Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegur forseti. Ég hygg nú að þingflokkarnir hafi sýnt það að þeir vilji hafa sem best samstarf við stjórnarandstöðuna um umræður hér og alls ekki viljað þvinga neitt fram í þeim efnum. Ég býst við að þegar menn hafa rætt um það að reyna að klára umræðu um stefnuræðu forsrh., það er nú í þriðja ganginn sem sú umræða er á dagskrá, þá hafi menn af beggja hálfu ætlað sér það. Ég tók eftir því að hv. 8. þm. Reykn. hélt hér ræðu og lýsti því yfir úr ræðustólnum að hann væri hér á einkafundi með utanrrh. Ég hef setið hér samviskusamlega undir ræðum. En þegar þingmaðurinn sagði þetta þá fór ég niður í kaffi. (Gripið fram í.) Af því að þingmaðurinn sagðist vera á einkafundi með utanrrh. Ég segi nú fyrir mig: Hver er að ganga gegn góðu samstarfi hér í þinginu, formaður þingflokks Sjálfstfl. eða maðurinn sem var á einkaviðræðum við utanrrh. hér klukkutíma áður? Ég velti því fyrir mér.
    En ég vil aðeins upplýsa gagnvart þessum undarlega útúrsnúningi varðandi . . . ( ÓRG: Það voru ekki viðræður, það voru einkaumræður.) vegna þessa útúrsnúnings varðandi landbúnaðarmálin þá segir ekki annað í þessari inngangssetningu að kaflanum ,, . . . að fylgja þeirri stefnu sem stjórnvöld og bændur hafa markað.`` Síðan er það útskýrt í hverju sú stefna felst. Sú stefna hefur falist í því að laga framleiðsluna að markaðnum. Síðan er farið yfir það. Það er enginn ágreiningur milli manna um þessi atriði. Ekki nokkur skapaður hlutur. Því er síðan lýst í hverju þetta felst. Þannig að ég mundi nú taka undir með forseta og mælast til að menn kláruðu þessa umræðu. En með sama hætti vil ég segja að ekki vil ég standa að því ef stjórnarandstaðan telur að við séum að þvinga eitthvað fram í þeim efnum, þá vil ég ekki gera það því ég hef sagt að ég vilji að menn hafi sem mest rými til almennrar umræðu um stefnumál ríkisstjórnarinnar hér í upphafi þessa þings. En það var talað um það milli formanna flokka og formanna þingflokka að reyna að ljúka þinginu þann 31. og formaður þingflokks Framsfl. og formaður Framsfl. til að mynda voru mjög viljugir til þess. Ég skal þó viðurkenna að formaður Alþb. kvaðst hafa fyrirvara í þeim efnum, en aðrir vildu gjarnan að þetta gengi fram með þeim hætti. Við í ríkisstjórninni höfum samt sem áður þrátt fyrir þessa tímasetningu viljað takmarka almennar umræður sem allra, allra minnst.
    Ég held að það væri kostur að ljúka þessari umræðu um stefnuræðu forsrh. nú. Svo hafa menn til viðbótar skýrslu fjmrh. sem hefði þó gjarnan mátt fylgja og flétta inn í umræðu um stefnuræðu forsrh.