þannig að Alþfl. geri enga athugasemd við þessa frásögn?
    Virðulegi forseti. Ég vona að mér verði fyrirgefið það þó ég taki svona eins og tíu mínútur eða svo til að lesa fyrir vin minn utanrrh. nokkra stutta texta. Það er nú þannig að við höfum brallað ýmislegt saman í pólitík, ég og hæstv. utanrrh. Þegar við vorum báðir ungir og efnilegir menn vorum við saman í litlum stjórnmálaflokki sem átti sér tvo leiðtoga, Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson. Og þegar ég kynntist hæstv. utanrrh. fyrst, ja, í alvöruumræðum um stjórnmál var hann á sumrum og stundum líka á vetrum íhlauparitstjóri við lítið vikublað sem ungir menntamenn og ungir vinstri menn og jafnaðarmenn á Íslandi töldu nú með einu því besta sem hafði verið gert í íslenskri pólitík um
þær mundir, Nýtt land -- frjáls þjóð. Og það er kannski u.þ.b. hálfur áratugur eða svo sem við áttum

nokkuð skemmtilega samleið, þó ég væri þá í Framsfl., a.m.k. skráður í hann lengst af á þeim tíma, en hæstv. utanrrh. væri skráður í Samtök frjálslyndra og vinstri manna og áður í Alþb. og við síðan báðir í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Ég hrökk þess vegna við þegar hæstv. utanrrh. sagði við myndun þessarar ríkisstjórnar: ,,Við eigum góðar minningar um viðreisnarstjórnina.`` Og þetta sagði hann ekki bara einu sinni heldur oftar. Í þeirri stefnuræðu sem flutt var fyrir hönd Alþfl. hér af hæstv. forsrh. er vitnað með mjög jákvæðum hætti til þessarar stjórnar. Mig langar til þess, hér tíu mínútum fyrir miðnætti, að skilja eftir hjá hæstv. utanrrh. nokkra texta úr ræðum og skrifum fjögurra manna um þessa viðreisnarstjórn, hvað þessir fjórir menn sögðu um þessa viðreisnarstjórn meðan hún var og hét og reynsla hafði fengist af henni. Ég vona að aðrir hv. þm. fyrirgefi mér þetta og ef þeir hafa ekki áhuga á þessum einkalestri mínum fyrir hæstv. utanrrh. þá er það allt í lagi mín vegna þó menn fari bara úr salnum.
    Fyrsti textinn er úr ræðu sem vinur okkar beggja, Björn Jónsson, flutti hér á Alþingi 1970. Þar segir með leyfi hæstv. forseta: ,,Að baki eru viðreisnarárin, lengsta æviskeið samfellds ríkisstjórnarsamstarfs meðal þjóðarinnar, og að sögn þeirra sem þar hafa búið við eina sæng, hið ástríkasta og samhentasta sem sögur fara af, æviskeið sem er orðið það langt að yngstu árgangarnir sem ganga að kjörborðinu í vor voru tæplega byrjaðir að draga til stafs þegar fyrsti sáttmáli núverandi stjórnarflokka var undirritaður. Engan þeirra undrar því lengur sú mikla furða að flokkar með svo gerólík markmið, Alþfl., fyrrum brjóstvörn snauðrar alþýðu með fána jafnaðarstefnunnar við hún, og flokkur stóratvinnurekenda og fjáraflamanna, skuli hafa lifað svo lengi í sátt og samlyndi. En nú er úti það ævintýri sem fáir hafa skilið, nema sem grínsögu frá því undarlega landi, Íslandi.``
    Annar textinn er í ræðu sem sami maður, Björn Jónsson, flutti á Alþingi árið áður, 1969. ( Fjmrh.: Í hvaða flokki varst þú þá?) Það upplýsti ég hér áðan, hæstv. fjmrh., þá var ég enn þá skráður í Framsfl. En ég bið nú hæstv. fjmrh. að vera ekki að blanda sér inn í þennan einkalestur minn fyrir hæstv. utanrrh. ( Viðskrh.: Er þingið ætlað til einkalesturs?) Nei, en af því að hæstv. iðnrh. var þjónn og uppeldissonur þessarar viðreisnarstjórnar og hefur alltaf haft á henni allt aðra skoðun en hæstv. utanrrh. og sambúð þeirra er orðin með þeim hætti að hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., segir við þjóðina: ,,Við höfum ávallt haft góðar minningar um þessa ríkisstjórn``, þá er nauðsynlegt að rifja upp þessa texta. Væri gott fyrir núverandi ráðamann Alþfl. að hlusta á þá líka.
    Björn Jónsson sagði í þingræðu árið áður, hæstv. utanrrh.: ,,Á hinu leitinu stendur svo Alþfl. sem hefur fyrirgert öllum siðferðilegum rétti til að bera sér í munn orðið jafnaðarstefna eftir ellefu ára þjónustu við Sjálfstfl., þar sem engu stefnumáli jafnaðarmannaflokks hefur verið fram komið.``
    Þetta, hæstv. utanrrh., voru orð Björns Jónssonar í þessum ræðustól 1969 þegar hann talaði fyrir hönd

Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Og það er hollt fyrir núv. formann Alþfl. og vin Björns Jónssonar að lesa þessa ræðu á ný.
    Það er nefnilega þannig, virðulegi utanrrh., að ég hef engan sérstakan áhuga á því að núv. hæstv. utanrrh. eyðileggi Alþfl. þó sumir haldi kannski að ég hafi á því áhuga, af einhverjum þröngum flokkshagsmunum Alþfl. Ég er að lesa fyrir hæstv. utanrrh. þessa texta svo hann á síðkvöldum, kannski í útlöndum eða í flugvélum þegar hann situr einn með sjálfum sér, hugsi aðeins út í það að kannski hafi Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson haft rétt fyrir sér í þessum ræðum.
    Á þessu sama ári, 1969, sagði hv. þáv. þm. Hannibal Valdimarsson, formaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Leiðtogar Alþfl. bera stundum harm sinn á torg í heyranda hljóði út af því að vondir menn hafi oftar en einu sinni klofið flokkinn. Eru þá oftast nefndir tveir höfuðskálkar, þeir Héðinn Valdimarsson og Hannibal Valdimarsson. Þennan söng upphóf hæstv. menntmrh. Gylfi Þ. Gíslason líka hér í gærkvöldi. En hvernig var það annars með þessa úthrópuðu klofningsmenn Alþfl.? Hlupu þeir sjálfir brott úr flokknum? Var þeim ekki af löglegri flokksstjórn vikið úr flokknum? Það er eins og mig minni það nú. Svo var það a.m.k. að því er mig varðar. Fyrir þetta hef ég aldrei áfellst Alþfl. Hann vildi ótruflaður af öllu og öllum fá að taka sína hægri beygju, og þar sem ég var ekki á þeim buxunum að lalla með, var mér eðlilega sagt upp vistinni eftir 27 ára þjónustu á þeim bæ, því auðvitað átti flokksstjórnin en ekki einstaklingurinn að ráða stefnunni.``
    Virðulegi forseti. Fyrrv. formaður Alþfl., Hannibal Valdimarsson, var ekki á þeim buxunum að lalla með. En nú lallar formaður Alþfl. á undan og biður hina að lalla með. Ég veit að hæstv. utanrrh. er vel að sér í þessari sögu. Hann hefur flutt margar ræður um að það hafi átt sér stað söguleg mistök í íslenskri vinstri hreyfingu á áratugunum áður en þetta var sagt. En hafa ekki verið gerð fleiri mistök í sögu íslenskrar vinstri hreyfingar en bara þau sem hæstv. utanrrh. nefnir tíðast? Kann það ekki að vera að þetta sé rétt hjá þáv. þingmanni Hannibal Valdimarssyni, að það hafi verið söguleg mistök hjá Gylfa Þ. Gíslasyni að taka þessa hægri beygju, hjá Emil Jónssyni og Guðmundi Í. Guðmundssyni, að taka þessa hægri beygju? Er það kannski ekki hugsanlegt að hv. þáv. þm. Hannibal Valdimarsson hafi haft rétt fyrir sér? Að það séu hinir sem hafi gert hin sögulegu mistök.
    En Hannibal Valdimarsson heldur áfram í þessari sömu ræðu, með leyfi virðulegs forseta: ,,En hvenær halda menn að forusta Alþfl. taki sinnaskiptum og hverfi frá kjötkötlunum hjá Sjálfstfl.? Halda menn að hann taki saman pjönkur sínar og hverfi frá allri íhaldssamvinnu og gerist stríðandi Alþfl. á ný ef hann heldur fylgi sínu eða eykur það í næstu kosningum? Nei, svo barnalegur getur enginn verið. Auðvitað er einasta vonin til þess að Alþfl. hverfi aftur til síns fyrra hlutverks að hann verði fyrir miklu áfalli í næstu

kosningum. Þá og því aðeins er nokkur von til þess að Gylfi Þ. Gíslason vakni upp við vondan draum einn morguninn og athugi eitthvað sinn gang, standi frammi fyrir spurningunni: Hvers vegna varð Alþfl. fyrir fylgishruni? Þá gæti e.t.v. hvarflað að honum að hann yrði líklega að breyta eitthvað til. Einasta leiðin til þess að toga Alþfl. aftur á rétta braut er sú að kjósendurnir refsi honum fyrir íhaldsþjónkun hans og segi honum þannig til vegar.``
    Þessi orð Hannibals Valdimarssonar reyndust rétt, hæstv. utanrrh. Kjósendur Alþfl. refsuðu honum. Það munaði örfáum hundruðum atkvæða að hann þurrkaðist út af Alþingi Íslendinga. Við hefðum margir kosið að sjá hæstv. utanrrh. frekar í hlutverki Hannibals Valdimarssonar í þessari ræðu en í hlutverki Gylfa Þ. Gíslasonar sem ræðunni var beint til.
    Virðulegi forseti. Ég er hérna með nokkrar síður úr þessu litla blaði sem ég nefndi áðan, Nýtt land -- frjáls þjóð, sem kom út á viðreisnarárunum. Og það vill svo til að í þessu blaði er að finna margar af snjöllustu lýsingunum á því hvers konar óstjórn viðreisnin var á sínum tíma því það voru ungir og efnilegir menn sem þar héldu um penna, sérstaklega bræður tveir, Ólafur Hannibalsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Það er dálítið fróðlegt að fletta þessu gamla blaði og sjá myndir af ungum menntamanni nýkomnum frá Edinborg, skrifandi síðu eftir síðu og síðu eftir síðu. Um pólitíkina á Íslandi, pólitíkina í Bretlandi, framtíð íslenskrar jafnaðarmannahreyfingar og hvað beri að gera og hvað beri ekki að gera. Ég tala nú ekki um dóminn sem hann fellir yfir Alþfl. og íhaldsþjónkun Alþfl. Eru þetta góðu minningarnar, virðulegi utanrrh., um viðreisnartímana, greinarnar í Nýju landi -- frjálsri þjóð sem kennarinn í Hagaskóla skrifaði í sumarleyfinu? Eru það góðu minningarnar? Það eina sem hæstv. utanrrh. gerði á viðreisnarárunum sem markvert er var að skrifa þessar greinar. Þær eru snjallar, hæstv. utanrrh. Þær eru jafnsnjallar þegar maður les þær í dag og þegar maður las þær á sínum tíma, ungur maður í menntaskóla og fannst þetta helvíti gott.
    Hér segir t.d. í grein sem Jón Baldvin Hannibalsson ritar í Nýtt land -- frjálsa þjóð: ,,Annars vegar er um að ræða, miðað við núverandi klofning lýðræðissinnaðra vinstri afla í landinu, að lífvænleg stjórn í stað Sjálfstfl. sé lítt hugsanleg í bráð heldur leiki vinstri flokkarnir á víxl hlutverk sitt sem hækjukerfi íhaldsins, fari svo að kratahækjan taki að digna.`` Hækjukerfi íhaldsins, það var lýsingin sem hæstv. utanrrh. gaf Alþfl. á viðreisnarárunum. Eru þetta góðu minningarnar?
    Það er margt fleira (Gripið fram í.) Genitískir framsóknarmenn eiga engan rétt á því að grípa fram í í þessari umræðu. Það segir hér í þessari sömu grein, virðulegi forseti: ,,Eða með leyfi að spyrja, hafa ungir menn, sem telja sig lýðræðissósíalista, ekki einhverjar hærri hugmyndir um hlutverk flokksins en núverandi leiðtogar hans?`` Þetta er spurningin sem núv. hæstv. utanrrh. bar fram til ungra alþýðuflokksmanna á þeim árum sem viðreisnarstjórnin var á miðjum sínum ferli.
    Síðan er birt í þessu sama blaði ritstjórnargrein eftir JBH, skemmtileg grein, glæsileg grein, sem heitir Að dragast aftur úr. Að dragast aftur úr, virðulegi utanrrh. Er utanrrh. búinn að gleyma þessari grein? Hún er skrifuð þegar viðreisnarstjórnin hafði setið í tíu ár. Dómur þessa unga stjórnmálaleiðtoga um viðreisnarstjórnina eftir þessa setu er miskunnarlaus en alveg skýr. Hann lýsir því markvisst á þennan hátt, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Eitt megineinkenni íslenskrar þjóðfélagsþróunar á undanförnum árum hefur verið það að við höfum stöðugt verið að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við þrátt fyrir allt höfum helst reynt að halda til jafns við. Bilið fer sífellt breikkandi. Ef ekki verður að gert í tíma getur svo farið að örlög Íslands verði hin sömu og þeirra byggðarlaga á Íslandi sem hafa verið að tærast upp. Fólksflóttinn staðnæmist ekki í Stór-Reykjavík heldur haldi út fyrir landsteinana, landflótti margra sérmenntaðra manna, lækna, verkfræðinga og nú síðast iðnaðarmanna og vaxandi brottflutningur almennt til annarra landa er forsmekkur að þessari þróun. Á aldarfjórðungsafmæli lýðveldisins er þjóðin haldin ugg og kvíða um framtíðina.``
    Þegar ég las þetta um daginn rifjuðust upp fyrir mér orð núv. hæstv. utanrrh. sem hann mælti á fundi Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur eftir að núv. ríkisstjórn var mynduð, að flokksmenn væru á milli vonar og ótta. Það var uggur og kvíði sem einkenndi þjóðina eftir tíu ára viðreisnarstjórn.
    Hinn ungi stjórnmálaleiðtogi hélt áfram að skrifa glæsilegar greinar. Nokkru síðar birtir hann pólitískt erindisbréf --- titlarnir voru yfirleitt nokkuð góðir --- pólitískt erindisbréf, upp á heila síðu. Þar er gerð úttekt á viðreisnarstjórninni kjörtímabil fyrir kjörtímabil. Ég ætla að grípa niður af handahófi í það sem Jón Baldvin Hannibalsson setti niður á blað í hinu pólitíska erindisbréfi sínu til vinstri manna á Íslandi og til þjóðarinnar, með leyfi virðulegs forseta, árið 1969, eftir að viðreisnarstjórnin hafði setið í tíu ár:
    ,,Fjórar gengislækkanir einnar stjórnar staðfesta að fjármálastjórnin var í molum.`` --- Var í molum, hæstv. utanrrh. Réð ekki neitt við neitt. --- ,,Þegar samdráttur varð í fjárfestingum og framkvæmdum fundu launþegar að fjárráð þeirra á veltiárunum höfðu byggst á vinnuþrælkun, aukastörfum, yfirborgunum, en kaup fyrir átta stunda vinnudag nægði hvergi til lífsframfæris meðalfjölskyldu. Þar við bættist að í happdrættisvímunni hafði láðst að huga að þeim málaflokkum sem til langs tíma áttu að gera þjóðinni fært að standa betur að vígi. Skólakerfið var staðnað, tengsl þess við atvinnulífið lítil sem engin, heilir herskarar unglinga eiga engar námsbrautir er búi þá undir framtíðarstörf. Loks var bikarinn bergður í botn þegar þúsundir manna úr ýmsum stéttum fylltu biðraðir atvinnuleysingja. Alþfl. er svo kirfilega bundinn á klafa Sjálfstfl.`` --- og hlustaðu nú, hæstv. utanrrh., á þín eigin orð --- ,,gegnum þéttriðið net fjárhagslegra hagsmuna að foringjarnir munu aldrei sjálfviljugir slíta stjórnarsamstarfinu sem þeir eiga upphefð sína og

þjóðfélagsaðstöðu að þakka. Hann getur einfaldlega ekki framar séð sér pólitískt farborða af eigin rammleik.``
    Þær eru margar fleiri, hæstv. utanrrh., greinarnar í þessu litla blaði. Ég ætla ekki að lesa þær allar upp í kvöld. En ég hef merkt þær á hornunum, brotið upp á þau, ef hæstv. utanrrh. vildi fá lánuð ljósrit til að hafa með sér í flugvélunum og til að lesa á kvöldstundum erlendis þegar hann er að bíða eftir næsta fundi í samningalotunni miklu og rifja upp minningarnar um viðreisnarstjórnina, þessar góðu minningar þegar íslenskir vinstri menn og jafnaðarmenn áttu ungan hugsjónamann sem braust um og sagði meiningu sínu og sagði Alþfl. til syndanna og hikaði ekki við að draga saman í snjallar greinar hvernig viðreisnarstjórnin fór með Alþfl. og hvernig forusta Alþfl. hafði svikið allt sem hægt var að tengja jafnaðarstefnunni og var gengin á vit þeirra fjármálahagsmuna
sem valdakerfi Sjálfstfl. byggðist á. Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að besta lesningin um örlög Alþfl. á viðreisnarárunum eru greinar eftir Jón Baldvin Hannibalsson, núv. hæstv. utanrrh., núv. formann Alþfl., skrifaðar á seinni hluta viðreisnartímans þegar hægt var að kveða upp dóm yfir þeirri ríkisstjórn. Kannski kemur hæstv. utanrrh. hér í stólinn og segir: Ég hafði rangt fyrir mér. Ég var bara ungur maður. Ég vissi ekki hvað ég var að skrifa. En áður en hæstv. utanrrh. gerir það ætla ég að biðja hann að hugleiða að þetta sem ég er með hér í höndunum er það besta sem hann hefur sett saman á sínum stjórnmálaferli. Og ef hann ætlar að fara að afneita þessu hér á Alþingi fyrir einhverja stundarhagsmuni er hann að afneita því besta og glæsilegasta sem hann á í sínum stjórnmálaferli þegar hann var úti í eyðimörkinni. Efnilegasti foringi íslenskra vinstri manna var úti í eyðimörkinni og vissi ekkert hvað hann átti í vændum og var búinn að bjóða öllu valdakerfinu í landinu birginn og fékk hvergi stöðu. ( Fjmrh.: Er þetta kennsla í stjórnmálafræðinni?) Nei, þetta er ekki kennt í stjórnmálafræðinni, hæstv. fjmrh. Þetta er ekki kennslustund í stjórnmálafræði. Þetta er samtal mitt við vin minn, utanrrh., sem ég kýs að hafa hér í ræðustól Alþingis af því að þessar greinar skipta miklu máli í sögu íslenskrar jafnaðarhreyfingar. Þær skipta miklu máli í stjórnmálaferli núv. hæstv. utanrrh. vegna þess að við sumir berum enn þá hlýjar tilfinningar til hans og viljum ekki að hann hljóti örlög Gylfa Þ. Gíslasonar, sem hann skrifaði sjálfur svona réttilega um á sínum tíma, og kjósum frekar að hann starfi áfram undir merki Björns Jónssonar og Hannibals Valdimarssonar. Þá kaus ég að rifja upp á þessu aukaþingi þennan texta fyrir hæstv. utanrrh. sérstaklega. (Gripið fram í.) Nei, það sagði ég hérna áðan, hæstv. fjmrh.
    Ég var ekki að lesa þessar greinar til að hæstv. utanrrh. færi að tjá sig um þær sérstaklega, ég vil taka það fram. Ég var ekki að gera þetta til þess að hæstv. utanrrh. þyrfti að koma hér og svara eitthvað fyrir þetta. Ég tók það skýrt fram í byrjun áður en ég hóf lesturinn, að það væri ekki tilgangurinn, heldur væri

þetta upprifjun til þess að hann hefði með sjálfum sér einn á síðkvöldum og til umhugsunar um að örlög forustumanna Alþfl. voru mörkuð með skýrum hætti af efnilegasta leiðtoga jafnaðarmanna á Íslandi á áratugnum 1960 -- 1970 og hann hafði rétt fyrir sér, virðulegur utanrrh. Allt það sem Jón Baldvin Hannibalsson sagði í þessum greinum um örlög forustusveitar Alþfl. reyndist rétt. Alþfl. var nærri því þurrkaður út. Það sem bjargaði Alþfl. frá því að deyja út var annars vegar Vilmundur Gylfason, blessuð sé minning hans, og svo hins vegar það liðsinni sem núv. hæstv. utanrrh. veitti Alþfl. eftir að hann gekk í hann. Ef Vilmundur Gylfason og Jón Baldvin Hannibalsson hefðu ekki fyrir rúmum 10 árum síðan hafið björgunarstarf í Alþfl., þá væri hann fyrir löngu búinn að vera. Þá hefði þessi spásögn hins unga leiðtoga öll reynst rétt.