Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Frsm. stjórnskipunar- og þingskapanefndar (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla hér fyrir áliti stjórnskipunar- og þingskapanefndar Nd. sem flutt er á þskj. 5 um frv. til laga um þingsköp Alþingis.
    Frv. þetta felur í sér heildarendurskoðun á þingsköpum Alþingis og er flutt í tengslum við frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni sem nú er til meðferðar í Ed. þingsins.
    Þær breytingar sem Alþingi samþykkti á stjórnarskránni á síðasta þingi og fólu m.a. í sér brottfall deildaskiptingar þingsins kalla á verulegar breytingar á þingsköpum Alþingis. Það var jafnframt mat þeirra er unnu að endurskoðun þingskapalaga að heppilegt væri að gera samhliða þeirri endurskoðun ýmsar aðrar tímabærar breytingar á þingsköpunum, m.a. setja fyllri ákvæði um fastanefndir en verið hefur.
    Nefndin fjallaði um frv. þetta á allnokkrum fundum og var setið við þá vinnu tímunum saman eins og eðlilegt er þegar um er að ræða svo mikilvægt mál. Að auki voru haldnir sameiginlegir fundir með stjórnskipunar- og þingskapanefnd Ed. Nefndin er í öllum höfuðatriðum sammála efni frv. og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á þskj. 6. Þessar breytingar eru unnar í samráði við efrideildarnefndina.
    Samtals flytur nefndin 39 brtt. Sumar þessar brtt. eru veigameiri en aðrar og mun ég gera sérstaka grein fyrir þeim í upphafi. Aðrar breytingar lúta fyrst og fremst að því að gera ákvæði frv. skýrari og taka af tvímæli um ýmis atriði. Mun ég víkja að þeim breytingum síðar.
    Sný ég mér þá fyrst að meginbreytingum frv. Þær eru eftirfarandi:
    1. Nánari reglur eru settar um kosningu varaforseta og verkefni forsætisnefndar. Kveðið er á um að forseti skuli gangast fyrir kosningu fjögurra varaforseta samkvæmt reglum 68. gr. um listakosningu. Ef ekki er samkomulag milli þingflokka um einn lista skal kosning fara eftir reglum 5. mgr. 68. gr. Æskilegt er talið að sem flestir flokkar eigi aðild að forsætisnefndinni sem skipuð er forsetum og varaforsetum og þykir eðlilegt að þingflokkar reyni að ná samkomulagi áður en til listakosningar kemur um hverjir skuli skipa embætti varaforseta.
    Í þessu sambandi er rétt að taka það fram að undirstrikað er enn frekar en var upphaflega í því frv. sem nú liggur fyrir að áður en komi til listakosningar skuli þess freistað að ná samkomulagi milli þingflokka um skipan í forsætisnefndina og kjör varaforseta.
    Jafnframt er ákvæði frv. um verkefni forsætisnefndar gert fyllra en var áður. Kveðið er á um að varaforsetar starfi með forseta og myndi ásamt honum forsætisnefndina. Í greininni um þetta atriði eru tilgreind helstu viðfangsefni nefndarinnar sem ekki var í upphaflega frv. nema að litlu leyti, en jafnframt gert ráð fyrir að forseti geti borið undir nefndina þau mál sem hann telur þörf á að hún fjalli um. Er jafnframt

kveðið á um að forsætisnefnd séu falin þau verkefni sem forsetar deilda og sameinaðs þings hafa haft á hendi sameiginlega fram að þessu, svo sem skipulagning þinghaldsins, alþjóðasamstarf þingsins, fjárhagsáætlanir og fleira. Hins vegar er forseta nú falið að fara með æðsta vald í stjórnsýslu þingsins og rekstri samkvæmt 9. gr. og því er svo kveðið á í greininni að hann skeri úr ef ágreiningur verður í forsætisnefndinni.
    2. Ný ákvæði eru sett um meðferð fjárlagafrv. Veigamesta breytingin hér frá upphaflega frv. er sú að fjárlaganefnd er ekki gert skylt að vísa til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrv. sem fjalla um málefnasvið þeirra. Hins vegar er nefndinni veitt heimild til slíks og jafnframt kveðið á um að aðrar fastanefndir geti að eigin frumkvæði ákveðið að fjalla um einstaka þætti fjárlagafrv. Það er skoðun nefndarinnar að of stórt skref væri stigið með því að skylda fjárlaganefnd til að vísa einstökum þáttum fjárlagafrv. til annarra fastanefnda þótt sú kunni raunin að verða síðar meir. Jafnframt er það skoðun nefndarinnar að meginreglan hljóti að verða sú að fjárlaganefndin óski eftir því að fagnefndirnar fjalli um einstaka þætti frv. en heppilegast sé að sú þróun gerist ekki of skyndilega heldur sé eðlilegast að heimildin sé fyrir hendi en ekki lögð skylda á neinn aðila í þessu máli á þessu stigi. Nefndarmenn voru, hygg ég, á einu máli um það engu að síður að eðlilegt væri að reikna með því að þessi yrði þróunin, svo sem reynsla er af víða með öðrum þjóðþingum. En reynslan af þessu nýja fyrirkomulagi verður að segja til um framhaldið.
    Aðrar breytingar er varða meðferð fjárlagafrv. eru þessar:
    Kveðið er á um að frv. til fjárlaga skuli að nýju vísað til fjárlaganefndar að lokinni 2. umr. Reynslan er sú að fjvn. hefur haft frv. til meðferðar milli 2. og 3. umr. þótt því hafi ekki formlega verið vísað til hennar á ný að lokinni 2. umr.
    Þá er kveðið á um að fjárlaganefnd vísi lánsfjárlagafrumvarpinu til efnahags- og viðskiptanefndar en ekki eingöngu þeim köflum þess er fjalla um skatta- og efnahagsmál. Enn fremur er fjárlaganefnd falið að tilgreina fyrir hvaða tíma fagnefndirnar skili áliti sínu svo hún hafi nægilega rúman tíma til þess að taka afstöðu til tillagna fagnefndanna áður en hún gengur endanlega frá málinu til 2. umr.
    Loks er lagt til að 3. umr. fjárlagafrv. hefjist eigi síðar en 15. des. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að lokaafgreiðsla fjárlaga dragist fram undir jól eins og stundum hefur gerst. Þessi breyting er gerð með hliðsjón af því að þingið mun nú koma saman tíu dögum fyrr á haustin en áður var. Ekki þótti hins vegar ráðlegt að binda 2. umr. fjárlaga við ákveðinn tíma og var talið eðlilegra að forsetar og fjárlaganefnd komi sér saman um hagkvæma tímasetningu 2. umr.
    3. Veitt er heimild til að nefnd athugi þingmál áður en það kemur til 1. umr. Sett er inn ákvæði er heimilar að áður en 1. umr. fer fram um stjfrv. eða fyrri umr. um tillögu frá ríkisstjórninni geti forseti

heimilað, ef ósk berst um það frá níu þingmönnum, að nefnd athugi þingmálið. Forseti ákveður hvaða tíma nefndin fær til þessarar athugunar. Þessi athugun á ekki að hafa nein áhrif á það hvort málinu verður vísað með formlegum hætti til nefndar að lokinni 1. umr. eins og venja hefur verið.
    Rökin fyrir þessu ákvæði eru þau að við 1. umr. um ýmis meiri háttar stjfrv. eða fyrri umr. um tillögu frá ríkisstjórninni hefur komið í ljós að þingmenn eru stundum vanbúnir að standa í miklum umræðum vegna þess að þá skortir upplýsingar og skýringar á efni þessara mála. Til að bæta úr þessu og einnig til þess að þingmenn séu ekki að eyða ræðutíma sínum í fyrirspurnir um einstök efnisatriði málanna er talið heppilegt að tiltekinn hópur þingmanna eigi færi á að afla sér upplýsinga og skýringa frá embættismönnum eða hagsmunaaðilum áður en 1. umr. hefst eða strax eftir að framsögu fyrir málinu er lokið.
    Til þess að þessi nefndarumfjöllun tefji ekki mál er forseta falið að ákveða hvenær málið kemur á dagskrá.
    4. Kveðið er á um að kostnaðaráætlun skuli fylgja áliti ef nefnd mælir með samþykkt máls. Kveðið er á um að ef nefnd mælir með samþykkt lagafrv. eða þáltill. skuli hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Er þetta nýmæli en oft hefur þessari hugmynd verið hreyft áður og nokkur dæmi eru þess að nefndir hafi skilað slíkum kostnaðaráætlunum. Nefndin telur þetta framfaraspor og bæði eðlilega og sjálfsagða breytingu. En skyldan í þessu efni samkvæmt brtt. yrði hjá hlutaðeigandi þingnefnd en ekki flm. málanna, enda er oft örðugt fyrir þá að afla nauðsynlegra gagna um fjárhagshlið frv. og tillagna.
    5. Sett er bráðabirgðaákvæði um með hvaða hætti breytingin frá deildaskiptu þingi í eina málstofu fer fram á þessu löggjafarþingi sem nú stendur yfir. Í ákvæðinu segir að þegar þingskapalögin hafa öðlast gildi ásamt nýjum stjórnarskipunarlögum skuli umboð forseta, varaforseta, skrifara og þingnefnda falla niður. Skuli þá aldursforseti Alþingis boða til þingfundar og standa fyrir kosningu kjörbréfanefndar og forseta Alþingis sem gengst síðan fyrir kosningu varaforseta og fastanefnda samkvæmt ákvæðum hinna nýju þingskapalaga. Þannig er gert ráð fyrir að fyrsti fundur þingsins í einni málstofu hafi þau verkefni sem fyrsti fundur nýs þings hefði. Aftur á móti er talið óþarft að slíta þessu þingi og setja nýtt, heldur er gert ráð fyrir að þetta þing starfi áfram og því verði frestað til hausts þegar það hefur lokið störfum innan skamms.
    Aðrar brtt. nefndarinnar eru veigaminni og lúta fyrst og fremst að því að gera ákvæði frv. skýrari og taka af tvímæli um ýmis atriði. Mun ég nefna helstu breytingar hér á eftir:
    1. Tekin eru af öll tvímæli um það að þó að aðeins ein tilnefning berist í embætti forseta Alþingis skuli kosning eigi að síður fara fram.
    2. Bætt er við ákvæði þess efnis að þingflokki sem

ekki á fulltrúa í fastanefnd sé heimilt með samþykki nefndarinnar að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum hennar. Er talið að þessi tilhögun stuðli að greiðari afgreiðslu mála í þinginu eins og reynsla frá síðasta kjörtímabili þykir benda til.
    3. Kveðið er á um að nægilegt sé að samþykki meiri hluta nefndar liggi fyrir ákveði nefnd að halda fund meðan þingfundur stendur yfir, enda hafi forseti þá ekki hreyft andmælum við því. Telja verður full strangt að áskilja samþykki allra nefndarmanna líkt og var í frv. Hér er um undantekningarreglu að ræða og það er álit nefndarinnar að henni eigi ekki að beita nema brýn nauðsyn krefji.
    4. Vikið er að verksviði allshn. með nokkuð öðrum hætti en áður var. Allshn. á sér enga samsvörun í Stjórnarráðinu ólíkt öðrum fastanefndum og þess vegna þykir heppilegt að tilgreina hvaða málum skuli vísað til hennar. Kveðið er á um það að til nefndarinnar skuli vísa dómsmálum, kirkjumálum, byggðamálum og öðrum þeim málum sem þingið ákveður.
    5. Nokkrar breytingar eru á ákvæðinu um grg. með þáltill. Í frv. var sett ákvæði sem gerir ráð fyrir því að með hverri þáltill. skyldi fylgja grg. ólíkt því sem er í gildandi þingskapalögum. Það var hins vegar skoðun nefndarinnar að þetta ákvæði í frv. væri of fortakslaust, því t.d. hefur verið venja að tillögum um vantraust og frestun á fundum Alþingis fylgi engin sérstök grg. Þess vegna er í brtt. nefndarinnar kveðið á um að grg. skuli að jafnaði fylgja þáltill.
    6. Nefndinni þótti rétt að veita framsögumönnum nefnda sem flytja skýrslur almennt þann rétt að mega tala svo oft sem þeim þykir þurfa um skýrslurnar en að sá réttur sé ekki bundinn við framsögumenn alþjóðanefnda einvörðungu eins og kveðið var á um í frv.
    7. Nefndin hefur gert tillögu um að brott falli ákvæði er lýtur að viðmiðun um lengd skriflegra svara ráðherra við fyrirspurn. Í frv. var ákvæði þess efnis að skrifleg svör skyldu við það miðast að þau væru eigi lengri en munnleg svör. Það er gerð tillaga um að þetta ákvæði falli brott og talið fullnægjandi það sem segir í frv. um bæði skriflegar og munnlegar fyrirspurnir og svör við þeim, þ.e. að þau skuli vera í stuttu máli.
    8. Kveðið er á um að ósk um lengri utandagskrárumræðu skuli borin fram við forseta eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst og jafnframt að forseti skuli í upphafi þingfundar tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár. Sams konar ákvæði eru þegar fyrir hendi í þingsköpum um utandagskrárumræður hinar styttri.
    9. Tekin eru af öll tvímæli um að þingmaður skuli mæla úr ræðustól og það sé aðeins í undantekningartilvikum sem forseti geti leyft að frá slíku sé vikið.
 10. Rýmkaður er réttur ráðherra til að taka þátt í umræðum frá því sem frv. gerir ráð fyrir þó svo þar sé um að ræða þrengingu frá því sem er í núgildandi þingskapalögum. Í frv. segir að sá ráðherra er hlut á að máli megi tala svo oft sem honum þykir þurfa.

Þetta álítur nefndin vera of þröngt ákvæði og vill að þessi réttur sé hjá þeim ráðherrum sem með einhverjum hætti tengjast málinu. Þannig verður að líta svo á að forsrh. hafi þennan rétt ævinlega og aðrir ráðherrar en sá sem flytur málið ef þeir á einhvern hátt koma inn í umræðuna, t.d. vegna fyrirspurnar frá þingmönnum, eða ef þeir þurfa að lýsa afstöðu síns flokks til málsins.
 11. Gerð er tillaga um breytingu á ákvæði um skráningu atkvæða. Kveðið er á um að atkvæði hvers þingmanns við lokaafgreiðslu lagafrv. og þáltill. skuli skrásetja í þingtíðindum eftir að hafin hefur verið notkun rafeindabúnaðar við atkvæðagreiðsluna. Sama gildi og um aðrar atkvæðagreiðslur ef einhver þingmaður óskar þess. Er gert ráð fyrir að hann beri þá fram ósk við forseta þegar atkvæðagreiðslan stendur yfir.
 12. Tekin eru af öll tvímæli um að skyldan til að útvarpa frá Alþingi samkvæmt þingsköpum sé bundin við Ríkisútvarpið/hljóðvarp svo sem verið hefur fram að þessu.
 13. Breytt er ákvæði um setu varamanna í forföllum aðalmanna. Gerð er tillaga um það hér að úr kosningalögum falli ákvæði sem lúta að setu varamanna á Alþingi en gerð er tillaga um að þau flytjist yfir í þetta frv. og lög um þingsköp. Úr kosningalögum hafa verið tekin í þetta frv. ákvæði um setu varamanna á þingi í forföllum aðalmanna og jafnframt ákvæði um í hvaða nefndum varaþingmenn skulu sitja. Því þykir óþarft að þessi ákvæði, sem eru að auki úrelt að hluta, standi lengur í kosningalögum.
 14. Tekin eru af öll tvímæli um val á framsögumönnum. Þeir skulu ýmist valdir í upphafi nefndarumfjöllunar eða við lokaafgreiðslu mála í nefndinni. Jafnframt er staðfest sú þingvenja að heimilt sé að taka mál á dagskrá einni nóttu eftir að áliti meiri hluta nefndar hefur verið útbýtt.
    Auk þeirra brtt. sem hér hefur verið gerð grein fyrir ræddi nefndin mörg fleiri atriði er varða þingsköp. Um þau var ýmist ekki samkomulag ellegar þau voru þess eðlis að ekki þótti ástæða til þess að breyta þeim að sinni. En nefndin hefur í áliti sínu gert grein fyrir nokkrum þessara atriða og mér þykir rétt að lýsa þeim nokkuð frekar.
    Þannig telur nefndin í fyrsta lagi að túlka beri 19. gr. frv. þannig að samkvæmt henni verði heimilt að halda opna nefndarfundi ef nefndir telja sérstaka ástæðu til að veita fjölmiðlum eða almenningi aðgang að fundinum. Almenna reglan yrði eftir sem áður að sjálfsögðu sú að nefndarfundir yrðu lokaðir öðrum en nefndarmönnum, starfsmönnum og þeim sem sérstaklega hefðu verið boðaðir til fundarins, en í nál. segir svo: ,,Einnig verður heimilt ef nefndin telur ástæðu til að opna fundi með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.``
    Stjórnskipunar - og þingskapanefndin telur mikilvægt að tryggð verði betri skil til þingmanna á upplýsingum úr starfi þeirra nefnda þingsins sem sinna utanríkis - og alþjóðamálum. Rétt er að taka fram að veruleg breyting hefur orðið í þessu efni á undanförnum þingum og skýrslugjöf þessara alþjóðanefnda til

þingsins hefur færst mjög í vöxt sem að sjálfsögðu er til mikilla bóta. Nefndin telur hins vegar koma mjög til álita og telur það reyndar eðlilegt að utanrmn. fái slíkar skýrslur til umfjöllunar og jafnframt skýrslur um ferðir eða fundi á vegum þessara alþjóðanefnda.
    Nefndin ræddi nokkuð hugmyndir sem fram hafa komið um að stjórn og stjórnarandstaða skipti með sér formannsembættum í fastanefndum, svo sem algengt er í nágrannaþingum. Ekki er hins vegar samstaða um að setja slíkt ákvæði í þingskapalög hérlendis á þessu stigi a.m.k., en rétt er að benda á að það er ekkert sem hindrar að þessi skipan komist á síðar meir ef um það verður samkomulag milli þingflokka.
    Ég vil þá geta þess að nefndinni barst bréf frá hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni þar sem hann víkur að reglum 64. gr. um það hvað teljast skuli lögmæt ályktun Alþingis. Það er skoðun hv. þm. samkvæmt þessu bréfi að þau ákvæði sem nú er að finna í þessu frv. í 64. gr. séu ófullnægjandi og setja beri þrengri skorður við því en nú er hvað teljast megi lögmæt ályktun þingsins. Nefndin féllst ekki á þetta sjónarmið og gerir þar af leiðandi ekki brtt. í þessa átt.
    Nefndin ræddi hugmynd um að koma á fót fastanefnd er hefði á hendi samskipti Alþingis við Ríkisendurskoðun og sinnti ýmsum þeirra verkefna er forsetar Alþingis annast nú og lúta að tengslum við Ríkisendurskoðun, m.a. að taka ákvörðun um beiðni þingmanna um skýrslur frá stofnuninni og mæla fyrir starfsskýrslu hennar. Í tengslum við þetta var jafnframt rætt um það hvort hugsanlegt væri að auka hlutverk yfirskoðunarmanna ríkisreiknings í þessu sambandi og þá jafnvel að þeir yrðu skilyrðislaust þingmenn allir þrír og sætu í þessari nefnd, en um það var ekki samkomulag á þessu stigi frekar en þessa hugmynd í heild sinni. Nefndin telur að breytingar á þessu sviði komi fyllilega til greina og að unnt sé að taka það mál upp á nýjan leik í haust, hugsanlega með breytingum á lögunum um Ríkisendurskoðun.
    Nefndin taldi rétt að beina því til væntanlegrar forsætisnefndar að þegar á fyrsta þingi sem starfar á grundvelli hinna nýju þingskapalaga verði gengist fyrir endurskoðun laganna í ljósi fenginnar reynslu og það metið hvaða ákvæði hinna nýju laga um þingsköp hafi verið ófullnægjandi eða ekki gefið góða raun. Nefndin beinir því þannig til forsætisnefndar að gengist verði fyrir endurskoðun þingskapalaganna að loknu næsta þingi í ljósi þeirrar reynslu sem þá hefur fengist af framkvæmd þeirra.
    Virðulegi forseti. Ég hef þá gert grein fyrir þeim helstu breytingum sem stjórnskipunar - og þingskapanefnd deildarinnar hefur orðið sammála um að leggja til við hv. deild að gerðar verði á þessu frv.
    Ég vil þá að lokum segja nokkur orð frá eigin brjósti varðandi þetta mál og leggja á það áherslu að frá því að farið var að vinna að þeim breytingum á stjórnarskrá og þingsköpum sem þingið er nú að fjalla um hefur sú meginhugsun legið til grundvallar að bæta beri störf Alþingis og styrkja stöðu þess í stjórnkerfinu. Liður í þessu er að styrkja embætti forseta

þingsins og með þessum þingskapalögum er stigið veigamikið skref í þá átt. Vísa ég þá einkum til 9. gr. frv. þar sem kveðið er á um að forseti beri ábyrgð á rekstri þingsins og fari með æðsta vald í stjórnsýslu þess. Skyldur forseta Alþingis eru þó ekki aðeins gagnvart þinginu því forseti þingsins er jafnframt einn af handhöfum forsetavalds ásamt forsrh. og forseta Hæstaréttar. Ég tel að í ljósi þeirra breytinga sem nú er verið að gera á stöðu forseta Alþingis sé það eðlilegt framhald að starfskjörum forseta Alþingis verði breytt þannig að þau verði með svipuðum hætti og hjá öðrum æðstu starfsmönnum íslensku þjóðarinnar. Þannig finnst mér eðlilegt að lögum um þingfararkaup verði breytt, hugsanlega á næsta hausti, á þann veg að forseti þingsins njóti
lögkjara ráðherra. Með því móti væri það staðfest að oddviti löggjafarvaldsins hefði að þessu leyti sömu stöðu í stjórnkerfinu og oddvitar framkvæmdarvaldsins, ráðherrar í ríkisstjórninni.
    Ég vil leggja áherslu á það að hér er um afmarkaða breytingu að ræða í mínum huga sem er óskyld öðrum hugmyndum sem uppi hafa verið um breytingar á þingfararkaupslögunum. Hugmyndin um þessa breytingu á starfskjörum forseta Alþingis er einvörðungu tengd þeim breytingum sem nú er verið að gera á þingsköpum og skipulagi þingsins í mínum huga. Ég vænti þess að samstaða gæti orðið um slíka breytingu á haustþingi.
    Ég vil loks bæta því við, virðulegi forseti, að í nefndinni kom fram hugmynd um að fjölga nefndarmönnum í fjárlaganefnd úr níu í ellefu eða jafnvel þrettán. Sambærilegar hugmyndir komu fram í umræðum um þetta efni í Ed. þegar málið var þar rætt. Ekki var fullt samkomulag um það í nefndinni að taka undir þessa hugmynd. Nú hefur hins vegar um það samist milli nokkurra úr hópi þingmanna, m.a. mín og formanns þingflokks Alþfl. og væntanlega fleiri í hópi þeirra sem störfuðu í þingskapanefndinni, að leggja til að nefndarmenn í fjárlaganefndinni verði ellefu, þeim fjölgi úr níu í ellefu. Ég geri ráð fyrir að brtt. um það efni verði flutt hér síðar í dag.
    Að svo mæltu vil ég, herra forseti, leyfa mér að þakka meðnefndarmönnum mínum í stjórnskipunar - og þingskapanefndinni fyrir ánægjulegt samstarf og ég vænti þess að þetta mikilvæga frv. sem gott samkomulag er um milli þingflokka í nær öllum atriðum geti átt greiða leið í gegnum þingið. Í þetta mál hefur verið lögð mjög mikil vinna, bæði í undirbúning málsins og sömuleiðis í störfum þingskapanefndarinnar og ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega starfsmönnum þingsins sem lagt hafa hart að sér við undirbúning þessa máls fyrir þeirra vel unnu störf og læt máli mínu lokið.
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka málefnalegt nefndarstarf og mikla og á margan hátt góða vinnu í nefndum beggja deilda við umfjöllun þessa frv. Að ýmsu leyti erum við kvennalistakonur sáttar við niðurstöðu nefndarinnar og breytingar á frv. í meðförum hennar. Þær eru flestar og vonandi allar í

rétta átt. Því er þó ekki að leyna að við erum mjög ósáttar við að ekki var lengra gengið í nefndinni en gert var í þá átt að tryggja öllum stjórnmálaflokkum aðild að stjórn þingsins.
    Svo sem ég gat við 1. umr. þessa máls er samkvæmt orðalagi 3. gr. þessa frv. ekkert sem mælir gegn því að áfram verði haldið á þeirri farsælu braut að líta á stjórn þingsins sem samstarfsverkefni allra þingflokka. Því töldum við kvennalistakonur rétt að kanna hvort ekki yrði samstaða um að festa þessa vinnureglu í nýjum þingsköpum. Fyrir því reyndist ekki vilji þótt margir tækju undir með okkur kvennalistakonum. Af þeim sökum skrifa ég undir álit nefndarinnar með fyrirvara. Ég verð að lýsa undrun minni og vonbrigðum með þessa niðurstöðu í þessum áfanga málsins. Ég tek það þó fram að þær breytingar sem nefndin gerði voru mjög í rétta átt og ég tel umfjöllun nefndarinnar hafa verið mjög góða þótt niðurstaðan væri kannski ekki alveg sú sem við hefðum kosið.
    Það sem veldur undrun minni er það að ég tel að það sé ekki síst hagur stjórnarinnar hverju sinni að sem víðtækast samráð sé um stjórn þingsins. Í þingsköpum er samkvæmt þessu frv. raunar girt fyrir þann möguleika að stjórnarandstaðan geti látið afl atkvæða ráða í forsætisnefnd þegar svo háttar til að fleiri flokkar eru í stjórnarandstöðu en í stjórn. Þetta er gert með ákvæði í 10. gr. þar sem fest er úrskurðarvald forseta komi upp deilur í forsætisnefnd. Þetta tel ég eðlilegt, enda aldrei sú meiningin að fara að blanda pólitískum deilum saman við eðlilega stjórn þingsins. Það tel ég raunar að stjórn þingsins eigi að vera hafin yfir.
    Ég tel að þetta ákvæði taki af öll tvímæli um að það eru engir ókostir og aðeins kostir sem fylgja samábyrgð allra flokka í forsætisnefnd.
    Þótt ekki hafi náðst samstaða um þetta ákvæði í texta, þá lýsi ég ánægju minni yfir þeim áfanga að gengið er út frá því að samkomulag sé á milli flokka um kjör varaforseta með því að ganga út frá þeirri reglu að einn listi en ekki fleiri komi fram og setja einungis ákvæði um framkvæmd kosningar ef fleiri listar komi fram. Mér finnst það vissulega staðfesta að áfram hafi flestir hug á því að byggt verði á góðri reynslu af samstarfi allra um stjórn þingsins. Ég hygg að flestir virði stjórn Alþingis þeim mun meira sem hún er betur hafin yfir flokkadrátt.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta frv. Ég vænti þess að eitthvað muni reynslan sýna að þurfi að endurskoða og það er fullkomlega eðlilegt. Mig langar þó áður en ég vík hér úr pontu að vekja athygli á því að verið er að gera róttækar breytingar á ýmsum grónum vinnureglum, ekki síst með því að gera breytingar á þeirri nefnd sem áður var fjárveitinganefnd og verður nú fjárlaganefnd. Ég vona að sú tilraun muni takast vel og að verkefni muni færast mjúklega og eðlilega yfir á fleiri herðar þótt fjárlaganefnd muni að sjálfsögðu bera lokaábyrgð á störfum sínum og vinna úr þeim ábendingum sem koma frá fagnefndum. Fundasköp Alþingis er sá rammi sem umlykur mynd þjóðarinnar af störfum

þingsins. Því ríður á að vel takist til um smíðina.