Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þetta mun vera í annað skiptið á þingferli mínum, svo stuttur sem hann er, sem ég bið um orðið um þingsköp. En það er til þess að vekja athygli á því að í tíð fyrrv. ríkisstjórnar las ég heldur aldrei ræður forsrh. áður en þær voru sendar þingmönnum til birtingar. Ég hef það ekki fyrir sið að skipta mér af textum annarra manna og treysti þáv. forsrh. til þess að túlka af myndugleik stefnu þáv. ríkisstjórnar eins og ég ber fullt traust til núv. hæstv. forsrh. um að gera slíkt hið sama án þess að ég fari yfir þeirra stíla. Ef það eiga að vera rök fyrir að fresta þessari umræðu, þá hefðu umræður um stefnuræður fyrrv. hæstv. forsrh. eiginlega aldrei átt að fara fram. Ég held að þessi rök dugi til þess að það eigi ekki að taka mark á rökum hv. þm.