Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv., frsm. nefndarinnar, fyrir hans innlegg hér í umræðuna og viðbrögð við mínu máli. Þó við séum ekki sammála um efnið að öllu leyti þá tók hann á því skilmerkilega og skýrði sín viðhorf. Ekki er fullljóst hvort hann mælir þar fyrir nefndina í heild eða með hvaða hætti nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu sem fyrir liggur enda ætlaðist ég ekki til þess að það væri rakið. Ég mun leggja hér fram nú við umræðuna brtt., og vænti þess að hún nái hér til dreifingar áður en umræðu lýkur, varðandi þetta atriði sem snertir 64. gr. þannig að það liggi þá fyrir vilji þingdeildarinnar í því.
    Mér finnst í rauninni óþarflega mikill vandræðagangur í kringum skýringarnar sem hv. þm. reiddi hér fram, svo ég noti nú orð hans vandræðagangur, því hann vísaði til þess að reglan sem hefði verið í gildi eitthvað svipuð því og ég er að tala fyrir hér um árabil hafi leitt til þess að vandræðalegar aðstæður hafi skapast. Eitthvað svoleiðis sagði hv. þm. Ég held að það geti nú varla flokkast undir það. Ef menn hafa reglu af þessum toga þá einfaldlega gildir hún, þá er hún sá þröskuldur sem mál þarf að fara yfir í atkvæðagreiðslu í þinginu og er mjög skýrt og ótvírætt. Ég held að hitt geti leitt til vandræðagangs, sú regla sem nú er og það orðalag sem er í 64. gr. samkvæmt frv. Ég fullyrði að það þarf dálítið skarpan forseta til þess að lesa í það mál eins og skýringarnar við 64. gr. nú kveða á um, og þær skýringar fylgja nú ekki með prentuðum þingsköpum. Ég minni á að það hafa vandræðalegar aðstæður skapast hér í sambandi við forsetastarfið einmitt þegar reynt hefur á skýringar við gildandi ákvæði í þingsköpum að þessu leyti. Ég minni á dæmi sem ég hafði ekki ráðrúm til að fletta upp á í umræðuþætti Alþingistíðinda en varða afgreiðslu á þingmáli fyrir líklega tveimur árum, sem var till. til þál. frá ríkisstjórninni um manneldisstefnu. Ég veit að hv. þm. Guðmundur Bjarnason, þáv. heilbrrh., man vel eftir þeirri atkvæðagreiðslu og kannski fleiri. Af því sköpuðust einmitt umræður um það hvort afgreiðsla væri gild á tillögunni sem hlaut ekki allt of mikinn byr hér við lokaafgreiðslu í þingdeildinni, en var afgreidd samt. Frestað var hér fundi trekk í trekk af hæstv. forseta sameinaðs þings þá, til þess að ráðfæra sig við skrifstofu þingsins í þessum efnum. Þá las ég út úr þingsköpunum þann skilning sem ég er að bera hér fram varðandi þröskuldinn, og afgreiðslunni á þessu merka máli, manneldisstefnunni, var frestað milli funda og milli daga, ef ég man rétt. ( GHelg: Það er ekki rétt.) Ég man það nú ekki. Ég vil ekki fullyrða að það hafi verið frestun á milli daga, en þessu geta menn nú slegið upp á í þingtíðindum. ( GHelg: Forseti úrskurðaði þetta mál og gerði það rétt.) Já, það var ekki að efa að þáv. forseti sameinaðs þings hefur af skarpskyggni sinni úrskurðað snarlega í málinu og gert það rétt. En ég vek einfaldlega athygli á þessu og menn gera þá upp hug sinn hér að fram kominni brtt. varðandi þetta mál.

    Dæmið sem hv. þm. Geir H. Haarde reiddi hér fram, fimmtán, sextán og einn situr hjá, hvaða vandræði eru af því? Það er augljóst ef þessi regla er sett að tillagan hefur ekki stuðning í þinginu. Það er ekki fjórði hluti þingmanna, ekki 17 atkvæði sem eru með henni. Það er ekkert vandræðalegt við það, hv. þm. Það liggur bara ljóst fyrir. Hitt er annað mál að það kæmi til greina að mínu mati að slá varnagla og heimila upptöku atkvæðagreiðslu einu sinni sem þannig hefur fallið, það kæmi til greina ef menn eru ósáttir við að hafa þennan þröskuld þannig að málið mætti ekki koma til endurupptöku á því þingi. En ég held að það væri góð trygging fyrir þingið að hafa þetta og mundi kannski hvetja menn til þess að taka af eða á afstöðu til mála frekar en að sitja hjá við atkvæðagreiðslu.
    Virðulegur forseti. Í rauninni eru röksemdirnar varðandi fjárlagafrv. og þann umþóttunartíma sem þurfi til að laga sig að breyttum reglum svolítið í ætt við þetta heldur þokukenndur málflutningur, að það sé einhverjum erfiðleikum bundið að taka upp þá reglu að vísa skuli til fastanefnda þingsins einstökum þáttum, viðeigandi þáttum í fjárlagafrv. Hvað er einfaldara en svo að hafa ákvæði til bráðabirgða upp á eitt ár eða svo fyrir fjárlaga- og hagsýsluna og fjmrn. til að semja sig að þessu ákvæði og fyrir þingið að gera æfingu í eitt ár eða svo? Ég óttast nefnilega að þau ákvæði, sem nú er verið að leggja til af nefndinni, geti leitt til þess að menn heykist á því að framfylgja þessu, að taka þetta upp, og tregðulögmálið verði til þess, m.a. hugsanlega óvilji meiri hluta í einstökum þingnefndum að leggja það á sig að taka mál þessum tökum og fjmrn. að búa málið þannig í hendur þingsins að það sé auðvelt að skipta frv. upp með þessum hætti, það leiði til þess að þau áform sem hér er tekið undir með heimildarákvæði renni út í sandinn. Það væri mjög miður farið ef það gerðist.
    Að lokum, virðulegur forseti, varðandi málfrelsi ráðherra, þá finnst mér í raun of langt gengið með því ákvæði sem fyrir liggur því það er ekki aðeins að viðkomandi ráðherra er hlut á að máli samkvæmt orðanna hljóðan geti skotið sér fram fyrir í umræðuna heldur má hann taka til máls svo oft sem honum hentar. Ekki bara ráðherrann sem ber málið fram, heldur sá sem hefur fengið rétt til þess að taka einu sinni til máls. Upp kemur spurningin: Á hann þá rétt á að koma aftur inn í umræðuna eða svo oft sem þurfa þykir, jafnvel þó að aðeins einn þingmaður hafi beint til hans fyrirspurn? Ég hefði talið vissara og eðlilegra að setja orðin ,,að gefnu tilefni`` inn í þetta til þess að ekki verði um að ræða misnotkun á heimildum til ráðherra til þess að blanda sér í umræður af tilefnislitlu eða tilefnislausu og hafa mun rýmri rétt heldur en almennir þingmenn að þessu leyti og aðgang að ræðustóli.