Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum hlutaðeigandi fyrir störf þeirra að því máli sem hér er til afgreiðslu og fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur í nefndinni og reyndar í deildinni í þessu máli og um afgreiðslu frv. til þingskapa. Auðvitað hlýtur það að gerast í svo stóru máli að einstakar greinar kalla á umræðu eða tillögur komi fram um sérstök ákvæði frá þeim þingmönnum sem ekki eiga sæti í nefndinni. Þannig afgreiddum við þingmannatillögur við 2. umr. og nú við 3. umr. leyfi ég mér að mæla fyrir brtt. á þskj. 10 sem hefur verið dreift hér í deildinni. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt ásamt Sigríði A. Þórðardóttur, en tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 14. gr. 1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Í fjárlaganefnd skulu kosnir ellefu þingmenn en í aðrar fastanefndir níu þingmenn.``
    Rökin fyrir því að fjölga nefndarmönnunum í fjárlaganefnd eru m.a. þessi:
    Verkefni fjárlaganefndar verða talsvert umfangsmeiri en verkefni fjvn. voru. Hún fær nú viðbótarverkefni svo sem lánsfjárlög og ríkisreikning sem áður voru hjá fjh. - og viðskn. Þar sem starfstími við fjárlaga - og lánsfjárlagagerð lengist ekki að sama skapi, mun nefndin þurfa í enn ríkari mæli en áður að skipta með sér verkum við undirbúning og athugun mála. Fjölgun í nefndinni gefur því færi á meiri verkaskiptingu innan nefndarinnar. Það er ekki óeðlilegt við þær aðstæður sem hér er bent á að fjölga nefndarmönnum í ellefu, m.a. í því skyni að tryggja þingflokkum aðild að þýðingarmestu undirnefndum fjárlaganefndarinnar.
    Að lokum má benda á þá staðreynd að aukin viðfangsefni varðandi eftirlit með framkvæmd fjárlaga krefjast jafnframt meira vinnuálags og verkaskiptingar.
    Með tilliti til þess að rétt þótti að fjölga nefndarmönnum almennt í nefndum þannig að þeir verði eftirleiðis níu, og það er gert með hliðsjón af auknu vægi og fjölgun verkefna í nefndum, tel ég að þingmenn í hv. deild hljóti að sameinast um fjölgun fulltrúa í fjárlaganefnd úr níu í ellefu.