Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þær till. sem liggja hér fyrir frá stjórnskipunar- og þingskapanefnd deildarinnar um frv. til laga um þingsköp Alþingis eru flestar mjög eðlilegar að mínu mati og horfa í rétta átt þannig að ég get lýst fylgi við mikinn hluta þeirra till. sem þar koma fram.
    Ég leyfði mér að koma á framfæri við nefndina erindi varðandi 64. gr. frv., en við lauslega athugun þess hafði mér sést yfir þær skýringar sem fylgdu með greininni og þá túlkun sem í þeim fólst. Frv. eins og það liggur nú fyrir einnig að fram komnum þessum brtt. felur það í sér --- og ég vek sérstaka athygli hv. þingdeildarmanna á því --- að samkvæmt þessum þingsköpum er það staðfest, skulum við segja, sem fullyrt er að hefð hafi skapast fyrir hér í þinginu að hægt sé að afgreiða lög frá þingdeildinni, þessu eina sameinaða þingi, með einu atkvæði. Það er hægt að samþykkja frv. og ályktanir frá Alþingi með einu já - atkvæði. Og ég spyr hv. þingdeildarmenn: Finnst mönnum það eðlileg afgreiðsla mála og eðlilegar reglur að hafa það í lögum og þingsköpum Alþingis að héðan geti farið mál sem hafi ekki notið meiri stuðnings en svo að einn einasti þingmaður treystir sér til að bera ábyrgð á viðkomandi máli með já - atkvæði? Ég segi nei við því. Mér finnst með öllu óeðlilegt að það geti gerst og ég fullyrði að úti í samfélaginu væri það talið lítt frambærilegt mál og afgreiðsla mála frá Alþingi sem þannig væri afgreitt.
    Mér finnst sjálfsagt að settur verði þröskuldur í sambandi við þessi mál, gerð krafa um það samkvæmt þingsköpum, að ákveðinn tiltekinn lágmarksfjöldi þingmanna og þá meira en einn einasti gjaldi máli já - atkvæði við atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég setti fram í bréfi, sem ég hef leyft mér að láta dreifa hér til hv. þingdeildarmanna, til nefndarinnar þá hugmynd, ég segi þá hugmynd því þetta var ekki útfærð brtt. og ég hef enn ekki flutt brtt. um málið, að það verði sett í þingsköpin að u.þ.b. fjórðungur þingmanna þurfi að hafa goldið máli já - atkvæði til þess að það hljóti afgreiðslu og teljist staðfest sem ákvörðun þingsins varðandi viðkomandi mál við viðkomandi atkvæðagreiðslu og þá einnig lokaatkvæðagreiðslu. Eins og núverandi þingsköp eru og eins og hér er gerð tillaga um þarf helmingur þingmanna að vera á fundi til þess að atkvæðagreiðsla sé lögmæt og til viðbótar vildi ég sjá að helmingur þeirra hið minnsta, eða 17 þingmenn, þyrftu að styðja mál með já - atkvæði til þess að það fái framgang, u.þ.b. fjórði hluti þingmanna.
    En nefndin tekur ekki undir þetta og leggur til að það verði lögfestur hér skilningur sem hefur verið tíðkaður eitthvað á fyrri stigum í störfum Alþingis. Þegar á þetta hefur reynt í einhverjum tilvikum að ekki hefur verið þetta fylgi við mál við atkvæðagreiðslu hefur verið talið nægjanlegt að meiri hluti greiddi atkvæði, enda væri meiri hluti þingdeildarmanna á fundi. Og þetta getur gengið alveg niður í eitt einasta atkvæði; aðrir sitja hjá, eitt atkvæði með,

málið afgreitt.
    Mér er sagt það, ég hef ekki kannað það nánar, að þessi sérkennilega regla og túlkun mála hér í þinginu á fyrri stigum hafi leitt til þess að sama túlkun hafi verið tekin upp í sambandi við afgreiðslu í sveitarstjórnum og menn hafi sótt vit sitt til túlkunar á þingsköpum Alþingis. Ég hafði ekki hugmynd um þetta. Mér hefur verið greint frá því að þetta hafi verið lögfest 1986 eða sett í reglugerð, ég veit ekki hvort var, og þessi háttur sé viðtekinn í sveitarstjórnum. Ég veit ekki hvort það er án undantekninga. Hér eru þingmenn sem hafa setið í borgarstjórn Reykjavíkur og vita hvaða háttur hefur verið hafður á þar. Það kann vel að vera að þar geti menn afgreitt mál með einu atkvæði en það er nú ekki víst að það reyni svo mikið á það við þær aðstæður sem þar ríkja. En ég vil vekja athygli þingdeildarinnar á þessu og ég áskil mér rétt til þess og mun e.t.v. nota rétt minn til þess að flytja brtt. um málið. En ég vildi gjarnan heyra í þingmönnum og ekki síst þingmönnum sem hafa setið lengi á þingi, hvort þeim finnist ekkert athugavert við það að lögfesta þessa reglu.
    Ég er með þessum ábendingum á engan hátt að vefengja túlkanir á gildandi þingsköpum. Það kemur þessu máli ekki við. Heldur er ég aðeins að spyrja: Eigum við ekki að setja hér þennan þröskuld og lögfesta þessa reglu til þess að tryggja það sem ég vil telja sómasamlega afgreiðslu þingsins á málum en ekki að hægt sé að ná hér fram málum með örfáum atkvæðum, alveg niður í eitt einasta atkvæði, sem teljist frambærileg afgreiðsla mála á þinginu?
    Ég held að þetta væri líka aðhald til þess að menn þurfi að gera upp hug sinn með öðrum hætti en felst í því að greiða atkvæði á móti eða sitja hjá. Þeir sem ætla sér í rauninni að bera ábyrgð á því að svona afgreiðsla fari fram en það gera auðvitað samkvæmt gildandi þingsköpum þeir sem sitja hjá við slíka atkvæðagreiðslu. En menn vita það að það gera menn af mjög mismunandi ástæðum að taka ekki afstöðu til mála. En það er ekki spurningin um fortíðina í þessu heldur hvaða reglur við viljum móta. Ég vænti að það sé nógu skýrt hvað ég er að fara og ætla ekki að eyða frekari orðum að því en flyt hugsanlega breytingartillögu við málið til að láta á þetta reyna.
    Hér hafa komið fram brtt. og verið boðaðar brtt. Brtt. á þskj. 7 frá hv. þm. Inga Birni Albertssyni um það að nefndum sé skylt að fjalla um brtt. sem fluttar eru um mál. Mér finnst þetta vera athyglisverð till. Ég er reiðubúinn að athuga það mál áður en ég tek afstöðu til þessa fyrri liðar. Og varðandi seinni liðinn um það að rýmka þann tíma sem varðar takmarkanir á málfrelsi þá gengur hann í þá átt sem ég tel rétt vera og ég er reiðubúinn að styðja þá brtt. sem er undir tölul. 2 hjá hv. þingmanni.
    Síðan var hv. frsm. að boða brtt. varðandi fjölda nefndarmanna í fjvn. þingsins. Mér finnst það horfa í rétta átt að fjölga í þessari ábyrgðarmiklu nefnd og ég hef í mínum þingflokki lýst fylgi við það að fleiri verði í þessari þýðingarmiklu nefnd þingsins en þessi meginregla níu þingmenn og er reiðubúinn að styðja

fjölgun upp í ellefu í nefndinni. Mér finnst það vera trygging fyrir litla þingflokka. Það eru meiri líkur á að þeir fái fulltrúa í fjvn. Og mér finnst það í rauninni vera í anda þess sem víðar kemur fram hér og þó ekki alls staðar í þessu frv. að tryggja það að sjónarmið minni hluta njóti sín við athugun mála og tillögugerð. Ég get því hugsað mér að styðja slíka brtt. ef fram kemur. Og nóg um þann þátt.
    Þá er það fyrirvari sem Kvennalistinn hefur kynnt hér varðandi sérstaklega stjórn þingsins ef ég hef tekið rétt eftir í máli talsmanns Kvennalistans við umræðuna. Ég er tvímælalaust stuðningsmaður þess að það verði tryggt að ákveðinn fjöldi þingflokka eigi varaforseta hér í þinginu. Og mér finnst mjög eðlilegt að miða við töluna fimm. Gæti hugsað mér hana hærri en ef gert er ráð fyrir fimm varaforsetum þá sé farið eftir stærð þingflokka við röðun, en ekki beitt ákvæðum 68. gr., mun það vera, um hlutfallskosningu í sambandi við kjörið. Það er að vísu látið að því liggja að reyna skuli á samkomulag en auðvitað er engin trygging fyrir því þó það sé sett þarna fram. Þess vegna finnst mér eðlilegt að þingið skeri úr um þetta og sú regla verði lögfest að það verði tiltekinn fjöldi þingflokka sem fái varaforseta og röðunin fylgi stærð þingflokkanna.
    Þetta eru kannski þau sérstöku álitaefni sem ég vildi nefna hér við umræðuna. Þó vil ég koma hér að því ákvæði sem varðar meðferð fjárlagafrv. og rætt var við 1. umr. málsins og vikið hefur verið að og brtt. liggja fyrir um.
    Mér finnst þær brtt. sem hér eru fram komnar ekki vera til bóta varðandi fjárlaganefndina og vísun mála til fagnefnda eða annarra fastanefnda þingsins. Ég hefði viljað sjá ákvæði til bráðabirgða, ef talin væri ástæða til að skapa aðlögunartíma í þessu, sem vel kæmi til greina, og setja það frekar inn en að fara að lögfesta nú þessa undankomuleið fjvn. um að vísa einstökum viðeigandi þáttum fjárlagafrv. til þeirra. Mér finnst þetta vera spurning um annaðhvort eða. Annaðhvort ætla menn sér að taka upp þessi vinnubrögð eða þeir falla frá því og treysta sér ekki til þess. Því hefði verið réttmætt, virðulegur forseti, að þessu yrði í raun snúið við og þarna yrði sett ákvæði til bráðabirgða til aðlögunar sem enginn getur haft á móti út af fyrir sig.
    Ég vek líka athygli á því að það hlýtur að vera krafa til framkvæmdarvaldsins, þeirra sem undirbúa fjárlagafrv. að þeir búi það úr garði þannig að það verði aðgengilegt fyrir málsmeðferð í þinginu og þar á meðal að fjárlagafrv. verði sett upp með það fyrir augum og greinargerð þess samin með það í huga að það sé aðgengilegt að vísa einstökum þáttum til fastanefnda þingsins annarra en fjárlaganefndarinnar til meðferðar. Þannig er t.d. norska fjárlagafrv. úr garði gert. Þar sá ég þessa tilhögun fyrst og leist strax mjög vel á hana og hef gert tilraun til þess eins og nefnt hefur verið hér við 1. umr. að fastanefndir aðrar en fjvn. tækju einstaka þætti fjárlagafrv. til athugunar. Það kom líka tillaga um þetta fram í nefnd þegar frv. til laga um jafnrétti kvenna og karla var rætt. Nefndin sem undirbjó það frv. gerði ráð fyrir því að það sem varðaði fjárveitingar og teldist snerta jafnrétti kynja, að það væri skylt að fjmrn. undirbyggi mál þannig að það væri sértekið og haldið sem sagt skilmerkilega til haga í greinargerð með fjárveitingafrv. sem varðar málaflokkinn. Einnig af þessum sökum finnst mér vera nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um það þannig að fjmrn. og fjmrh. hvers tíma viti að hverju hann gengur gagnvart þinginu varðandi sitt verk. Ég vildi a.m.k. heyra það hér hjá þeim sem bera þetta fram, heyra það hjá hv. frsm. nefndarinnar hvort hann áttar sig ekki á þýðingu þessa og hvort ekki sé nauðsynlegt að slá þessu föstu, ákvæði um þetta að fjárlagafrv. skuli þannig frá gengið að það sé til þess fallið að vísa því með greiðum hætti og skilmerkilegum til fastanefnda þingsins.
    Ég skal ekki, virðulegur forseti, fara að ræða hér atriði og brtt. sem ég er sammála. Það er ástæðulaust. Ég tek eftir því að hér er verið að gera brtt. við 55. gr. b - lið sem er lýst þannig: ,,Síðari breytingin felst í því að rýmka rétt ráðherra til að taka þátt í umræðum.`` Eins og þarna kemur fram er eðlilegt að rýmka þann rétt frá því sem var en mér finnst þarna kannski óþarflega rúmur réttur veittur. Það ætti frekar að vera í þá átt að mínu mati að ef tilefni er til, að gefnu tilefni fái ráðherra forgang inn í umræðu, en að það sé ótvírætt að hann eigi ekki rétt á því, hvaða ráðherra sem er, samkvæmt þingsköpum að biðja um orðið og komast fram fyrir þingmenn sem eru þegar á mælendaskrá. Ég er ekki viss um að þetta ákvæði sé nógu skilmerkilegt til þess að fyrir þetta sé tekið, sem ég tel vera eðlilegt, að ekki sé réttur ráðherra nema að gefnu tilefni. Þetta bið ég um að verði athugað. Ég vildi heyra túlkun frsm. á þessu atriði því að kannski hef ég ekki lesið alveg rétt í málið. Virðulegi forseti. Ætli frsm. nefndarinnar leggi við hlustir? Mér fyndist það nú vera góð regla að frsm. væri í þingsal. --- Ég var að spyrja hvort hv. frsm. hefði heyrt mál mitt varðandi síðustu athugasemd en það er varðandi rétt ráðherra til að taka þátt í umræðum. Það er verið að færa hér til baka ákvæði úr upphaflegu frv. með brtt. nefndarinnar. Ég er ekki viss um hvort ég hef skilið það atriði rétt, en ég tek undir hugmyndir um breytingar að því marki að það sé eðlilegt að ráðherra geti farið inn í umræðu með þeim hætti sem verið hefur, að gefnu tilefni, en ekki að hann eigi fortakslaust þann rétt að biðja hér um orðið úti í þingsal tilefnislaust og vera þar með tekinn fram fyrir aðra þingmenn. Ég spyr um túlkun á þessu atriði sem hugsanlega er auðskilið, en ég hafði ekki áður en ég fór hér í ræðustól áttað mig fyllilega á.
    Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu á þessu stigi að ræða málið frekar.