Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Þegar frv. til stjórnarskipunarlaga kom til meðferðar á síðasta löggjafarþingi, þá lét ég í ljós efasemdir um að það væri rétt án þess að ganga um leið frá skýrum tillögum um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis að afgreiða málið eins og það lá fyrir. Engu að síður taldi ég með hliðsjón af reynslu undanfarinna ára að það væri rétt að standa að því að frv. yrði afgreitt en áskildi mér persónulega allan fyrirvara um meðferð þessa máls ef illa færi varðandi afgreiðslu á frv. um þingsköp Alþingis.
    Nú hefur verið haldið þannig á þessum málum að þau hafa bæði verið til meðferðar samtímis hér á hv. Alþingi. Í hv. Nd. er nú verið að ræða við 2. umr. frv. til laga um þingsköp Alþingis og ég tel að eins og það frv. lítur út núna, þá sé það í öllum meginatriðum ásættanlegt þannig að óhætt sé, ef svo má að orði komast, að fallast á það að þær breytingar verði gerðar á stjórnskipuninni sem hér eru uppi tillögur um.
    Það sem ég á við í þeim efnum er aðallega eitt ákvæði í þingskapalagafrv., þ.e. það ákvæði að afbrigði skuli því aðeins heimiluð að 2 / 3 hlutar þingmanna standi að ákvörðun um afbrigðin. Það er veruleg breyting frá því sem er í gildandi þingsköpum, eins og hv. þm. þekkja, þar sem annars vegar nægir einfaldur meiri hluti þegar um er að ræða ríkisstjórnarmál og hins vegar nokkuð aukinn meiri hluti þegar um er að ræða önnur mál.
    Ég tel að þetta og ýmis fleiri ákvæði hins nýja frv. til þingskapalaga séu með þeim hætti að það sé með ágætri samvisku hægt að fallast á það að þessi breyting eigi sér stað. Ég tel að þingskapalögin séu í raun og veru hjartað í þingræðinu og þar birtist þau grundvallaratriði sem starfsemi Alþingis byggist á. Tilgangurinn er auðvitað sá að tryggja rétt allra réttkjörinna alþingismanna til þess að hafa áhrif á gang mála, hvort sem þeir eru fáir eða margir í þingflokki, í stjórn eða stjórnarandstöðu eftir atvikum.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram við þessa umræðu, virðulegi forseti, um leið og ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að ræða nokkuð um þingsköpin sjálf þegar það frv. kemur hér til meðferðar.