Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Mér virðist sem heild að þingsköpin stefni að því að hér sé þægileg afgreiðslustofnun fyrir ríkjandi meiri hluta á hverjum tíma. Virðing þingsins hafi ekki komið inn í þá umræðu á einn eða neinn veg. En eitt atriði er svo forkostulegt að það hlýtur að kalla á umhugsun og athugasemdir og það er að mönnum skuli detta það í hug að setja það inn í þingsköp að einfaldur meiri hluti í nefnd geti ákveðið að halda nefndarfund á sama tíma og menn eru að störfum í þinginu og þar er verið að ræða önnur mál. Það er slík lítilsvirðing við starfandi þingmenn að það sé hægt að kalla á þá eins og hunda til starfa út úr þingsalnum hvenær sem ríkjandi meiri hluti telur ástæðu til að mig undrar að menn skuli láta sér detta það í hug að setja þetta á blað. Ég skora nú á hæstv. meiri hluta og þá sem hafa sett þetta niður að gera sér grein fyrir muninum á því hvort menn í sátt og samlyndi ákveða að afgreiða eitthvert mál í hliðarsal í þingnefnd á sama tíma og þingfundur er vegna þess að það sé samkomulag um að gera þetta eða hvort með valdsboði er hægt að þvinga fram slík vinnubrögð. Það er móðgun við þingið, það er móðgun við einstaka þingmenn og það er slík þjónkun við framkvæmdarvaldið að taka slíkt atriði inn í þingsköp að ég skora á nefndarmenn að draga þetta atriði til baka og leiðrétta þetta.