Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég lít nú svo á að athugasemd síðasta ræðumanns sé ekki alvarleg, þ.e. ég held að þetta verði aldrei praktíserað þannig að menn verði kallaðir nauðugir út úr þingsalnum. Ég hef ekki trú á því. Þetta er orðað þannig að frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum. Ég tel að forseta beri skylda til að hreyfa andmælum ef einhverjir nefndarmenn telja sig vant við látna og ekki geta farið til fundar. Það er opnað hins vegar fyrir það að hægt sé að halda fund í nefnd þó fundur standi yfir í þinginu. Það orkar að vísu tvímælis en kann að vera nauðsynlegt, sérstaklega út af störfum þeirra nefnda sem annríkast eiga.
    Ég kvaddi mér nú hljóðs vegna þess að ég vildi láta það koma fram að ég er sammála brtt. þeim sem nefndin flytur. Ég tel það algerlega forkastanleg vinnubrögð og langt fyrir neðan virðingu þeirra manna sem hafa verið að vinna að þessu frv. í góðri samvinnu og góðri trú hér í húsum Alþingis undanfarna daga þegar einstakir nefndarmenn sem ekki gerðu fyrirvara við nál. fara að flytja eða fylgja brtt. sem kveðnar voru í kútinn í nefndinni, sem ekki varð samstaða um að flytja í nefndinni. Þar á ég við þá hugmynd sem hv. frsm. orðaði hér í lok ræðu sinnar að fara að fjölga í fjárlaganefnd úr níu í ellefu.
    Ég tel að í fyrsta lagi séu ekki efnisrök fyrir því að fjölga í nefndinni. Þeir flokkar sem nú sitja á Alþingi eiga allir rétt á fulltrúum í níu manna nefnd og smærri flokkar gætu sótt um áheyrnarfulltrúa. Ég tel engin efnisleg rök fyrir því að fjölga í þessari nefnd eða hafa hana stærri en aðrar nefndir þingsins. Þó er hitt miklu alvarlegra ef það á að fara að temja sér slík vinnubrögð sem mér sýnast að hér séu í farvatninu.
    Einn nefndarmaður, hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson, skrifaði undir nál. með fyrirvara. Henni er að sjálfsögðu frjálst að flytja brtt. eða fylgja brtt. En þeim sem skrifuðu undir nál. án þess að láta því fylgja fyrirvara um að þeir ætluðu að fylgja eða flytja brtt. er að mínu mati ekki sæmandi að standa fyrir svoleiðis málatilbúnaði.
    Ég er eindregið andvígur því að fara að rífa upp það samkomulag sem gert var og ef svo yrði, herra forseti, að hér kynni að verða samþykkt brtt. þessa efnis þá óska ég eindregið eftir því að málið verði tekið til vandlegrar skoðunar í nefnd fyrir 3. umr.